12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Á síðasta þingi samþykti þessi hv. deild að skipa milliþinganefnd til þess að taka til athugunar sveitarstjórnar- og fátækralöggjöfina, og skyldi nefndin leggja fyrir þetta þing eða hafa lokið samningu frv. um útsvör og frv. um kosningar í málefnum bæjar- og sveitarfjelaga. En hv. Ed. lauk þessu máli þannig, að því var vísað til stjórnarinnar og henni falin endurskoðun nefndrar löggjafar. Stjórnin hefir því samið frv. það um útsvör, sem hjer liggur fyrir, og annað frv. um kosningar í málefnum sveitar- og bæjarfjelaga, er lagt hefir verið fyrir hv. Ed.

Því verður ekki neitað, að það er mjög aðhallandi nauðsyn að setja nýja útsvarslöggjöf, bæði vegna þess að gildandi ákvæði um útsvör eru dreifð í ekki minna en 20 lagaboðum, og sjerstaklega vegna þess, að mjög mismunandi ákvæði gilda í hinum ýmsu stöðum á landinu, og er varla ofmælt, þótt sagt sje, að sumstaðar sje komið í hreinustu ógöngur, og á jeg þar sjerstaklega við Reykjavík. Eitt af því, sem allra mestri óánægju hefir valdið, er það, að leggja má eftir gildandi lögum á sama manninn jafnvel í mörgum stöðum, og hefir þótt við brenna, að þeir menn, sem fyrir því hafa orðið, hafi orðið mjög hart úti og ósjaldan óhæfilega hart.

Jeg hygg, að það sje ekki ofmælt, að útsvarslöggjöfin sje einhver allra erfiðasti kafli löggjafarinnar, og held jeg, að útsvarslöggjöfin undanfarið sýni það mjög greinilega, því að stöðugt hefir Alþingi breytt henni, þing eftir þing, og altaf hefir verið óánægja með hana. Og jeg er sannfærður um, að eina leiðin til þess að fá bundinn enda á þessa sífeldu, ef jeg mætti svo að orði kveða, breytingarsýki, er sú, að brjóta nýjar leiðir og hverfa frá þeirri aðferð, sem hingað til hefir verið höfð, að reyna að gera sem flesta útsvarsskylda á sem flestum stöðum. Jeg skal ekki um það dæma, hvort hjer er fundin sú rjetta leið í þessu frv., en jeg geri mjer sterka von um, að frv. verði til stórra bóta, ef það verður að lögum. Mjer dettur að sönnu ekki í hug að halda því fram, að frv. geti ekki staðið til bóta, og er það vitaskuld, að jeg mun taka vel öllum skynsamlegum breytingum og er fús til samkomulags um smærri atriði, en jeg mun eiga mjög erfitt með að víkja frá aðalstefnum frv.

Frv. breytir í engu grundvellinum fyrir álagningu útsvara. Það byggir á því, að útsvör verði lögð á eftir efnum og ástæðum, eins og hingað til hefir verið. Víðast mun nú vera horfið frá þessum grundvelli og í þess stað bygt á framtali til tekjuskatts og eignarskatts, en það tel jeg ekki fært að gera hjer á landi, bæði vegna þess, að framtal hjá oss til skatts er ekki enn orðið svo ábyggilegt sem víða annarsstaðar, þar sem tekjuskattsfyrirkomulagið er orðið þrautreynt um langan tíma, og vegna þess, að atvinnuvegir vorir eru svo misbrestasamir, að nær ókleift mundi í vondum árum að ná inn nægilega miklu í útsvörum, ef aðeins mætti leggja á tekjur og eignir. Hjer við bætist, að víðast á landi hjer er fámenni svo mikið og útsvarsumdæmin svo lítil, að niðurjöfnunarnefndir þekkja allnákvæmlega til um efni og ástæður manna og geta því tekið fyllra tillit til ástæðnanna en ef eingöngu væri farið eftir tekjum og eignum.

Aftur á móti er í frv. þessu algerlega horfið frá þeirri reglu, að leggja megi á sama gjaldþegn útsvar á fleirum stöðum en einum. Í þess stað er sú regla upp tekin að leggja á hvern og einn útsvar eftir efnum hans og ástæðum að öllu leyti þar, sem hann er heimilisfastur eða dvelur. Undantekningar frá þessari reglu eru þó fáeinar í 8. gr. frv., en þær eru svo takmarkaðar, að þær skifta litlu máli og í eðli sínu þannig, að þær eru allar óhjákvæmilegar.

En af reglunni um það, að útsvar skuli venjulega aðeins lagt á á einum stað, leiðir það óhjákvæmilega, að alloft verður að skifta útsvari milli heimilissveitar og atvinnusveitar, því að ella mundi atvinnusveitin oft og tíðum verða mjög hart úti, og sumar sveitir, eins og t. d. Siglufjörður, alls ekki fá staðist. Þessi aðferð um skifting útsvara er tekin upp á öllum Norðurlöndum, að því er jeg best veit, og þykir þar eina færa leiðin. Hinsvegar verður því ekki neitað, að skifting þessi er talavert erfið. Það er örðugt að finna reglur, sem í öllum atriðum hitti hið rjetta, enda hlýtur það að vera svo í allri skattalöggjöf, að reglurnar verða á stundum nokkuð grófar, og er það eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing þess, að reglurnar verða að miðast við heildina og hið venjulega.

Þegar skifta á útsvari milli sveita, er gerður í frv. skarpur greinarmunur á því, hvort atvinna er rekin eða stunduð í atvinnusveitinni. Um það fjallar 9. gr. frv. Ýmislegt í þessum reglum er mjög mikið álitamál, en jeg sje mjer ekki fært við 1. umr. málsins að fara nánar út í þau atriði,

Enn er eitt vandamálið um það, hversu taka beri tillit til mismunandi sveitarþyngsla, þegar skifta á útsvari. Um þetta eru reglur í 12. gr. frv., en þar hefir slæðst inn villa í enda greinarinnar. Þar stendur „tekjum“, en á að vera „eignum“, og sjest það greinilega á sambandinu. Annars tel jeg ekki heldur, að viðeigandi sje vegna þingskapa að fara lengra út í þetta atriði við þessa umræðu, en jeg læt þess aðeins getið, að hjer geta ýmsar leiðir komið til athugunar.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að jeg tel mikla nauðsyn á, að ný útsvarslöggjöf verði samþykt á þessu þingi, því að. eins og jeg tók fram áður, er hin gildandi útsvarslöggjöf svo ranglát, að varla má við una, og veit jeg, eftir þeim röddum, sem komu fram á síðasta þingi, að margir hv. deildarmenn eru mjer sammála um það.

Ýms fleiri ný mæli eru í frv. þessu en þau, sem jeg hefi hjer talið, en jeg tel ekki fært að tína það alt til, enda yrði það mjög langt mál.

Jeg legg til, að frv. verði, að lokinni þessari umræðu. vísað til alshn.