27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg skal gleðja háttv. deild með því, að jeg hefi a. m. k. einn góðan ásetning, og hann er sá, að vera stuttorður. Því fremur vona jeg að geta staðið við það, sem við þennan kafla fjárlaganna eru fremur fáar brtt. Jeg þarf ekkert að taka fram viðvíkjandi inngangi nál.; það ber sjálft með sjer, hvernig fjvn. lítur á málið, og getur hæstv. stjórn gert aths., ef henni þykir eitthvað ofsagt. —

Á undan einstökum brtt. vil jeg víkja lítið eitt að fjárlögunum í heild.

Það er víst alment álitið, að fjárlögin sjeu eitthvert merkasta, ef ekki undantekningarlaust allra merkasta málið, sem þingið fjallar um. Það er auðvitað algengt að telja ýms önnur mál merkustu málin, sem þetta og þetta þing hefir með höndum. En þetta mun mikið stafa af því, að fjárlögin eru svo hversdagsleg, að menn gleyma þeim, hafa ekki altaf í huga þýðingu þeirra. En þegar betur er aðgætt, þá hvíla í raun og veru öll önnur mál á þessu eina máli. Flest eða öll mál eru þannig vaxin, að fjárhagshlið þeirra er undir ríkissjóði komin, eða með öðrum orðum, undir fjárlögunum. Álit þjóðanna hverrar á annari er mjög mikið miðað við það, að sú þjóð, sem hefir með fjárlögum sínum trygt sjer sterkan ríkissjóð, hefir meira traust. Þannig svöruðu fyrir skömmu Bandaríkjamenn lánbeiðni Frakka, að þeir yrðu fyrst að koma lagi á fjárlög sín, áður en þeir fengju lán hjá þeim. Enda verður það ekki talið annað en hnignunarástand hjá einhverri þjóð, þegar stöðugur og stór tekjuhalli er á fjárlögum hennar.

Af þessu er það auðsætt, að það er hið mesta vandaverk að búa fjárlög vel undir þing og þá verður það hin mesta nauðsyn, að fjármálastjórnin leggi þar í alla sína þekkingu og samviskusemi.

Það mætti með mýmörgum dæmum sanna, að mistök í þessu efni er hinn mesti háski; t. d. ef tekjurnar næðu enganveginn áætlun, þá er vá fyrir dyrum. Sama er að segja, ef lögákveðin útgjöld ríkissjóðs fara langt fram úr áætlun, þá raskar það líka öllu.

Tekjuáætlunin er vog á alla fjárhagslega getu þjóðarinnar. Ef hún er of há, þá er vegið af þjóðinni. Það er svikin vog, sem kemur þannig niður á þjóðinni, að henni verður að íþyngja með sköttum, til þess að ná aftur jafnvæginu. — Á „normölum“ tímum stafa flest eða öll missmíði, sem verða á fjárhag þjóðarinnar, af ógætilegum fjárlögum. Við höfðum um langt skeið glæsilegt álit á okkur fyrir varfærna fjármálastjórn, og lifum á því enn, þótt mikill sje orðinn misbrestur á.

Mjer dettur það í hug, að nú lágu fyrir fjvn. mörg skjöl, sem fóru fram á fjárveitingu til að undirbúa hitt og þetta fyrir 1930. Það er sjálfsagt rjettmætt að biðja um hitt og þetta fyrir það ár. En ef við vildum hafa eitthvað, sem vekti á okkur sjerstaka eftirtekt, þá held jeg, að ekkert væri vænna til þess en skuldlaus ríkissjóður.

Ef það er nú rjett, sem jeg hefi haldið fram, að fjárlögin sjeu svona mikilsverð, hvernig stendur þá á því, að engin stjórn gerir fjárlögin fremur öllum öðrum málum að fráfararatriði? Nú er það síður en svo, að svo sje, heldur verður ekki annað sjeð heldur en að það sje í raun og veru alveg sama, hvernig þingið fer með fjárlögin; þó að það hækki tekjuáætlunina um miljónir og hlaði óhemju á gjöldin. Annaðhvort er tilgangur þeirrar stjórnar, sem þannig undirbýr fjárlögin, að þetta sje unt, sá, að gefa þinginu nóg svigrúm til að dansa í, eða það er gert af hreinu skeytingarleysi.

Það, sem jeg vil, að lögð sje áhersla á, er það, að hver stjórn geri sem áreiðanlegust fjárlagafrv., sjerstaklega tekjuáætlunina, og standi síðan og falli með því. Enda er það svo, að enginn hefir betri ástæður til að geta gert áætlanirnar vel úr garði heldur en einmitt stjórnin. Þó kemur það oft fyrir, að þingið tekur fram fyrir hendurnar á henni og hækkar tekjuáætlunina að miklum mun, til þess að geta síðan hækkað útgjöldin ennþá meira.

Jeg hefi eigi tekið þetta fram sakir þess, að meiri ástæða sje til að beina því til þeirrar hæstv. stjórnar, sem nú situr en til hverrar annarar. Heldur hefi jeg viljað minna hv. þm. á þetta sakir þess, að aldrei má afgreiða fjárlögin án þess að hafa þetta hugfast. Skal jeg svo ekki hafa þennan inngang lengri, en snúa að brtt. fjvn.

Vil jeg fyrst taka það fram, að við þennan kafla (1.–13. gr.) hefir nefndin lagt til, að gjöldin hækkuðu um 97100 kr., en jafnframt lagt til lækkanir um 45250 kr., svo að mismunurinn er 51850 kr., sem gjöldin hækka eftir till. nefndarinnar. En yfirleitt hefir nefndin (eins og tekið er fram í áliti hennar) lagt til, að tekjuáætlunin væri hækkuð um 310 þús., en útgjaldaáætlunin hækkaði um 283½ þús. kr. Auk þess leggur nefndin til, að útgjöldin lækki um 65½ þús., svo að tekjuafgangur frv. verður ca. 92 þús. kr. hærri samkv. till. nefndarinnar en ráð er fyrir gert í stjfrv.

Eftir það, sem jeg hefi áður sagt um varlegar áætlanir, kann það að þykja undarlegt, að nefndin leggur til, að tekjuáætlunin verði hækkuð svo mjög. En hún gerir þetta meðfram til þess að fyrirbyggja, að frekari hækkanir verði samþyktar, því að eftir reynslunni á undanförnum þingum má búast við mýmörgum brtt. í þá átt. En nefndin stendur öll með því, að lengra skuli eigi fara í hækkunum á tekjuáætluninni. Yfirleitt má líka segja, að brtt. fjvn. sjeu mjög varlegar.

Þá get jeg snúið mjer að einstökum brtt. Fyrsti liðurinn, sem nefndin leggur til að verði hækkaður, er útflutningsgjald, að í staðinn fyrir 950 þús. komi 1 miljón.

Þessi liður hefir hækkað mikið á síðustu árum, og þótt nú megi búast við verðlækkun á ísl. afurðum, má jafnframt búast við aukinni framleiðslu. Að þessu athuguðu þykir nefndinni ekki of djarft að hækka þennan lið upp í 1 miljón.

Næsti liður, sem nefndin vill hækka, er áfengistollurinn. Það er undarlegt tímanna tákn, hve hann hefir hækkað mikið og ört á síðustu árum, og eru engar líkur til, að hann lækki í náinni framtíð, nema bindindi aukist að mun. En til að forsvara nefndina vil jeg taka það fram, að 2 bannmenn, sem sæti eiga í henni, hafa álitið rjett að hækka þennan lið.

Annars álít jeg, að það eina, sem getur orðið til að lækka þennan lið, sje það, ef nú verður byrjað aftur á heilbrigðum grundvelli að aukning bindindis. Bannið hygg jeg að sje einskis virði.

Jeg get tekið víneinkasöluna undir sama „númeri“. Það er nú upplýst, að meiri hagnaður hefir orðið að henni á síðasta ári heldur en sjeð varð þegar hæstv. fjrh. (JÞ) samdi áætlun sína, og hefir nefndin hækkað liðinn á þeim grundvelli um 125 þús. kr.

Tóbakstollurinn er næsti liður, sem nefndin leggur til að hækkaður verði um 50 þús. kr. Nefndin hafði þar ekkert sjerstakt að byggja á, en þó varð ofan á, að hún áleit þessa hækkun rjettmæta. Annars býst jeg við, að hæstv. ráðh. (JÞ) geti upplýst eitthvað um þennan lið betur en jeg.

Þá er aðeins eftir „annað aðflutningsgjald“ tekjumegin. Nefndin hefir lagt til, að sá liður yrði hækkaður um 35 þús. kr. Þessi liður var á síðasta ári 228 þús., og þótt búast megi við allmikilli lækkun á honum, sakir þess að aðflutningsbanni er af ljett, álítur nefndin þetta ekki of langt farið.

Læt jeg þetta nægja um tekjuhlið frv. Þá kem jeg að gjaldahliðinni. Þá er fyrst brtt. við 10. gr., um að fella niður 3 liðina til sendiherra. Það er dálítið einkennileg aðstaða fyrir mig að tala um þennan lið. Ef jeg á að tala fyrir munn meiri hl. nefndarinnar, þá stafar niðurfellingin af sparnaðarástæðum og lítilli trú á nauðsyn sendiherra. Jeg hefi nú lengi staðið þarna megin, en er nú orðinn annarar skoðunar og verð að skýra ástæðurnar til þess. Eins og kunnugt er, þá hefir ekkert verið veitt, til sendiherra síðastliðin tvö ár, og var niðurfellina þeirrar fjárveitingar bygð á sparnaðarástæðum og einnig á lítilli trú á nauðsyn embættisins. Jeg var með þessu þá, vegna þess, að þá áttum við úti í Danmörku ágætan mann, er var mjög vel til þess fallinn að gegna starfi sendiherrans. Á ég hjer við Jón Krabbe. Nú hefir enginn leyft sjer að vefengja það, að þessi maður hafi rækt starfið framúrskarandi vel, og var ekki eftirsjá að fella niður sendiherraembættið meðan þessa góða manns naut við. En nú hefir hann tjáð stjórninni, að hann geti ekki lengur tekið þetta að sjer. Hann er ofhlaðinn störfum og því naumast fær um að gegna þessu. Þegar hans nýtur ekki við lengur, þá álít jeg, að ekki sje hvarvetna tekinn maður upp af götunni í hans stað. Því get jeg ekki annað en gengið inn á það að taka aftur upp sendiherraembættið. En jeg geri það með það fyrir augum, að við fáum að njóta þess góða manns, sem áður gegndi sendiherraembættinu, og legg jeg áherslu á það. Eitt af því, sem gerði mig ragan við þetta embætti, og gerði það að verkum, að jeg taldi það ekki hafa raunverulega þýðingu, var það, að eftir því sem utanríkismálin urðu umfangsmeiri, voru gerðir út ýmiskonar sendimenn við hlið sendiherrans. En ef góður maður er í sendiherraembættinu, álít jeg þeirra ekki þörf, nje þess kostnaðar, er af þeim leiðir. En er jeg lít á kostnaðinn við utanríkismálin, þá hika jeg ekki við að koma aftur inn á þessa braut, þótt jeg hafi áður verið henni fráhverfur. Því að niðurfellingin á þessum 45 þúsundum getur ekki átt sjer stað, þótt við tökum ekki upp sendiherraembættið, því að þessi kostnaður nam síðastliðið ár 32 þús. kr.

Þá kem jeg að 12. gr. Þar nemur hækkunin æðimiklu, 62400 kr., en lækkunin ekki nema 250 kr. Hækkunin liggur aðallega í auknu framlagi til sjúkraskýla og heilsuhælisins á Norðurlandi. 1. brtt. er lækkun á styrknum til læknavitjana. Stafar það af því, að nú hafa nokkrar sveitir gengið frá og hygt sjer sjúkraskýli og læknisbústað. Nefndin vill taka upp aftur sundurliðun á styrknum í fjárlögunum, svo engin mistök geti átt sjer stað um það, hverjir verði styrksins aðnjótandi. Næsta brtt. er nýr liður, 3000 kr. til þess að kaupa lækningaáhöld handa Röntgenstofunni. Í nál. er tekið fram, hvað kaupa eigi, áhöld, sem læknirinn telur að eigi verði hjá komist til þess að fylgjast með og gera stofnunina sem fullkomnasta. Nægir því að vísa til nál. Í þessu sambandi vil jeg minnast á notkun Röntgenstofunnar á árinu 1925 samkv. skýrslu læknisins. Skoðaðir hafa verið á árinu 708 sjúklingar, en 125 verið í röntgenlækningu. Sýnir þetta, að aðsóknin er mikil. Það er því vert að styrkja þessa stofnun og gera hana svo fullkomna sem hægt er.

Þá er næst brtt. um hækkun á tillaginu til sjúkraskýla og læknabústaða. Eins og tekið er fram í nál., er hækkunin gerð fyrir eitt sjúkrahús, sjúkrahúsið á Siglufirði. Hækkunin er miðuð við áætlun, sem gerð hefir verið um byggingu sjúkrahússins. Jeg þarf ekki að taka það fram, hverja þýðingu það hefir að hafa gott sjúkrahús á þessum stað. Þangað sækir fjöldi framandi manna til fiskiveiða, sem þurfa að leita læknis. Menn hafa oft orðið að ganga á milli bæjarbúa til þess að fá pláss, og ekki fengið og orðið frá að hverfa. Nefndin telur þessa hækkun sjálfsagða, og get jeg sparað mjer frekari ummæli um þetta, uns aðrar raddir heyrast. Í sambandi við þetta sjúkraskýlamál hafa legið fyrir margar beiðnir um lokafjárframlög til sjúkraskýla, sem þegar eru reist, af því að byggingarkostnaður hafi orðið meiri en ætlast var til í upphafi. En það var meining síðasta þings, að áætlanirnar væru svo ábyggilegar, að ekki þyrfti að veita uppbót. Nefndin hefir sent landlækni þessar beiðnir, og lagði hann til, að ekki yrði tekin ákvörðun um þetta að sinni, þar sem byggingarnar væru ekki fullgerðar víða og fullnaðarreikningar lægju ekki fyrir. Nefndin fellst á, að rjett væri að taka þetta alt fyrir á einum grundvelli, þegar fullnaðarreikningar lægju fyrir og málið væri komið í fast horf.

Næst er brtt. við 12. gr. 15. e., heilsuhæli Norðurlands. Heilsuhælisfjelagið hefir með símskeyti, sem fyrir nefndinni lá, farið þess á leit, að tillag ríkissjóðs yrði hækkað um 100 þús. kr., eða upp í 250 þús. kr. Því miður liggur ekkert fyrir frá Heilsuhælisfjelaginu, sem á er að byggja, nema símskeyið. En þar segir, að á nýafstöðnum fundi leyfi stjórnin sjer að fara þess á leit, að fjárveitingin verði hækkuð upp í 175 þús. kr. Nefndinni þótti þetta skjóta nokkuð skökku við frá því á síðasta þingi, er áætlað var, að heilsuhælið kostaði ekki nema 300 þús. kr., er ríkissjóður kostaði að hálfu. En nú er kostnaður áætlaður 500 þús. kr., og framlag ríkissjóðs yrði því 250 þús. kr. Húsameistari ríkisins hefir nú gefið nefndinni þær upplýsingar, að frá því í fyrra hafi ýmsar breytingar verið gerðar á byggingu hælisins, svo sem rafvirkjun ákveðin til hita og ljósa, og því eðlilegt, að breytingar yrðu á með kostnaðinn. En húsameistari heldur því fram, að þessi áætlun muni algerleg vera örugg. Í þessum upplýsingum er líka tekið fram, að fjelagið hafi safnað 225 þús. kr. til byggingarinnar. Til þess nú að ríkið legði fram 250 þúsund, vildi nefndin, að það lægi skýrt fyrir, að fjelagið hefði safnað öðru eins, til byggingarinnar sjálfrar. En það er ekki fastákveðið, hverju af þessu safnaða fje verður varið til byggingarinnar. Það er upplýst, að í byggingarkostnaðinum eru taldar 50 þús. kr. til innanhúsmuna, og auk þess fleiri smáupphæðir, er telja verður fjarskyldar byggingarkostnaðinum. Auk þess er kostnaðurinn við afleggjarann af brautinni heim að hælinu líka metinn með, en á hann verður tækifæri til að minnast síðar. Nefndin vill því ganga út frá því, að 200 þús. kr. af fje því, sem safnað er, sje beinn byggingarkostnaður, og leggur því til, að ríkissjóður leggi af mörkum í fjárlögum 1927 þá upphæð, sem verði með því, sem í gildandi fjárlögum er veitt, 200 þús. kr. Nefndin hækkar því lið þennan upp í 125 þús.

Næst er nýr liður, 800 kr. styrkur til Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna. Fjelag þetta hefir með höndum nám allra hjúkrunarkvenna landsins. Það er tveggja ára nám, 1½ ár á spítölum og ½ ár við hjúkrunarfjelagið „Líkn“, sem ekki hefir efni á að launa nemendur sem vert er. Þær hafa 50 kr. á mánuði, og er ómögulegt að lifa á því. Fjelag þetta hefir því styrkt þær úr sjóði sínum með 50 kr. á mánuði, en nú er sjóðurinn tæmdur. Fjelagið hefir því sótt um 1500 kr. styrk og beint tekið það fram, að hann ætti að ganga til hjúkrunarkvenna, sem færu út um sveitir landsins. Nefndinni þótti viðurhlutamikið að verða ekki við áskorun um það að leggja nokkurt fje af mörkum til þess, að hjúkrun og heilbrigðiseftirlit í sveitum fari batnandi, og leggur því til, að veittar verði 800 kr. til fjelags þessa.

Þá er síðasta brtt. við 12. gr., hækkun á styrknum til Halldórs Arnórssonar umbúðasmiðs. Styrkur þessi var hækkaður á síðasta þingi, en þó ekki eftir kröfum hans. En hann hefir lýst því með rökum, sem nefndin hefir fallist á, að hann er vanhaldinn af þessum styrk eins og hann er, og vill nefndin því hækka hann um 600 kr. Hún þykist þess fullviss, ef þessi maður hætti, þá væri ekki hægt að fá hjerlendan mann til starfans, en hinsvegar afarkostnaður að sækja þetta til annara þjóða, og kæmi niður á þeim, sem síst skyldi, fötluðum mönnum.

Þá er komið að 13. gr. Hún er hækkuð um 35 þús. kr. Fyrst er brtt. um Hróarstunguveg. Fjárveiting til hans er hækkuð úr 15 þús. upp í 20 þús. Fyrir þessu er grein gerð í nál., og því ekki ástæða til þess að fara frekari orðum um það að svo stöddu. Auk þess koma fram brtt. þessu viðvíkjandi, brtt. hv. þm. N.-M., og er þá tækifæri til þess að skýra afstöðu nefndarinnar.

Jeg vil í þessu sambandi geta þess, að áætlað er að verja stórri upphæð til brúargerða, 200 þús. kr. Þó nefndin hafi ekki gert brtt. við þennan lið, þá vil jeg skýra frá því hjer, hvernig vegamálastjóri hugsar sjer, að þessi upphæð verði notuð, og stjórnin hefir fallist á það. Á næstu 3 árum er áformað að byggja brýr á Hjeraðsvötn og Hvítá í Borgarfirði. Það eru langstærstu og dýrustu brýrnar, og búist er við, að þær kosti 260 þús. báðar.

Vegamálastjóri segir, að næsta ár verði lítið eitt byrjað á Hjeraðsvatnabrúnni, og lendir því mestur hluti kostnaðarins á árunum 1927–28. Vill hann áætla til þeirra beggja 1927 130 þús. kr. Auk þess áætlar hann 70 þús. kr. til að byggja minni brýr og gera við gamlar. Meðal þeirra brúa, sem hann vill sjerstaklega nefna, eru brýr yfir Hölkná í Þistilfirði, Eskifjarðará, Grímsá á Völlum og Bakkarholtsá og Gljúfurholtsá í Ölfusi. Af þessu getur háttv. deild sjeð, hvert stefnir með brýrnar.

Jeg gerði fyrirspurn til vegamálastjóra um brýr í mínu kjördæmi, hvort ekki kæmi til mála, að þær yrðu bygðar á árinu 1927, og sagði hann, að það væri tilætlunin. Jeg get þessa vegna þess, að það er betra að það sje tekið rækilega fram, hvað vegamálastjóri hugsar sjer, að gert sje.

Þá er komið að fjallvegunum. Þar leggur nefndin til, að liður sá, verði hækkaður um 4000 kr. Hækkunin stafar af því að sumu leyti, að hreppsnefnd Skútustaðahrepps hefir farið fram á, að lagt verði af fjallvegafje til vegagerðar yfir heiðina milli Reykjadals og Mývatnssveitar til framhalds veginum upp Reykjadal, sem búist er við, að lokið verði næsta sumar. Nauðsyn þessa er viðurkend af vegamálastjóra.

Sveitin hefir hjálpað til að láta gera veginn um heiðina, og byggir hún á því umsókn sína. Nefndinni fanst, þar sem þessi hreppur hefir lagt 10 þús. kr. í þennan veg, án þess þó að nokkuð af þessum vegi liggi í þessari sveit, að hreppurinn hefði nú lagt svo mikið á sig þarna, að það væri naumast gerlegt að neita um nokkurt fje til þessa. Þó er þessi fjárupphæð ekkert sjerstaklega miðuð við, hvað þetta hefir kostað, heldur veitt til þess að leggja í þennan veg, og einnig til þess að halda áfram vegagerð á Kolugafjalli, sem hafin hefir verið áður, en það á að vera eftir mati vegamálastjóra, hvernig hann skiftir fjárveitingunni milli þessara staða, eftir því sem hann álítur þörfina knýjandi á hvorum stað.

Þá er næsta brtt. nefndarinnar um hækkun á fjárveitingu til akfærra sýsluvega. Þetta framlag til sýsluveganna hefir undanfarið verið lægra, og í þeirri fjárkreppu, sem var, var gert mjög lítið og takmarkað, en vegamálastjóri telur, að það væri mjög nauðsynlegt, að hjer væri ætlað sem ríflegast fje til, þar sem verkið sje mjög mikið og ekki síður áhugi til að vinna, og vill hann þess vegna leggja til, að fjárframlag til þessa verks fari stöðugt vaxandi, svo sem kostur er á. Þess vegna hefir nefndin hækkað þennan lið, þó aðeins óverulega, um 5000 kr.

Næsta brtt. nefndarinnar er aðeins orðabreyting, að fyrir 40 þús. kr. komi: alt að 40 þús. kr. Það er aðeins gert í því skyni, að það er álit hennar, að ekki fari meira til þessa en þær 40 þús. kr., sem ákveðnar eru.

Þá er næsta brtt. nefndarinnar við liðinn „Nýjar símalagningar“. Leggur hún til, að liðurinn sje hækkaður um 15 þús. kr., sem er símalínan frá Minni-Borg austur í Biskupstungur. Landssímastjóri hafði gefið meðmæli sín með þessari brtt. og annari brtt., sem nefndin hefir ekki tekið upp, en sem nú er komin frá öðrum hv. þm., og þess vegna tók nefndin upp þessa brtt.; en í sambandi við þetta vil jeg upplýsa það, að eftir tillögum landssímastjóra um það, hverjar línur er fyrirhugað að leggja fyrir þessar 300 þús. kr., sem áætlaðar eru í stjfrv., þá er það fyrst Barðastrandarlínan. Þessi lína tekur náttúrlega mest upp af fjenu, því að áætlað er, að hún muni kosta um 240 þús. kr., en jeg fjölyrði ekki frekar um þetta, því að það gefur að skilja, að þar sem nefndin gerði ekki neinar aths. við þetta, þá gengur hún inn á það, sem hann leggur til. Hann telur, að síminn til Vestfjarða komi ekki að fullum notum fyr en þessi lína er lögð, því að hún hafi svo mikla þýðingu fyrir fiskiveiðarnar, og veit jeg, að hv. þm. Barð. (HK) ætti ekki að koma það illa að fá hjer meðmæli frá fjvn. þessarar deildar. Þá koma næstar línan að Skálum á Langanesi og Fljótshlíðarlínan. Jeg skal svo ekkert fjölyrða um þetta frekar, nema geta þess, að áætlun landssímastjóra verður ekki alveg fylgt, því að eins og tekið er fram í nál., verður loftskeytastöð ekki bygð í Öræfunum vegna þeirrar fyrirhuguðu Suðurlandslínu, sem nú á að fara að leggja. Þá eru hjer 1200 kr., sem á að veita til símalínu frá Breiðumýri til Laugaskólans. Eru eindregin meðmæli landssímastjóra með henni, og þingið hefir líka áður gengið inn á samskonar fjárveitingu til skólans á Núpi í Dýrafirði.

Næsta brtt. nefndarinnar eru 2 þús. kr., sem veittar eru til kenslu símamanna. Landssímastjóri hefir oft farið fram á, að veitt væri fje til utanfarar símamanna, og því er ekki hægt að neita, að það hefir mikla þýðingu fyrir starf þeirra, en það er með það eins og annað, að það hefir ekki fengist nein fjárveiting til þess. Nú hefir landssímastjóri í hyggju að koma upp kenslu fyrir símamenn hjer í Reykjavík og ætlar hann mikið af þessu til kenslu og áhaldakaupa, en það er aftur á valdi landssímastjóra og ríkisstjórnar, hvort eitthvað af þessari upphæð verður notað til utanferða; um það vill fjvn. ekkert ákveða.

Síðasta brtt. um fjárframlag, sem um ræðir í þessum kafla, er styrkur til Gunnlangs S. Briems, til framhaldsnáms í símaverkfræði. Jeg held að jeg þurfi engu við það að bæta, sem stendur í nál. Þarna er um að ræða fræðigrein, sem okkur er mjög nauðsynlegt að fá vel hæfan mann í, og svo er það, að þessi maður, sem hjer er um að ræða, er, eftir þeim skjölum, sem fyrir liggja, sjerstaklega efnilegur, og því leggur nefndin til, að honum sje veitt þetta.

Loks er síðasta brtt. aðeins orðabreyting, sem á að sýna þá aðstöðu nefndarinnar, að hún vill láta takmarka sem kostur er á aðstoð þá, sem hjer ræðir um, svo ekki þurfi þar til fullkominn mann.

Það eru ekki fleiri brtt. við þennan kafla, sem mjer tilheyra, og jeg hefi viljað gera hv. þd. það skiljanlegt, sem nefndin hefir lagt til, og vona jeg, að hv. þm. láti það ekki ráða atkv. sínu, þó að jeg kunni að hafa gleymt einhverju.