16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

15. mál, útsvör

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg skal snúa mjer að þeim brtt., sem hjer liggja fyrir. Það eru þá fyrst brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), á þskj. 216. Hann vill breyta upphafinu á 7. gr., af því að honum þykir orðalagið ekki nógu skýrt. Nefndin lítur svo á, að ekki sje þörf á þessari breytingu, því að skýrt komi fram síðar í greininni, hvað átt sje við. Sama er að segja um brtt. þessa hv. þm. við 9. gr. Það eru raunar aðeins orðabreytingar, sem nefndinni finst ekki ástæða til að taka til greina.

Þriðja brtt. er um vátryggingarfjelögin og var þetta atriði dálítið rætt við 2. umr., sem sje að skifta útsvari af tekjum vátryggingarfjelaga. Þegar þetta kom til umræðu í annað sinn í nefndinni, var haft á móti þessari brtt. af þeirri ástæðu, að það væri mjög erfitt að ákveða tekjur slíkra fjelaga nema á einum stað, þ. e. nema þar, sem þau hafa aðalbækistöð sína, og því var meiri hluti nefndarinnar á móti þessari brtt. Jeg fyrir mitt leyti get þó greitt henni atkvæði.

Þá kem jeg næst að þeirri brtt., sem leggur til, að í stað 1/3 sem heimilissveit eigi að hafa óskert af útsvari gjaldþegns, sem verður útsvarsskyldur utan heimilissveitar samkv. frv., skuli koma helmingur útsvars. Með þessu er að vísu rjettur heimilissveitar enn betur trygður, en þó leit nefndin svo á, að svo gæti staðið á, að þetta ákvæði yrði ekki sanngjarnt, t. d. ef gjaldþegn rekur nær alla atvinnu sína utan heimilissveitar, þá sje ef til vill fullmikið gengið á rjett atvinnusveitar. með því að hún fengi þá ekki nema 1/3 í stað helmings af útsvarinu, og þess vegna getur nefndin ekki fallist á þessa brtt.

Þá kem jeg að viðaukabrtt., um það, ef atvinna er rekin ekki skemur en 4 vikur: — þetta er mikil breyting frá því, sem brtt. hljóðaði áður um, því þar voru engin takmörk sett, en aðeins tekið fram, ef um styttri tíma en 8 vikur væri að ræða. Þetta hefir verið gert til að koma brtt. í samræmi við b.-lið greinarinnar. Mjer finst samt, að þetta greiði ekki úr þeim misskilningi, sem hætt er við, að brtt. geti valdið og get því ekki fallist á brtt.

Þá kem jeg næst að 1. brtt. háttv. 2. þm. Eyf. (BSt). um að selveiði verði sett undir sömu ákvæði og laxeiði. Þegar þetta var rætt hjer við 2. umr. um frv., benti jeg á, að undir 8. gr. hefðu verið fluttar allar tegundir atvinnu, sem bundin var við fasteignaafnot. Að nefndin tók laxveiðiafnot með, kom til af því, að laxár eru metnar sjerstaklega til fasteignarverðs, þar sem þær hafa oft verið seldar undan jörðunum. Þær eru því orðnar alveg sjerstök fasteign, og hafa því viðkomandi hreppar útgjöld af þessum sem öðrum fasteignum, og þá var alveg sjálfsagt, að laxveiði kæmi undir þessi sömu ákvæði. En því verður vart mótmælt, að selveiði, ef hún er ekki stunduð af skipum, er einnig bundin við jarðarafnot, en til þess eru vart dæmi, að hún hafi verið seld sjer staklega undan jörðunum, og því er það engin röskun á stefnu frv., þó að selveiði verði ekki tekin með undir ákvæði 8. gr. en þó skal jeg játa, að þetta eru allskyld mál.

Þá kem jeg að aðalbrtt. þessa hv. þm., sem vill færa allan atvinnurekstur undir ákvæði b.-liðs 8. gr., jafnvel þó styttri tíma sje rekinn en 8 vikur, svo að atvinnusveit hafi álögurjett á þennan atvinnurekstur.

Jeg verð að segja, að í þessari brtt. felst svo stórkostleg skerðing á þeirri miklu rjettarbót frv. frá núgildandi lögum, að því leyti hvað rjettar heimilissveitar- og gjaldþegns er betur trygður samkv. því, því að heimilissveitin, sem kunnug er efnum og ástæðum gjaldþegns, leggur útsvarið æfinlega á. Frv. tryggir rjett heimilissveitar margfalt betur en núgildandi löggjöf, vegna þess að frv. viðurkennir, að heimilissveit viti best deili á högum gjaldþegns, en atvinnusveit þekkir þar lítið til, og því sje ekki rjett, að atvinnusveitir hafi rjett til útsvarsálagningar. Það er þessi mikla öryggisráðstöfun frv., sem brtt. hv. þm. miðar að að eyðileggja. Öryggisráðstöfun, sem reynsla sú, sem menn hafa haft af niðurjöfnun útsvara, hefir bent mönnum á. Menn hafa svo þráfaldlega fengið að þreifa á því, að útsvarsálagning í atvinnusveit er oftast ósanngjörn; menn eru mjög grátt leiknir jafnast í þessum viðskiftum við atvinnusveitirnar. Að vísu getur verið og er allmikill munur á sveitunum í þessu efni, en þetta mun þó vera aðalreglan. Mjer finst þessi brtt. fela í sjer svo mikla stefnubreytingu á frv., ef hún verður samþ., að mjer virðist algerlega ófært, að þessi brtt. nái samþykki.

Þá nægir það ekki hv. þm. að ná útsvari af afla, sem lagður hefir verið upp vikur samtals af gjaldárinu; honum þykja þetta of rífleg takmörk, og ef um síldarafla er að ræða, vill hann láta leggja á hann útsvar, jafnvel þótt hann aðeins hefði verið lagður á land einn einasta dag á árinu. Hjer er farið út í miklu meiri eltingaleik en dæmi eru til um áður, til þess að ná útsvari af mönnum, og var þetta athæfi þó orðið nógu óvinsælt áður. Í annari brtt. sinni á sama þskj., við 9. gr. frv., ræðst hann á um 20 ára gamalt ákvæði sveitarstjórnarlaganna og vill færa út og rýmka þetta ákvæði og upphæðirnar, sem útsvarsskyldar eru, vill hann lækka úr 3 þús. niður í 1 þús. kr., um leið og dvalartíminn er styttur úr 3 í 2 mánuði. Mig furðar þetta mjög; ekki sjerstaklega af því, að svo langt er til seilst, heldur vegna þess, sem á undan er gengið í þessu efni hjer í þessari hv. deild. Eins og menn vita, var í stjfrv. ákveðið, að lágmark útsvarsskyldra tekna í atvinnusveit skyldi vera 2 þús. kr. Nefndinni þótti þetta of lítið og gerði því tillögu um að hækka lágmarksupphæðina upp í 3 þús. kr., og það var samþ. með yfirgnæfandi meiri hluta. Þess vegna furðar mig mjög, er þetta var svo nýlega undan gengið hjer í deildinni, að hv. þm. (BSt) skuli bera fram aðra eins brtt. og þessa. Enda vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, að jeg geri ráð fyrir því, að þessi till. samrýmist ekki þingsköpum og geti því ekki komið til atkvæða.

Háttv. þm. drap á skiftingu útsvaranna og taldi hana mundu verða erfiða í framkvæmd. Þegar þetta er borið saman við brtt. hans við 13. gr. frv., virðist mjer koma allmikið ósamræmi í ljós hjá háttv. þm. Í 13. gr. er svo ákveðið, að lægri útsvarsupphæðir en 20 kr. skuli ekki koma til skiftingar, og er þar augljós viðurkenning þess, að þetta sje talsverðum erfiðleikum bundið í framkvæmdinni og svari því ekki kostnaði með lægri upphæðir en 20 kr.: þess vegna eigi ekki að seilast eftir smáupphæðum. En nú vill háttv. þm. eltast við skifti á hvaða smáupphæð sem er. Það er þetta, sem jeg botna ekkert í hjá háttv. þm.

Þá sagði hann, að tilfærslan milli 8. og 9. gr. frv. hefði verið af handahófi gerð. Jeg hefi þegar skýrt frá því, af hvaða ástæðum fasteignaafnot voru flutt undir þessa grein, og auk þess er það venjulegast, að fasteignirnar sjeu nýttar alt árið. Það er einnig þetta, sem skilur á milli þess, sem flutt var yfir í 8. gr., og þess, sem eftir varð í 9. gr., að atvinna sú, sem heyrir undir ákvæði 9. gr., er venjulega aðeins rekin skamman tíma.

Háttv. þm. beindi því til okkar sveitabændanna hjer í þessari háttv. deild, að í sveitunum væri ekki hægt að leggja á kaupamennina, sem þangað kæmu um sláttinn, en í sjóþorpunum væri lagt á þá, sem þangað kæmu til að leita sjer atvinnu. Jeg held jeg geti ekki gert upp á milli þessara aðilja, því í báðum stöðunum eru það aðeins heimilissveitirnar, sem geta lagt útsvar á menn, og jeg sje því ekki annað en að háttv. þm. sje með þessum orðum að reyna að þvo hendur sínar af þessum siglfirsku brtt., sem hann hefir orðið til að flytja hingað inn í deildina. Því að það mun hvort sem er ekki vera um að villast markið á þessum brtt., þetta mark, sem skráð er í meðvitund allra þeirra, sem stungið hafa stafni við á Siglufirði, stigið hafa þar á land í atvinnuleit eða rekið þar atvinnu að einhverju leyti. Á þessum brtt. eru öll einkenni hinnar gömlu togstreitu, en raunar magnaðri en nokkru sinni hefir áður þekst.

Þá vjek háttv. þm.brtt. minni, sem og ýmsir aðrir hv. þm. hafa gert að umtalsefni, og hann spurði að því, hvort dvalartíminn slitnaði ekki við það, ef bátur hrekst undan ofviðri, svo hann næði ekki til þeirrar hafnar, sem hann hefði lagt upp aflann í og yrði þess vegna að leggja hann upp á öðrum stað í það skiftið. En háttv. 2. þm. Rang. greip þá fram í fyrir honum og benti á, að þetta kæmi ekki til mála, þó að bátar yrðu að leita nauðhafnar, og jeg þarf þess vegna ekki að svara þessu frekar. Það er tilgangur háttv. þm., ef brtt. hans verða samþ., að þá megi leggja útsvar t. d. á síldarafla, þótt hann sje aðeins lagður upp í eitt skifti á þeim stað. Þess vegna mætti gera ráð fyrir, ef t. d. eyfirskur síldarbátur hrektist til Siglufjarðar og losaði sig þar við aflann, þá yrði hann útsvarsskyldur þar samkv. þessum. till., svo öfgafullar eru þær. Að vísu veit jeg ekki, hvort þetta muni vera tilgangurinn með brtt., og eins er jeg heldur ekki viss um, að dómstólarnir mundu líta svo á, að þetta væri rjettmæt ástæða til útsvarsálagningar.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði um brtt., sem jeg ásamt nokkrum öðrum hv. þm. flyt, og kvað hann tilgang hennar óljósan jeg held það orki ekki tvímælis; þar á að fara eftir orðanna hljóðan, sem er fullskýr. Þá sagði sami háttv. þm., að það væri síður ástæða til að leggja útsvar á afla, sem verkaður væri þar á staðnum, því að það veitti svo mikla atvinnuaukning. Jeg tók það fram við 1. umr., að þess frekari ástæður væru til að leggja útsvar á afla, sem hann væri lengur á sama stað, og færði ástæður fyrir því. Til viðbótar því, sem jeg sagði þá, vil jeg aðeins benda á, að svo getur staðið á, þar sem afli er lagður upp, að þröngt sje um vergögn og erfitt að bæta við þau, og ef utansveitarmenn færu að verka þar afla sinn, yrði það aðeins til þess að gera þeim erfiðara fyrir, sem þar eiga heima, og draga úr atvinnurekstri innsveitarmanna, sem væri sveitinni ef til vill arðmeiri. Væri þó frekari ástæða til þess að leggja útsvar á þessa aðkomumenn heldur en ef þeir legðu aflann á land aðeins um stundarsakir. Háttv. þm. (JBald) lagði svo mikið upp úr því og bar kvíðboga fyrir hönd okkar flm. brtt., að við næðum ekki tilgangi okkar með brtt. En þetta er gersamlega ástæðulaust; tillagan er skýr og ótvíræð. Hafi þessi hv. þm. samvisku af því að vera á móti till., getur hann ekki friðað hana með því, að tilgangurinn muni ekki nást. Að öðru leyti erum við samherjar í þessu máli, háttv. 2. þm. Reykv. og jeg, og fer því illa á því, að við sjeum að deila í þessu máli, þar sem okkur ber ekki annað á milli en þessi eina brtt.

Þá vil jeg aðeins víkja fáeinum orðum til háttv. 2. þm. Rang. (KlJ). Jeg var búinn að lýsa því yfir, að nefndin fjellist á brtt. hans, og jeg skal bæta því við, að þær gera frv. skýrara og eru því til bóta. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) er athugull og reyndur maður í þessum efnum, og hefir því fundið, að frv. stóð til bóta að þessu leyti. Um brtt. vil jeg taka það fram, að þar sem gert er ráð fyrir, að í sveitum verði menn að greiða útsvör sín strax og geti ekki beðið með það þangað til úrskurður er fallinn, ef kært hefir verið, þá segir háttv. þm., að þetta sje öfugt í kaupstöðunum, og til þess að þetta verði skýrara framvegis, er brtt. hans borin fram.

Háttv. þm. Barð. (HK) á 13 brtt. við frv., en þær raska ekki stefnu þess og eru flestar fremur lítilvægar.

1. brtt. er við 3. gr. frv. Þar er svo ákveðið, að leita þurfi álita eða leyfis sýslunefnda til að hækka útsvar. Þessu vill hv. þm. Barð. ekki hlíta, en vill, að hreppsnefndirnar ráði þessu sjálfar, þ. e. a. s. leiti til borgarafundar um þessi atriði. Þetta er gamalt ákvæði í lögum og háttv. þm. sagði, að þó að þetta hefðu fyrrum verið nauðsynleg ákvæði væru þau það ekki lengur. En við þetta er það að athuga að ekki er óhugsandi, að enn gætu komið fyrir þau atvik, sem geri þessi gömlu ákvæði þörf aftur, eða að minsta kosti rjettmætt, að þau fái að standa áfram í lögum. Þá getur það líka farið svo, að hinn almenni borgarafundur, sem háttv. þm. treystir á, verði andvígur hækkunum á útsvörum, þótt hreppsnefnd telji nauðsynlegt að hækka þau. En hvað sem um þetta er, getur allshn. ekki fallist á þessa brtt. hv. þm. Barð.

2. brtt. er við 5. gr., að greinin falli niður. Það eru ákvæðin um, að ef gjaldþegn telur ekki fram tekjur sínar til útsvarsálagningar, geti hreppsnefnd áætlað honum tekjur svo hátt, að víst sje að gjaldþegn vinni ekki við það að láta undir höfuð leggjast að telja fram. Þetta er í samræmi við ákvæði tekjuskattslaganna, og allshn. getur ekki fallist á að fella þessa grein úr frv., því að það væri að ýta undir menn að telja ekki fram tekjur sínar.

Þá er brtt. við 6. gr. frv., sem nefndin getur heldur ekki fallist á. Hún telur ekki skifta svo miklu máli að leggja á menn, sem ekki eru færir um að bera 5 kr. útsvar. Það svarar tæplega kostnaði og er aðeins til þess að auka á skriffinsku að vera að því. Háttv. þm. Barð. er kunnur að því að hafa horn í síðu skriffinskunnar, og jeg veit, að honum er það óviljandi að vera að stuðla að því að auka hana, en þó færi svo ef þessi brtt. yrði samþ.

Þá er brtt. við 8. gr. frv., við laxveiðakvæði. Þessa brtt. getur nefndin ekki aðhyllst, því hún hefir áður tekið skýrt fram, hvernig hún lítur á laxveiðina. Það væri ósamræmi í því að leggja á eigendur veiðiánna sem máske leigja árnar út, en veiða ekki sjálfir, en þeir, sem afnotin hafa, yrðu þá útsvarsfríir. Það er alveg hliðstætt því, ef jarðareigandi ætti að bera útsvar, en ábúandinn að vera útsvarsfrí.

Jeg var kominn að 6. brtt. á þskj. 334. Hún er við 12. gr., að fyrir orðin ,,sömu meðferð skal hafa“ til enda málsgreinarinnar komi: Sömu meðferð skal hafa, ef gjaldþegn á lögheimili víðar en í einni sveit. Það er meining hv. þm. (HK) með þessari till., að sú breyting verði gerð frá ákvæðum 12. gr. um skiftingu, að sá maður, sem flytur sig búferlum á reikningsárinu, greiði alt útsvarið fyrir það ár í þeim hreppi, sem hann er í, þegar útsvarið er lagt á. En hreppurinn, sem hann flyst í, fái ekkert útsvar hjá honum það ár. Aðalgrundvöllur fyrir skiftingu milli hreppa er aftur á móti sá, að í þessu tilfelli njóti hver hreppur fyrir sig hlutfallslega af því útsvari, er slíkur maður greiðir, miðað við sveitarþyngslin hverjum hreppi og tímalengdina, sem hann dvelur í hverjum hreppi fyrir sig. Þannig myndi fara eftir till. háttv. þm. Barð. í þessu tilfelli, að sá hreppur, sem gjaldandi hefði dvalið í meira en helming af árinu, fengi ekkert útsvar hjá honum að því sinni. Skiftingin eftir frv. byggist á þeim grundvelli, að þrætt er svo sem hægt er að reyna að tryggja það, að hvert hreppsfjelag fái sinn hlutfallslega skerf. Þess vegna getur nefndin ekki fallist, á þessa till. Hv. þm. sagði að hann vildi koma í veg fyrir, að verið væri að leggja tvisvar á sama manninn. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Hjer er ekki um það að ræða, því að hjer er einungis farið fram á, að útsvari mannsins verði skift milli tveggja hreppa. Aðeins í því tilfelli, að svo stæði á, að sveitarþyngsli væru meiri í þeim hreppi, sem gjaldandi flyst til, þá gerði nefndin það beinlínis af hagkvæmum ástæðum að breyta því þannig, að sá hreppur mætti bæta við útsvarið með aukaniðurjöfnun, í stað þess að hreppurinn, sem lagði á manninn útsvarið, ætti að leggja á viðbótina og greiða þeim hreppi, sem gjaldandinn er þá orðinn búsettur í. Það er auðveldara í meðferð. (HK: Var þetta af „praktiskum“ ástæðum?). Já, og hv. þm. leggur svo mikið á móti óþarfa fyrirhöfn, að hann ætti að taka höndum saman við nefndina að gera þetta einfaldara og þægilegra í meðförum. Hv. þm. sagði, að það myndi gera hví hreppsfjelagi erfitt fyrir, sem lagt hefir á mann og bygt á öllum tekjum hans. En það er oftast svo, þegar menn flytja búferlum, að það er orðið vitanlegt á þeim tíma, sem lagt er á, ef maður ætlar að flytja sig í annan hrepp. Hjer er sennilega ekki um svo mikið að ræða, að það raski neinu verulegu.

Þá hefir hv. þm. í sambandi við þessa brtt. flutt aðra. brtt., á þskj. 352, um að fella niður síðustu málsgr. 9. gr. og síðari málsgr. 10. gr. Hv. þm. hefir ekki athugað að ákvæði þessarar till. snerta önnur ákvæði í frv. heldur en þau, sem hann ætlar að breyta. Jeg vil benda á, að í 8. gr. er gert ráð fyrir, að ef maður á lögheimili á fleiri en einum stað, þá má hann ráða, hvort útsvar er lagt á hann þar, sem hann er, þegar lagt er á, eða á hinum staðnum. En það er vitanlegt, að skifting útsvarsins verður fremur eftir ákvæðum 4. gr. en 0. gr. Ef þessi till. verður samþykt, þá standa ekki eftir nein ákvæði um það í frv., hvernig skifting eigi fram að fara. Þetta kemur einnig fram í 2. málsgrein 10. gr. í samhljóða ákvæðum, sem stuðla að þessu. Það er þess vegna ótækt að fella þetta burtu. Þess vegna er ómögulegt að samþ. þessa brtt. á þskj. 352 og að óbreytt standi 8. gr. frv.

Þá kem jeg að 7. brtt., við 16. gr. Í 16. gr. er ákveðið, að sýslunefnd sje heimilt að ákveða þóknun fyrir niðurjöfnunarstörf í hreppum, þó ekki yfir 5 kr. á dag til hvers nefndarmanns. Það voru við 2. umr. færð rök fyrir því, að í sumum stórum hreppum fer mjög mikill tími í niðurjöfnun. Vitanlega minni í fámennum hreppum. Mælir því full sanngirni með því, að þeir, sem eru marga daga að þessum störfum, þurfi ekki að vinna þau endurgjaldslaust.

Till. nefndarinnar, sem líka var samþ., hljóðaði um að sýslunefndir skuli ákveða þetta. Það vakti fyrir nefndinni, að með því móti yrði meira heildarsamræmi heldur en ef hver hreppur gerði það út af fyrir sig. Sýslunefndum er fullkunnugt um, hvað mikið starf er í hverjum hreppi. Nú vill háttv. þm. Barð. láta hreppsfund annast þetta, sem boðað er til á lögmætan hátt. Mun samkv. núgildandi sveitarstjórnarlögum sá fundur teljast lögmætur, sem boðað er til á lögmætan hátt. Nú getur viljað svo til, að slíkur fundur verði mjög fásóttur, og ef til vill yrði það í sumum tilfellum hreppsnefndin ein, sem skamtaði þetta. Ekki er jeg að segja, að farið yrði óvarlega í sakirnar, þó að svona vildi til. En jeg tel það heppilegra fyrir allra hluta sakir, að sýslunefnd verði falið að ákveða þessa þóknun.

Þá er brtt. við 18. gr. Í henni eru tekin upp viðvíkjandi þagnarskyldunni óbreytt ákvæði skattalaganna. Við þessu er vitanlega ekkert að segja, því að bæði brtt. og þessi gr. frv. stefna að þessu sama marki, að koma í veg fyrir það, að viðlagðri hegningu, að menn brjóti út af þessu. Nefndin leit raunar svo á, að 18. gr. eins og hún er nú myndi fullnægja, ef menn brytu í þessu efni. Má því segja, að hvort sem brtt. verður samþ. eða frvgr. látin standa eins og hún er nú, þá verði það alveg sama í framkvæmdinni.

Þá kemur 9. brtt., við 21. gr., um að niðurjöfnunartíminn, sem nú er ákveðinn frá febrúar til maí, verði frá janúar til maí. Það er grundvallarstefna þessa frv., að niðurjöfnunarnefndir eigi að hafa skattaframtalið til hliðsjónar við niðurjöfnun. Með tilliti til þessa annarsvegar, og hinsvegar að nefndinni virðist þetta ekki svo þýðingarmikið atriði að færa niðurjöfnunartímann þetta fram, þá hefir hún ekki heldur getað fallist á þessa brtt.

Næst er brtt. við 22. gr. Frv. gengur út á það, að þegar kært hefir verið til hreppsnefndar og koma fram einhverjar upplýsingar, sem sýna, að á einhvern gjaldanda hefir verið lagt of lágt útsvar, samanborið við þarfir hreppsins og útsvör annara gjaldenda, þá sje hreppsnefnd heimilt að hækka útsvarið, þó að kærandi hafi ekki tekið hann til samanburðar, en bundið því skilyrði, að hlutaðeiganda sje tilkynt það áður. Þetta vill hv. þm. Barð. fella niður. En nefndinni virtist rjett að gefa hreppsnefnd þessa heimild til leiðrjettingar, þar sem nýjar upplýsingar geta komið fram óbeinlínis við kærur.

Þá sagði hv. þm., að afleiðingin af þessari breytingu yrði sú, að niður yrði feld 8. málsgr. í 22. gr. Þar er gert ráð fyrir, að heimilt sje að kæra til yfirskattanefndar. En það er eins með þessa till. og till. á þskj. 353, að hjer hefir hv. þm. ekki athugað það, að ákvæði þessarar málsgreinar snerta fleira en þetta í 22. gr. Samkvæmt þessari málsgrein er mönnum heimilt, sem teknir eru til samanburðar og hreppsnefnd hækkar á, að áfrýja til yfirskattanefndar. Það mundi þá ef til vill mega líta svo á, að þeim væri þetta fyrirmunað, ef 3. málsgr. væri niður feld, eins og hv. þm. leggur til. Þess vegna tel jeg tryggara að láta þetta standa.

Þá er 11. brtt., sem fer fram á, að í staðinn fyrir, að í frv. er gert ráð fyrir, að skattanefnd eigi að kveða upp úrskurð kærumála, þá sje það falið sýslunefnd, eins og nú er. Jeg lýsti því yfir við 2. umr. þessa máls, að jeg liti svo á, sem fremur væri það ókostur á frv. að taka þetta af sýslunefndum og fela skattanefndum. Jeg hefi átt tal við ýmsa hv. þm. hjer í deildinni, sem eru sammála mjer um þetta. En hinsvegar er það, að okkur virðist það óhjákvæmileg afleiðing af öðrum breytingum að gera þessa breytingu líka. Því að með þessum breytingum, sem liggja fyrir, gæti það orðið alt að því heilt ár frá því úrskurði hreppsnefndar væri áfrýjað þangað til sýslunefnd hefði gefist kostur á að úrskurða í málinu, svo framarlega að ekki yrði aukafundur haldinn vegna þess. Af þessu leiddi það, að útsvarsbreytingin, ef um það væri að ræða, gæta vitanlega ekki komið á hreppsreikninginn á því yfirstandandi reikningsári, og er dálítill bagi að því. Þessi breyting er óhjákvæmileg, þótt jeg viðurkenni, að hún að öðru leyti sje ekki til bóta. jeg minnist þess, að jeg átti tal um þetta við hv. 1. þm. Árn. (MT). Hann er auðvitað sem gamall og reyndur sýslumaður kunnugur þessum málum, og hann var andstæður breytingunni, en sagðist ekki sjá annað en að þetta væri nauðsynleg afleiðing af öðrum ákvæðum frv.

Hv. þm. Barð. (HK) talaði um, að verið væri að leggja ný gjöld á menn með þessari breytingu, en jeg vil minna háttv. þm. á það, að það er ekki kostnaðarlaust að láta sýslunefnd — en hana skipa 10–20 manns — sitja yfir útsvarskærum kannske marga daga í röð. Sýslunefndarmenn fá 6 krónur á dag, og það er alkunna, að það tekur oft mikinn tíma að útkljá útsvarskærur í sýslunefnd. Það fer oft heill dagur í eitt einasta mál, svo að jeg held, að kostnaðaraukinn við breytinguna þurfi ekki að vera verulegt atriði.

Þá er 12. brtt., við 24. gr., um að sú grein falli niður. Hún hljóðar um það, að úrskurði megi skjóta til atvinnumálaráðuneytisins, þar til sett kynni að verða á stofn landsyfirskattanefnd. Þessi till., eða till. samhljóða henni, var borin hjer fram við 2. umr. af hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og var þá feld, svo jeg hugsa, að það sje tæplega hægt samkvæmt þingsköpum að bera hana upp aftur, en ef svo er ekki, getur það ekki staðist, að 11. brtt. sje samþykt, því að þar stendur: „Úrskurði sýslunefnda og bæjarstjórna verður ekki áfrýjað.“ Þessi ákvæði geta ekki samrýmst, og virðist það því eðlileg afleiðing, að ef 12. brtt. verður vísað frá, sje ekki hægt að bera 11. brtt. upp.

Þá er 13. brtt., við 26. gr., um að fella niður það ákvæði, að yfirskattanefnd eða atvinnumálaráðuneyti megi ekki breyta útsvari, nema svo reynist, að það hafi verið að minsta kosti 10% of hátt eða of lágt. Þetta getur verið álitamál, en ef um lítilfjörlegt atriði er að ræða, er því minni ástæða til að breyta.

Jeg hefi þá minst á allar brtt. hv. þm. Barð. og gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, að nefndin getur ekki aðhyllst þær. Eins og tekið hefir verið fram, breyta þær ekki meginatriðum frv. í neinu. Stærsta breytingin er í því fólgin, að sýslunefndir hafi áfram úrskurðarvaldið. Hv. þm. gat þess, að verra væri að hafa tvo gjalddaga. En það þykir einmitt mikill kostur í kaupstöðunum, þar sem þetta hefir verið reynt, og það sama hlýtur að gilda um stóra hreppa eða kauptún.

Annars hefir hv. þm. Barð. verið svo sanngjarn, að þó að hann hafi ýmislegt við frv. að athuga, hefir hann þó lýst því yfir, að af því að í frv. felist verulegar bætur, muni hann greiða frv. atkvæði sitt.

Þá ætla jeg aðeins með örfáum orðum að minnast á ræðu hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Hann fór nokkrum orðum um brtt. mína og sagði, að hún væri að mestu leyti sama tillagan og sú, sem áður hefði verið flutt. Þetta er ekki rjett, því að mikil breyting var á henni gerð, og einmitt sú breyting, sem að áliti þeirra manna, sem voru á móti tillögunni eins og hún upphaflega var, gerir hana aðgengilegi. Hv. þm. áleit ekki sanngjarnt, að menn væru ekki útsvarsskyldir, þó að þeir legðu snöggvast aflann upp á land. En það hefir verið hent á það af hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) að slíkt mundi vera hliðstætt því, að þegar bændur kæmu með framleiðsluvörur sínar í kaupstaðinn til að selja þær, væri lagt á þá útsvar þar, en það nær auðvitað engri átt. Hv. þm. sagði, að svo gæti staðið á, að þetta væri skaði fyrir útvegsstöðvarnar. Að því er Hornafjörð snertir, vil jeg benda á, að þessu er tæplega svo háttað á þeim stað, því að eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja um hvaða skyldur menn eiga að inna af hendi við veiðistöðvarnar, þá eiga þeir, sem reka útgerð á Hornafirði, samkvæmt upplýsingum fulltrúa Fiskifjelagsins, að borga 1/12 af afla hvers báts og auk þess 1 skippund af stórfiski í ljósagjöld. Þetta virðist nú allnokkuð, enda mun það eitt af hæstu gjöldunum, sem viðlegumenn þurfa að greiða. Jeg held það sannist enn á þessum stað, að sú heimild, sem slíkir staðir hafa til þess að ná inn gjöldum, sje notuð í fullum mæli. Hv. þm. sagði, að það gæti verið óhagur að því, að aflinn væri fluttur burtu. Þá er með öðrum orðum hagur að því, að aflinn sje lagður upp. Þá mintist hann lítilsháttar á skiftinguna. Jeg hefi minst á hana áður og minnist kannske á hana nánar í svari mínu til hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hv. 1. þm. S.-M. kvaðst tæplega geta aðhylst frv. óbreytt og taldi fram ýmsa annmarka á því. Mjer er ekki kunnust um, að hv. 1. þm. S.-M. hafi gert tilraun til þess að fá fram neina breytingu til bóta. Hann sagði að verstöðvarnar væru sumstaðar orðnar að fótaskinni fyrir aðkomumenn og að þeir tækju af mönnum beitu og annað. Jeg skil ekki hvernig á þessu stendur. Það er vitanlega mjög leiðinlegt, sje það satt að þeir menn, sem þarna hafa ráðin, láti aðkomumenn vaða þannig uppi, enda er þessi vitnisburður gagnstæður öllum upplýsingum, sem fram hafa komið í þessu máli og liggja hjer skjallega fyrir, svo mjer virðist ekkert upp úr þessu leggjandi. Hv. þm. mintist líka á skiftinguna og vildi láta vísa málinu frá. En það er nú tekið fram, að búið er að bera mál þetta undir hreppsnefndir. Það kann að vera, að um einhver ákvæði frv. hafi ekki verið leitað álits hreppsnefnda, en það er ekki hægt að girða fyrir, svo framarlega, sem málið var komið inn á þing, að ekki kæmu fram nýákvæði, enda mætti það æra óstöðugan, ef í hvert sinn ætti að bera öll ákvæði lagafrumvarpa undir hreppsnefndir áður en þau eru afgreidd frá þinginu. Það er ekki hægt að segja annað en að málið hafi fengið góðan undirbúning. Það er búið að vinna mikið að því á þingi og koma fram með margar brtt. Þá sagði hv. þm., að það vantaði öryggisákvæði í frv. og að heppilegra væri að ákveða hundraðagjald af aflanum. Við 2. umr. kom fram tillaga um þetta, sem deildin gat ekki aðhyllst, enda færð fullgild rök fyrir því, að hún væri ekki til bóta, og virðist mjer ekki blása byrlegar, þó að samskonar tillaga kæmi fram á næsta þingi.

Þegar verið er að tala um ókosti skiftingarinnar, ber þess að gæta, að skiftingin er leið til þess að útiloka ranglæti í útsvarsálagningu, og deildin hefir ekki getað aðhyllst aðra leið til þess að kippa þessu í lag.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en þætti æskilegt, að hægt væri að ljúka þessu máli í kvöld.