18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

15. mál, útsvör

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Það fór að vonum, að ýmsar raddir hafa heyrst í hv. deild og ýmsar till. fram komið um þetta mál. Hafa ummælin vitanlega fallið á ýmsa vegu, en barði af því, að umræður eru orðnar ærið langar og búast má við því, að málið verði einnig rætt allmikið við 3. umr. fer jeg fljótt yfir sögu, og það ljettir allmikið fyrir mjer, að hæstv. atvrh. hefir talað um flestar brtt. Mun jeg víða láta mjer nægja að skírskota til hana, þar sem skoðanir hans falla saman við skoðanir nefndarinnar.

Eins og jeg gat um í framsöguræðu minni í fyrradag hreyfði háttv. þm. Mýr. (PÞ) því í allshn. að setja í frv. ákveðna reglu, sem fara ætti eftir við niðurjöfnun útsvara. Var það víst meining hans, að útsvörunum væri jafnað niður með nokkuð svipuðum hætti og nú gildir um ákvörðun tekju og eignarskatts. — Síðar varð það svo, að hann vildi gefa niðurjöfnunarnefndum nokkuð rýmra svið, eins og brtt. hans bera nú vitni um. Eins og jeg gat um í fyrradag, gat nefndin ekki fallist á, að tiltækilegt væri að setja allsherjarreglu, er niðurjöfnunarnefndir væru bundnar við og mættu ekki frá víkja — sem sagt eina ófrávíkjanlega reglu, sem gilda ætti um land alt. Jeg skal ekki segja, hvort þetta hefir sannfært hv. þm. Mýr. eða hvað því veldur, en það eitt er víst, að þessar till. hans eru ekki nema svipur hjá sjón hjá því, sem hann virtist hugsa sjer það í upphafi. Því að enda þótt hann hafi ekki algerlega horfið frá þessari hugmynd sinni, eru þessar till. hans miklu rýmri og víðtækari en upphaflega var von á. En þar eð hv. þm. hefir lýst því yfir, að hann álíti þessar föstu reglur, sem í brtt. hans felast mjög til bóta, þykir mjer hlýða að gera grein fyrir því með nokkrum orðum, af hverju allshn. gat ekki fallist á þær.

Í ræðu sinni í fyrradag taldi hv. þm. það raunar einn höfukost á sínum till., hve rúmar þær væru, hve mikið svigrúm niðurjöfnunarnefndir hefðu, eftir sem áður, til þess að leggja á eftir efnum og ástæðum: en þá grundvallarreglu viðurkendi hann rjettmæta. Var hann því sammála meiri hl. nefndarinnar um það meginatriði. Hv. þm. Mýr. sagði, að það væri ekki rjett að setja niðurjöfnunarnefnd neinar fastar reglur, aðeins skylda þær til þess að ákveða gjaldþolið í tölum. Hvort sem þessari reglu er nú fylgt, eða aðeins þeirri gömlu og góðu reglu að leggja 3 eftir efnum og ástæðum, þá hygg jeg, að það muni bera að sama brunni — að gjaldþolið verði ákveðið í tölum. Hver gjaldþegn á að borga þetta margar krónur, sem venjulega eru táknaðar með tölustöfum. Jeg þykist nú raunar vita, að þegar hann talar um að ákveða gjaldþolið með tölum, eigi hann við aðferðina, sem á að viðhafa samkv. 11. gr. í brtt. hans.

Þá er að athuga, hver hann er, sá raunverulegi grundvallarmunur á því að ákveða gjaldþolið þannig — með því að setja upp reikningsdæmi í hverju einstöku tilfelli — eða að það sje framkvæmt með venjulegri aðferð. Hv. þm. sagði, að munurinn væri mikill á því að nota þessa aðferð eða þá, sem tíðkanlegust er. Með þessari aðferð hefðu menn aðeins gjaldþolið í huga. En hvað er gjaldþolið annað en mat á efnum og ástæðum? Og verður ekki jafnt að hafa gjaldþolið í huga, þegar verið er að finna útsvarsgrundvöllinn samkv. þessari reglu og þegar verið er að meta stigmuninn við ákvörðun á útsvari hvers einstaks gjaldanda? Jeg sje ekki annað en að svo hljóti að vera. Það kemur alveg í sama stað niður, hvort þessi aðferð er notuð eða ekki. Í báðum tilfellum er lagt á eftir efnum og ástæðum. Niðurjöfnunarnefnd verður altaf að hafa gjaldþolið á tilfinningunni.

Það fer alveg eftir því, hvernig tekst til með þessa útreikninga, hvort á þann hátt verði hægt að komast nær því rjetta en ella mundi. Það gæti meira að segja tekist svo til, að það gagnstæða yrði ofan á. Menn eru misjafnlega hæfir til að leysa af hendi vandasama útreikninga, og gæti það stundum farið í handaskolum.

Hv. þm. hefir sett fram tölur um hlutfallið milli tekna og eigna. Hann viðurkennir nú sjálfur, að tölurnar sjeu settar nokkuð af handahófi, og meira að segja að sjer þætti sanngjarnara að hafa aðrar tölur. Þetta bendir fullkomlega til þess, að niðurjöfnun eftir þessari reglu gæti ekki síður orðið handahófskend en þótt engin slík regla væri notuð. Háttv. þm. hjelt því fram, að það væri hægara að kæra útsvör, ef slík regla væri viðhöfð, en þó væri þetta einkum mikill hægðarauki fyrir sýslunefndir og yfirskattanefndir, er þær skyldu fella úrskurð í slíkum málum. — Það má vera, að þetta væri rjett, ef sýslunefnd eða yfirskattanefnd gætu lagt þessa útreikninga til grundvallar við mat sitt eins og þeir liggja fyrir. En það er nú síður en svo að á það sje treystandi, að því er mjer virðist. Það, sem sýslunefnd eða skattanefnd verður að gera, er að kynna sjer frá rótum efni og ástæður þess manns, sem kærir, og þeirra manna sem hann manna, sem hann ber sig saman við, og byggja síðan úrskurð sinn á því.

Það er nefnilega alveg sama í þessu tilfelli, hvort þessi meginregla í brtt. háttv. þm. Mýr. er viðhöfð eða ekki; sýslunefnd verður að kryfja málið til mergjar eins og engri slíkri reglu væri fylgt.

Auk þessa fæ jeg ekki sjeð, að þótt engin ákvæði sjeu um það í frv., þá geti niðurjöfnunarnefnd sett upp reglu sem þessa eða yfir höfuð hvaða reglur sem henni sýnast. En sje einhver sjerstök regla lögboðin, eru menn útilokaðir frá að nota aðra reglu, sem kynni að vera hentugri.

Þá segir hv. þm. Mýr., að með hans fyrirkomulagi sje maður alveg laus við skiftinguna á útsvörum. Já, þetta er mikið rjett. En með þessu fyrirkomulagi hana líka að halda dauðahaldi í einhvern mesta anmarkann, sem er á núgildandi útsvarslöggjöf, heimildina til að leggja á menn, sem stunda atvinnu utan heimilissveitar sinnar, í atvinnusveitinni. En niðurjöfnunarnefnd þar brestur venjulega allan kunnugleik til þess að geta lagt á menn eftir efnum og ástæðum þeirra. –Hv. þm. sagði, að með þessu fyrirkomulagi gæti atvinnusveit ekki lagt þyngri skatta á utansveitarmenn en þá, sem heimilisfastir væru í sveitinni. Þetta er vitanlega alveg rangt, því að þegar lagt er á heimilisfasta menn, er fult tillit tekið til efna þeirra og ástæðna, en um utansveitarmenn er venjulega alveg gengið framhjá þessu. Það skiftir miklu máli. Við skulum taka til dæmis mann, sem er 10 barna faðir; í heimilissveit er vitanlega fult tillit tekið til ómegðarinnar, en ekkert líklegra en að í atvinnusveit yrði lagt á hann sem einhleypan mann.

Jeg get bent á annað dæmi. Það voru tveir bræður sem skrásettir voru á skip hjer í Reykjavík. Á annan þeirra voru lagðar 80 kr. og 90 kr. á hinn. En þessir menn vinna fyrir gömlum og uppgefnum foreldrum og þess vegna treystist niðurjöfnunarnefnd í heimasveit þeirra ekki til að leggja á þá eða heimilið nema 40 kr. Þó hafði hún ekki heyrt um útsvarið, sem á þá var lagt í atvinnusveitinni. Það sjá allir, hversu ranglátt þetta er, og það er alveg furðanlegt, að hv. þm. Mýr. (PÞ). jafnsanngjarn maður og hann er, skuli halda fram till., sem ganga í þá átt að heimila þetta, jafnframt því, sem hann viðurkennir það rjettmætan grundvöll að byggja á, að leggja á menn eftir efnum og ástæðum, því að það hefir hann altaf viðurkent.

Því skýrar kemur það í ljós, hversu rjettmætt og sjálfsagt það er, að rjettur heimilissveitar sje sem best trygður, þegar það er athugað, til hvers útsvörunum er varið, hverskonar útgjöld það eru, sem þau eiga að bera uppi. Þetta var að nokkru leyti tekið fram af hv. þm. Ísaf. (SigurJ). en jeg get þó ekki gengið alveg framhjá þessu. Útgjöld þau, sem útsvörin eiga að bera uppi, eru vitanlega fyrst og fremst fátækraframfærslan, sýslusjóðsgjöldin, vegabætur barnafræðsla o. s. frv. Síðan sú breyting var gerð á fátækralögunum að stytta sveitfestistímann, er það vitanlega í flestum tilfellum, að framfærsluskyldan hvílir á heimilissveitinni. Hv. þm. Mýr. hefir best lýst því sjálfur, hvaða gjöld hvert sveitarfjelag verður að inna af hendi fyrir hvern heimilisfastan mann, sem verkfær getur talist. Það eru sýslusjóðsgjöld, sýsluvegagjöld o. fl. þessháttar. Kostnaðurinn við barnafræðsluna, sem er mjög stór liður í útgjöldum sveitar- og bæjarfjelaga, er vitanlega skyldukvöð, sem hvílir á sveitinni gagnvart innansveitarmönnum. Engar slíkar skyldur hvíla á atvinnusveit gagnvart utansveitarmanni er þar stundar atvinnu.

Það dylst því engum, hvílíkur geysimunur er á skyldum heimilissveitar gagnvart slíkum mönnum og skyldum atvinnusveitar. Þar af leiðir vitanlega, hversu nauðsynlegt það er, að rjettur heimilissveitarinnar sje sem best trygður, og að hún á fyllstu sanngirniskröfu á því, að svo sje gert. Meiri hluti allshn. lítur svo á, að till. hv. þm. Mýr. nái ekki tilgangi sínum að því er reglurnar snertir. En að því leyti, sem þær eiga að koma í staðinn fyrir skiftinguna, þá álítur meiri hlutinn, að í þeim sje viðhaldið of miklu af því misrjetti, sem er í núgildandi útsvarslöggjöf, og felst það í því, hversu rjettur heimilissveitar og hvers einstaks gjaldþegns, sem stundar atvinnu utan heimilissveitar, er illa trygður samkv. þeim.

Hv. þm. Mýr. og öðrum hv. þm. hefir orðið tíðrætt um ókosti skiftingarinnar í frv. Það er að segja, þá erfiðleika, sem skiftingin muni hafa í för með sjer. Nefndin viðurkennir fúslega, að þetta muni valda nokkrum erfiðleikum, sjerstaklega fyrst í stað, meðan venjur eru að myndast. En jeg veit, að hv. deildarmenn hljóta að hafa gert sjer grein fyrir því, að ef till. meiri hl. allshn. verða samþyktar, fækkar mjög þeim tilfellum, að til kasta komi með skiftingu útsvars. En það verð jeg þó að segja, að ókostir skiftingarinnar vaxa meiri hluta nefndarinnar þó engan veginn eins mikið í augum og hv. þm. Mýr. og ýmsum deildarmönnum. Hv. þm. Mýr. sagði, að hún gerði fjárhagsáætlun sveitanna óábyggilega. Það kann að vera, en þó held jeg, að ekki sje mikið gerandi úr þessu eða verulegur bagi verði að. Nú á að leggja útsvar á tekjur manna á árinn næsta á undan niðurjöfnuninni, og niðurjöfnun fer fram á tímabilinu febrúar-maí. Mjer skilst því, að menn geti undir venjulegum kringumstæðum gert sjer grein fyrir, hvað muni koma til skiftingar á gjaldárinu og hver tekjuaukning eða tekjurýrnun muni verða á þennan hátt. En þegar talað er um galla og ókosti skiftingarinnar og þá fyrirhöfn, er af henni leiðir, þá má ekki loka augunum fyrir kostum hennar. Það verður vel að athuga, að með skiftingunni er ráðin bót á verulegum galla á útsvaralöggjöfinni, sem jeg hefi áður lýst, og þarf því ekki að fjölyrða frekar um það. Eins og getið er um í nál., sá meiri hl. nefndarinnar ekki aðra leið heppilegri, sem trygði það betur, að hver sveit fengi sinn hlutfallslega skerf af útsvarinu og jafnframt trygði rjett gjaldþegns, sem atvinnu stundar utan heimilissveitar, að hann verði ekki alt of hart úti.

Þá eru í brtt. hv. þm. Mýr. ákvæði um það, hvernig atvinnusveit skuli leggja útsvar á afla lagðan þar á land, og hugsar hann sjer, að það sje lagt á 1% af verði aflana. En það er ekkert tekið fram, hverskonar verð það sje, en það skiftir þó máli, hvort það er verð aflans ein, og hann er lagður á land, eða verð á honum fullsöltuðum eða fullverkuðum. Hv. þm. sagði, að sjer væri ekki fast í hendi með upphæðina, enda er mjer kunnugt um, að hann mun fyrst hafa ætlað sjer að hafa hana 2%. Jeg álít, að það sje nú erfitt að fá nokkra tryggingu fyrir því, þegar farið er að jafna niður útsvörum í heimilissveitinni, að þessar tekjur af utansveitaraflanum renni ekki saman við aðrar tekjur og lagt verði líka á þær í heimilissveitinni.

Það hefir verið minst á brtt. við 4. gr. Hv. þm. Mýr. hreyfði þessu í nefndinni, en nefndin áleit, að upptalningin í 4. gr. væri alls ekki og gæti ekki verið tæmandi, heldur ætti hún að greiða fyrir niðurjöfnunarnefndinni, er hún væri að leggja niður fyrir sjer, hvernig ætti að jafna niður útsvörunum. Nefndin sá því ekki neina nauðsyn á þessum breytingum.

Þá skal jeg stuttlega víkja að nokkrum ræðumönnum og brtt. þeirra. En jeg skal geta þess, að þó jeg hafi beint máli mínu til hv. þm. Mýr., getur mál mitt til hans vel átt við mótmæli margra annara, sem fram hafa komið.

Hæstv. atvrh. áleit að orðalag 1. brtt. nefndarinnar væri ekki nógu ljóst og hún mundi ekki ná tilgangi sínum eins og hún væri orðuð, og fór hann því fram á, að hún yrði tekin aftur til 3. umr. Það geri jeg hjer með og vil biðja hæstv. forseta að athuga það, er atkvgr. fer fram. Jeg mintist á það í framsöguræðu minni, að jeg persónulega væri ekki ánægður með það að láta yfirskattanefndir úrskurða um útsvarskærur, í stað sýslunefnda og bæjarstjórna áður en jeg bar þó ekki fram brtt. um það, því að eftir öðrum ákvæðum þessa frv., þá er það óhjákvæmilegt, að svo sje. Sýslufundir eru sem sje um garð gengnir, þegar kærufrestir eru útrunnir: því hefði orðið að bíða í eitt ár með þetta, og varð þess vegna að breyta þessu eins og gert er í frv.

Hæstv. atvrh. hefir svarað hv. 2. þm. Reykv., og get jeg að mestu látið mjer nægja að skírskota til andmæla hans, því að hann bygði á þeim sömu rökum, sem gerðu það að verkum, að meiri hl. allshn. vildi ekki flytja þær brtt.

Jeg skal þó minnast fyrst á brtt. hans við l7. gr. frv., um að fella niður, að konur skuli undanþegnar því að vera í kjöri. Meiri hluti nefndarinnar áleit sjálfsagt, að þær hjeldu þeim rjetti, þótt hann væri hlyntur kvenfólkinu, og gat ekki sjeð, að þetta væri nein skerðing á kvenfrelsinu. Eins og ástatt er í sveitunum, telur hann þetta leiða af sjálfu sjer. Svo varð það líka til þess að styrkja meiri hlutann, að það er, eins og kunnugt er, komin stefnubreyting í þessu máli í hv. Ed.

Út af brtt. við 6. gr. frv., um að fella niður, að ekki megi leggja bæði á fjelag og fjelagamann, vegna eignar hans í fjelagi, þá er því og fullsvarað af hæstv. atvrh., og jeg held, að það hljóti að stafa af misskilningi hjá hv. 2. þm. Rang., að hann taldi sig fúsan að fylgja þessari brtt. (KlJ: Nei, nei; það held jeg ekki!). Jeg skal bæta því við hjer, út af ummælum hv. 2. þm. Reykv., að hann sagði, að það skini út úr nál., að menn þættust hafa orðið hart úti vegna laganna, sem sett voru fyrir Reykjavík um að heimila að leggja á menn, sem lögskráðir eru þar á skip. Það er ekki rjett, sem hann sagði, að Reykjavík hefði engin sjerrjettindi í þessu efni, heldur hefði henni verið veittur sami rjettur og aðrar sveitir landsins hefðu. Jeg veit hvergi til, að það sje heimild til þess nema hjer í Reykjavík, að halda eftir 10% af brúttóaflanum til þess að annast útsvarsgreiðsluna, svo Reykjavík hefir að þessu leyti sjérrjettindi. En þetta er úr sögunni, ef frv. verður samþykt.

Sama er að segja um brtt. hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Meiri hluti allshn. getur fallist á röksemdir þær, sem hæstv. atvrh. hefir fært fram gegn þeim. Í frv. er svo ákveðið um útlenda menn, sem dvelja hjer, að þeir verða útsvarsskyldir á þennan hátt, fyrir atvinnurekstur, fyrir að stunda hjer atvinnu og fyrir dvöl, þótt þeir hafi enga atvinnu. Í því tilfelli er talað um að miða útsvarsskylduna við dvöl mannanna. Ef það verður felt niður, er með því tekinn möguleikinn af sveitarfjelögunum til þess að ná útsvari af slíkum mönnum.

Út af síðustu brtt. hv. 1. þm. N.-M., um vátryggingarfjelögin, þá er svo ákveðið í frv., að útsvarið skuli þar á lagt, sem aðalumboðsmaðurinn á heimili, en hann vill breyta því og leggja líka á umboðin úti um land. Nefndin fellst á rjettmæti þessarar brtt., en eins og hún er orðuð nær hún naumast takmarki sínu. Hún segir, að útsvarið eigi að miðast við skattaframtalið, en um skattaframtal er aðeins að ræða þar, sem aðalumboðsmaðurinn á heima. Það verður því að breyta orðalagi till., og vildi jeg því skjóta því til hv. 1. þm. N.-M., hvort hann vilji ekki taka till. þessa aftur til 3. umr.

Þá skal jeg víkja fáum orðum að ræðu hv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hann talaði dálítið um frv. alment og þar á meðal drap hann á það atriði að breyta reikningsári sveitanna úr fardagaári í almanaksár. Þótti hv. þm. þetta vera vafasöm breyting, en þar sem hann tjáði sig þó ekki með öllu fráhverfan því og hann færði ekki fram neinar sjerstakar ástæður gegn breytingunni, skal jeg ekki fara nánar út í það, því fremur sem sú breyting er allvel rökstudd í nál., og enda hefir hv. þm. Mýr. árjettað það nú fyrir skömmu.

Þá þótti hv. þm. (BSt) yfirleitt heldur langt gengið í frv. og till. meiri hluta nefndarinnar í að takmarka útsvarsálagningarrjettinn í atvinnusveit. Hann viðurkendi raunar, að sá rjettur væri nú helsti víðtækur, en þótti gengið heldur langt í því að takmarka hann í frv. En jeg hefi áður tekið það fram, að frv. tekur sjerstakt tillit til þess, að rjettur heimilissveitar verði sem best trygður, og hefi jeg áður gert svo rækilega grein fyrir þeirri skoðun, að jeg sje ekki ástæðu til þess að fara lengra út í það. Jeg skal líka benda hv. þm. á, að það er ekki nema að sumu leyti, sem um mikla takmörkun er að ræða frá því, sem nú er, því eins og hv. 2. þm. Rang. (KlJ) benti á í gær, má eftir frv. leggja útsvar á atvinnurekstur, þó hann sje auk heldur ekki rekinn nema einn dag. — Þá talaði hv. þm. um skiftingu útsvaranna og taldi á henni mörg vandkvæði. Því máli hefi jeg lýst áður frá sjónarmiði meiri hluta allsherjarnefndar. Jeg hygg, að hv. 2. þm. Eyf. geri sem ýmsir aðrir alt of mikið úr þeim örðugleikum, sem þessu fylgi, þó reynslan ein geti skorið úr því. Að því leyti sem hv. þm. vjek að brtt. minni, þá mun jeg bíða að svara því þangað til jeg hefi lokið að tala um brtt. meiri hluta allsherjarnefndar, og svara aths. hans í sambandi við aths. annara hv. hdm. við þá till.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) talaði um, hvað það væri óhagkvæmt. a. m. k. hvað snerti Austur-Skaftafellssýslu, að láta skattanefnd úrskurða um kærur yfir útsvörum, einkum sökum þess, hvað oddviti skattanefnda byggi langt frá. Má vera, að nokkuð sje til í þessu hvað snertir þetta sýslufjelag. En yfirleitt fæ jeg ekki betur sjeð en að aðstaða skattanefnda til þess að úrskurða slík mál sje mun lakari en sýslunefndanna, en hinsvegar alveg hliðstæð því, sem venja er um dómara, sem dæma eiga í málum. Þær hafa fyrir sjer málsskjöl og öll gögn, svo ekki ætti að vera þörf á neinum sjerstökum kunnugleika.

Út af ræðu hv. 2. þm. Rang. skal jeg strax taka það fram, að nefndin hefir algerlega fallist á brtt. hans og telur þær allar til bóta, og það var aðeins vegna tímaskorts, að hún hafði ekki athugað þetta nógu rækilega. Er hún því þakklát hv. þm. fyrir till. hans. Hv. þm. leit svo á, að það væri ef til vill spurning um það, hvort heimilt væri eftir frv. að leggja dráttarvexti á útsvör, er fallin væru í gjalddaga. Nefndin lítur svo á, að eftir 30. gr. frv., þá sje það fullkomlega heimilt, og það því fremur, sem þetta hefir verið framkvæmt hjer í Reykjavík a. m. k. eitt ár með svipuðu fyrirkomulagi og ráðgert er í þessu frv. Álítur nefndin því, að þetta sje fullkomlega heimilt. En aftur á móti getur það verið álitamál, hvort þessir dráttarvextir eru ekki fullháir, því þeir munu svara til 12%, og má athuga það til 3. umr. Jeg get bætt því við viðvíkjandi þessari vaxtagreiðslu, að mjer er sagt, að hún hafi verið mjög stórt spor í þá átt að ljetta innheimtuna hjer í Reykjavík.

Hv. þm. hafði ýmislegt að athuga við skiftingu útsvaranna, en taldi þá leið þó greiðari en þá, sem hv. þm. Mýr. leggur til, og skildist mjer að hann mundi greiða atkv. með frv., en móti till. hv. þm. Mýr. Það er rjett, að skiftingunni fylgir talsverð fyrirhöfn, að minsta kosti fyrst í stað, og átti hv. þm. von á því, að það kæmi nokkuð hart niður á stjórnarráðinu. En jeg held nú, að sú fyrirhöfn muni einkum liggja í skrifum milli sveita og milli sveita og skattanefnda, sem skiftinguna hafa með höndum; en að það komi nokkuð verulega til kasta stjórnarráðsins, því býst jeg ekki við.

Þá kom það fram hjá hv. 2. þm. Rang., að hann áliti núgildandi útsvarslöggjöf — og eins ákvæði þessa frv. — of nærgöngul atvinnurekstinum í ýmsum tilfellum. Þannig þyrfti maður ekki að reka atvinnu á einum stað lengur en einn dag til þess að verða útsvarsskyldur eftir bókstaf laganna. En nú er vitanlega nokkuð öðru máli að gegna, hvort um stórútgerð er að ræða eða mann, sem aðeins stundar einhverja atvinnu, enda hefir nefndin gert mun á þessu. Þá hefir hv. 2. þm. Rang. mikið til síns máls í því, að það verði að gilda sömu eða svipuð lög um innlenda menn og útlenda. En nú er það kunnugt og algengt víða kringum land, einkum t. d. á Siglufirði um síldartímann, að þangað kemur útlendingur og gerir stórfeld kaup eða atvinnurekstur, sem ekki tekur hann nema stuttan tíma. En þá fanst meiri hluta nefndarinnar, að varhugavert væri að leggja stein í götu þess, að viðkomandi bæjarfjelag hefði álögurjett á slíka verslun eða atvinnurekstur.

Jeg mun nú ekki fara frekari orðum um þetta mál að sinni fyrir hönd nefndarinnar, en sný mjer að ummælum hv. þdm. um till. mína á þskj. 125, og get jeg verið fáorður, ekki síst þar sem hæstv. atvrh. hefir minst á hana og lagt henni gott lið og fært fram skýr og sannfærandi rök fyrir því, að hún ætti mjög mikinn rjett á sjer, þó hann gæti ekki fallist á hana, vegna þess að hann var hræddur um það, að hún kæmi hart niður á einstökum kaupstöðum. Jeg vil benda hæstv. atvrh. á það, að hann hefir sjálfur, með því að leggja þetta frv. fyrir þingið, sem einmitt tryggir rjett heimilissveitarinnar meir en áður, stuðlað að, að tekjur atvinnusveitar minkuðu að sama skapi. Og þetta hefir hann gert af því að honum hefir fundist það sanngjarnt, eins og það líka óneitanlega er.

Nú er það svo um þessa till., að hún er alveg í samræmi við stefnu frv., og furðar mig því stórlega á því fyrst og fremst, að hæstv. atvrh. skyldi ekki taka þessi ákvæði upp í frv., og úr því það varð nú ekki, að hann skuli þá ekki vilja greiða þessari tilllögu atkvæði. Og þó hægt væri að benda á, að þessi brtt. hafi það í för með sjer að svifta einstaka sveitarfjelög einhverjum tekjum, þá verður líka að líta á sanngirnisástæður þær, sem mæla með því að hún nái fram að ganga. Því þó afli sje lagður á land í einhverju sveitar- eða bæjarfjelagi aðeins um stundarsakir, á það sveitarfjelag engu meiri rjett til þess að leggja útsvar á þann afla heldur en utansveitarmann, sem stundar þar atvinnu um skamman tíma. Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) mótmælti till. og sagði, að þó hann áliti, að nefndin yfirleitt hefði gengið of langt í því að takmarka álögurjett atvinnusveitar, þá væri þó einn í nefndinni, sem ekki gæti sætt sig við till., heldur vildi ganga ennþá lengra. Jeg vil nú benda þessum hv. þm. á það, ef hann hefir ekki veitt því eftirtekt, að í stjfrv., sem yfirleitt gengur í þá átt að færa saman heimildina til þess að leggja á menn utan heimilissveitar, þar er í þessu tilfelli heimildin færð út frá því, sem nú er, að því er snertir útgerðarmenn. En minni hlutinn, eða brtt. mín miðar aðeins að því að færa þetta í sama eða svipað horf og núgildandi lög mæla fyrir. En eins og kunnugt er, þá er ekki heimilt að leggja útsvar á mann utan heimilissveitar, sem stundar útveg við sama fjörð eða flóa eða innan sama sýslufjelags. Hv. þm. áleit að þetta kæmi mjög hart niður á Siglufirði. Jeg vil benda hv. þm. á það, að í 9. gr. eru einmitt taldar undir skiftinguna þær tekjugreinar, sem Siglufirði munu vera arðsamastar, en það eru útsvör af ýmiskonar síldaratvinnurekstri. En þó að stundum sje máske talsverð fiskveiði á Siglufirði af utanbæjarmönnum, þá kveður mest að síldveiðunum. Mjer skilst því, að með þessari upptalningu sje hag Siglufjarðar mjög vel borgið, svo hann missi ekki mikils, þótt brtt. mín yrði samþ. Eftir þeim upplýsingum, sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) gaf, þá býst jeg við því að Siglufjörður taki sinn skerf af tekjum þeirra manna, sem þaðan stunda veiðar á sumrin, þó að eitthvað kynni að sleppa undan samkvæmt till., ef hún næði samþykki. Þess ber og að gæta, að hagurinn af hinum aðkomna atvinnurekstri er ekki eingöngu falinn í útsvarsgjaldi. Þar sem fólk þyrpist saman líkt og á Siglufirði, kemur mikið fjör í verslun og viðskifti, sem er staðnum til stórhagnaðar. Jeg tala nú ekki um samkvæmislífið, sem kve vera mjög fjörugt á Siglufirði. Og mjer skilst, að ef lagður væri þarna á skemtanaskattur samkvæmt lögunum frá 1918, þá mundi mega ná álitlegum tekjum af þessum dansandi og syngjandi mönnum. En þá verður auðvitað að sjá svo um, að sá skattur falli þeim í skaut, sem til hans hafa unnið. Þá má enn nefna þá sjerstöku aðstöðu, sem þetta aðstreymi fólks tjl atvinnurekstrar veitir þeim, sem fyrir eru, til að afla sjer stórtekna, t. d. með lóða- og bryggjugjaldi. Það er kunnugt, að ýmsir einstakir menn á Siglufirði leigja lóðir af ríkinu fyrir mjög lítið gjald, en selja svo þau rjettindi öðrum fyrir 2– 300% hærra gjald.

Þá þótti hv. þm. (BSt) ekki góð samkvæmni hjá nefndinni, þegar hún er að færa til milli 8. og 9. gr. frv., að láta t. d. laxveiði ganga undan skiftingunni. Jeg vil minna hv. þm. á það að ástæðan til þess er sú, að það á sjer víða stað, að einstakir menn utansveitar hafa keypt laxveiðiár. En þau hlunnindi eru metin með fasteignum viðkomandi sveitarfjelags, en fasteignamatið er að 1/3 lagt til grundvallar fyrir niðurjöfnun sýslusjóðsgjalda, og eru laxveiðaafnot engu síður rjettmætur tekjustofn viðkomandi sveitarfjelags, eins og önnur fasteignarafnot.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) andmælti till. mjög, en þar sem það voru að mestu leyti sömu ástæðurnar, sem hann bar fram, og aðrir voru búnir að gera á undan honum, og einnig af því, að hv. þm. Ísaf. hefir svarað flestu af því, sem hann sagði, þá get jeg látið hjá líða að breta þar nokkru við.

Að svo mæltu vil jeg vænta þess, að menn við atkvgr. geti fallist á þau rök, sem jeg hefi nú fært fram um nauðsyn þess að tryggja rjett heimilissveitarinnar í útsvarsmálum á þann hátt, sem meiri hl. nefndarinnar leggur til, og það því fremur, sem hæstv. atvrh. hefir fallist á þessar ástæður, er hann tjáði sig mundu fylgja öllum till. meiri hl.