16.03.1926
Neðri deild: 32. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

15. mál, útsvör

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Í nál. allshn. á þskj. 124 er gerð grein fyrir aðalstefnubreytingu þessa stjfrv. frá gildandi lögum um útsvör. En af þessum stefnubreytingum leiða margar og allmismunandi aukabreytingar og lagfæringar á lögunum.

Jeg lít svo á, að það yrði ilt og flókið og seinlegt að rekja allar breytingar frv. frá núgildandi lögum, og þar sem ganga má að því vísu, að hv. þingdeildarmenn hafi kynt sjer bæði frv. sjálft og nál. allshn., vil jeg að svo vöxnu máli ekki ræða þær sjerstaklega. Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndin fallist á stefnu frv. í öllum aðalatriðum. t. d. í því, að haldið sje framvegis þeim grundvelli, sem bygt hefir verið á til þessa niðurjöfnun útsvara, — að jafna þeim niður eftir efnum og ástæðum.

En einn nefndarmanna, hv. þm. Mýr. (PÞ), bar fram tillögu um að kveða nokkru nánar á en í frv. um niðurjöfnunina, setja ítarlegri reglur um, hvernig jafna skuli niður útsvörum og ákveða gjaldstiga við niðurjöfnunina. Þetta gat nefndin ekki fallist á, og þess vegna eru hjer komnar fram sjerstakar brtt. um þetta frá þm. Mýr., og liggja þær brtt. einnig hjer fyrir til umræðu. Annars ætla jeg ekki að svo stöddu fyrir hönd nefndarinnar að fara neitt út í að ræða brtt. frá einstökum þingmönnum, fyr en þeir hafa sjálfir gert grein fyrir þeim. Ætla jeg svo ekki að hafa þennan formála lengri, en læt mjer nægja að vísa til þess, sem nál. segir um þessi efni, en sný mjer nú að þeim brtt., sem meiri 1. nefndarinnar hefir orðið ásáttur um að bera fram við frv.

l. brtt. nefndarinnar er við 8. gr. frv. og á við niðurlagsorð 1. málsgreinar. Þar sem ákveðið er í þessari grein, að leggja skuli á mann, sem lögskráður er á skip, í heimilissveit skips, geta allir sjeð, að svo getur farið, að af einhverjum ástæðum hafi það farist fyrir hjá einhverjum manni að afla sjer heimilisfangs; gæti svo farið, að hann slyppi við að greiða útsvar, og ákveður því þessi grein, að leggja skuli á slíkan mann þar, sem hann er staddur; en nefndinni finst ekki nógu greinilega kveðið að orði um þetta, þó að svo sje til orða tekið, að leggja skuli á hann í heimilissveit skipseiganda, eða ella í heimilissveit útgerðarmanns. Því svo gæti staðið á, að slíkur maður væri lögskráður á skip frá Danmörku eða Færeyjum, því samkvæmt sambandslögunum hafa menn þaðan rjett til að reka hjer útgerð. Í þessu tilfelli væri ekki hægt að leggja út manninn í heimilissveit skipseiganda eða útgerðarmanns, og þess vegna vill nefndin breyta þessu þannig, að ef ekki sje kostur útsvarsálagningar í heimilissveit skipseiganda eða útgerðarmanns, skuli leggja á hann í þeirri sveit, þar sem útgerðin er rekin.

2. brtt. er um að bæta nýjum staflið á eftir a-lið 8. greinar. Það er sem sje meginregla í frv. að leggja á menn þar, sem þeir hafa heimilisfang; en þó er brugðið út frá þessari meginreglu í 8. gr. frv. Samkv. a-lið 8. gr. má leggja útsvar á heimilisfasta atvinnustofnun, útibú o. s. frv., í þeirri sveit, þar sem atvinnan er rekin eða stofnunin er, og þá má ekki að því leyti leggja á hann í heimilissveit hans, t. d. ef kaupmaður hefir verslunarútibú í annari sveit en heimilissveit sinni, má að því leyti leggja á hann útsvar þar í sveit, sem útibúið er.

Nefndin álítur, að þessi sömu ákvæði eigi einnig að gilda um sumt af þeim atvinnurekstri, sem upp er talinn í 9. gr. frv. og skifta á útsvörum af. Nefndin leggur því til að flytja nokkurn hluta þessa atvinnurekstrar undir ákvæði 8. greinar, sem sje leiguliðaafnot af landi, þó ekki fylgi ábúð, laxveiði, ábúð á jörð eða jarðarhluta, lóðarafnot, sem gefa arð, o. s. frv. — og að ekki megi leggja útsvar á sama mann að þessu leyti í heimilissveit hans. Hvað þessu viðvíkur, byggir nefndin tillögur sínar einkum og sjer í lagi á því, að óheppilegt sje, að skifting á útsvari komi til greina af fasteignarafnotum o. s. frv. Nefndin sjer ekki mun á því, hvort það er utan- eða innansveitarmaður, sem hefir afnot af jörð, og því sje ekki hægt að gera mun á álögunum í þessu efni. Nefndin álítur, að atvinnusveitin eigi að hafa hliðstæðan rjett til álagningar á þessa menn eins og aðra heimilisfasta atvinnurekendur innansveitar, og það því fremur, sem sýslusjóðsgjaldið, er jafna skal niður á hreppana, er að nokkru leyti bygt á fasteignamatinu, án tillits til, hvernig eignirnar eru notaðar eða nýttar. Þar sem nokkur munur getur orðið á því, hvort lagt er sjálfstætt á þennan atvinnurekstur í þeirri sveit, sem atvinnan er rekin í, og hinu, að láta hann koma undir skiftingarákvæðin, þykir meiri hl. nefndarinnar rjettara og sanngjarnara að skipa þessu svo, sem í brtt. segir. Það kemur og skýrt fram, að stjórnin, sem leggur þetta frv. fram, viðurkennir og rjettmæti þessarar tilhögunar, en nefndinni fanst hún ekki hafa gengið nógu langt í þessum efnum.

Þá eru brtt. við 9. gr. a- og b-liði afleiðingar af þessari breytingu.

Þá kem jeg að brtt. við 9. gr. staflið c. og d. í brtt. nefndarinnar. Í frv. er gert ráð fyrir, að á menn, sem stunda atvinnu utan heimilissveitar, geti atvinnusveit ekki lagt útsvar, nema þeir hafi haft tekjur, sem nemi 2000 kr., þar í talin hlunnindi svo sem fæði o. fl., reiknuð eins og skattanefnd þeirrar sveitar reiknar þau til skatts. Það var yfirleitt álit meiri hluta nefndarinnar, að er menn greiða útsvar af atvinnu utan sveitar, ætti að tryggja hagsmuni heimilissveitar mun betur en gert er í frv. Nefndin hafði tilhneigingu til að láta atvinnudvöl utansveitar ekki vera útsvarsskylda, en sá þó, að þetta gæti orðið ósanngjarnt að sumu leyti; sjerstaklega gæti það orðið til þess, að mjög tekjuháir menn, sem stunda atvinnu á skipum. t. d. yfirmenn á togurum, gætu smeygt sjer undan greiðslu rjettmætra gjalda. Nefndin vill hækka útsvarsskyldar lágmarkstekjur upp í 3 þús. kr. Samkv. frv. eru þeir menn, sem lögskráðir eru á skip utan heimilissveitar, útsvarsskyldir þar, sem útgerðin er rekin, en eins og kunnugt er, hefir Reykjavíkurbær einn allra bæja á landinu þennan rjett nú. Nefndin álítur, að rjett sje að gera greinarmun á atvinnu í landi og atvinnu manna, sem lögskráðir eru á skip, því það mun vera venja, að atvinnusveit hefir lagt ýmislegt í kostnað, sem kemur þeim mönnum að gagni, sem þar stunda atvinnu í landi. Þess vegna ætti útsvarsálagningarrjetturinn að vera ríkari með tilliti til þeirra, sem stunda atvinnu í landi, en með tilliti til manna, sem lögskráðir eru á skip. Atvinnu á skipum er þannig háttað, að hún er nær eingöngu stunduð og rekin utan þeirrar sveitar, sem hefir rjettinn til að leggja útsvar á hinn lögskráða mann. Af þessum ástæðum, og auk þess vegna þess, hve mismunandi mikið það er, sem menn þessir, er leita sjer atvinnu utan sinnar heimilissveitar, þurfa að leggja í kostnað til þess að geta stundað atvinnuna — menn, sem láta lögskrá sig á skip, þurfa meiri og dyrari útbúnað en þeir sem stunda landvinnu. — hefir nefndin orðið ásátt um að hækka hinar útsvarsskyldu tekjur upp í 3000 kr. við landvinnu, en í 5000 kr. á skipum. Jeg drap á það áðan, að þó að nefndin teldi stjórnina ekki hafa gengið nógu langt í því að tryggja rjett heimilissveitar viðurkennir hún þó, að samkv. frv. verði þessi rjettur miklu betur trygður en í núgildandi lögum, sbr. ákvæðin um 2000 kr. tekjuupphæð sem lágmark útsvarskyldra tekna í atvinnusveit. Nefndin taldi því rjett, úr því að mismunur var gerður á þessu tvennu, að hafa í sjerstökum staflið menn sem lögskráðir eru á skip. Þetta er gleggra.

Brtt. við 10. og 11. gr. frv. eru afleiðingar af áður nefndum brtt. við 8. og 9. gr., og þarf jeg ekki að fara frekar út í þau atriði að sinni.

Næsta brtt. nefndarinnar er við 12. gr. frv., en sú grein hljóðar um skifting útsvara milli heimilis- og atvinnusveitar og setur reglur um framkvæmd þessarar skiftingar. Eins og jeg gat um áðan, er aðalregla frv. sú, að leggja skuli á menn í heimilisveitum, og verður það að gerast eingöngu með þarfir heimilissveitarinnar fyrir augum. Nú eru þarfir sveitarfjelaganna mjög mismunandi, en til þess að hvert sveitarfjelag fái sinn hlutfallslega skerf af útsvarinu, miðað við álöguþörfina á hverjum stað, á að haga skiftingunni svo: Sjeu t. d. minni þarfir í atvinnusveit en heimilissveit, á heimilissveitin að endurgreiða gjaldþegni mismuninn. En sjeu aftur á móti meiri þarfir í atvinnusveit en heimilissveit, ber heimilissveitinni ei að síður að inna af hendi full skil til atvinnusveitar, en hefir rjett til að fá hallann bættan með aukaniðurjöfnun á gjaldþegn.

Sömu aðferð á samkv. frv. að hafa, þegar gjaldþegn flyst búferlum milli sveita. Þá er vitanlega lagt á hann með þarfir þess sveitarfjelags fyrir augum, sem hann er búsettur í, þegar niðurjöfnun fer fram. Ef svo stendur á, að þarfir þess sveitarfjelags, sem hann flytur í, eru meiri en þarfir sveitarinnar, sem lagði útsvarið á, þá lítur nefndin svo á, að það sje miklu hallkvæmara að heimila þeirri sveit, sem hann er þá orðinn húsettur í, að leggja á hann mismuninn með aukaniðurjöfnun, heldur en að sú sveit, sem hann er fluttur úr, geri það. Breytingin miðar því eingöngu að því að gera þetta auðveldara í framkvæmdinni, þegar svo stendur á.

Þá er enn brtt. við sömu (12.) gr. frv., sem er aðeins leiðrjetting á prentvillu. Í 3. málsgr. þessarar greinar hefir misprentast orðið „tekjum“, en þar á að standa: eignum.

Þá er brtt. við 16. gr. frv. Í frv. eins og það er nú er gert ráð fyrir því, að niðurjöfnunarnefnd hafi aðgang að framtalsskýrslum manna, á sama hátt og skattanefndir hafa nú, en til þess að tryggja, að hún geti notfært sjer þetta, á hún, þegar enginn úr hreppsnefnd er um leið í skattanefnd, að hafa heimild til þess að kveðja með sjer einn mann úr skattanefnd, og skal sá maður hafa 8 kr. þóknun úr hreppssjóði dag hvern eða hluta úr degi, er hann starfar að þessum málum með hreppsnefnd. Nú leit nefndin svo á, að ekki væri frekari ástæða til að ákveða þessum manni slíka þóknun, þar sem hans starf væri alveg hliðstætt skyldustarfi hinna, sem vinna kauplaust, auk þess sem hann getur skorast undan starfanum eftir 2 ár, en hreppsnefndarmenn ekki fyr en eftir 6 ár. Nefndin vill því fella þetta ákvæði burtu, enda fer það oft saman, að hreppsnefndarmaður er skattanefndarmaður um leið.

Í 16. gr. frumvarpsins er einnig kveðið svo á, að í hreppum með yfir 800 manns geti hreppsnefnd ákveðið sjer þóknun úr hreppssjóði fyrir niðurjöfnunarstarf sitt, er ekki fari fram úr 1 krónu fyrir gjaldanda hvern, sem á aðalskrá útsvara er tekinn. Þegar á að fara að draga svona takmarkalínu, er hætt við, að ósamræmi verði í, og ef til vill ósanngirni, og áleit nefndin því rjettara að leysa úr þessu þannig, að sýslunefndum sje heimilað að ákveða þóknun fyrir niðurjöfnunarstörf í hreppum, sem þó ekki fari fram úr 5 kr. á dag til hvers nefndarmanns, og gengur nefndin út frá því, að þetta komi aðeins til greina í þeim hreppum, þar sem lengstur tími fer til niðurjöfnunarstarfsins, sem sje í fólksflestu hreppunum.

Þá er brtt. við 21. gr. frv. Með breytingunni á reikningsárinu fer niðurjöfnun aukaútsvara fram fyr á árinu, eða á tímabilinu febrúar-maí. En nú er nefndinni kunnugt um, bæði af eigin reynd og af aðfengnum upplýsingum, að svo getur staðið á í sumum hreppum, að allmargir hreppsbúar sjeu staddir utanhrepps á þessum tíma ár, þar sem þeir verða að leita til annara veiðistöðva til þess að stunda sjómensku, og getur þetta ákvæði því komið þeim óþægilega. Nefndin leggur til að atvinnumálaráðuneytið megi heimila, ef ríkar ástæður eru til, að aðalniðurjöfnun fari fram síðar á árinu, og á öðrum stað gerir nefndin breytingu, samsvarandi þessu, um ákvörðun gjalddaga. Nefndin sjer ekki, að það geti valdið neinum óþægindum, þó að niðurjöfnun fari fram seinna á árinu. Að vísu hefði mátt bæta úr þeim galla, sem er á 21. gr. frv., með því að ákveða varahreppsnefndarmenn, en nefndin taldi rjettara að fara hina leiðina.

Næst er brtt. við 22. gr. frv., á þskj. 154. Hafði fallið niður í frumvarpshandritinu að taka upp ákvæði um kærur. Eru þau tekin hjer upp, og eru það sömu ákvæði og í núgildandi lögum.

Síðasta brtt. er við 27. gr. Í frv. er ákveðinn einn gjalddagi á útsvörum í hreppum, en tveir í kaupstöðum. Þessu hefir verið þannig fyrir komið í reyndinni nú að undanförnu í kaupstöðunum, sumum a. m. k., fyrir þá sök, að útsvör í kaupstöðum eru svo há, að mönnum er þannig gert hægra fyrir með greiðslu enda hefir reynslan orðið sú, að skilsemi er miklu betri með þessu móti. En nú er það þannig, bæði í kauptúnum og sveitum, að útsvör eru einnig víða há, og virðist nefndinni sanngjarnt, að þar gildi sömu reglur viðvíkjandi greiðslu eins og í kaupstöðunum. Mjer er persónulega kunnugt um það í einu kauptún þar sem jeg þekki vel til, að hreppsnefnd breytti út af þessu og ákvað tvo gjalddaga, enda reyndist það miklu betur en hitt fyrirkomulagið. Í brtt. er því farið fram á, að gjalddagarnir verði tveir í hreppunum líka, 15. júlí og 15. október, sem einmitt er sá tími, sem bændur eiga hægast með að greiða útsvörin á.

Jeg hefi þá minst á brtt. nefndarinnar, og skal jeg geta þess, að um sumar þeirra eru að nokkru leyti óbundin atkv. Einnig eru í frv. 2 prentvillur, í 3. og 35. gr., sem að sjálfsögðu verða leiðrjettar við endurprentun þess.

Þá skal jeg geta þess, að enda þótt ekki væru bornar fram fleiri brtt. af hálfu nefndarinnar, eru þó í frv. nokkur atriði, sem ýmsir nefndarmenn eru ekki ánægðir með t. d. það, að yfirskattanefnd eigi að skera úr útsvarskærumálum, í stað sýslunefndar. Þá breytingu álít jeg ekki til bóta, því að bæði ætti sýslunefnd að vera miklu kunnugri þessum málum, og auk þess getur þetta haft í för með sjer kostnaðarauka fyrir sýslufjelögin. Þó er þetta í mínum augum svo mikið aukaatriði, að mjer finst ekki vert að koma með brtt. við það, en þar sem þetta mál bíður úrlausnar og er á því stigi nú, að úrlausn verður að fást, álít jeg það mikla bót og verulega, ef frv. verður samþykt með þeim breytingum, sem nefndin leggur til og jeg hefi nú lýst. Það má gera ráð fyrir og búast við því, að þar sem svona mismunandi hagsmunir koma til greina, eins og hjer er um að ræða, verði aldrei hægt að finna þann grundvöll, sem allir eru ásáttir um. Þó er það eitt ákvæði í frv., sem einkum og sjerstaklega er þyrnir í augum manna. en það er skifting útsvars milli sveita. En verði brtt. nefndarinnar samþykt, kemur þetta ekki til framkvæmda nema í fáum atriðum, og þá sjerstaklega á milli kaupstaða og kauptíma.

Jeg á hjer sjálfur eina brtt. á þskj. 125, og ætla jeg þegar um leið að minnast svolítið á hana. Þess er getið í nál., að frv. geri ráð fyrir allmikilli breytingu á einu atriði, er snertir atvinnurekstur, með því ákvæði 9. gr., að það er heimilað að leggja útsvar á afla, sem lagður er á land utan heimilissveitar að minsta kosti samtals 4 vikur af gjaldárinu. Þetta er veruleg breyting frá því, sem er í núgildandi lögum. Hjer er gert hvorttveggja í senn, styttur sá tími, sem til þess þarf, að heimilt sje að leggja útsvar á menn utan heimilissveitar þeirra fyrir þennan atvinnurekstur, og kipt í burtu því ákvæði sem nú hefir verið lengi í lögum, að ekki sje heimilt að leggja útsvar á menn fyrir það, þó þeir leggi afla á land um stundarsakir utan heimilissveitar, ef útgerðin er rekin við sama fjörð eða flóa. Þetta ákvæði í núgildandi lögum byggist meðal annars á því, að ekki sje sanngjarnt, að menn verði útsvarsskyldir utan heimilissveitar, þó þeir sökum staðhátta og af knýjandi ástæðum verði um stundarsakir að leggja afla á land í öðru plássi, þegar hans var aflað á miðum, sem eru innan sama fjarðar og flóa, sem heimilissveitin liggur við. Síðan þessi ákvæði voru í lög tekin, hefir sú breyting orðið á útgerðinni víða, sem gerir það enn sanngjarnara, að þetta ákvæði sje látið standa áfram, sem sje sú, að við það að útgerðin á opnum bátum hefir að mestu leyti lagst niður hagar þannig til, að ekki er hægt að reka útgerð frá eins mörgum veiðistöðvum og áður. Hjer við Faxaflóa er það t. d. þannig, að það er aðallega einn staður, sem hægt er að reka vjelbátaútgerð frá á aðalaflatímanum hjer við flóann, sem sje á tímabilinu frá áramótum til aprílloka, og líkt er þessu háttað með sumar aðrar veiðistöðvar, t. d. Hornafjörð o. fl.

Þar sem svo stendur á að slíkir staðir eru eign eða undir yfirráðum eins eða fárra manna, þá hafa þeir aðstöðu til þess að gera sjer dvöl aðkomumanna þar arðberandi á ýmsan hátt. Þar sem hlutaðeigandi menn gera sjer far um að neyta þessarar aðstöðu — og það virðast þeir gera sumstaðar, eftir skýrslum þeim að dæma sem Fiskifjelagið hefir aflað um kjör útvegsmanna í ýmsum veiðistöðvum og nú liggja hjer hjá sjávarútvegsnefndum — þá er það óneitanlega æðihart, bæði gagnvart aðkomumönnum og heimilissveit þeirra, að þeir skuli í ofanálag verða útsvarsskyldir í þessum stöðum, og það oft á tíðum fyrir það að leggja aflann á land aðeins um örstuttan tíma. Þó ekki sje nú því til að dreifa, að hægt sje að bjóða aðkomumönnum beinlínis birginn með viðlegugjaldið, þá njóta sveitarfjelögin æfinlega mikilla tekna af dvöl þessara manna og því berlegar kemur það í ljós, hve ósanngjarnt það er að heimila að leggja útsvör á þennan atvinnurekstur, þegar það er athugað, hvaða útgjöld það eru, sem útsvörin bera uppi, því aðkomumaðurinn nýtur einskis góðs af því, sem fyrir þá, peninga fæst. Það er líka svo um þessa breytingu, að hún brýtur algerlega í bág við aðalstefnu frv., sem sje þá, að tryggja betur en nú er rjett heimilissveitar. Hjer er þessi rjettur að verulegum mun skertur frá því, sem er í núgildandi löggjöf. Því er það, að jeg ber fram þessa brtt. og vænti þess, að háttv. deild hafi sannfærst um rjettmæti hennar og samþykki till. Jeg skal þess vegna taka það fram, að ef menn gætu bent á einhverja aðra leið, svo að hægt væri að ná því marki, sem stefnt er að í till., þá myndi jeg fús til samkomulags á því sviði. Svo vil jeg einnig benda á það, að samkv. frv. gætu þeir menn, sem tengdir eru við þennan atvinnurekstur, orðið tvískattaðir. Fyrst hefðu þeir orðið að greiða útsvar á þeim stað, ef þeir hefðu 2000 kr. tekjur, og auk þess útsvar sem hluthafar í afla skipsins. Því það mun víða haga svo til, að menn eru upp á hlut, og í þessu tilfelli er lagt á hann. Með brtt. nefndarinnar er mjög mikið dregið úr þessu, þótt það kannske geti ekki verið útilokað algerlega. Jeg bendi á þetta í sambandi við það, að þegar frv. var samið, hefir það ekki verið nægilega athugað, hvaða áhrif það hefði á einstaka gjaldendur að kippa þessum ákvæðum burt.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þessa till. mína að sinni, og ekki heldur um málið yfirleitt, því eins og jeg gat um í upphafi, mun jeg ekki tala um brtt., sem einstakir nefndarmenn hafa komið fram með, fyrir hönd nefndarinnar, fyr en þeir hafa reifað málið og gert grein fyrir till.