18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

15. mál, útsvör

Halldór Stefánsson:

Út af ummælum hæstv. atvrh. og nokkurra annara hv. þm. um brtt. mínar á þskj. 156 vildi jeg segja nokkur orð. Það er þá fyrst viðvíkjandi fyrstu brtt., við 3. gr., um myndugleika eða ómyndugleika sveitarstjórna í fjármálum sveitanna. Hæstv. atvrh. vildi styðja þessi ákvæði frv. við það, að þetta ákvæði væri gamalt í lögum og að slík ákvæði væru í öðrum lögum, svo sem sveitarstjórnarlögunum, og svo í þriðja lagi með því, að það væri rjettmætt, að ákvörðunarrjetturinn væri tekinn af sveitarstjórnum. Það, að þetta sje gamalt, eru engin meðmæli með því að setja það í lög, en það getur verið afsökun fyrir því, að það hefir verið liðið í lögum, en engin fyrir því að setja það í ný lög. Það er líka rjett, að það eru víða í lögum ákvæði sem þessi, en jeg álít, að þó að þau hafi verið liðin, þá eigi ekki að taka þau upp aftur, þegar þau lög koma til endurskoðunar, og því legg jeg á móti því, að þau verði tekin upp í ný lög. Það getur verið afsakanlegt, að það var sett í lög í upphafi, áður en nokkur reynsla var komin fyrir því, hvort sveitarstjórnir væru færar um að fara með fjármál sveitanna. Það er vitanlegt, að það eru sveitarstjórnirnar, sem hafa besta þekkingu á sínum sveitarmálum, og líka mesta ábyrgðartilfinningu fyrir fjármálum sveitarfjelagsins og einstaklinganna, og þess vegna getur það ekki náð nokkurri átt að gera heil sveitarfjelög; ómyndug um fjármál sín. Það er vansæmandi að setja það í lög og vansæmandi að þola það í lögum. Ef nokkurt málskot ætti að eiga sjer stað um slík atriði, þá ætti það að vera lagt undir borgarana sjálfa á almennum borgarafundi í sveitum og bæjum. Það er nú altítt, að Alþingi leggur sveitarfjelögnnnm anknar byrðar á herðar, og vil jeg þar henda á till. frá stjórninni í fyrra um að færa nokkuð af útgjöldum ríkissjóðs yfir á sveitarfjelögin, og ef það hefði náð fram að ganga, þá hefði það eitt getað orðið næg ástæða til þess að hækka útsvör manna um meira en fimtung. Og svo hefðu þau vesalings sveitarfjelög þurft að sækja um leyfi til að leggja á þau gjöld, sem Alþingi sjálft hefði skipað þeim að taka á sig! (Atvrh. MG: Það var sjeð fyrir tekjum í móti).

Þá er 2. og 3. brtt. mín, við 6. gr., sem sje um þriggja mánaða búsetuskilyrðið til þess að vera útsvarsskyldur. Hæstv. atvrh. studdi þetta skilyrði með því, að þetta væri almenn venja og væri ekki rjett að brjóta hana. Jeg tók ekki eftir því, að hæstv. ráðherra rökstyddi mótmæli sín með öðru. Mjer virðist það ekki vera næg ástæða, vegna þess að jeg tel þetta mikilsvert atriði, og aðalatriðið er það, að þetta veldur svo miklu misrjetti, fyrst og fremst milli þeirra, sem hafa verið búsettir rjett við þessi tímatakmörk tæpa 3 mánuði og fulla 3 mánuði, og ennfremur getur það valdið miklu misrjetti gagnvart þeim, sem hafa fasta búsetu hjer á landi og litlar tekjur, en þeir, sem hafa verið hjer minna en 3 mánuði, hafa kannske haft geysimiklar tekjur, og eru þó undanskildir. Hæstv. atvrh. sagði, að þetta ætti aðallega við þá, sem væru að flytja til eða frá landinu og hefðu ekki verið hjer 3 mánuði af gjaldárinu, hvort sem þeir nú væru að flytja eða koma. Mjer sýnist að útlendingar, sem ekki ætla að setjast hjer að, geti vel komið hjer og stundað eða rekið hjer mikla vinnu á ekki lengri tíma en þrem mánuðum. Þeir geta tekið sjer hjer búsetu eða kallað það svo, eða dvalist hjer undir því yfirskini, að þeir ætli að setjast að, en farið svo með óskertan afla sinn. Mjer virðist, að með þessu sje verið að gefa útlendingum forrjettindi fram yfir innlenda menn, sem vitanlega verða að greiða útsvar einhversstaðar af öllu því, sem þeir afla. (Atvrh. MG: Þetta er misskilningur alt saman).

Þá er jeg kominn að atriðinu um að miða útsvar við dvöl. Þetta taldi hæstv. atvrh., að væri bygt á misskilningi hjá mjer. Á tveim stöðum í frv. er kveðið svo á, að menn skuli greiða útsvar í hlutfalli við dvöl, sem sje í 7. og 8. gr. Jeg skal viðurkenna, að það muni mega segja, að brtt. mín viðvíkjandi þessum orðum í 8. gr. sje kannske ekki beint þörf, en jeg álít þó, að orðalag frv. sje svo óskýrt, að það sje þörf á að gera það skýrara, en í 7. gr. fæ jeg ekki skilið, að brtt. sje ástæðulaus. Í 7. gr. segir svo (með leyfi hæstv. forseta)

„Nú hefir aðili dvalist hjer svo lengi, að hann verður útsvarsskyldur (6. gr. A. I. niðurl. og B. 1). og skal þá leggja á hann útsvar hlutfallslega eftir dvalartíma hans.“

En hvað segir nú í 6. gr. B. 1? Þar er talað um . . . . þá, er verið hafa sjómenn á skipi skrásettu hjer á landi, eða gerðu út hjeðan 3 mánuði á gjaldárinu eða lengur, eða hafa stundað hjer atvinnu eða dvalist hjer ekki skemri tíma.“

Jeg get ekki betur sjeð en að þessi orð hljóti að eiga við þetta alt, hvort sem menn hafa rekið hjer atvinnu, stundað hjer atvinnu eða hafa orðið útsvarsskyldir fyrir það eitt að hafa dvalið hjer. En nú skal jeg viðurkenna það, eftir þær skýringar, sem hæstv. atvrh. hefir gefið, og sömuleiðis hv. frsm. allshn. að það eru minni ástæður til þessara brtt. En mjer finst að frv. sje ekki svo skýrt orðað hjer, að full þörf sje á að orða þetta betur. En jeg mun því, vegna þess hvað þetta er óljóst, taka þessar brtt. mínar aftur, 4. og 5. brtt., og ef til vill athuga þær til 3. umr.

Þá er það loks síðasta brtt., en henni hefir verið heldur vel tekið, bæði af hæstv. atvrh. og hv. frsm., að efni til, en verið talað um, að hún væri ef til vill ekki rjett orðuð eða ætlaður rjettur staður, eins og jeg hefi líka minst á við fyrri hluta þessarar umr. Jeg viðurkenni það að jeg hefi sett brtt. við 8. gr. með tilliti til þess, að jeg vildi breyta frv. svo við skifting þyrfti aldrei að vera, og þá getur hún ekki verið í 9. gr. En hinsvegar, ef frv. fær þá afgreiðslu úr deildinni, að skifting verði að einhverju leyti, þótt hún verði minni en nú er, þá skil jeg það, að þetta muni heyra betur undir 9. gr., og mundi þá þurfa að orða hana öðruvísi og af þessum ástæðum tek jeg aftur 6. brtt. mína, líka til 3. umr.

Jeg skal þá minnast á einstök atriði í þessu frv., sem miklu máli skifta. Það er þá aðallega um skiftingu útsvara. Með skiftingunni er ætlað að bæta úr einum af þeim fjórum aðalagnúum, sem menn hafa álitið, að væru á þessari löggjöf áður, og sem sumir hafa sagt, að væru mestu agnúarnir, þ. e. ókunnugleik og óhlífni í útsvarsálagningu á utansveitarmenn. Það er nú líklegt, að þetta mætti takast á þennan hátt, en skiftingu fylgja stórir ókostir. Hún verður ákaflega umsvifamikil og margt í vafa, ef skiftingin yrði eins almenn og ætlað er í frv. sjálfu. Mjer skilst, að í frv. sje reynt að gera fleira til að bæta úr þessum ágalla, sem hjer ræðir um, þar á meðal sú nánari skilgreining, sem gerð er í 4. gr. frv. um hvað meint sje með orðunum „efni og ástæður.“ Slík nánari skilgreining hefir ekki verið fyr í lögunum. Annað, sem mjer virðist frv. gera líka í sömu átt, er það, að meðferð á útsvarskærum verður betri eftir þessu frv. heldur en eftir fyrri lögum. Jeg tel, að það myndi verða öruggara málsskot heldur en eins og nú er, þrátt fyrir það, að jeg heyri hjer, að það orkar nokkurs tvímælis. Svo ef skiftingin fjelli alveg niður, væri ekki loku fyrir það skotið, að finna mætti fleiri leiðir til að draga úr þessum galla. Jeg get bent á það, sem hv. þm. Mýr. hefir gert til þess að bæta úr þessu, sem sje að setja hámark fyrir útsvarsálagningu á menn í atvinnusveit, þó að þar sje hámarkið aðeins sett í einu tilfelli þegar lagður er upp afli fyrir utan heimilissveit útgerðarmanns; slíks hámark mætti hugsa sjer að gera alment. Á líkan hátt vildi jeg bæta úr þeim agnúa, að hægt sje að leggja óhlífnislega á utansveitarmenn í atvinnusveit. Og eftir frv. stjórnarinnar er það langt frá útilokað að lagt sje á menn í fleiri stöðum en einum. Að minsta kosti finst mjer, að í 8. gr. sje undantekning frá því.

Brtt. háttv. allshn. ganga í þá átt að draga úr skiftingu útsvara milli heimilisog atvinnusveitar. Mun jeg því geta fallist á þær, svo framarlega sem þær tillögur, er lengra ganga, verða ekki samþyktar, en það eru tillögur hv. þm. Mýr., því að þær ganga í þá átt að afnema skiftinguna með öllu: en því fylgi jeg fyrst og fremst.