20.03.1926
Neðri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

15. mál, útsvör

Hákon Kristófersson:

Frv. það, sem hjer liggur fyrir til umr., er víst óhætt að telja, að sje árangurinn af áður framkomnum óskum um breytingar á nokkrum atriðum í núgildandi sveitarstjórnarlöggjöf, er síðasta þing gekk frá á þann hátt að fela hæstv. stjórn að leggja frv. til breytingar fyrir þing það, sem nú situr.

Jeg skal taka það strax fram, að þótt jeg geri ekki ráð fyrir því, að þau orð sem jeg segi að þessu sinni, beri mikinn árangur, kann jeg þó ekki við að láta álíka mál og þetta fara svo frá þessari umr. að segja ekki álit mitt um það. Og jeg verð að lýsa yfir því, að jeg tel það í alla staði óverjandi að skera niður umræður um svona stórmál og meina þingmönnum að láta í ljós skoðanir sínar. Sjerstaklega verð jeg að víta það, að hæstv. stjórn, sem borið hefir fram frv., og hv. nefnd, er hefir haft það til athugunar, greiða atkvæði með því að skera niður umræður. Lítur hæstv. stjórn og hv. nefnd svo á, að þingmönnum sje ekki heimilt að ræða um dýrgrip þennan, heldur beri að samþykkja orðalaust frv. og brtt. nefndarinnar eins og fyrir liggur? Það er álit mitt og margra annara, að frv. þetta, er það kom frá hæstv. stjórn, hafi verið sá gallagripur, að ótækt hefði verið að samþ. það, og óhætt mun að fullyrða, að það var — og er að ýmsu leyti enn, þó að brtt. þær, sem fram eru komnar og til bóta eru, verði samþyktar. — í ýmsum greinum miklu verra en hin gamla og að mörgu leyti góða sveitarstjórnarlöggjöf, sem gilt hefir nú að undanförnu milli 20–30 ár.

Að þessi orð mín sjeu ekki sögð alveg að ástæðulausu, vil jeg með leyfi hæstv. forseta, styðja með ummælum úr nál. hv. nefndar, er um málið hefir fjallað:

..... og telur, ef brtt. nefndarinnar verða samþ., að veruleg bót verði ráðin á verstu annmörkum á núgildandi útsvarslöggjöf.“

Þegar hv. nefnd kemst að þessari niðurstöðu samkvæmt nál., að þá fyrst sje bætt úr verstu göllum núgildandi sveitarstjórnarlaga, ef brtt. hennar verði samþ., má það vera ljósasti vottur um, hvaða álit hún hefir á frv. eina og það kom frá hæstv. stjórn. Að vísu segir nefndin seinna í nál. sínu, að frv. sje vel undirbúið, en þar sem þau orð falla ekki sem best saman við hið fyrra í áliti hv. nefndar, geri jeg lítið úr því eða tek það ekki alvarlega. —

Í áliti sínu telur hv. nefnd galla þá, er hún telur, að verstir hafi verið taldir á gildandi sveitarstjórnarlögum, og eru þeir fjórir. Um þrjá fyrstu liðina get jeg að miklu leyti verið sammála nefndinni. Aftur á móti verð jeg að neita því, að fardagaárið sem reikningsár hreppanna hafi verið talið verulegur galli, í það minsta ekki til sveita. Þó má vera, að í einstöku sveitum hafi komið fram óskir um breytingu, en af hverju þær hafi komið, hafa enn ekki verið færð sæmileg rök fyrir.

Aftur á móti er það alveg rjett hjá hv. nefnd, að mjög mikil óánægja hefir verið yfir hinni víðtæku heimild atvinnusveitar til að leggja útsvar á utansveitarmenn. Ef vel er athugað, ligg jeg, að þessi heimild, sem sjerstaklega kemst í algleyming með hinum svokölluðu Reykjavíkurlögum, er samþ. voru á þinginu 1924 og sköpuðu afskaplegt misrjetti, hafi orðið til þess, að óánægjan varð jafnalmenn og raun varð á yfir útsvarslöggjöfinni. Hefði þeim lögum verið breytt á þinginu í fyrra, hygg jeg, að óánægju hefði nær alstaðar verið niður slegið, því að það var alkunna, að menn voru mest óánægðir yfir því hve menn voru oft og einatt svívirðilega eltir með ósanngjörnum útsvörum sveit úr sveit. (JakM: Ætlar hv. þm. að nota sjer það að búið er að skera niður umr., og því ekki hægt að svara honum?). Jeg vænti að hv. 3. þm. Reykv. taki það ekki illa upp af mjer, þó að jeg segi honum það, að jeg viti ekki til þess, að jeg þurfi hans leyfi til að segja það sem mjer sýnist, hjer í þessari hv. deild, ef jeg stilli orðum mínum í hóf: jeg hefi látið ummæli, er fallið hafa frá honum hjer í hv. deild. alveg óátalin undanfarið og vænti því, að hv. þm. geri mjer það sama. Annars hefði hv. þm. með atkv. sínu getað komið í veg fyrir það, að umræður væru skornar niður, ef hann hefði verið staddur hjer í deildinni við atkvæðagreiðsluna.

Jeg vil taka það fram, að jeg treystist ekki til að koma með brtt. að þessu sinni við frv., vegna þess að mjer þótti óvíst, hvaða svip frv. fengi við þessa umræðu. (KlJ: Alveg rjett). Það verður fyrst hægt að gera sjer nokkra grein fyrir útliti frv., þegar þessari umr. er lokið, því að þá verður það sýnt, hverjar af brtt. háttv. nefndar og einstakra þm. verða samþyktar.

Meðal margra annara galla í mínum augum á þessu frv. er það, að saman er blandað ákvæðum um sveitir og kaupstaði. Það er svo alkunnugt, að því þarf ekki að lýsa, hve ólík er tilhögun á ýmsum atriðum viðkomandi stjórn á sveitar- og bæjarmálefnum, að nauðsynleg skilgreining verður þar að eiga sjer stað í ýmsum tilfellum. Að laga galla á frv. að þessu leyti sýnist nefndin alls ekki að hafa reynt til. Annars virðist mjer, að hún hafi ekki lagt neina alúð við það að laga frv. svo að vel væri nema að því er hún leggur til breytingar á 9. gr. Ef dæla skal eftir því, hve vel nefndinni hefir tekist hvað lögun á þeirri grein snertir, þá hefði mátt vænta þess, að nefndinni hefði vel tekist að laga frv., hefði hún viljað vel gera. Það hefði hún þó vitanlega getað gert tímans vegna, því að hún er búin að hafa frv. til athugunar í fullar 4 vikur, og hefir þó ekki treyst sjer til að koma fram nema með 9 brtt.

Það er mjög svo greinilegt, hvar sem maður lítur á frv., að það er búið til af manni, sem kunnugri er í kaupstöðum en sveitum. Jeg verð því að slá því föstu, að svipur frv. mundi hafa orðið alt annar. ef hæstv. atvrh. hefði búið það sjálfur til, eina og jeg og fleiri munu hafa ætlast til í fyrra.

Auk þess, sem í frv. eru mörg algerlega óþörf ákvæði, kemur fram í því ákveðið vantraust til hreppsnefnda. Á jeg þar sjerstaklega við ákvæði 3. gr., að ekki megi jafna niður meiru en meðaltali undanfarinna þriggja ára, að viðbættum 1/5 hluta, o. s. frv. Telur nú nokkur þm. líklegt, að hreppsnefnd jafni nokkru sinni hærri upphæð niður á hreppsbúa en hún telur ítrasta nauðsyn til bera?

Þá verð jeg einnig að telja upptalninguna í II. kafla frv. algerlega óþarfa. Það segir sig nokkurnveginn sjálft, að hreppsnefnd metur ástæður og efni hvers eins eftir bestu samvisku, án þess að fá uppgjöf um það frá löggjafarvaldinu, innan hvaða ramma álagningin skuli vera. Orðið niðurjöfnunarnefnd í frv. kann jeg ekki við, þar sem átt er við hreppsnefnd. (PO: Aðeins með tilliti til þessa eina máls). Orðið hreppsnefnd er svo fast hugtak í meðvitund manna, að það er óþarfi að breyta því, en þetta bendir á það, sem jeg hefi áður sagt um frv., að það er sniðið eftir því, sem til hagar í bæjunum. Þar er t. d. bæjarstjórn alt annað en þeir, sem jafna niður útsvörum. Aftur á móti fer hreppsnefnd með sveitarmálefni hvers hrepps í heild, hverju nafni sem nefnast. Sannleikurinn er sá, að frv. þetta er, eins og gjarnan fleira í löggjöf vorri, fult af óþarfa ákvæðum, sem til einskis gagns eru, auka skriffinsku og erfiði þeim, sem framkvæmdina eiga að hafa á hendi.

Það má alls ekki búast við því, að allir sjeu jafnfærir til að fara með flókin lagaákvæði og formaður niðurjöfnunarnefndar Reykjavíkur. en frv. virðist næstum því vera sniðið með það fyrir augum, að sá maður verði að vera formaður allra niðurjöfnunar- og hreppsnefnda á landinu. Það er heldur ekki furða, þó að þessi smíðisgripur beri einhvern svip þess, er var aðalsmiðurinn.

Hv. frsm. nefndarinnar sagði fyrir skömmu, að nefndin vildi jafna niður eftir efnum og ástæðum. Um þetta er ekkert að segja, og jeg býst við, að við verðum sammála um það. En hún byggir á skattskýrslunum sem aðalgrundvelli. En jeg fyrir mitt leyti held, — þótt jeg slái því vitanlega ekki alveg föstu, — að þær sjeu svo óábyggilegar, að þær geti ekki verið nein veruleg undirstaða til að byggja útsvarsálagningu á. Mig minnir það standi á hverri skattaskýrslu, að framtalið sje gefið upp á æru og samvisku, — held að jeg fari rjett með það. (PO: Formaður skattanefndar ætti nú að vita þetta). Jeg man ekki satt að segja, hvernig orðin hljóða, en þetta mun vera meiningin. Það er rjett, að jeg ætti að vita þetta, eins og hv. þm. Borgf. benti á, en jeg veit líka annað. Jeg veit, að það er ekki ótítt, og það hjá embættismönnnm þessa lands, að strika yfir þessi orð áður en þeir skrifa undir. Hvaða meining skyldi svo liggja í þeirri yfirstrikun.? (K1J: Að framtalið sje ekki upp á æru og samvisku. — Atvrh. MG: Þá er það sama og ekkert framtal). Mjer þykir vænt um, að hæstv. atvrh. úrskurðar þetta. En þá vil jeg segja honum það í allri vinsemd, að það væri ástæða til að grenslast eftir, hvort þetta ætti sjer ekki stað, sem jeg hefi sagt, og það í mörgum tilfellum. (Atvrh. MG: Formaður yfirskattanefndar á að gera það). Í hverri sýslu? (Atvrh. MG: Já). Þá vil jeg leyfa mjer að upplýsa það, að einn virðulegur form. yfirskattanefndar hefir sagt mjer, að hann gerði þetta sjálfur. (PO: Tilgangurinn helgar meðalið. — Atvrh. MG: Vill ekki þingmaðurinn segja fjármálaráðherra frá því?). Hæstv. fjrh. heyrir nú, hvað jeg hefi sagt, og hann getur þá ráðið því, hvort hann vill grenslast eftir þessu. Jeg er ætíð reiðubúinn að gefa, sannleikans vegna, allar upplýsingar, ef henta þykir að krefjast þeirra.

Þá kem jeg að einu meginatriði í frv., sem nefndin hefir að mínum dómi ekki treyst sjer til að laga. Hún fylgir frv. í því, sem jeg tel með allra verstu göllum þess, sem sje að útsvörin sjeu lögð á síðla vetrar eða snemma að vorinu, í febrúarmaí.

Þá eru ákvæðin fyrir því, ef maður flytur í aðra sveit að vorinu. Segjum, að það sje lagt á hann í mars í heimasveitinni, en hann flytji sig fyrstu dagana í júní. Hafi verið of lítið lagt á hann í hlutfalli við gjöld í sveitinni, sem hann flytur inn í, þá er þeirri hreppsnefnd samkvæmt frv. heimilt að bæta við útsvar hans. Jeg er alveg hissa á, að hæstv. stjórn og háttv. nefnd hafi virkilega getað gengið inn á þessa braut. Með þessu er það ekki slegið niður, að ekki megi elta menn ósanngjarnlega með útsvarsálagningum, en sú var þó meginhugsun mín og annara, að með þessari löggjöf væri komið í veg fyrir það.

Jeg þarf ekki að taka það fram hjer, þótt mjer hinsvegar þyki það rjett vegna aðstöðu til málsins, að þau meginatriði sem jeg er ánægður með. — en þar eru ákvæðin um reikningsárið undanskilin, –vil jeg þakka nefndinni fyrir. Jeg hefi besta vilja til að fella mína skoðun við skoðun nefndarinnar og hæstv. atvrh. En þrátt fyrir það er mjer ómögulegt að sjá, hvað virkilega mælir með breytingunni. Hv. frsm. sagði, að reikningsuppgerð væri tíðari á þessum tíma, og að því leyti fjelli þetta betur saman. En þetta kemur í rauninni ekkert við reikningsuppgerð hvers einstaks manns, en að innheimta verði nokkuð ljettari, — jeg leyfi mjer að slá því föstu, að svo sje ekki. Það en altaf sama tregðan að innheimta útsvörin, hvenær sem þau eru lögð á. Og þess ber að gæta, að einmitt að vorinu til flyst fólk mest til sveita á milli.

Þar sem hreppar eiga jarðir og afgjaldið er í tvennu lagi, þá þarf að miða afgjaldið við tvenskonar verðlag. Þetta sýnist náttúrlega ekki mjög verulegt atriði, en er þó til þess að valda óþægindum.

Jeg álít, að undirstöðuatriði hverrar löggjafar ættu að vera þau, að um leið og hún sje sem rjettust sje hún einföld og sem hægust til framkvæmda. Það er að vísu svo, að það hefir komið fram, eftir þeim upplýsingum, sem nefndin byggir á, að 38 af svörum gagnvart færslu reikningsársins voru meðmælt, í 14 stöðum var engu svarað, en 8 svör voru á móti. Vel gæti það átt sjer stað, að ef miklu fleiri hefðu látið uppi vilja sinn í þessu máli, þá hefði meiri hlutinn ekki verið þeim megin. Það er engin sönnun til fyrir því, að bak við þetta standi þjóðarvilji almennur. Jeg býst ennfremur við, — þótt jeg þori ekki að slá því föstu, en hv. frsm. leiðrjettir mig, ef jeg fer ekki með rjett mál, — að 10 af umsögnum þessum sjeu frá fundi, sem haldinn var á Egilsstöðum, þar sem voru saman komnir oddvitar úr 10 hreppum. Að hreppsnefndirnar standi svo á bak við, er ekki frekar víst heldur en ef skírskotað er til vilja einnar nefndar úr þinginu og sagt, að það sje vilji þingsins. Jeg segi ekki, að þetta sje rangt, en það liggur engin sönnun í þessum svörum. En með þessari ályktun þess fundar, er jeg nefndi, telur nefndin, að þar hafi 10 hreppar tjáð sig fylgjandi færslu reikningsárs hreppanna.

Þó að jeg sje nefndinni sammála um ýmsa agnúa, sem hún telur vera í gildandi sveitarstjórnarlögum, þá verð jeg að mótmæla því algerlega, að jeg hafi talið meðal agnúanna, að reikningsár hreppa væri fardagaárið. Jeg hefi einmitt haldið því fram, að það væri hagstæðara fyrir sveitahreppsnefndir að geta jafnað niður um mánaðamótin okt. og nóv. Og enn vantar rök til að hrekja þetta. En með færslu reikningsársins sýnist það útilokað. Einmitt á þeim tíma álít jeg, að bændur hafi bestan tíma til að snúa sjer að slíkum málum. Miklu síður, þegar komið er fram í maímánuð. Einmitt þessi óhentugi tími gerir það að verkum, að það er ómögulegt að kæra útsvör sín. Því það mundi oft verða svo, að menn verða farnir frá heimili sínu löngu áður en útsvarið er lagt á, og vita því ef til vill alls ekki um það fyr en löngu á eftir að kærufrestur er útrunninn. (PO: Ekki annað en leggja á í febrúar). Hví er það þá ekki beint tekið fram, að leggja skuli á í febrúar? Nefndin hefir ekki teygt sig langt í því atriði. Þarna hefir hún gefist upp. Það er af engu öðru en því, að hún byggir á skattaframtali sem aðalgrundvelli. Að öðru leyti væri ekkert á móti því að breyta þessu. Menn byggja á því — og jeg hefi háttv. frsm. fyrir mjer í því, — að það sje ekki fyr en í þessum mánuði, sem skattaskýrslurnar sjeu fram komnar. Jeg skal ekki segja, að háttv. frsm. (PO) hafi kveðið eins sterkt að orði og háttv. þm. Mýr. (PÞ), sem sagði, að skattaframtalið væri ábyggilegasti grundvöllurinn til að byggja útsvarsálagningu á. (PÞ: Hefi jeg sagt það?). Jeg tók svo eftir. (PÞ: Að minsta kosti hefir mjer aldrei dottið það í hug). Þá verð jeg að slá því föstu, að það hafi þá komið einhvern veginn öðruvísi fram hjá háttv. þm., sem jeg hjelt að hugsaði venjulega áður en hann talaði. Jeg skrifaði orðin jafnskjótt og þau komu fram: skattaframtal ábyggilegasti grundvöllur útsvara. Jeg myndi alls ekki leyfa mjer neina fölsun í þessu tilfelli eða öðru og vil alls ekki fara rangt með orð háttv. þm.

Frv. þetta, sem er talsvert gallað að mínum dómi, lagast dálítið, ef till. háttv. meiri hl. verða samþ., en sjerstaklega ef ein till. hv. minni hl. nær fram að ganga, till. við 16. gr. a., í fyrri málsgrein, svo hljóðandi: „Skal nú kveðja einn úr skattanefnd“ falli niður. — Jeg álít þessa till. mjög viðeigandi. Að vísu kann jeg ekki við ákvæði frv. Það er svo fráleitt að ætlast til þess, að þessi maður úr skattanefnd skuli hafa 8 kr. þóknun úr hreppssjóði, en aðrir niðurjöfnunarmenn engan eyri. Ein fjarstæðan af mörgum. Ef hv. meiri hl., sem vill fella þetta. hefði lagt eins mikla rækt við að athuga alt frv. eins og þetta, þá hefði frv. komið þannig frá honum, að vel hefði mátt við það una. En ef það verður samþ. eins og það kemur frá þessri umr., þó að till. hv. meiri hl. nái fram að ganga, þá vantar enn mikið til, að það verði viðunandi.

Þótt það sje ekki meginatriði, þá vil jeg enn taka það fram, hversu fáránlegt það er að ætlast til þess, að þessi maður úr skattanefnd fái 8 kr. á dag, sem á að sitja með nefnd, er starfar kauplaust. Jeg tel alls ekki neina nauðsyn að launa hreppsnefnd á niðurjöfnunarfundi. Það er skyldukvöð, sem hefir hvílt á mönnum frá fornu fari, og getur það alveg eins gengið hjer eftir. Hvorki jeg eða aðrir eru neitt of góðir til að gera slíkt fyrir sveitarfjelagið án endurgjalds, sjerstaklega þegar tillit er tekið til þess, að það er ekki hægt að skylda neinn mann til slíkra starfa nema um ákveðið árabil. Jeg veit, að menn hljóta að kannast við það, — og jeg skírskota til hv. þm. Mýr., sem lengi hefir starfað í sveitarmálum, að það er ekki mest verkið fyrir hreppsnefnd að jafna niður, sem auðvitað þarf þó að gera með mikilli samviskusemi. Jeg byggi það á mínum kunnugleika á þessum málum, að jeg tel niðurjöfnunarstarf hreppsnefnda vera það minsta. Viðskifti við hreppa út á við, fjallskil og ómagaframfærsla eru aðalverk hreppsnefnda. Fyrir það fá þær enga borgun. Það er aðeins fyrir þetta eina starf, sem jeg hefi áður bent á, að ekki er það umfangsmesta, sem hv. minni hl. leggur það til, að þeir megi ekki fá 5 kr. á dag. Þótt máske dálítið rjettlæti felist í till. þessari, get jeg ekki fallist á hana, sjerstaklega af því, að hreppsnefndir starfa að öðru leyti kauplaust.

Þá kem jeg að því atriði, sem talsvert greinir á um, en það eru útsvarskærurnar. Það á að skjóta þeim til yfirskattanefndar eftir frv. Jeg fyrir mitt leyti er ákvæði þessu algerlega mótfallinn. Það er af því, að ef maður á að slá því föstu, að betur sjái augu en auga, þá er að minnast þess, að í sýslunefnd sitja jafnmargir menn og hreppar í sýslunni, og einum betur. Við verðum þó að vænta fyrst og fremst meiri kunnugleika og meira rjettdæmis í því, sem fleiri menn fjalla um, heldur en það verði aðeins skattanefndirnar, sem allan kunnugleika brestur, nema að því leyti er þeir sjá af skattaskýrslunum.

Jeg get sannað það fullkomlega með því að draga skjal hjer upp úr skúffunni, að ein skattanefnd á landi hjer hefir mælst til þess við stjórnarráðið, að það fengi lögákveðin einhver sektarákvæði gagnvart þeim, sem leyfa sjer að koma með kærur, sem yfirskattanefnd telur ekki rjettmætar. Með öðrum orðum, ef maður fær ekki leiðrjetting mála sinna hjá nefndinni, þá á að sekta hann. Undir dóm þessarar nefndar á að leggja útsvarskærur, sem jeg skal raunar viðurkenna, að eru mikið að minka frá því sem var. Áður voru menn að kæra út af 2–3 krónum, og fóru oft langar leiðir til þess að fá leiðrjettingu. Nú hafa menn sjeð, að slíkar umkvartanir voru svo lítils verðar, að slíkt hefir alveg fallið úr sögunni í seinni tíð.

Þá get jeg ekki fallist á, að neitt sje betra að hafa tvo gjalddaga fyrir útsvörin. Jeg er sannfærður um, að það er verra. Geti einhver ekki borgað alt útsvarið í einu, þá er jeg viss um, að engin hreppsnefnd mun ganga harðara að hlutaðeiganda fyrir því, og að vinsamlegt samkomulag geti orðið um greiðslufrest.

Löggjöf sem þessi, sem jafnvíðtæk verður í framkvæmdinni, hún á að vera sem allra einföldust og ljettust í vöfum. Hv. frsm. sagði í því sambandi, að hann hefði búist við, að einhverjir væru óánægðir með niðurjöfnun í maí, og að atvinnumálaráðuneytið hefði heimild til, ef ástæða þætti, að ákveða niðurjöfnun seinna á árinn. Hvenær þá? Það er ótiltekið. En að það fari fram seinna, er engin bót í máli, nema þá um mánaðamótin okt. og nóv. Nú vil jeg skjóta því til hæstv. atvrh., sem jeg treysti vel bæði í þessu máli og öðrum, hvort hann myndi geta samþ., að niðurjöfnun færi fram um mánaðamótin okt. og nóv. Í annan stað vil jeg spyrja hann, hvaða viðurlög eru fyrir því, ef hreppsnefnd skeytir ekkert um lögin og jafnar niður þegar henni sýnist. „Þá eru líklega sektarákvæði.“ segir einn háttv. deildarmanna. Það má nú vera; en væri ekki öllu vissara að setja slík sektarákvæði í frv. ? (PO: Ætli það hafi ekki verið sjeð fyrir þeim á einum stað?). Það er skylda nefndarinnar að hafa slík ákvæði þar, sem þau eiga að vera.

Jeg vil beina þeirri ósk til háttv. nefndar, þótt hún hafi gert, að því sem hún álítur hið besta gagnvart frv., að hún taki það til rækilegrar íhugunar til 3. umr. Jeg vil ennfremur beina þeirri áskorun og ósk til hæstv. atvrh., ef hann sjer sjer fært, að breyta því ákvæði frv., að reikningsárið mætti vera fardagaárið.

Í 6. gr. er smávægilegt ákvæði um það að útsvar skuli vera minst 5 kr. Sveitarstjórnarlöggjöfin, sem nú er, hefir staðið milli 20 og 30 ár, og það hefir ekki verið farið enn svo langt inn á svið hreppsnefnda, að ákveða þetta með lögum. Jeg hygg óþarft að efast um, að hreppsnefndir hafi jafnað niður eftir efnum og ástæðum af bestu samvisku og þess vegna tel jeg óþarft að lögbjóða neitt um þetta.

Jeg vil svo enda mál mitt með því að þakka nefndinni það, sem hún hefir gert til að bæta frv. Jafnframt verð jeg að lýsa því yfir, að þegar frv. um þetta efni var í meðferð í fyrra, var jeg með till. um að vísa því til stjórnarinnar. En jeg bygði á því, að hæstv. atvrh. myndi sjálfur vinna mest að málinu, því að honum treysti jeg til að hafa bestan kunnugleika í þessum efnum, sjerstaklega að því er snertir sveitirnar.

Það er sá rauði þráður í frv., að það er frekar sniðið við hæfi kaupstaða en sveita. Og væri frv. samþ. eins og það nú liggur fyrir, þá tel jeg það óhæft hjer um bil í alla staði.

Jeg get aldrei þakkað honum nógsamlega fyrir þessa viðleitni, en jeg vil ávíta hann fyrir að hafa ekki treyst sjer til að koma með nema 9 brtt.

Þann mismun, sem gerður er á landvinnu og sjávarvinnu, kann jeg ekki vel við, en það stefnir þó í rjetta átt, að heimilissveitin njóti sem mests af því, sem hver og einn vinnur sjer inn. En jeg er hv. meiri hl. nefndarinnar ósammála hvað snertir álit hans um atvinnusveit og heimilissveit. Um leið og atvinnusveitin á að fá tekjur, ætti hún að hafa einhverjar skyldur gagnvart gjaldendum, en þær hefir hún engar. Skyldurnar hvíla allar á heimilissveitinni. Ef maður verður veikur í atvinnusveit, kemur það á heimilissveit að sjá fyrir honum, ef hann á annað borð getur það ekki sjálfur. Jeg álít því rjettast, að megnið af útsvarinu falli í skaut heimilissveitarinnar.

Jeg kann mjög illa við það nafn á hreppsnefndum til sveita, sem notað er í frv., og mælist jeg til, að hv. nefnd lagi það. Skal jeg svo láta máli mínu lokið að þessu sinni.