08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

15. mál, útsvör

Einar Árnason:

Jeg skal fúslega játa það, að það mun erfitt að gera frv. svo úr garði, að öllum líki. Það er alkunna, að þegar minst er á útsvör, þá er það viðkvæmt mál, því að það tekur til svo margra, og hverjum einum finst þar stefnt að sjer að einhverju leyti.

Jeg er einn í tölu þeirra, sem ekki eru ánægðir með þetta frv. Skal jeg þó ekki halda langa ræðu um smáatriði nje fara út í neitt skæklatog. Það er stutt síðan þetta frv. kom fyrir deildina; hefir síðan verið annríki mikið og ekki tök á fyrir deildarmenn að lesa það svo niður í kjölinn, sem þörf er á, til þess að gera sjer ljóst hvert atriði.

Það, sem jeg meðal annars finn að frv., er að það er nokkuð flókið, svo að jeg er hræddur um, að framkvæmd þess verði erfið. Þar kemur fyrst og fremst til greina, að reikningsárinu er breytt. Mjer virðist, eftir þeirri reynslu, er jeg hefi í sveitarstjórnarmálum, að fardagaárið sje hentugra eins og hjer hagar til. En með því að miða við almanaksárið breytist tíminn, sem útsvörum er jafnað niður á, svo og gjalddagi þeirra. Nú fara flutningar manna milli sveita mest fram á vorin og mun þetta því valda óþægindum og erfiðleikum. Maður, sem flyst búferlum, er ekki í sömu sveit, er honum ber að greiða útsvar og er það var lagt á hann. Þetta yrði til óþæginda bæði fyrir manninn og sveitarstjórnirnar. En yfir höfuð er frv. þannig bygt, að ef þessu er breytt með almanaksárið verður að bylta því öllu við. En jeg treysti mjer ekki til þess sakir naums tíma, enda bjóst jeg ekki við nægu fylgi í deildinni til þess.

Jeg gat þess áðan, að frv. væri flókið, og jeg er hræddur um, að svo reynist, að hreppsnefndum muni veitast erfitt að átta sig á ýmsum ákvæðum þess. En jeg tel nauðsynlegt, að þau lög sem almenningur þarf að nota jafmikið og þessi lög, sjeu gerð svo einföld og óbrotin sem hægt er. Jeg held, að þetta frv. myndi auka til muna skriffinskuna og rekistefnur milli sveita, en þær eru jafnan vandræðamál.

Í þessu frv. kemur fram sú stefna, að það sje aðallega heimilissveit gjaldþegna sem leggi á útsvör, er síðan skiftist milli heimilissveitar og atvinnusveitar. Þetta er alveg nýmæli, og það ekki alllítið. En hræddur er jeg um, að af því mundi leiða, að áætlanir sveitarstjórna yrðu óábyggilegar, tekjur allar óvissari sökum erfiðleika á innheimtu. Það fer ekki hjá því, að meira tapast af útsvörum með þessu fyrirkomulagi heldur en nú. Má búast við, að heimilissveitir innheimti ekki eins rækilega, er þær vita, að þær eiga að skila kannske meiri hluta innheimtufjárins í hendur annarar sveitar. Í frv. er að sönnu gerður nokkur munur á, hvort menn stunda atvinnu eða reka. Um þá, er atvinnu stunda, má gera ráð fyrir að undantekningar sjeu, ef útsvör þeirra þurfa að skiftast, nema í því tilfelli, að atvinna þeirra hafi gefið þeim óvenju miklar tekjur. Aftur á móti um þá, er atvinnu reka utan heimilissveitar, þá er eftir núgildandi lögum lagt á þá í sveit, þar sem atvinnureksturinn fer fram. Eftir frv. á að leggja á þá í heimilissveit þeirra. Þetta er ákaflega mikil breyting frá því, sem nú er. Er jeg hræddur um, að kvartað verði undan þessu, ef til framkvæmda kemur.

Því hefir verið haldið fram, að lögð hafi verið útsvör þyngri en góðu hófi gegndi á utansveitaratvinnurekendur. Eftir þessu frv. virðist ekki hætta á, að slíkt kæmi fyrir, þótt atvinnusveit fái að halda rjettinum til útsvarsálagningar, vegna þess, að úrskurðarvaldið um upphæð útsvarsins er tekið frá aðiljum, sem það hafa haft, og flutt til þeirra, er geta litið óhlutdrægari augum á málavöxu.

Nú á seinni árum ber mikið á því, að atvinnurekendur sjeu á sífeldu flökti milli landsfjórðunga og flytji sig til atvinnurekstrar til ýmsra staða, og er ákaflega hætt við því, þegar heimilissveit á að annast innheimtu útsvara, að það verði næsta erfitt. Getur farið svo, að sumt náist aldrei.

Jeg hefi því leyft mjer að koma með brtt., sem stefnir í þá átt að gera atvinnurekstur útsvarsskyldan á þeim stað, sem hann er rekinn. Tel jeg það með því trygt, að þau hjeruð, þar sem atvinnurekstur fer fram, eigi ekki á hættu tekjumissi, með því að þau hafa betri aðstöðu til innheimtu en heimilissveitir. Stefnubreytingar í útsvarslöggjöfinni yrðu heldur ekki eins stórar og snöggar með því að samþykkja þessa brtt.

Reynsla er fyrir því, t. d. á Siglufirði, að menn geta á örskömmum tíma, kannske 1–2 vikum, rekið atvinnu, sem gefur þeim feikna arð. Virðist ekki nema sanngjarnt, að hjerað, sem veitir þeim aðgang til að afla sjer slíkra tekna, hafi rjett til að leggja á þá útsvar, en þurfi ekki að eiga alt undir heimilissveit þeirra, hvað henni þóknast að skamta atvinnusveitinni.

Jeg hefði nú álitið rjett að fresta framgangi frv. í þetta sinn. Hinsvegar getur það verið þægilegur grundvöllur fyrir þjóðina til að átta sig á málinu. láta sjer verða ljóst, hvað þurfi að endurbæta og hvert beri að stefna. Mjer er að vísu kunnugt, að leitað var álits og umsagnar sveitarstjórna um útsvarsmálið. En þótt einhverjar þeirra hafi sent svör, er varasamt á þeim að byggja að svo stöddu. Hlýtur alt að vera í óvissu og molum enn. Þarf bæði tíma og undirbúningsgrundvöll til að átta sig á þessu máli. Jeg teldi því vel til fallið, að frv. lægi til athugunar til næsta þings.

Það er ekkert óeðlilegt við það, þó að svo stórt og flókið mál, sem grípur svo mjög inn í fjárhagsmál landsmanna, verði ekki afgreitt á einu þingi.

Jeg lofaði að fara ekki út í einstök atriði, enda hefi jeg ekki gert það. Mest almennar athugasemdir, sem jeg hefi gert við frv. — Jeg tel stefnu þess svo gerólíka því, sem við höfum átt við að búa, að þess er ekki að vænta, að menn geti felt sig við það. Það hefir verið talinn kostur við frv., að þar væri gerð tilraun til að samræma útsvarslöggjöfina um land alt. Kann að vera, en jeg efast um, að það sje hægt, síst að koma á samræmi milli sveita og kaupstaða. Því hafa sumir stungið upp á að hafa sjerstakt form fyrir kaupstaðina. En heldur ekki í þeim hagar eins til alstaðar. Það er einmitt mjög ólíkt ástatt í hinum ýmsu kaupstöðum landsins. Þetta ásamt fleiru sýnir, að þörf er á að athuga þetta mál nánar en þegar hefir verið gert.