12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

15. mál, útsvör

Klemens Jónsson:

Þetta er svo mikilsvert mál, að mjer finst það ekki vera alveg rjett að láta það ganga orðalaust til 2. umr. Það er að vísu ekki heimilt að ganga inn á málið í einstökum atriðum, og satt að segja ekki svo auðvelt heldur að nokkru ráði að taka málið til meðferðar frá almennu sjónarmiði, svo að í raun og veru verða allar umr. um þetta mál að bíða til 2. umr.

Það er rjett, sem hæstv. atvrh. (MG) tók fram, að þetta mál hefir verið stöðugur gestur á öllum seinustu þingum, einkum, viðvíkjandi útsvarsskyldu og álagningu, svo að það er fullkomin nauðsyn fyrir þingið að fara að binda enda á þetta mál.

Það var talað um það á síðasta þingi, að ekki yrði hjá því komist að skipa milliþinganefnd í málið. Var það samþykt hjer í þessari hv. deild, en svo fór í Ed., að þar var það felt. Í umr. um þetta mál í fyrra lýsti jeg yfir því, að jeg væri samþykkur því að kjósa milliþinganefnd, en jeg bætti því við, að svo framarlega sem stjórnin treysti sjer til að undirbúa þetta mál svo vel sem skyldi, myndi jeg vel geta sætt mig við það, en því bætti jeg enn við, að það væri ekki nóg, að stjórnin tæki málið í sínar hendur, heldur yrði hún líka að gera það svo úr garði, að það gæti náð samþykki þingsins. Hæstv. stjórn hefir nú sjeð sjer fært að koma fram með frv. í þessa átt, en jeg get ekki fyrir mitt leyti sagt um, hvort það er þess eðlis, að það nái að ganga í gegn, en hinsvegar þykist jeg fullviss um, að málið er ekki þannig komið frá stjórnarinnar hendi, að það verði samþykt óbreytt. Hæstv. atvrh. tók það líka fram, að hann væri viss um, að ýmislegt væri athugavert í þessu máli og að hann vildi semja um þau atriði, svo að frá því sjónarmiði mætti ætla, að hægt yrði að koma þeim breytingum á frv., að það gæti gengið frá þinginu í sæmilegn formi.

Það voru tvær aðalreglur, sem hæstv. atvrh. mintist á og taldi alveg óbreyttar eftir þessu frv. Fyrri reglan var sú, að fylgja sömu reglu um grundvöll fyrir álagningu útsvara og áður, fara eftir efnum og ástæðum. Jeg er samdóma hæstv. atvrh. um það, að rjett er að fylga sömu grundvallarreglu, því að jeg álít, að að svo stöddu sje ekki hægt að víkja frá þeim grundvelli. En svo var hin meginreglan, sem hæstv. atvrh. mintist á, sú, að leggja mætti ekki útsvar á mann nema á einum stað. Þar er jeg ekki samþykkur hæstv. atvrh. Þetta hefir verið mesta vandræðamál fyr, og því heldur hjer áfram, því þessari reglu er alls ekki haldið, heldur eru ekki færri en 4 undantekningar eftir 8. gr. frv., og eftir c-lið megi leggja alstaðar á hann þar, sem hann hefir lögheimili, og það megi eftir 9. gr. skifta útsvarinu milli fleiri sveita. Jeg álít ekki eiga við að fara inn á einstök atriði nú, en verð þó að segja, að jeg álít þetta atriði í 8. gr. e. mjög athugavert. Maður getur átt heima á tveim stöðum, og sú sveit, sem verður á undan, leggur auðvitað alt útsvarið á hann, og það er hægt fyrir sveitirnar að keppa um þetta, þar eð álagningin fer fram frá því í febrúar til í maí, sbr. 21. gr. Þetta er því mjög athugavert. Annarsstaðar hygg jeg, þegar svo stendur á, að menn eigi tvö lögheimili, eigi þeir að velja um, hvort skuli vera aðallögheimilið.

Í sambandi við þetta vildi jeg líka minnast á skiftingu útsvara eftir 9. gr., sem jeg hygg, að verði mjög erfið; þar mun verða óþrjótandi efni til málaferla milli sveitanna og gjaldendanna. Þar er haldið þeirri reglu, að ekki megi leggja útsvar á atvinnu, sem rekin er skemri tíma en 8 vikur. Þetta tímatakmark, sem á að gera menn úr öðrum sveitum útsvarsskylda, hefir verið mjög mismunandi. Það byrjaði með 3 mánuðum, en er nú komið niður í 8 vikur, eða 4 vikur að nokkru leyti. Ef aðeins þetta tímatakmark á að fá að haldast. þá tel jeg það ekki varhugavert, en þetta tímatakmark er svo strax rofið í sömu grein, því hún verður ekki skilin öðruvísi en svo, að líka sje hægt að leggja útsvar á mann þótt hann hafi jafnvel ekki starfað í umræddri sveit nema einn einasta dag, t. a. m. keypt síld á Siglufirði. Þetta er mjög athugavert Vænti jeg, að allshn. taki þessa 9. gr. rækilega til athugunar, því að það verður annars að verulegu ágreiningsatriði milli gjaldenda annarsvegar og sveitanna hinsvegar.

Jeg hefði nú annars viljað gera ýmsar athugasemdir hjer, til athugunar fyrir nefndina, ekki síst af því, að jeg veit, að hæsv. forseti (BSv) hefir oft verið mjög frjálslyndur í því atriði að leyfa að fara langt, en jeg vil þó ekki níðast á frjáls1yndi hans frekar, og læt mjer því nægja að gera aðein, þegar fáu athugasemdir, en jeg vil taka undir það, sem sagt hefir verið, að jeg vildi óska þess, að Alþingi gæti nú tekist að binda enda á þetta mikilsverða mál, og vona jeg, að svo verði, eftir ummælum hæstv. atvrh., með því að hann er mjög fús til samvinnu um öll þan atriði, sem þetta mál skifta.