17.03.1926
Neðri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

15. mál, útsvör

Halldór Stefánsson:

Jeg læt mjer nægja að tala unt brtt. mínar án þess að fara út í almennar umræður um málið, þótt jeg hafi nokkru tilhneigingu til þess.

1. brtt. mín er við 3. gr. og fer fram á það að niðurlag fyrri málsl. 3. gr. falli burt, að útsvör megi ekki fara fram úr 1/5 af meðaltali þriggja síðustu ára, nema með samþykki sýslunefnda eða atvrh.

Það er um þetta ákvæði að segja, að með því eru sveitar- og bæjarstjórnir gerðar ómyndugar um fjárhagsmálefni sín. Jeg býst ekki við, að nokkurn tíma yrði farið fram á, að útsvör hækkuðu meira en um fimtung, nema brýn ástæða væri fyrir hendi. Væri þá þetta ákvæði óþarft, því ekki myndi verða neitað um heimild, þegar svo væri ástatt.

En hinsvegar er alveg óviðunandi, að hreppsfjelög og bæjarfjelög sjeu gerð ómyndug. Þetta eru gömul ákvæði, sem ættu ekki að standa lengur.

Síðari brtt. við 3. gr. er aðeins afleiðing af hinni.

Þá kem jeg að 2. brtt., við 6. gr., þar sem farið er fram á, að niðurlag 1. málsgr. falli burtu, að menn þurfi að hafa verið 3 mánuði eða meira heimilisfastir hjer á landi til þess að verða útsvarsskyldir. Það er m. ö. o. enginn munur gerður á því, hvort hlutaðeigendur hafa haft miklar eða litlar tekjur, rekið eða stundað atvinnu mikla eða litla. Með þessu ákvæði er skapað misrjetti milli þeirra, sem búsettir eru hjer alt árið, og hinna, sem búsettir eru hjer skemur. Sá, sem er búsettur hjer alt árið, er gjaldskyldur fyrir hvern einn tíma — hversu stuttur sem hann er —, sem hann hefir atvinnu. (Atvrh. MG: Hinn verður að borga erlendis). Nei. Við eigum að fá rjett til þess að leggja á menn, þótt þeir hafi verið skemur en 3 mánuði hjer á landi, ef menn aðeins hafa stundað eða rekið svo mikla atvinnu, að taki að leggja á hana lágmarksútsvar.

Þetta ákvæði frv. gæti líka valdið misrjetti milli manna, sem aðeins hefði vantað lítið á að hefðu dvalið 3 mánuði, og annara, sem dvalið hefðu fulla 3 mánuði. Sá, sem dvalið hefði tæpa 3 mánuði, gæti hafa haft miklu álagshæfari atvinnu en hinn, sem dvalið hefði 3 mánuði eða lengur.

Jeg hefi heyrt það sagt, að þetta ákvæði frv. sje í samræmi við það, sem tíðkast erlendis. Jeg veit ekki, hvort svo er, en jeg álít ekki nauðsynlegt að haga löggjöfinni að þessu leyti eins og aðrar þjóðir. Jeg kann ekki við, að þeir, sem búsettir eru hjer stuttan tíma og hafa álagshæfa gjaldstofna, fái forrjettindi fram yfir hina, sem búsettir eru alt árið. Þetta, sem hjer hefir verið sagt, tekur einnig til 3. brtt., við 6. gr. B. l. um sjómenn, sem stunda hjer atvinnu stuttan tíma. Jeg læt það, sem nú var sagt, gilda um þá brtt. líka.

4. brtt. er afleiðing af 2. og 3. brtt. og frvgr. orðuð upp með tilliti til þess, sem fjelli úr 6. gr., ef 2. og 3. brtt. yrðu samþyktar.

Þá er 5. brtt., við 7. gr. frv., um það, að niðurlagsorðin í b.-lið „eða í hlutfalli við dvöl“ falli niður. Hjer lítur út fyrir að tímalengdin ein sje gerð að mælikvarða fyrir útsvarsálagningu. Annarsstaðar í frv. er tiltekið, að efni og ástæður ráði útsvarsálagningn, og annað ekki. Enda á það að vera tæmandi. En hjer virðist vera bætt við einu atriði: tímalengd. Jeg álít næst að skilja þetta svona, og ætla þá með dæmi að sýna, hve þetta ákvæði er varhugavert. Jeg tek tvo menn; annar er búsettur árlangt, en hinn 3 mánuði. Þeir hafa jafnar eignir og tekjur, jafnar ástæður. Þá vil jeg spyrja, hvort leggja ætti 4 sinnum minna á þann, sem var aðeins 3 mánuði að byggja upp jafngóðar ástæður, en hinn, sem var heilt ár að því. Nei. hjer kæmi fram ranglæti gagnvart þeim, sem var 4 sinnum lengur að byggja upp jafngóðar ástæður, í því að verða að bera 4 sinnum meira útsvar. Sje þetta rjett skilið, álít jeg, að þessi orð eigi ekki rjett á sjer. Þetta ákvæði er líka í 8. gr. h., og þess vegna gerði jeg brtt. við þá grein, þar sem hún er orðuð um, svo það fellur niður af sjálfu sjer hjer.

Þá kem jeg að hinni brtt. við 8. gr., þar sem jeg legg til, að tryggingarfjelög sem starfa á mörgum stöðum, sjeu útsvarsskyld á hverjum stað hlutfallslega eftir því, hve mikil starfsemi þeirra hefir verið þar. Í frv. er ætlað, að þau beri útsvar aðeins þar, sem aðalumboðsmaður þeirra á heima. Mjer finst, að hver staður eigi að njóta hlutfallslega þess starfs, sem þar er rekið, en aftur á móti engin ástæða til þess að draga útsvarstekjur af starfsemi, sem rekin er víðsvegar um landið, til eins staðar.

Jeg hefi sett þessa brtt. undir 8. gr., þótt óvíst sje um röðina á frvgr. og hvernig fer um hinar ýmsu brtt. En vegna þess, að jeg býst við að fylgja þeim brtt., sem ganga svo langt að afnema með öllu skiftingu útsvars, þá hefj jeg sett þessa brtt, undir 8. gr., þótt hún að vísu fjelli betur undir 9. gr. ef skifting útsvara verður látin standa að einhverju eða öllu leyti, en þá mætti laga það til 8. umr.

Jeg hefi þá stuttlega drepið á þessar brtt. mínar. Veit jeg ekki, hvort jeg hefi getað gert þær skiljanlegar, eða hvort menn hafa getað sannfærst af máli mínu.