20.03.1926
Neðri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki vera langorður. Það eru þegar flestir hv. þdm. farnir og uggir mig, að ekki verði helmingur þeirra við, þegar á að fara að greiða atkvæði.

Mjer skildist á háttv. þm. Mýr., að hann væri sár við mig út af ummælum mínum um brtt. hans. Mjer fanst jeg ekki viðhafa nein sterk orð, en jeg ljet í ljós álit mitt á brtt. hana og að jeg væri andvígur þeim, en til þess hefi jeg fullan rjett, engu síður en hann hefir rjett til að finna að frv. mínu. Jeg viðurkenni því ekki, að jeg hafi tekið brtt. hans óvinsamlega, en jeg benti honum á, að þær væru flóknar og ruglingslegar. Þetta hefir hann viðurkent með því að taka þær aftur og koma með aðrar nýjar. Þetta er sem sje 3. útgáfan af brtt. hans, endurbætt, en ekki aukin, því að margar hefir hann tekið aftur. Vona jeg svo, að mál þetta verði ekki fleiri daga til umræðu, því að jeg er ekki viss um nema hv. þm. Mýr. kæmi þá með 4. útgáfuna.

Jeg ljet í ljós undrun mína yfir hinu nána sambandi, sem hann taldi vera milli brtt. sinna — að ekki væri hægt annað en samþykkja annaðhvort allar eða enga. Jeg skifti brtt. hv. þm. í flokka og áleit, að hægt væri að fella eða samþykkja hvorn flokkinn fyrir sig, og virtist mjer hann viðurkenna þetta í dag. Sje jeg því ekki annað en að hv. þm. hafi farið eftir aðfinslum mínum og sýnt það í verkinu, að þær voru rjettmætar.

Hann sagði það kost á hundraðstölunni, sem hann vill finna út, að hægt sje að hækka hana og lækka, eftir því sem við á. Þetta sýnir, að það er engin trygging fengin með henni. Þá sagði háttv. þm., að það væri skakt í frv., að taka mætti tillit til áhættu atvinnuveganna, af því að, áhættan væri þá hjá liðin. Þetta er algerlega rangt hjá hv. þm. Það er hættan framundan, sem taka verður tillit til. Og einmitt á að taka tillit til hennar í skatti, sem jafnað er eftir efnum og ástæðum. Háttv. þm. sagði, að tryggja þyrfti bæði atvinnusveit og heimilissveit, en í frv. væri gengið lengra í því að tryggja heimilissveitina. Jeg vildi tryggja hvorutveggja jafnt, en 3. aðilinn, sem þarf að tryggja eru gjaldendur, og mörg ákvæði frv. miða að því að tryggja þá. Það hefir einmitt verið höfuðgallinn á útsvarslöggjöfinni að gjaldendur hafa ekki verið nægilega trygðir. Mörg ákvæði, sem hv. þm. heldur að sjeu til þess að tryggja heimilis sveitina, miða í raun og veru að því að tryggja gjaldendur.

Þá held jeg, að jeg þurfi ekki að svara þessum hv. þm. fleiru. Hans brtt. eru ekki nýjar; hann hefir felt niður brtt., en ekki bætt nýjum við.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann spurði, hvort ekki væri hætta á því eftir frv., að sú regla yrði tekin upp eftirleiðis, að hætt væri að leggja á fjelög og aðeins lagt á einstaklinga. Jeg álít á því enga hættu. Báðir aðiljar eru útsvarsskyldir. Annars breytir þessi brtt. hans ekki frv. Hann er þeirrar skoðunar, að ekki megi leggja bæði á fjelög og einstaka menn, en eftir frv., eins og það er frá mjer, yrði það alls ekki gert. Þetta ákvæði, sem hv . 2. þm. Reykv. vill nema burtu, er því sett sem varúðarregla, og eins og háttv. 2. þm. Rang. vjek að, er skilyrðið fyrir notkun þess það, að gjaldendur gefi nægar upplýsingar sjálfir.

Þá vil jeg segja hv. 2. þm. Reykv. það, að það er af ókunnugleika í atvinnumálaráðuneytinu, ef hann heldur, að atvinnumálaráðherra færi að skifta sjer mikið af útsvarskærum. Hann hefir heimild til þess, en honum mundi aldrei detta í hug að gera mikið, að því. Slík mál eru afgreidd eftir föstum reglum og verður því hreinasta skrifstofuverk er skrifstofustjóri annast. Ef hv. 2. þm. Reykv. vill ekki trúa þessu, þá heldur hann bara fram sinni brtt., og svo sker atkvgr. úr.

Þá var hv. þm. Barð. (HK) mjög argur yfir frv. og finnur á því marga og mikla galla. Jeg er honum auðvitað þakklátur fyrir vinsamleg ummæli í minn garð persónulega, en jeg get varla tekið þau til mín, vegna viðbótarinnar. Hann segir, að jeg sje ekki höfundur frv. Rjett er það, jeg hefi ekki sett það í letur, en jeg hefi verið með í ráðum um samning þess og er samþykkur öllum ákvæðum þess. Annars finst mjer ekki ástæða til að fara að tala um þau atriði, sem hann er óánægður með, en hefir ekki komið með neinar brtt. við. Hann áleit skattskýslurar aðalgrundvöllinn. Ekki er svo sagt í frv., en niðurjöfnunarnefnd á að hafa þær til hliðsjónar. Sjeu þær rangar, á hún ekki að fara eftir þeim.

Annars verð jeg að segja það, að hv. þm. Barð. miðar sína andstöðu gegn þessu frv. við alveg sjerstakar ástæður, sem jeg veit hverjar eru, og get sagt honum, ef hann vill.

Þá get jeg ekki sjeð, af hverju hv. þm. er því svo mótfallinn að hafa reikningsárið almanaksárið. Flestar hreppsnefndir eru þó sammála mjer. Jeg get ekki sjeð, að það sje ósanngjarnt að taka upp í löggjöfina vilja meiri hlutans. (HK: Það er enginn þjóðarmeirihluti fram kominn).

Þá taldi hann þóknunina til skattanefndarmanna ósanngjarna. En hún er þannig til komin, að jeg bjóst við, að á næsta þingi kæmi fram frv., sem ákvæði hreppsnefndum þóknun fyrir störf sín.

Það heyrast sterkar raddir um, að það þurfi að minsta kosti að bæta laun oddvita, því að þau hafa staðið óhreyfð síðan 1905.

Hv. þm. spurði hvort jeg mundi leyfa niðurjöfnun í október-nóember, ef hreppsnefnd sýndi mjer fram á nauðsynina til þess að gera það. Jeg get ómögulega skilið, að það sje ekki gerlegt fyrir hreppsnefndina að jafna niður á tímabilinu 1. janúar — 1. júlí, en ef svo gæti staðið á í einstökum tilfellum, mundi jeg auðvitað ekki setja mig upp á móti því.

Þá var hv. þm. Barð. illa við nafnið niðurjöfnunarnefnd, og vill heldur halda hreppsnefndarnafninu. En sje honum þetta jafnmikið áhugamál og hann lætur, ætti hann að koma með brtt.

Ástæðan til þess að þetta nafn var tekið upp í frv., var sú, að losast við það að vera altaf að nota jöfnum höndum í frv. niðurjöfnunarnefnd og hreppsnefnd.

Hinsvegar mun það verða svo í reyndinni, þó frv. þetta verði að lögum að hreppsnefndin missir ekki sitt forna heiti. (HK: Jú, jú). Hún mun áreiðanlega halda áfram að heita hreppsnefnd og verða kölluð það í daglegu tali, þó hún nefnist niðurjöfnunarnefnd þessa tvo eða þrjá daga á ári, sem hún er að jafna niður útsvörunum.