12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

15. mál, útsvör

Jakob Möller:

Ástæðan fyrir því, að jeg stend upp, er sú, að svo mjög hefir verið minst á Reykjavík í sambandi við þetta mál. Og það fanst mjer undarlegast, að hæstv. atvrh. skyldi gera það að umtalsefni, hve ágeng útsvarslöggjöf Reykjavíkur væri orðin við aðrar sveitir. Hann sagði meðal annars, að síðustu áratugina hefði útsvarslöggjöfinni verið breytt í það minsta margsinnis. En hann gat þess ekki, að við útsvarslöggjöf Reykjavíkur hafði bókstaflega ekkert verið hreyft í 50 ár, er núgildandi löggjöf var sett. En allar breytingarnar, sem gerðar hafa verið undanfarna tvo áratugi á hinni almennu útsvarslöggjöf, hafa meira og minna miðað að því að ná útsvari af Reykvíkingum til annara sveita. Þegar svo útsvarslöggjöf Reykjavíkur er breytt í samræmi við það, sem hinni almennu útsvarslöggjöf hefir verið breytt áður, þá er fyrst farið að tala um þá ringulreið, sem útsvarslöggjöfin sje komin í, þá er allri skuld á því slengt á Reykvíkinga og bæjargjaldalögin frá 1924 talin aðalorsök þess, að nú verði að taka í taumana. Annars get jeg fullvissað um það, að Reykvíkingar eru ekkert á móti sanngjörnum breytingum á útsvarslöggjöfinni, ef þær eru látnar ganga jafnt yfir. En þá tjáir ekki að undanþiggja aðeins alla lausamenn utan af landinu útsvari í Reykjavík, en láta Reykvíkinga borga útsvar í sveitunum, ef þeir aðeins bregða sjer að heiman dagstund með laxastöng.

Annars er jeg hræddur um, að töluverður hængur verði á framkvæmd þessara laga, ef gengið verður mjög langt í þessum breytingum. En það óttast jeg ekki, að sveitirnar beri skarðan hlut frá borði, heldur hitt, að erfitt verði að ná rjettum hlut kaupstaðanna, þar sem t. d. hagar til eins og hjer, að nærsveitamenn geta stundað hjer atvinnu allan árshringinn, þó að þejr sjeu búsettir annarsstaðar. En höfuðgalla tel jeg það vera á frv., að það leggur ekki tekjur og eignir til grundvallar fyrir útsvarsálagningunni, og virðist mjer það ekki geta orðið annað en kák eitt að endurbæta það handahófsfyrirkomulag, sem nú er búið við.