18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

15. mál, útsvör

Sigurjón Jónsson:

Það er aðallega vegna einnar brtt., brtt. á þskj. 125. frá háttv. þm. Borgf. (PO), að jeg tek til máls. Hv. flm. hefir mælt fyrir þessari brtt., og er hann að vísu einkar fær um að halda einn uppi svörum fyrir henni, en sakir þess, að tveir eða þrír hv. þdm. hafa andmælt þessari brtt., þótti mjer ekki fjarri sanni, að eitt hljóð heyrðist með henni, svo að sýnt yrði, að till. mætir ekki andúð allra hjer í hv. deild.

Þessi brtt. fer fram á það, að felt sje niður það ákvæði 9. gr., að skifta skuli útsvari, „ef skip leggur upp afla sinn utan heimilissveitar útgerðarmanns eða eiganda að minsta kosti samtals 4 vikur af gjaldárinu.“

Sú skoðun hefir komið fram hjá a. m. k. tveim af hv. þdm., sem til máls hafa tekið, að þessi brtt, sje ósanngjörn, þar sem hún fari fram á það, að svifta kaupstaðina allríflegum tekjum. Það get jeg fúslega gengið inn á, að tekjur kaupstaðanna mundu minka nokkuð við þetta, þó að jeg vilji halda því fram, að þeir geti vel unnið það upp á annan hátt. En það virðist mjer ekki vera aðalatriðið, heldur hitt, hvort sanngjarnt sje, að kaupstaðirnir megi leggja útsvör á skip, þótt þau leggi þar upp afla sinn 4 vikur eða meira. Og það er þetta, sem jeg fæ ekki sjeð sanngirnina í. Í þessu sambandi væri það ekki úr vegi að hugleiða, til hvers kaupstaðirnir nota peninga þá sem þeir ná með útsvörunum. Stærsti liðurinn er víðasthvar fræðslumálin. Þá koma ýmsir aðrir liðir, ekki allsmáir: heilbrigðismál, gatnagerð, götulýsing, að ógleymdum fátækramálunum. Þá má geta um löggæslu, vatnsveitur og hafnarmál. Nú vil jeg aðeins skjóta því til hv. þdm., hverra af þessum gjöldum skipin njóti, þótt þau leggi þar upp afla sinn um takmarkaðan tíma. — Háttv. 2. þm. Eyf. (BS) mótmælti þessari brtt., sjerstaklega með tilliti til Siglufjarðar, sem vitanlega hefir haft miklar tekjur af því að leggja útsvör á aðkomuskip, sem þar hafa lagt upp afla sinn. En jeg fæ ekki komið auga á sanngirnina í því, að skip eigi að greiða útsvar, þótt þau leggi þar upp afla sinn í 4 vikur og selji (jeg kem að því síðar, ef þau láta verks aflann fyrir sig í landi). Því að hvorki þau nje útgerðarmenn þeirra njóta á nokkurn hátt þessara gjalda. Skipin borga í hvert skifti alt sem þau njóta. Þau eru aðeins eins og gestir, sem koma snögga ferð. — En láti skipin verka afla sinn í landi, þá nást útsvör af verkuninni, hvort sem þau verka afla sinn á eiginn reikning eða láta annan gera það fyrir sig.

Jeg fæ ekki sjeð mikinn mun á því að leggja á skip, sem svona kemur með afla sinn, og því, ef lagt væri útsvar á bónda þar, sem hann leggur inn ullina eða ketið. Eða ef jeg á að taka annað dæmi, þá finst mjer þetta ekki ýkjafjarri því, ef lagt væri á millilandaskip þar, sem það leggur á land vörur.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) gekk svo langt að hann hjelt því fram að aðkomubátar í Hornafirði mundu eyðileggja æðarvarpið. Það ætti þá aðallega að vera sakir þess að skipalægið væri svo nærri varpstöðvunum, og má vera, að þetta sje rjett. En um leið og Hornafjörður var löggiltur sem höfn, tóh hann auðvitað að sjer að leyfa þar frjálsar skipaferðir. Ætti ekki að orka tvímælis, að hann yrði að bera áhættuna af því sjálfur. Jeg lít svo á, að því skemra sem gengið er í því að taka útsvör af aðkomumönnum, því rjettari leið sje farin. Og einkum er það atriði, sem líta verður á, hvers aðkomumenn eða atvinnurekstur þeirra fær notið af því, sem þeir gjalda. Því að allir hljóta að krefjast þess að fá, þótt ekki sje nema að einhverju litlu leyti, að njóta þess, sem þeir borga í sveitarsjóði. Sje jeg ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, enda vildi jeg aðeins sýna það, að brtt. hefði ekki tóma andúð í hv. deild.

Jeg vil aðeins bæta því við um þessi mál yfirleitt, að mjer eru það nokkur vonbrigði, að hv. allshn. gat ekki farið lengra inn á sömu braut, og hv. minni hl. (PÞ): því að inn á hana hljótum við fyr eða síðar að komast, ef við viljum fá traustan grundvöll undir útsvarsálagningar, eins og niðurjöfnun tekju- og eignarskatts. Jeg verð því með brtt. hv. minni hl. við 4. gr. Álít jeg, að það sje aðalbrtt., sem skeri úr, hvaða stefnu deildin vilji taka um þessi mál.