01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer finst jeg hefði haft ástæðu til þess að segja nokkur orð í framhaldi þess, sem jeg sagði við 2. umr. um störf hv. fjvn. En þar sem tveir hv. nefndarmenn eru fjarstaddir, ætla jeg að sleppa því, en gera grein fyrir 2 brtt. sjerstaklega, sem jeg hefi flutt við þessa umr. fjárlagafrv.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 457,III, þar sem jeg fer fram á, að framlag landhelgissjóðs til landhelgisgæslunnar hækki úr 125 þús. kr. í 135 þús. kr. Þetta byggist á því, að við samningu stjfrv. var gengið út frá því, að bæjarsjóður Vestmannaeyja legði fram 25 þús. kr. fyrir veiðarfæragæslu þá, sem Þór hefir þar um vertíðina. En nú hefir verið samþykt með miklu atkvæðamagni þál. í hv. Nd., sem gerir þá breytingu, að framlag Vestmannaeyinga er lækkað niður í 15 þús. kr. Og þótt till. eigi eftir að koma í Sþ., þá geri jeg ráð fyrir, að hún verði samþykt, eftir undirtektum þeim, sem hún fjekk í hv. Nd. Þurfa því þessar krónur að koma einhversstaðar frá, og sýnist mjer rjettara, að þær komi úr landhelgissjóði en að framlag ríkissjóðs yrði hækkað. Hefir því þessi till. engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs eins og hún kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.

Brtt. IX er um það, að erfiðleikauppbótin til Ögurþinga falli niður. Þetta er ekki hugsað af minni hálfu sem nein efnisbreyting, heldur álít jeg, að hana beri að greiða úr prestlaunasjóði. Og þar sem hún hefir verið samþykt í hv. Nd. og látin óáreitt hjer, þá geri jeg ráð fyrir því, að stjórnin telji sjer skylt að borga hana úr prestlaunasjóði, í stað þess að borga hana úr ríkissjóði, og þess vegna er till. borin fram.

Þá er XXIV. brtt. aðeins lítilsháttar leiðrjetting á texta þessarar till. við 15. gr. 46, námsstyrknum til Gunnlaugs Briems, að í staðinn fyrir „til lokanáms“ komi: til framhaldsnáms. Þessi maður hefir lokið háskólanámi, svo að hjer er eftir almennri málvenju ekki um að ræða að ljúka námi, heldur styrk til framhaldsnáms að afloknu prófi.

Næsta brtt. er undir XXVI. lið, um bryggju á Ísafirði. Þessi till. er borin fram í samráði við hv. þm. Ísaf. (SigurjJ). En eftir því sem till, hans var orðuð, getur litið svo út, sem verið sje að gefa Ísfirðingum eftir ógreidda vexti af dýrtíðarláninu. Svo er ekki, heldur er það meiningin, að þeir fái sem rjettmætt framlag til bryggjnnnar 60 þús. kr., og þá á vitanlega ekki að borga vexti af þessari upphæð frá þeim tíma, sem verkinu var lokið og þeir áttu að fá hana. Er því till. þessi leiðrjetting á orðalagi gr.

Næst koma 3 brtt., XXIX-XXXI. um eftirgjafir viðlagasjóðslána. Jeg get talað um þær allar í einu lagi, því að þær eiga saman, þótt þessar eftirgjafir sjeu annars nokkuð sjerstsæðar. Jeg þarf litlu við það að bæta, sem jeg sagði við 2. umr. Þó hefi jeg ekki getið þess, að það hafa verið gefnir eftir vextir og afborganir í 5 ár til Grunnavíkurhrepps og í 3 ár til Árneshrepps, en hvað snertir síðasta hreppinn. Innri-Akraneshrepp, þá er tímabil það, sem hann þarf ekki að greiða vexti og afborganir, ekki útrunnið, heldur nær það til yfirstandandi árs.

Um þessar eftirgjafir alment vil jeg segja það, að verði þær ekki teknar út af fjárlagafrv. og verði viðaukatill. frá hv. 1. þm. G.-K. (BK) samþykt um eftirgjöf til Gerðahrepps, þá er komið hjer inn á alveg nýja braut. Jeg hefi rannsakað það, að það hefir alls ekki verið gert á undanförnum tímum, eða ekki fyr en á síðasta þingi, að gefa eftir viðlagasjóðslán.

Sjóðurinn er þannig tilkominn að þingið hlýtur að telja sjer skylt að halda honum sem best við og varðveita hann á allan hátt. Hann er tekjuafgangur hinna fyrstu sjálfstjórnarára, hins fyrsta landbúskapar hins íslenska ríkis. Svo var safnað í hann og ætlast til, að hann væri varasjóður sem ríkið gæti gripið til, ef sjerstök ógæfa herjaði land og þjóð, sem gerði það ómögulegt að komast af með tekjur þess yfirstandandi árs. Og þessi sjóður, sem þannig var safnað í með sjálfsafneitun, hefir verið mjög friðhelgur í augum þjóðarinnar og Alþingis alt fram að þessu. En fljótt á litið kann að líta svo út, sem vikið hafi verið út af þessari reglu á síðasta þingi. Þá voru gefin eftir 3 lán, en þetta voru í raun og veru fjárveitingar, þótt það form væri haft að gefa lán eftir í stað þess að setja inn fjárveitingar. Handa Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu var um að ræða eftirgjöf eða veita fje til öldubrjótsins, með því skilyrði, að hreppurinn tæki hann að sjer. Önnur eftirgjöfin var til Hvítárbakkaskólans, sem er hjeraðsskóli Borgfirðinga. Það hefir verið tekin upp sú regla, að ríkið kosti byggingu hjeraðsskólanna að 2/5 hlutum. Hefir ríkið ekkert lagt til þessa skóla, en hann hefir fengið lán úr viðlagasjóði. Hinsvegar þótti sjálfsagt, að hann nyti sömu kjara og aðrir skólar slíkir. Var því lánið gefið eftir og skoðað sem framlag ríkissjóðs til byggingar skólans. Þriðja eftirgjöfin var til mötuneytis kennaraskólans og var skoðuð sem fjárveiting til skólans. Má því skoða þetta sem fjárveitingar úr ríkissjóði. En með till. þeim, sem hjer liggja fyrir, er komið út fyrir þennan grundvöll. Það er farið fram á að gefa eftir lán án þess að lántakendur hafi farið hina rjettu og sjálfsögðu leið til þess, nefnilega þá, að snúa sjer til atvinnumálaráðuneytisins og gera grein fyrir og sýna fram á nauðsyn þess að fá lánin gefin eftir. Ef nú á að fara inn á þessa braut að órannsökuðu máli og fara aðeins eftir því, sem atkvæðum er safnað handa gjafatillögum til kjósenda, þá verð jeg að segja það, — að þá er grundvellinum algerlega kipt undan viðlagasjóðnum. Það stendur mikið af honum í lánum til bæjar- og sveitarfjelaga, og ef þingið samþykkir þessar eftirgjafir, þá er enga takmarkalínu hægt að draga í þessu efni. Jeg lít svo á, að þessi lán megi þá öll skoða sem mjög vafasamar skuldir, og ef til vill mikill hluti þeirra tapaður. En jeg er viss um, að þjóðin tekur því ekki með þökkum að þeyta sjóðnum út í veður og vind eftir geðþótta einstakra hv. þm. Það má vel vera, að þessir hreppar sjeu fátækir; jeg veit ekki um það. En það hefir verið borið fram í þinginu, að reikningar þeirra gefi ekki rjetta mynd af þeirra raunverulega fjárhag. En þessar eftirgjafir hafa ekki komið til atkvæða nema í einu lagi allar, og er það á móti allri venju að slá saman ólíkum útgjaldaliðum. Vona jeg því, að hæstv. forseti (HSteins) gefi færi á því að láta þessar till. koma til atkvæða sjerstaklega og gefi hv. deildarmönnum færi á að greiða atkvæði um hverja eina út af fyrir sig. Minni virðing má ekki ætlast til, að sjóðnum sje sýnd. Jeg vil skjóta því hjer inn um till. XXXII, um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni Gerðahrepps; að stjórninni er það mjög kunnugt, þar sem það var veitt í tíð þeirrar stjórnar, sem nú situr. Er þessi hreppur óvenjulega bágstaddur og fjekk þetta lán til þess að geta rækt nauðsynlegar skyldur sínar. Ef farið verður inn á þessa óheppilegu braut án allra rannsókna, þá get jeg ekkert haft á móti því, að Gerðahreppur komi með, og enda fleiri hreppar.

Þá kem jeg að síðustu brtt., XXXV. lið, við 22. gr., um viðlagasjóðslán til íshúsa á kjötútflutningshöfnum. Fyrri till., við a.-liðinn, er orðabreyting eða rjetting á máli. Það má ef til vill skilja a.-liðinn svo, að ekki megi taka aðrar tryggingar en ábyrgðir, en í flestum tilfellum er eðlilegt, að íshúsin sjálf komi sem trygging fyrir láninu. Tekur till. af öll tvímæli um þetta.

Næsti liður þessarar till., b.-liðurinn, við d.-liðinn, er um það, að í staðinn fyrir „fyrstu 5 árin“ komi: fyrsta árið. Það hefir verið komið upp einu slíku íshúsi, í Vestur-Húnavatnssýslu, og hafa mjer borist ummæli úr þessu bygðarlagi um það, að óeðlilegt væri að hafa þessi lán afborganalaus í 5 ár. Hefi jeg því stungið upp á því, að afborganafresturinn sje aðeins 1 ár.

2. liður þessarar brtt., við 22. gr. 6, er um það, að heimilt sje að lána Mýrdalshjeraði 15 þús. kr. í staðinn fyrir 5 þús. kr., og er það sú upphæð, sem með þarf. Er nú húsið komið upp og er ákaflega myndarlegt, og er upphæð þessi ekki í neinu ósamræmi við það, sem veitt hefir verið annarsstaðar til sjúkraskýla og læknisbústaða.