16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

15. mál, útsvör

Klemens Jónsson:

Jeg get verið stuttorðum um brtt. mínar við frv., því að hv. frsm. allshn. hefir lýst yfir því, að hún geti aðhyllst þær, eða a. m. k. tvær þeirra. Eins og hv. þm. muna. orkaði það mjög tvímælis við 2. umr., hvort orðin í 6. gr. II. 1. næðu tilgangi sínum. Það voru allir sammála um það í hv. deild, að ekki væri rjett að leggja bæði á fjelagið og fjelagsmanninn vegna eignar hans eða tekna af því. En sumir hv. þm. drógu það í efa, að þessi skilningur gæti samrýmst orðum greinarinnar, eins og þau hljóðuðu.

En úr því allir eru sammála um þetta atriði, finst mjer það vera sjálfsögð skylda þingsins að ganga svo frá þessu, að trygt væri. Það hefir oft farið svo, að þegar átt hefir að framkvæma lög Alþingis, þá hefir verið erfitt að fá einhverja meiningu út úr þeim og fljótt komið fram ýms vafaatriði. Jeg tel það því skyldu þingsins að vanda sem best löggjöfina, og einkanlega lög sem þessi, sem telja verður með þeim þýðingarmestu. Þess vegna hefi jeg komið með þessa brtt. á þskj. 284. við 1. lið II, sem tekur af allan vafa um það, að þegar lagt er á fjelag, má ekki leggja á eign manns í fjelaginu. Hefir hv. frsm. allshn. tekið þetta til greina, og vona jeg, að ekki verði ágreiningnr um þetta atriði.

2. brtt. mín er við 27. gr. frv. Hv. frsm. gat um það viðvíkjandi þessari brtt., að hið sama hefði vakað fyrir nefndinni, og hefði hún því aðhyllst hana. Jeg vil nú ekki vjefengja það, að nefndin hafi litið svona á þetta. En vafalaust gera aðrir það ekki, og ekki heldur framkvæmdarvaldið. Það er nefnilega almenn venja í borgaralegum málum, að kæra eða áfrýja í hvaða mynd sem er hefir frestandi afl. stöðvar framkvæmd þeirrar athafnar, sem kært er yfir eða áfrýjað. Ef því útsvar er kært eða útsvarskæru áfrýjað, þá er það svo eftir almennum reglum, að útsvarið er ekki krafið inn á rjettum gjalddaga, heldur þá fyrst, þegar úrskurður er fallinn. Þessari sömu skýringu hefir verið fylgt hjer í Reykjavík. Jeg kærði einu sinni útsvar mitt og áfrýjaði og fjekk ekki útsvarsseðilinn fyr en útgert var um úrskurðinn. Mjer finst, að þetta mætti ekki eiga sjer stað. Menn gætu, aðeins með því að kæra, skotið sjer undan því að greiða útsvarið í langan tíma, og eftir frestinum í frv. gætu liðið 6 mánuðir frá því að það er lagt á og þangað til úrskurður er fallinn um það í stjórnarráðinu. Ef til dæmis niðurjöfnun fer fram 15. apríl þá er gjalddaginn þann 1. maí, en innan þess tíma getur viðkomandi kært útsvar sitt. Þarf þá niðurjöfnunarnefnd að kveða upp úrskurð sinn innan tveggja vikna. Getur þá viðkomandi áfrýjað innan 2 vikna þar frá til skattanefndar og hún kveður upp úrskurð sinn eftir tvær vikur. Eru þá liðnar 8 vikur frá því að útsvarið var lagt á. Getur nú viðkomandi enn áfrýjað til atvinnumálaráðuneytisins eftir tvo mánuði frá því að úrskurðar skattanefndar fjell. Þarf svo atvinnumálaráðuneytið ekki að kveða upp úrskurð sinn fyr en eftir 2 mánuði. Það geta þannig liðið 6 mánuðir þangað til úrskurður er fallinn og útsvarið á að greiðast; það getur að vísu orðið eitthvað styttri tími, en það fer eftir því, hvað hver einstakur aðili er fljótur með úrskurð sinn. Og ef ekki væru nein föst ákvæði um það, að útsvar verði að greiða strax, enda þótt kært sje, þá gætu menn sjeð sjer hag í því að kæra og áfrýja og borga ekki útsvör sín fyr en seint og síðarmeir. Það vakti fyrir mjer, þegar jeg kom með þessa brtt., að girða fyrir sig beint með lögum, og þar sem hv. allshn. hefir fallist á það, þá vænti jeg þess, að það verði samþ. hjer í þessari hv. deild.

3. brtt. mín er um það, að í staðinn fyrir 1% komi ½%. Jeg veit, að þetta ákvæði hefir reynst sem gott aðhald við gjaldendur hjer í Reykjavík, en samt hefir það vakið mikla óánægju, og er það næsta þungbært fyrir þá menn, sem eiga erfitt með að greiða útsvar sitt á rjettum gjalddaga. Og þótt menn hafi eitthvað umleikis, getur þeim verið um megn að greiða útsvar sitt í gjalddaga, og margir, einkum embættismenn, hafa neyðst til þess að greiða útsvar sitt seinna, og hefir þeim því verið mjög tilfinnanlega að þurfa að borga háa dráttarvexti að auki. Þess vegna kom jeg fram með brtt. um að lækka þá um helming, og var reyndar í vafa um, hvort jeg ætti ekki að fara hjer einhvern milliveg, t. d. lækka ekki nema niður í ¾. Get jeg því fallist brtt. hv. allshn., sem einmitt fer fram á það, og gengið inn á ¾%, og tek jeg því brtt. mína á þskj. 284 aftur og greiði atkv. með brtt. allshn.

Jeg finn ekki ástæðu til þess að minnast á brtt., sem komið hafa fram frá öðrum hv. þm. En jeg vil benda á það, að þegar um svona mikið og flókið mál er að ræða sem þetta, að þá er hætt við því, að fram komi ýmsar brtt., sem óviljandi geta raskað „principi“ og heildarsvip frv. Jeg legst því á móti mörgum brtt. einstakra hv. þm., og þótt jeg geti ekki í fljótu bragði sjeð, hvort þær muni raska nokkru, þá er jeg ekki viss um, nema svo kunni að vera.