20.03.1926
Neðri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

15. mál, útsvör

Jón Baldvinsson:

Það hafa orðið nokkrar umræður um brtt. mína við 6. gr. þessa frv., um að fella niður, að ekki megi leggja bæði á fjelag og fjelagsmann hjer heimilisfastan. Jeg hefi orðið þess var, að þetta hefir verið misskilið. En þó að þetta sje niður felt, er alls ekki þar með sagt, að lagt skuli á hvoratveggja. Í 4. gr. er lagt svo fyrir, að taka skuli allar ástæður til greina, og samkv. því verður að sjálfsögðu tekið tillit til fjelagseignar við niðnrjöfnun. Jeg vil aðeins fyrirbyggja með þessu, að tekin sje upp sú regla, að ekki megi leggja á fjelög.

Jeg gerði ráð fyrir, að þegar um þannig löguð ákvæði um útsvarsálagningar væri að ræða, þá yrði tekið tillit til þess, hvort eða hvað þessir menn væru færir um að leggja af mörkum við sveitarsjóðina, og jeg áleit því, að það tæki því ekki að bæta aukaútsvari við lægri upphæðir en þetta. Það getur vel borið við, að aukaútsvari verði ekki fyr jafnað niður en búið er að innheimta aðalútsvarið, og þarf þá að kosta til sjerstakrar innheimtu á aukaútsvarinu. Það hefði því ef til vill verið rjettara að setja lágmarksupphæðina hærri, þó að jeg hafi ekki borið fram brtt. í þá átt í þetta sinn.

Þá var það hin brtt. mín á þskj. 134 við þau ákvæði frv., er fela atvinnumálaráðherra að úrskurða þrætur í útsvarsmálum og menn hafa haft ýmislegt við að athuga. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) kvaðst heldur vilja hlíta við úrskurð skrifstofustjóra í atvinnumálaráðuneytinu en eiga það mál undir skattanefndum. Jeg held nú, að það verði oftar atvrh. sjálfur en skrifstofustjóri hans, sem felli þessa úrskurði. Hv. 2. þm. Rang. miðar of mikið við umliðna tíma, meðan hann sjálfur hafði fast embætti í stjórnarráðinu, og þá þurfti auðvitað ráðherrann síður að láta öll mál til sín taka. En nú er öldin önnur; þeir há-„pólitisku“ ráðherrar, sem við nú lifum undir, koma auðvitað við flest mál, er til stjórnarráðs koma; sjerstaklega gæti oft svo farið um útsvarsúrskurði, að til ráðherranna yrði leitað af þeim, er hlut ættu að máli. Hv. 2. þm. Rang. treystir vel þeim ágæta manni, sem nú er skrifstofustjóri í atvinnumálaráðuneytinu, og er það auðvitað rjettmætt, — en ráðherrarnir hafa vald, ef þeir vilja neyta þess, til að skifta sjer af þessum málum og kveða upp úrskurði í þeim. Þess vegna vildi jeg fella þessi ákvæði burt úr frv.

Með þessum orðum mínum hefi jeg líka svarað andmælum hv. frsm. allshn. gegn brtt. mínum; en jeg vil aðeins taka það fram, að þessi margumtöluðu sjerrjettindi Reykjavíkurkaupstaðar eru í rauninni alls engin sjerrjettindi. Það eru aðeins ákvæði um hliðstæðan rjett til þess, sem á sjer stað annarsstaðar, að mega leggja á menn útsvar eftir 3 mánaða dvöl í atvinnusveit. En svo er ástatt í Reykjavík, að þar eru engin tök á að ná í aðra en þá, sem látið hafa lögskrá sig á skip hjeðan. Þó að aðrir menn dvelji hjer í Reykjavík langdvölum við atvinnu eða þessháttar, fæst aldrei neitt tilkynt um veru þeirra í bænum; hvorki lögreglustjóri nje skattanefnd vita af því, að þeir sjeu hjer, og því eru engin tök að ná til þeirra. Og viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. sagði um vantraust á og óánægju yfir gerðum niðurjöfnunarnefndar Reykjavíkur, hefir það ekki neitt sjerstakt gildi. Hann getur farið og spurt sig fyrir í hvaða hreppi sem er á landinu, og jeg er viss um, að hann getur fengið alla sem hann nær til, til að bölva niðurjöfnunarnefndunum fyrir útsvarsálagningarnar. Jeg hygg, að mikill meiri hluti almennings á landinu hafi þannig lagað hugarfar í garð niðurjöfnunarnefnda, og ekkert frekar hjer í Reykjavík en annarsstaðar, og svona hygg jeg, að það verði framvegis um æðilangan tíma. (PO: Þegar jeg sagði formanni niðurjöfnunarnefndar Reykjavíkur frá dæmi því, sem jeg nefndi, þá hristi hann höfuðið). Þótt menn hristi höfuðið, hefir það ekki ávalt sömu merkingu. Það getur þýtt afarmargt, og í þessu tilfelli ef til vill ekki það, sem þm. (PO) vildi vera láta. En að öðru leyti held jeg fast við þá skoðun mína, að í Reykjavík sje ekki um nein sjerrjettindi að ræða. — Það sje aðeins rjettur, sambærilegur og hliðstæður við það, sem á sjer stað víða annarsstaðar á landinu.