16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

15. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Þetta er aðeins stutt aths., enda mun jeg láta alt annað niður falla en að bera af mjer sakir. Hv. þm. Borgf. sagði, að jeg hefði greitt atkv. með þeim Akranestill., sem hann hefir borið fram. Jeg hefi aldrei greitt atkvæði með stækkun Faxaflóa; jeg vil leyfa mjer að neita því algerlega, að jeg hafi fylgt því máli. (PO: Það er ómögulegt annað en að háttv. þm. hafi verið með þessu: það er svo gott og sanngjarnt). Jeg held, að tilvitnunin í Landnámu sanni lítið í þessu efni. En allir þeir, sem hafa sjeð Íslandskort, vita, að landfræðislega sjeð nær Faxaflói ekki lengra en að Garðskaga. Einnig vildi hv. þm. Borgf. halda því fram, að jeg hefði greitt atkvæði með uppgjöf á dýrtíðarláni Akraneshrepps. Jeg hefi vitni að því, að þetta er misskilningur. Jeg greiddi atkvæði á móti því við 2. umr. fjárl. En við 3. umr. var það ekki borið upp sjerstaklega, heldur með tveim öðrum liðum. Jeg ætlaði að mótmæla því, að atkvgr. færi fram á þann hátt, en hæstv. forseti heyrði ekki mál mitt. Mundi jeg hafa greitt atkvæði á móti þessum lið eins og við 2. umr., ef hann hefði verið borinn undir atkv. sjerstaklega.

Um frásögn hv. þm. Borgf. um Siglufjörð og útsvörin þar get jeg ekkert sagt. Hv. þm. bar ekki fram neinar sannanir fyrir máli sínu, og meðan þær vanta. verður að líta á þetta sem skáldsögu. Út af þessari kröfu, sem hv. þm. nefndi, um að fimmfalda útsvarið, gæti manni einmitt dottið í hug, að niðurjöfnunarnefnd hefði farið nokkuð vægt í sakirnar. Og það, að fimmföldunarkrafan var feld, sýnir einmitt sanngirni bæjarstjórnarinnar og að Siglfirðingar hafa viljað fara varlega gagnvart aðkomumönnum.