16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

15. mál, útsvör

Sigurjón Jónsson:

Jeg ætla að minnast hjer lítilsháttar á brtt. á tveim þskj. Það eru brtt. frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), á þskj. 226. og brtt. sú, er háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði um. frá háttv. þm. Borgf. (PO) og fleirum.

Jeg vil aðeins leggja áherslu á það, eins og háttv. 2. þm. Reykv. tók líka fram, að ástæðan til þess, að endurskoðun útsvarslaganna fór fram, var sú, að þingið hafði gengið alt of langt í því að veita atvinnusveitunum rjett til þess að elta menn með útsvarsálagningu. Það kom fram á síðasta þingi og einnig á þinginu 1924, að þm. var það fyllilega ljóst, að hjer var komið í óefni og menn voru hjer á hinni hættulegustu öfgabraut. Jeg hefi látið það í ljós fyr, og síðast við 2. umr., að því glögglegar, sem menn geta horfið af þessari braut og fjarlægst hana, því betur gera þeir þessu máli. En sumir virðast eiga erfitt með að taka upp aðra og heillavænlegri stefnu, og skal þar fyrst telja háttv. 2. þm. Eyf. Hann kom fram með brtt. við 2. umr., og kemur nú enn með þær, er ganga í sömu átt og áður, að ná sem mestu útsvari í atvinnusveit. Skil jeg það auðvitað vel, að atvinnusveitin er betur trygð með því að leggja sjálf á útsvörin heldur en að taka aðeins hluta af þeim og heimilissveitin ákveði þau. Og eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, á þetta að nást með því að flytja ákvæðin frá 9. gr. yfir í 8. gr.

En það er annað í þessu sambandi, sem minna er hugsað um, og það er rjettur gjaldenda. Menn ættu ekki síður að athuga þessa hlið málsins. Er rjettur þeirra fyrir borð borinn eða er gjaldþoli þeirra misboðið? Og jeg hika ekki við að segja að svo sje. Þeir eru misrjetti beittir eins og sakir standa nú. En með því að gefa atvinnusveitinni útsvarsleyfi, eins og gert er í 9. gr., er gengið út frá því, að gjöld þau, er lögð verða á menn, hljóti að vera í samræmi við gjaldþol þeirra og ekki verði aðeins tekið tillit til atvinnu þeirra um þriggja mánaða tíma, heldur og til atvinnu þeirra alt árið.

Það þýðir ekki í þessu sambandi að vera að fara í neinn launkofa með það, sem fyrir háttv. 2. þm. Eyf. vakir. En það er Siglufjörður og rjettur hans til þess að ná útsvari af mönnum, sem dvelja þar um stuttan tíma við vinnu. Hefir rjettur þessi verið misnotaður, og vil jeg fyrir mitt leyti, að kaupstaðurinn missi hann. Enda álít jeg það ekki skifta miklu, þótt hann missi rjett sinn til þess að leggja á báta, sem eru þar aðeins stuttan tíma. En ef fiskurinn er lagður þar upp og verkaður, þá hefir kaupstaðurinn auðvitað tækifæri til þess að ná gjaldi af þeim mönnum, er aflann kaupa. Þannig er lagt á gjaldendur, sem búandi eru á Siglufirði, og er efnahagur þeirra og ástæður allar mönnum þar kunnar. En sjálfsagt verða þeir, er aflann kaupa, að taka tillit til þess í kaupunum, að þeir eiga að borga þar útsvar.

Það hefir mikið verið rætt um þetta mál við 2. umr., og er því engin þörf að ræða það frekar.

Jeg vil fara sem skemst inn á þá braut, að atvinnusveitirnar leggi á menn útsvör. Það eru einmitt heimilissveitirnar, sem þekkja best til og færastar eru að dæma um efnahag manna og ástæður, sem leggja eiga á útsvörin. Síðan eiga atvinnusveitirnar að fá hluta af þeim, eftir nánari ákvæðum þar að lútandi. Hitt gæti frekar orkað tvímælis, ef bátar legðu upp afla sinn þrisvar sinnum á ári og liði langt á milli. Það gæti gert fjórar vikur samtals, og yrði þetta þá mjög óljóst. Jeg vona, að hv. deild sjái samræmið í þessari till. á þskj. 288 við fyrri vilja deildarinnar í þessu máli. Tillögunni á þskj. 226. frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), mæli jeg mjög ákveðið á móti.