27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði ætlað mjer að hlífa þessari hv. deild við því að standa upp aftur, og þegar hv. frsm. (EP) hafði lokið sínu máli, þá fanst mjer í raun og veru hann hafa sagt alt það um brtt., sem segja þurfti. Nú hefir hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) viljað hafa þetta öðruvísi. Hann hefir komið fram með árásir og aðdróttanir í garð stjórnarinnar, sem jeg vil ekki taka með þögninni. Hv. þm. vill halda því fram, að stjórnin hafi sýnt hlutdrægni við skiftingu skrifstofufjár milli sýslumanna. Jeg vil aðeins geta þess, að samkv. lögum heyrir skifting skrifstofufjárins undir hæstv. forsætisráðherra, og beinist því þessi ásökun gegn honum. En flestum sem þekkja hann, mun þykja það ótrúlegt, að hann sýni hlutdrægni í þessu starfi sínu. Annars er hann maður til að svara fyrir sig. Jeg vil minna á það, að skrifstofufje þetta hefir nú meir en tvöfaldast á tiltölulega stuttum tíma, og einmitt í stjórnartíð núverandi stjórnar, og vitanlega hefir það orðið mest eftir tillögum og frumkvæði stjórnarinnar. Þá talaði háttv. þm. (GuðmÓ) um veðrabrigði hjá stjórninni út af því, að hún væri á móti því að veita sýslumönnum fasteignalán, án þess að tilætlunin væri sú, að bæta úr þörf, sem væri fyrir hendi, og taldi, að sýslumenn væru einnig í þessu beittir misrjetti af stjórninni. Í fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár eru 2 heimildir um að lána sýslumönnum til að koma upp embættisbústöðum, en aðeins önnur þeirra hefir komið til framkvæmda, nefnilega heimildin um lán til sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Jeg var mótfallinn því á síðasta þingi, að sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu fengi þetta viðlagasjóðslán. Jeg sá ekki þær ástæður fyrir hendi, sem rjettlættu það. En það stóð alveg sjerstaklega á í Vestmannaeyjum. Það var hvorki vansalaust nje forsvaranlegt af hálfu þess opinbera að útvega ekki embættinu sómasamlegra húsnæði en það hafði þá. Fyrir þessu var gerð ítarleg grein á síðasta þingi. Það eru því engin veðrabrigði hjá mjer, þótt jeg andæfi því, að hvaða sýslumaður sem er fái fasteignaveðlán úr viðlagasjóði, þótt þeim fjárhags síns vegna þyki það hentugra að fá lán úr viðlagasjóði. Jeg vísa því öllum aðdróttunum um veðrabrigði og skoðanaskifti heim til föðurhúsanna.

Þá þótti sama hv. þm. það kynlegt, er jeg gat þess út af eftirgjöfunum á viðlagasjóðslánum, sem samþyktar voru í hv. Nd., að sá hreppur, sem á að fá stærstu eftirgjöfina, væri vel stæður. Honum þótti það ótrúlegt, að sá hreppur, sem skuldaði mest, gæti verið vel stæður. Jeg skal nú segja hv. þm., á hverju jeg byggi þessa umsögn mína. Jeg hefi hjer fyrir framan mig reikninga hreppsins fyrir fardagsárið 1923–'24. Þar eru skuldir hans taldar við lok reikningsársins 11650 kr., en eignir eru hjerumbil helmingi meiri, eða 22151 kr. Af eignunum eru 10700 kr. útistandandi lán. Af því eru á tekjuliðnum reiknaðar 610 kr. í vexti. Þá er innieign í kaupstað 6703 kr., og hefir sú innieign vaxið um 1300–1400 kr. síðastl. ár. Ef þessi reikningur er rjettur, þá tel jeg hreppinn vel stæðan, en mjer hefir borist til eyrna, að reikningurinn gefi ekki rjetta hugmynd um hag hreppsins. En ef þessi hreppur er bágstaddur, þá getur hann farið hina rjettu leið, snúið sjer til atvinnumálaráðuneytisins og borið þar fram sönn skilríki um hag sinn.

Úr því að jeg er staðinn upp á annað borð, þá ska1 jeg minnast á þær brtt. hv. þm., sem snerta mig. Það eru þá fyrst tvær ábyrgðarheimildir. Jeg get ekki annað en beðist undan því, að mjer sjeu fengnar slíkar heimildir í hendur. Það hefir orðið mitt hlutskifti síðan jeg tók við fjármálastjórninni að borga 100 þús. kr. á ári fyrir ábyrgðir, sem ríkissjóður var búinn að ganga í áður en jeg tók við. Jeg álít það óheillabraut, sem gengið er út á með því að hleypa af stokkunum fyrirtækjum, sem reist eru á svo veikum fjárhagslegum grundvelli, að þau geta ekki komist upp af eigin ramleik. Hinu hefi jeg ekki á móti, að Alþingi veiti heimild til útlána úr viðlagasjóði, ef fje er fyrir hendi, því að hann er til þess ætlaður, þótt jeg hinsvegar hafi mínar meiningar um það, að rjettara sje að styðja eitt fyrirtæki en annað. Annars býst jeg við, að áður en fjárlagaumræðum er lokið muni koma fram tillögur um úthlutanir úr viðlagasjóði, sem samsvarar því fje, er hann hefir yfir að ráða á árinn 1927, og frá sjónarmiði almenningsheilla hygg jeg, að þær eigi meiri rjett á sjer en síðasta brtt. hv. fjvn. á þskj. 402.

Jeg skal að lokum segja það alment um brtt. hv. þm. á þskj. 418, að þær stinga í stúf við brtt. hv. fjvn. Það eru eingöngu hækkunartill., en hv. fjvn. þessarar hv. deildar hefir sýnt rjettan skilning á sínu hlutverki með því að bera fram jöfnum höndum hækkunar- og lækkunartill. Það fanst mjer vanta í hv. Nd., að þm. fengjust til þess að líta þannig á sitt ætlunarverk. Jeg tek undir með hv. frsm. fjvn. (EP), ef samþyktar verða allar þessar hækkunartill. frá hv. þm., þá hefir fjvn. unnið sitt starf fyrir gýg. Þá fer af fjárlögunum sá svipur, sem á að vera á þeim, og þjóðin ætlast til að sje á þeim, þegar þau koma frá þessari hv. deild.