16.03.1926
Neðri deild: 32. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

15. mál, útsvör

Pjetur Þórðarson:

Áður en jeg kem að hinum einstöku brtt., vil jeg leyfa mjer að fara fáum orðum um stefnu frv. og aðalatriði þess, með hliðsjón af núverandi löggjöf í heild sinni.

Í áliti nefndarinnar á þskj. 124 er tekið fram í 4 töluliðum, hver atriði í núverandi löggjöf um útsvör sjeu gerð að aðalatriðum í breytingum þeim, sem í frv. felast. Jeg er samþykkur aðalstefnu frv. að því, er snertir þessi 4 aðalatriði, þó ekki fyllilega 2. liðnum, sem hljóðar svo: „ Að heimildin til að leggja útsvar á menn utan heimilissveitar sje orðin alt of víðtæk.“ Þessi skýring nefndarinnar finst mjer ekki ná nógu langt; að því leyti er jeg ekki vel ánægður með hana. Jeg álít ekki einungis, að heimildin sje orðin alt of víðtæk, heldur einnig, að heimildin hafi orðið þess valdandi, að þar sem slíkt útsvar hefir verið lagt á, verði það venjulega af mjög miklu handahófi, eins og búast má við. Þá kemur venjulega til greina tilhneiging til að leggja meira á þessa menn heldur en þá, sem heima eiga í hreppnum,

Jeg hygg, að flestum komi saman um, að þessi heimild sje of víðtæk, en þó má segja, að í sumum atriðum nái ákvæði þarna of skamt. Það er sýnilegt, að höfundur frv. hefir ætlað að stefna mitt á milli þeirra öfga, hvað útsvarsálöguheimildin gagnvart utansveitarmönnnm næði langt og líka þess, hvað hún næði skamt.

Um þessi höfuðatriði, sem í frv. felast til þess að breyta núverandi löggjöf, skal jeg segja það, að jeg er því alveg samþykkur, að það eigi að gera yfirgripsmiklar ákvarðanir um það að takmarka heimildina. Og jeg skal viðurkenna um leið, að frv. gerir ítarlega ákvörðun um þetta. En jeg held, að það megi ná rjettu markmiði á miklu auðveldari hátt en frv. gerir ráð fyrir, og miklu sanngjarnari.

Þetta eru höfuðatriði í þeim brtt., sem jeg hefi borið fram og sjá má á þskj. 127. Jeg bið hv. deildarmenn sjerstaklega að veita því athygli, að í þessum aðalatriðum eru fólgnar þær breytingar, sem jeg kem fram með. Það er að fá auðveldari leið og jafnframt ennþá sanngjarnari en frv. gerir ráð fyrir.

Að svo mæltu skal jeg koma að einstökum greinum frv. og brtt. mínum,

Jeg hefi enga brtt. við 1. kafla frv., sem er aðeins 3 greinar. Þó get jeg ekki látið hjá líða að minnast á 2. gr. Fyrsta ákvæði hennar er stutt og laggott: „Reikningsár sveita er almanaksárið.“ Þótt minst hafi verið á þetta í flutningsræðu hæstv. atvrh. (MG), í ummælum fleiri háttv. þm. við 1. umr. málsins og að nokkru leyti í framsöguræðu hv. frsm. (PO), þá þykir mjer nokkur ástæða til að minna á þetta enn, vegna þess, að jeg veit, að mjög er deilt um þetta atriði. Jeg veit, að einstakir menn líta svo á, að þetta væri óheppilega ráðið að því er snertir landbúnaðarsveitir. Það er vitanlegt, að þetta er orðið að lögum hjá öllum bæjarfjelögum hjer á landi, og það er margskonar nauðsyn, sem dregið hefir til þessa. Að sjálfsögðu er þetta ákvæði mjög hentugt fyrir mannmörg kauptún, sem eru hreppar út af fyrir sig. Óánægju með breyting á reikningsárinu hefir ekki orðið vart, nema ef væri í einstökum landbúnaðarhjeruðum. Hver ætli sje ástæðan til þess, að mönnum hrýs hugur við breytingu á reikningsárinu? Að því leyti, sem jeg þekki til eða hefi orðið var við, þykir ýmsum ekki hentugt að gera upp búreikninga sína á öðrum tímum en um fardaga eða að vorinu. En jeg held þetta atriði sje ekki mikils virði, þegar þess er gætt að vorið og sumarið eru miklir annatímar, ekki síst fyrir landbúnaðinn. En veturinn eða áramótin er vissulega sá tími sem menn hafa mest næði til þess að gera upp fjárhag sinn, og sá tími hefir einnig fallið saman við löggjöfina um skattaframtalið. Í frv. er gert ráð fyrir að skattaframtalið verði meðal annars notað til þess að byggja útsvarsupphæðina á. Þetta virðist því falla mjög vel saman. Hreppsnefndir geta ekki fengið betri gögn að styðjast við, hvað eignir manna snertir, en skattaframtalið. Enda þótt sumir álíti það ekki nógu nákvæmt, þá held jeg, að núverandi ástand leyfi engri hreppsnefnd að fá ábyggilegri skýrslur um eignir manna og fjárhag allan en þessar skýrslur. Svo þessi ástæða að það standi betur á fyrir bændum að gera upp fjárhag sinn að vorinu til en um áramótin, til þess að leggja til grundvallar fyrir útsvari, held jeg ekki, að sje á neinn bygð. Reynslan hefir líka sýnt, að mörg fjölbygð landbúnaðarhjeruð hafa fallist á þetta, og má þau til benda á það, sem fram hefir komið í svörum þeim, sem atvinnumálaráðuneytið fjekk við spurningum viðvíkjandi breytingum á sveitarstjórnarlögunum á síðastliðnu ári.

Þá kem jeg að aðalbrtt. Jeg skal strax geta þess, að í fyrstu brtt. minni á þskj. 127 er þegar gengið inn á að breyta 4. gr. í 6 atriðum. Og flestar þessar breytingar, eins og allar aðrar brtt., eru bundnar svo hver við aðra, að jeg geri ráð fyrir, að þær verði að fylgja hver annari að mestu leyti, hvort sem þær verða samþyktar eða feldar.

Fyrsta brtt. mín, við fyrstu málsgrein í 4. gr., er aðallega um það að bæta við þá útlistun, hvað niðurjöfnunarnefnd á að taka til athugunar, áður en hún hefir ákveðið, hve miklar eignir aðiljar hafi, til þess að leggja á útsvar; jeg vil bæta því við upptalninguna, að taka skuli til greina, ef sjerstakir skarrar til sveitarsjóðs hvíla á eignum manna. Þessi breyting snertir, auðvitað ekki grundvallarbreytingar mínar, og má því reyndar samþykkja hana eða fella án tillits til hinna brtt. Jeg geri ráð fyrir að þegar farið er að jafna niður eftir efnum og ástæðum, þá verði hver og ein niðurjöfnunarnefnd að gera sjer glögga grein fyrir , hvernig ástatt er, og meta gjaldþol hvers manns aðallega í tvennu lagi. Fyrst og fremst gjaldþol hans efnalega og í öðru lagi eftir tekjum hans. Það má kannske segja, að þetta megi gera í einu lagi. En því óglöggara svið, sem niðurjöfnunarnefnd tekur sjer til að meta gjaldþol manna eftir, því erfiðara verður að gera sjer fullkomlega nákvæma og sanngjarna grein fyrir, hvert gjaldþolið er í raun og veru. Og því óglöggara, sem mat niðurjöfnunarnefndar er, því ómögulegra er fyrir einstaklinga að kæra. Það getur farið fram allskonar misrjetti, þegar ekkert er til þess að miða við, engar tölur, ekki annað en það, sem nefndin hefir sjálf komist að. Hún metur ekki gjaldþolið, en hefir aðeins í huga, misjafnlega ljóst, eins og gerist og gengur, hvað gjaldþolið er. Þess vegna er hverjum manni örðugra að fá leiðrjetting mála sinna, þótt ósanngjarnlega sje á lagt. Að gera þetta sanngjarnara og einfaldara um leið, það er aðalatriðið í mínum till.

Þá kem jeg að 2. lið í brtt. við þessa gr. Jeg hefi eftir vandlega íhugun komist að þeirri niðnrstöðu, að það sje ekki rjett að setja niðurjöfnunarnefnd fyrir neinar fastákveðnar reglur til að meta gjaldþol eftir. En það eina og minsta, sem ætti að mega setja henni fyrir, er það, að hún sje skyld að ákveða gjaldþol hvers aðilja með tölum. Á því byggist svo margt annað út í gegnum brtt., sem jeg mun koma að síðar. Nefndin verður eftir þessu alveg sjálfráð, hvernig hún framkvæmir matið. Henni eru ekki lagðar aðrar skyldur á herðar heldur en að ákveða matið í tölum eftir bestu samvisku. Af ásettu ráði og að sjálfsögðu hefj jeg í þeim brtt., sem hjer koma á eftir, lagt til, að þessar tölur, sem nefndin ákveður, sjeu í tvennu lagi. Í öðru lagi ákveðin eignaupphæðin, sem talin er undirstaða gjaldþolsins, og í hinu lagi, eftir e-lið í þessari brtt. við 4. gr. frv., að ákveða líka gjaldþol manna að því er snertir tekjur. Þetta er aðalgrundvöllurinn, sem jeg álít, að megi og sje sjálfsagt að lögbjóða, því að á því byggist fyrst og fremst það að vera laus við skiftingu á útsvari. Og það álít jeg einn höfuðkost. En áður en niðurjöfnunarnefnd ákveður gjaldþol tekna aðilja, þá á að byggja á því tilliti, sem á að taka til 2. og 3. liðar í greininni, sem jeg vil að nokkru leyti breyta. Jeg hefi lagt til grundvallar um niðurskipun þessara liða í greininni, að með tekjum eigi að telja alt það í ástæðum manna, sem maður gæti kallað „positivt“. eins og það er orðað hjer í brtt. minni við þessa grein, að eftir orðunum „síðastliðið ár“ komi: „Til þeirra teljast hverskonar arður, höpp og hagsmunir, sem metnir verða til verðmætis.“ Þegar tekjur eru metnar, þá á að telja alt slíkt til tekna. Aftur á móti hefi jeg breytt 3. liðnum í gr. samkv. d.-lið í till. mínum, að hann yrði eins og þar er, að þar verði ekki taldar aðrar en „negativar“ ástæður, þær sem koma fram sem nokkurskonar útgjöld og rýra tekjurnar. Auðvitað felst í frv. eins og það er að telja sjálfsögð útgjöld, svo sem kostnað við að afla teknanna o. s. frv. Það er sjálfsagt að telja með útgjöldum kostnaðinn við að afla teknanna. En um aukaútgjöld, svo sem vexti og kostnað af skuldum o. fl., er ekkert nefnt í frv. Jeg álít, að fyrst og fremst beri að telja allar „negativar“ ástæður, svo sjá megi, hverjar hinar raunverulegu tekjur eða eignir eru, sem niðurjöfnunin verður að byggjast á. Og það er á þessu, sem jeg hefi nú nefnt, að brtt. mínar byggjast.

Hinar smærri brtt. á 2. lið 4. gr. eru í samræmi við það, sem jeg vil síðar breyta í frv., og snertir lítið þetta aðalatriði. Þó skal minna á að ein þeirra, d.-liðurinn, miðar þó í þá átt. því þar er farið fram á, að á eftir orðinu „kostnaður“ og áhætta“ falli niður. Með því að það er sjálfsagt, eins og tefur að skilja, að áhætta við einhvern atvinnuveg, sem er hjá liðin þegar niðurjöfnun fer fram, á ekki að koma til greina.

Í þessu sambandi skal jeg geta þess, að sumir hafa haldið fram, að ástæða væri til að taka til greina við niðurjöfnun, hve mikil velta hafi verið hjá atvinnurekanda, og hefir því sama verið haldið fram um smærri verslanir, að veltu þeirra megi taka til greina við niðurjöfnun útsvara. Í upphafi fanst mjer, að þetta mundi ef til vill vera á rökum bygt, en við nánari athugun komst jeg að þeirri niðurstöðu með sjálfum mjer, að það væri ekki rjett. Hinsvegar á að taka til greina við niðurjöfnun útkomuna eins og hún verður að viðskiftum loknum, því sje það ekki gert sjerstaklega, getur hæglega komið fyrir, að misvægi valdi í álagningunni. Og skyldi nú svo fara, að útkoma einhvers atvinnuvegar reyndist „negativ“ sje jeg ekki ástæðu til að leggja á veltuna, eins líka hitt, að á þá verslun, sem engum arði svarar á ekki að því leyti að vera hægt að leggja neitt útsvar.

Jeg vík þá þessu að sinni, og ætla sömuleiðis að hlaupa yfir að minnast á hinar aðrar smærri brtt. við 4. gr. Þó verð jeg að vekja eftirtekt á því, að 4. og 5. gr. frv. eiga ekki heima undir þeim kafla, sem þær eru nú í frv. Samkvæmt brtt. mínum legg jeg því til, að IV. kafli verði gerður að V. kafla. og greinar þessar því færðar aftur, eins og sjá má á þskj. 127.

Þegar þessum brtt. við 4. gr. sleppir. koma 2 nýjar gr., sem eiga heima í þessum kafla, sem sje um niðurjöfnun útsvara. Brtt. þessar eru merktar með grísku stöfunum a. og b. Sú fyrri, sem verða á 10. gr. verði brtt. mínar samþyktar, kveður svo á að „heimilt sje að jafna niður nokkrum hluta útsvara með persónugjaldi á hvern verkfæran mann, heimilisfastan í sveitinni, þó ekki yfir 10 kr. á hvern.“ Það sem jeg hafði fyrir augum með þssu, er það, að hreppsvegagjaldi er jafnað niður á verkfæra karlmenn á aldrinum 20–60 ára, og að jeg vildi heimila þetta persónugjald, kemur til af því, að eins og hv.þdm. vita og aðrir, er gjöldum sveitarsjóðanna til almennra þarfa að nokkru leyti jafnað niður eftir tölu þessara manna, og verður því eins eftir vegalögunum persónugjald. Þetta hvorttveggja gerir það að verkum, að hver 20–60 ára karlmaður í sveit, sem ekki er fatlaður eða hindraður frá störfum, verðir þess valdandi, að sveitin verður að gjalda fyrir hann persónulega sama gjald og jeg legg hjer til, að megi jafna niður á hann. Þetta er svo augljóst mál, og að minsta kosti ætla jeg þeim hv. þdm. að skilja það sem komið hafa eithvað nálægt sveitastörfum, að jeg hirði ekki um að fara frekar út í það.

Þá er það seinni brtt., sem yrði þá 11. gr. En um hana verð jeg að eyða nokkrum orðum, því að það er eitt meginatriðið í mínum brtt., að niðurjöfnunarnefnd sje skylt að „finna meðalhundraðshluta þeirrar upphæðar, er jafna þarf niður, í mismundandi hlutfalli við eign annarsvegar og tekjur hinsvegar.“ Og reglan, sem sett er fyrir því, hvernig jafna skuli niður, kemur fram í þessari grein. Og jeg verð að segja, að hún sje tiltölulega einföld, þessi regla, eins og hún er fram borin í brtt. mínum. Þar er ætlast til, að lærra hundraðshlutfallið miðist við eign, en hærra hlutfallið við tekjur; þó má munurinn aldrei vera meiri en 1 á móti 7. Jeg skal kannast við, að tölur þessar eru settar af handahófi, enda hefi jeg orðið þess var, síðan jeg fór að fást við málið, að ýmsum finst það töluvert viðsjárvert að taka til greina eign við niðurjöfnun útsvara eftir efnum og ástæðum, nema þá að hverfandi litlum hlut. Jeg er á annari skoðun og álít t. d. hlutfallið 1 á móti 5 mjög sanngjarnt. Enda veit jeg, að þó brtt. mín yrði að lögum, þá mundi í mörgum sveitum ekki notaður meiri mismunur á hlutfallinu en 1 á móti 5.

Jeg vona því, að hv. þdm. skilji, hvað liggur í þessum brtt., en til þess að gera afsökun mína og skýra þetta atriði nokkru nánar, hefi jeg reiknað út eitt dæmi, sem hæsv. stjórn hefir notað í öðru sambandi og er að finna í ástæðum hennar fyrir þessu frv. Dæmið, eins og jeg hefi reiknað það, verður á þessa leið:

Sveitarfjelag með eignir, sem nema 200 þús. kr., tekjur, sem nema 100 þús. kr., og upphæð, sem jafna þyrfti niður, 5 þús. kr. Nú virðist mjer sanngjarnast að hafa hlutföllin milli eigna og tekna 1 á móti 5. — 1% af 200 þús. kr. þ. e. 2 þús. kr. — og 5% af 100 þús. kr., en þ. e. 5 þús. kr. — Þetta samanlagt verða 7 þús. kr., og er 2 þús. kr. of mikið, og þarf þá að lækka hundraðstölurnar um 2/7 hluta. Það er auðvelt að finna hinar rjettu hundraðstölur, og verða þær 0,7% á eign, en 3,6% á tekjur, eða m. ö. o. rjettar 1400 kr., sem leggja skal á allar eignirnar, en 3600 kr. á tekjurnar, sem verður samanlagt 5 þús. kr., eða samhljóða upphæðinni, sem jafna þurfti niður.

Að finna þessi hlutföll er mjög auðvelt, enda gefur brtt. nákvæmar reglur um það. „Þegar finna skal útsvarsupphæð hvers gjaldanda, skal hækka og lækka meðalhundraðshluta eftir því, sem hæfa þykir, þ. e. búa til gjaldstiga, þó þannig, að eign með lægsta hundraðsgjaldi má eigi meiri vera en 5000 kr. og stigmunur eigi minni en 5000 kr. Tekjur með lægsta hundraðsgjaldi mega ekki meiri vera en 1000 kr. og stigmunur ekki minni en 1000 kr.“

Nú skal jeg halda áfram sama dæminu, sem jeg nefndi, en til þess að finna útsvarsupphæðina, þar sem svo stendur á, tel jeg hæfilegt að hafa 5 stigin á eignum en 6 á tekjum. Þó skal jeg taka fram, að gjaldstiginn þyrfti oft eða víða að verða miklu lengri, og t. d. hjer í Reykjavík mundi láta nærri, að tekjuskattstiginn yrði helmingi lengri. Í þessu sama dæmi, sem jeg nefndi, verður gjaldstigi á þessa leið :

1. Eign.

5000 kr. og lægri = 100000 kr. með 0.66% = 660 kr.

5–10 þús. kr. = 55500 — — 0.71% = 394 —

10–15 — — = 29500 — — 0.76% = 224 —

15–20 — — = 11500 — — 0.81% = 93 —

20 þús. kr. og yfir = 3500 — — 0.86% = 30 —

Alls 200000 kr. með 0.7% = 1401 kr.

Hjer eru gjaldstig aðeins 5 og hundraðsgjaldsmunur 0.05, og tel jeg hvorttveggja hæfilegt.

2. Tekjur.

1000 kr. og lægri = 40000 kr. með 3% = 1200 kr.

1–2 þús. kr. = 23000 — — 3,5% = 805 —

2-3 — — = 19000 — — 4% = 760 —

3–4 — — = 12000 — — 4,5% = 540 —

4–5 — — = 5200 — — 5% = 260 —

5 þús. kr. og hærri = 800 — — 5,5% = 44 —

Alls 100000 kr. með 3,6% = 3609 kr.

Hjer eru gjaldstig 6 og hundraðsgjaldsmunur 0.5%.

Þegar búið er að reikna dæmið á þennan hátt, þá er álagningin á einstaklingana ekkert annað en einfaldur reikningur, og þar með búið. Þessi aðferð er þá fyrst og fremst fólgin í því, að niðurjöfnunarnefnd metur sanngjarnlega og rjett efni manna og ástæður og ákveður jafnótt matið hjá hverjum einum með tölum, svo niðurjöfnunin verður sem sagt ekkert annað en einfaldur útreikningur. Og jeg beini þeirri fullyrðingu til hv. þdm., að þeir geti ekki nefnt neina átyllu fyrir því, að það sje ekki sanngjarnt að heimta af hvaða niðurjöfnunarnefnd sem er að nota reglur þessar, sem jeg nú hefi útskýrt, að loknu mati á efnum og ástæðum manna, og að það sje rjettasta og þó um leið hið auðveldasta ráð til að fyrirbyggja misrjetti.

Og hvað sanngjarnar, sem niðurjöfnunarnefndir vilja vera um þetta mat, eins og nú er og verður eftir frv. óbreyttu, þá er sjaldgæft að þeim takist að gera slíkt mat í huganum og óskráð eins og eftir ákveðirni reglu. Þetta get jeg dæmt um af eigin reynslu. Jeg hefi nú fengist meira og minna við niðurjöfnunarstörf í þriðjung allar og undantekningarlaust reynt að gera þetta mat sem sanngjarnlegast. En jeg hefi rekið mig á allmikla erfiðleika í þessu efni, og þó langmesta hafi jeg ekki skrásett matið jafnóðum.

Hæstv. atvrh. (MG) segir í aths. frv., að þessi aðferð, að jafna niður eftir efnum og ástæðum., sje margreynd og hafi gefist vel. Það má segja kannske, að til sveita hafi þetta mat niðurjöfnunarnefnda staðist oft á tíðum, ef miðað er við það, að sjaldnast er mikið hróflað við útsvörum, þó skotið sje þeim til æðra dóms.

En hvers vegna hefir útsvörum oft ekki verið breytt, sem kærð hafa verið til sýslunefnda? Vegna þess að kærandinn hefir aldrei átt kost á að vita um matið á efnum sínum og ástæðum, auk þess sem sýslunefndin á mjög oft erfitt með að gera sjer grein fyrir því, hvort matið er sanngjarnt eða ekki, af því að fáar tölur er við að styðjast.

Af þessum ástæðum verð jeg því að álíta, að þetta ákvæði sje afarnauðsynlegt, enda sje jeg ekki, að það sje ósanngjarnt að leggja niðurjöfnunarnefndum þessa skyldu á herðar, sem er í sjálfu sjer ekkert annað en að matið, sem á að vera grundvöllurinn undir þyngsta skattinum til opinberra gjalda, sje sanngjarnt og á rökum bygt, en ekki lagt á eftir einhverjum handahófságiskunum, auk þess sem gjaldendunum eða þeim, sem greiða eiga skattinn, er gert hægra fyrir um allan samjöfnuð við það að fá að vita um matið ítarlega.

Þetta eina ákvæði er nóg út af fyrir sig til þess að útrýma allri skiftingu útsvara, því þá getur engin atvinnusveit lagt þyngri skatt á aðkomumenn heldur en sína heimilisföstu gjaldendur. Svo að ef þetta atriði verður tekið upp í frv., er fengin lausn á þessu máli, og þá mun falla niður skifting útsvara; en það mál hefir miklum deilum valdið og óáægju margra í millum.

Annars hirði jeg ekki um að eyða fleiri orðum um þetta efni eða útlista nánar hvað í gjaldstiganum eigi að standa, því jeg endurtek það, sem jeg sagði fyr: Þetta er svo ljóst, að öllum hv. þdm. hlýtur að skiljast; hvað átt er við.

Þetta var þá 1. brtt. á þskj. 127 og kem jeg þá að þeirri næstu í röðinni, sem fer aðeins fram á það að flytja 5. gr. aftar, eða þannig, að hún verði 12. gr. frv. samkvæmt hinum öðrum brtt. mínum.

Þá kemur 3. brtt., sem er við 6. gr. frv. Áður en jeg byrja að tala um 6. gr., sem jeg álít vera aðalgrein þessa kafla frv. (því að þar er sagt, hverjir sjeu útsvarsskyldir), þá vil jeg taka það fram, að jeg hefi forðast að breyta orðalagi eða setningaskipun, nema það, sem minst verður komist af með. Þess vegna hefi jeg ekki haggað neitt sjerákvæðum greinarinnar um útlendinga. Aðalbrtt. mín við þessa grein er sú, að aftan við hana vil jeg bæta nýjum lið, c.-lið, sem nefni aðeins þá, sem hvergi eru heimilisfastir. Mjer þykir fara betur á því, úr því að nefndir eru í sjerstökum liðum þeir, sem hjer á landi eru heimilisfastir, og þeir, sem erlendis eru heimilisfastir, að þá sjeu þeir, sem hvergi eru heimilisfastir, einnig taldir undir sjerstökum lið. Þetta álít jeg, að eigi að standa í kaflanum um útsvarsskyldum.

Þá kem jeg að öðru aðalatriðinu í mínu kerfi. Það er það, að jeg vil færa alla sem nefndir eru undir 3. lið 9. gr., yfir í 8. gr. Þar með vil jeg heimila að leggja útsvar á víðar en í einni sveit, er svo á stendur. Því að það er mín skoðun, að leggja skuli útsvar á hvern mann í þeirri sveit, sem það á í að gjaldast. Jeg hefi fært nokkuð af 1. lið 9. gr. inn undir a. lið 8. gr., í stað þess, að meiri hl. háttv. nefndar vildi hafa það sjerstakan staflið. En það atriði skiftir ekki miklu máli. — B.-lið 8. gr. hefi jeg ekki viljað hagga. Þá hefi jeg viljað breyta c.-lið 8. gr. og færa undir hann nokkurn hluta af 1. lið 9. gr. Jeg hefi fært undir ákvæði 8. gr. alla 3 liði 9. gr.; en það er meira fólgið í till. mínum en það eitt að færa á milli. Fyrst og fremst er það undantekningin í 1. lið 8. gr., að telja ekki ítök í annari sveit, sem metin eru með jörð eða heimatekjum embættis í heimilissveit, til afnota lands og lóða. Á 3. lið (c-lið) var jeg búinn að minnast. Þá kemur 4. liður, og hefi jeg þar gert allverulegar brtt. Jeg vil sem sagt, að það, sem lagt verður á, sje ekki annað en það sem maðurinn fær fram yfir 3000 kr. — Á þskj. 159 hefi jeg komið með þá brtt. við það, að upphæðin sje ákveðin aðeins 2000 kr., en það er atriði, sem ekki skiftir miklu máli fyrir mjer. Meira að segja gæti jeg gengið að því að ákveða þessa upphæð ennþá lægri. — En hvort sem talan, sem miðað er við, er 2 eða 3 þús. eða eitthvað annað, þá er það miklu betur í samræmi við anda laganna, að atvinnusveitin fái aðeins að leggja útsvar á það sem þar er fram yfir. Hins á sveitin, þar sem maðurinn er búsettur, að njóta. Því að það virðist vera hið mesta misrjetti gagnvart heimilissveit mannins, að hún eigi að missa rjettinn til útsvars af öllu því, sem hann vinnur sjer inn annarsstaðar, ef tekjur hans þar komast upp yfir 2 eða 3 þús. krónur. Jeg álít því rjett að tiltaka einhverja sanngjarna upphæð, sem atvinnusveitin megi ekki taka útsvar af. En svo sem jeg hefi sagt, þykir mjer ekki skifta miklu máli, hve há sú upphæð er. Eins og nú er ástatt um frv., álít jeg, að fulllangt hafi verið gengið í því að svifta atvinnusveit útsvari af utansveitarmönnum, sem fá þar kannske ríflegar tekjur. Jeg hefi lagt það til, að lagt sje á utansveitarmenn eftir sama mælikvarða og innansveitarmenn. Þarf þá auðvitað ekki að taka tillit til þess, hver efni og ástæður þeirra eru utansveitar, heldur aðeins til þeirra efna og ástæðna, sem þeir hafa í þessari sveit. Þá hefi jeg lagt til, að bætt verði við gr. tveim nýjum liðum. Er sá fyrri um það, þegar skip leggur upp afla sinn utan heimilissveitar útgerðarmanns eða eiganda. Ákvæðin í þessum lið eru alveg á annan veg en í frv. hæstv. stjórnar, og einnig á annan veg en hv. frsm. (PO) vildi vera láta. Jeg vil, að höfð sjeu alveg sjerstök ákvæði um þessi tilfelli, og sje með hæfilegri sanngirni tekið tillit til allra, sem hlut eiga að máli. Eftir minni tillögu má þá fyrst og fremst leggja á útsvar, ef skipið hefir lagt upp afla sinn utan heimilissveitar útgerðarmanns 4 vikur eða lengur samtals á árinu. En þá má ekki leggja útsvar á skipverja eftir næsta lið á undan, heldur eingöngu á aflann. Þá er í brtt. minni sjerstakt ákvæði um það, hvað mest megi leggja á aflann: hygg jeg, að það sje sanngjarnlega ákveðið, eftir öllum málavöxtum, en vík nánar að því síðar. Það getur auðvitað verið nokkurt deilumál, hve langt eigi að fara í því að leggja á þá menn útsvar utan heimilissveitar sinnar, sem stunda sjósóknir og leggja aflann upp annarsstaðar. En þegar svona stendur á hafa margir hagræði af því að þurfa ekki að fara heim með afla sinn. Er því ekki nema sjálfsagt, að eitthvað komi á móti frá þeirra hálfu. Það er því aðalatriði fyrir mjer, að núverandi löggjöf hafi gengið of skamt í heimild útsvarsálagningar undir þessum skilyrðum, þar sem hún undanþiggur alla þá, sem heima eiga við sama fjörð eða flóa, eða í sömu sýslu, útsvarsskyldunni. En jeg fæ ekki sjeð, að það sje næg ástæða til að vera undanþeginn útsvari.

Jeg álít, að núgildandi lög hafi gengið of langt í tvær áttir: bæði í því að undanþiggja menn útsvarsskyldu og eins í því að leggja á menn útsvör. Er það mitt álit, að frv. hæstv. stjórnar gangi í rjetta átt, er það vill jafna þessar sakir. En þó er jeg ekki alveg ánægður með frv. og hefi því borið fram brtt. mínar um þessi atriði. Jeg veit, að útsvör á útgerðarmönnum eru nokkuð há, en þarna er farið fram á, að þau verði í samræmi við verð aflans, og hygg jeg, að það sje sanngjarnt. Jeg held, að varla verði álitið, að of langt sje gengið, þótt þessi tala sje ákveðin 1% af verði aflans, en geti hæstv. atvrh. eða hv. þdm. bent á aðra tölu, sem sje sanngjarnari, bind jeg mig ekki við þessa.

Þá er brtt. mín um síðasta lið þessarar greinar. Hefi jeg þar tekið upp þá menn, sem flytjast búferlum milli sveita eða samtímis eiga lögheimili í tveim sveitum, og hefi jeg þar farið eftir ákvæðum stjfrv. Jeg skal játa, að e. t. v. vantar nánari ákvæði um þessa aðilja í frv., en þó hefi jeg ekki getað sjeð, að það sje tilfinnanlegt við athugun mína á frv. Jeg hefi þá farið yfir aðalbrtt. mínar við þetta frv. Hinar allar eru smærri og leiða aðeins af þessum.

Kem jeg þá aftur að því, að frv., eins og það verður, ef brtt. mínar verða samþyktar, verður lausara við misfellur, einfaldara og meira í samræmi við það, sem venja hefir verið, og að mörgu leyti sanngjarnara en frv. hæstv. stjórnar. Einkum er það kostur, að lagt verður á mann eftir gjaldþoli hans, eignum og tekjum. Þá eiga sveitirnar einnig að hafa jafnan rjett til að leggja á alt, sem þar er á lagt, án þess að taka tillit til þess, hvaða útsvar gjaldþegninn greiðir annarsstaðar. Jeg þykist vita það alveg fyrirfram, hvað verður sterkasta ástæðan á móti mínum till. En hún er sú, að eftir mínu kerfi verður ekki lagt á utansveitarmenn eftir efnum þeirra og ástæðum heima fyrir, heldur aðeins eftir tekjum þeirra í atvinnusveitinni. En jeg held, að það sje ekki nægilega sanngjarnt gagnvart sveitunum, að þær þurfi að taka tillit til alls efnahags manna, heldur verða þær að fara eftir því, hvernig ástæður manna eru þar í sveit. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta ákvæði geti heldur á nokkurn hátt orðið til þess, að utansveitarmenn verði ósanngirni beittir, þar sem sjeð er við því, að hærra verði lagt á utansveitarmenn en þá, sem innansveitar eru.

Þá kem jeg að þeim hluta í brtt. mínum, er jeg legg til, að þessi aðferð að skifta útsvörunum verði þurkuð burt. Það mætti nú tala langt mál um það, sem mælir á móti þessari skiftingu, en jeg vil ekki tefja tímann með því. Það nægir aðeins að drepa á það, að skiftingin á fyrst og fremst að fara fram eftir hæpinni reglu og alls ekki nákvæmri. Þó er það ekki hið lakasta, heldur er hitt verra, að skiftingin kemur svo löngu eftir á, að ekki er hægt að byggja tekjur og gjöld viðkomandi sveitarsjóða á henni. Þetta gerir alla áætlun sveitarsjóðanna óábyggilega, og þó ekki síst, ef einhver kærir útsvar sitt og mál hans verður að útkljást kannske hjá 2 eða 3 úskurðarvöldum; þá getur þetta dregist von úr viti, hvort þessar tekjur fást í sveitarsjóðinn, og verður úr þessu hið mesta vafstur og vafningar. Eftir mínu kerfi kemst maður að sama marki, en losnar við alt vafstrið og vafningana.

Jeg geri ráð fyrir því, að mjer hafi sjest yfir einhver atriði, er hægt væri að segja brtt. mínum til stuðnings, en jeg býst við, að hv. þdm. hafi nú kynt sjer þær, svo að þeir hafi getað skapað sjer hugmynd um, hvort þær eru á rökum bygðar eða ekki. Jeg geri það af ásettu ráði að sleppa að útlista ýmsar smærri brtt. eftir 9. gr. Þær eru flestar þannig vaxnar, að þær eru aðeins til samræmis við hinar stærri brtt., og því einfaldar og ljósar. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni.