18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir andmælt því, sem jeg sagði um brtt. hans í gær. Hann byrjaði á því að tala um fyrstu brtt. sína, sem gengur í þá átt að fella niður síðari málsl. fyrri málsgr. í 3. gr. frumvarpsins. Taldi hann það ákvæði með öllu óþarft og úrelt, því að sveitirnar myndu fara svo nærri um fjárhag sinn, að þess væri ekki þörf. Út af þessum ummælum vil jeg benda þessum hv. þm. á, að ákvæði þetta hefir staðið í sveitarstjórnarlögunum frá því fyrsta, og jeg þekki engin dæmi til, að það hafi komið að ógagni, heldur veit jeg, að það hefir á ýmsan hátt orðið að gagni. Sje jeg því enga ástæðu til að afnema það nú.

Viðvíkjandi útsvarsálagningu á þá erlenda menn, sem hingað flytja og hverfa hjeðan aftur án þess að dvelja hjer 3 mánuði af árinu, skal jeg geta þess, að það er nær því orðið að alþjóðareglum að leggja ekki útsvar á slíka menn, nema þeir reki atvinnu. Það er að minsta kosti mjög víða komið í lög, og sumstaðar eru beinlínis samningar á milli ríkja um það. Mjer fanst því ekki hægt að ganga lengra en frv. gerir, enda ekki sanngjarnt, því að þessir menn verða altaf að greiða fult útsvar í sínu eigin landi, án tillits til þess þó að þeir greiði eitthvað hjer.

Hitt er aftur misskilningur hjá hv. 1. þm. N.-M., að eftir frumvarpinu sje ekki hægt að leggja hjer útsvar á útlendinga, sem hingað koma og reka hjer atvinnu í þrjá mánuði, því að það stendur skýrum stöfum í 6. gr. frv.

Út af því, sem þessi hv. þm. sagði um undantekningarnar í 8. gr. frv., vil jeg taka það fram, að þær eru alls ekki víðtækar. Eftir a-lið greinarinnar má aðeins leggja á útibú, þegar það er heimilisfast á þeim stað, þar sem það er rekið. Er þar því ekki um undantekningu að ræða, því að slíkt útibú er hægt að skoða sem sjálf stæða atvinnustofnun.

B.-liður 8. gr. á aðeins við útlendinga, og um erlend tryggingarfjelög er svipað að segja og erlenda gjaldendur. Undantekningarnar í 8. gr. eru því eftir hlutarins eðli alveg óhjákvæmilegar.

Margir hafa minst á skiftingu útsvar anna og talið hana óhagstæða og illa í flesta staði. Jeg get vel viðurkent, að hún muni geta orðið töluvert vafningasöm stundum. En jeg vil aðeins benda á að sje það ætlunin að lagfæra þann megingalla á útsvarslöggjöf okkar, að utanhjeraðsmenn verði hart úti þegar lagt er á þá útsvar í atvinnusveit, þá er ekki önnur leið til en þessi skifting útsvaranna, og þá leið hafa margar aðrar þjóðir farið. Vitanlega væri hugsanlegt að taka upp þá reglu, að útsvar skyldi aldrei greiðast í atvinnusveit, en margar sveitir myndu alls ekki þola það.

Á undanförnum þingum hefir mjög verið um það talað, hve ósanngjarnt væri að leggja á utansveitarmenn, og því til sönnunar hafa verið nefnd mörg dæmi, en nú er alveg eins og menn sjeu búnir að gleyma þessu og haldi, að hægt sje að bæta úr þessu órjettlæti með því að taka upp 20 ára gamalt lagaákvæði, sem aldrei hefir komið að gagni.

Háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) sagðist geta fylgt till. hv. þm. Mýr., af því að þær væru bygðar á tekjuskattsfyrirkomulaginu. En þetta er ekki rjett. Eftir tillögum hans eiga útsvörin ekki að miðast við ákveðna upphæð, heldur á hún að hækka og lækka í „prósent“-tali eftir því, sem talið er hæfilegt. Það er því alveg sami grundvöllurinn, sem þm. Mýr. vill byggja útreikning sinn á, og liggur til grundvallar fyrir frumvarpi þessu. Hjer er því alls ekki um þann grundvöll að ræða, sem hv. þm. Ísaf. heldur.

Annars get jeg vel viðurkent, að þegar tekju- og eignarskattslöggjöfin verður komin í gott horf hjá okkur, þá er það sanngjarn mælikvarði, en það held jeg, að eigi enn langt í land.

Jeg gat því miður ekki verið hjer í deildinni, þegar hv. þm. Mýr. hjelt seinni part ræðu sinnar í dag. Get jeg því látið nægja að svara honum aðeins fáum orðum, og það því fremur, sem háttv. frsm. svaraði honum allítarlega.

Honum þótti hvort tveggja, að jeg hafa verið langorður og lengi að andmæla tillögum hans í gær. Það má vel vera. En þó er víst, að jeg notaði ekki til þess helming af þeim tíma, sem hann notaði til að mæla fyrir þeim.

Mjer finst háttv. þm. Mýr. gera of mikið úr sambandinu milli brtt. sinna, því að hann sagði að þær væru allar fallnar, ef ein fjelli. Jeg held, að sambandið sje ekki svo náin, og hefi jeg því bent honum á, að þeim megi skifta í 2 flokka, og fanst mjer hann ekkert hafa við það að athuga.

Hann taldi ekki rjett hjá mjer að hann væri hjer að koma með nýtt kerfi. En það er nú eftir því sem það er tekið. Jeg lít svo á að minsta kosti, að hann vilji lögleiða hjer sjerstakt kerfi. Við það hafði jeg ekkert að athuga annað en það, að margar aðrar aðferðir væru til betri. Er jeg því samþykkur hv. frsm. að þetta sje frekar til ruglings en leiðbeiningar.

Þá vil jeg skjóta því til háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem mjer virtist annar, tala svo vel í gær, hvort hann hafi ekki litið helst til fljótlega á 2. brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), því að hún gengur í öfuga átt við stefnu frv. En fyrir þá sök spyr jeg þessa, að mjer skildist hann vera brtt. samþykkur.

Háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) mælti á móti skiftingu útsvaranna. Jeg sje enga ástæðu til að svara honum ítarlega, því jeg tel ekkert eftir hreppsnefndum, þó að þær þurfi að skrifa brjef til 6–7 staða og skýra frá, hverjir þar hafi stundað atvinnu. Jeg met miklu meira, að útsvarsálagningin geti orðið rjettlát, því að jeg hefi enga trú á því, að niðurjöfnunarnefndir leggi sanngjarnlega á utansveitarmenn, enda er reynslan margbúin að sýna það og sanna.