08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

15. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf að svara háttv. frsm. meiri hl. nokkrum orðum. Hann byrjaði á því að segja, að jeg hafi hneykslast á því, að hann hefði sagt, að þekking sín á sveitarstjórnarmálum væri ekki mjög grundvölluð eða djúptæk. Hann komst nú ekki svo að orði í fyrstu ræðu sinni, enda hefði jeg ekki hneykslast á því, þótt hann hefði gefið sjer svofeldan dóm. En hann sagði þá, að hann hefði ekkert vit á þeim málum. En það kom nú fram í ræðu hans, að hann hafði sæmilegt meðalvit á sveitarstjórnarmálum, sem og ekki er að furða, því hann hefir lengi verið í hreppsnefnd, og þá sennilega einhverntíma oddviti, og sá maður, sem hefir verið hreppsnefndaroddviti, getur ekki verið alveg blár í þessum efnum. Auk þess mun hann vera meðal stærstu gjaldenda sinnar sveitar, og mun því vilja vita, með hve mikilli sanngirni á hann er lagt, en það getur hann ekki nema að hafa nokkurt vit á málinu. Jeg held, að það hafi oft komið fyrir, að ungir sýslumenn hafi verið ver að sjer í sveitarstjórnarlögum en gamlir sýslunefndarmenn. Af því að honum þótti leiðinlegt að sitja í hreppsnefnd stafaði sú kórvilla, að hann vildi ekki skylda konur til þess að taka á móti kosningu. Úr því að honum þykir leiðinlegt að fást við slíkt, þá finst mjer, að hann hefði heldur átt að ýta undir það, að konur væru skyldaðar til að taka við kosningu, svo að það sje því fremur hægt að lofa þeim karlmönnum að sitja hjá, sem leiðist að skifta sjer af þessum málum. Þá gat hann þess að þó að hans þekking væri takmörkuð, þá hefði hann haft reyndan og góðan mann að styðjast við. Jeg skal nú ekki gera lítið úr þekkingu þessa háttv. meðnefndarmanns okkar á þessu efni, en mjer fanst óþarft af háttv. frsm. meiri hl. að gera svona lítið úr sinni þekkingu. En enginn getur haft mikla þekkingu á máli, sem hann athugar lítið. Þá gat hann þess, að sumir þm. fylgdu nefndum að málum. Það er nú ekkert við því að segja, ef það sjest af nál., að nefndirnar hafa athugað málin rækilega. En jeg vil ekki ráða neinum til þess að greiða atkvæði eftir nál. meiri hl. allshn. í þessu máli. Það er ekki hægt að byggja á því. Þar er talið líklegt, að frv. sje gott og hótað að greiða atkvæði á móti öllum brtt. Þá sagði hann, að mjer hefði ekki þótt meðferð málsins í allshn. fullkomin. Það er rjett; mjer þótti tíminn of lítill til góðrar athugunar, þótt nefndin hjeldi 4 fundi um málið. Þó sum mál sjeu svo auðveld, að hægt sje að afgreiða þau á einum fundi, eða jafnvel 2–3 á sama fundi, þá er því ekki svo varið um þetta mál. Það er mjög vandasamt, og það hefir hv. meiri hluti líka játað með því að þykja eðlilegt, hve lengi það var í nefnd í Nd. og lengi þar í deildinni. Þá vjek hann að þeim ummælum mínum, að það yrði vinna fyrir næsta þing að lagfæra missmíðin, ef þetta frv. yrði samþykt nú. En hann sagði, að ef það yrði ekki samþykt nú, þá fengist enginn grundvöllur til þess að byggja á, en það mundi betra, að hreppsnefndirnar fengju að reyna þetta sem lög heldur en þeim væri sent frv. til yfirlestrar. Jeg kann nú ekki við það, að Alþingi láti hreppsnefndirnar kenna sjer að búa til lög; það er ekki vani í öðrum málum. Þeir, sem áhuga hafa á þessum málum, hafa sama gagn af frumvarpinu eins og þó það væri gert að lögum. Jeg held, að flestum muni finnast, að heppilegast sje að vanda sem best til lagasmíðinnar í upphafi. Þá sagði hann, að óhugsandi væri, að allar sveitarstjórnir yrðu ánægðar; altaf mundi einhverjir hafa eitthvað að athuga við frv. En því betur sem lögin eru úr garði gerð fyrst, því meiri líkur eru til þess, að færri verði óánægðir.

Þá tók hann fram, eins og líka hæstv. atvrh., að sig furðaði á því, hve fáar brtt. jeg hefði borið fram, þar sem jeg hefði þó haft margt við frv. að athuga. En er það ekki eðlilegt, að jeg komi ekki fram með svo mjög margar brtt., þegar meiri hl. lýsir því yfir, að hann sje staðráðinn í því að greiða atkvæði á móti öllum brtt., sem fram kunni að koma? Það er ekki venjulegt að sjá þvílíkar yfirlýsingar í nál., og slíkt dregur kjark úr mönnum. Því aðeins ber jeg fram brtt., að jeg ætlast til, að þær nái fram að ganga. En það er ekki hægt að sannfæra mig um það, að þó brtt. verði samþyktar nú, þá komist frv. ekki í gegnum þingið. Þá finst honum, að jeg hefði ekki þurft langan tíma til þess að koma fram með brtt. um reikningsárið. En jeg veit, að það þyrftu að vera fleiri brtt. samfara þeirri brtt., sem hann hefir ekki mælt á móti að væri til bóta, en úr þeirri vöntun mun jeg geta bætt við 3. umræðu. Það hefir hæstv. atvrh. ekki gert, og hv. frsm. meiri hl. vill heldur ekki gera það, eða talar ekkert um það. Svo finst hv. frsm. öll framkoma mín gagnvart málinu í heild sinni benda til þess, að fyrir mjer muni ekki, vaka annað en að jeg vilji hindra, að það gangi fram á þessu þingi. Það væri nú ekki svo vítavert af mjer, ef jeg áliti það svo slæmt eins og hv. meðnefndarmenn mínir segja; en ef það væri til þess eins að ónýta alla þá vinnu, sem í það hefir farið, þá væri það ekki fallega gert af mjer. En ef meiri hlutinn af brtt. mínum yrði samþyktur, þá myndi jeg að sjálfsögðu samþykkja frv., svo að jeg held, að jeg eigi ekki fyrir öllum þessum tilgátum hv. frsm. meiri hl. Líka mundi jeg bæta við 1–2 brtt. við 3. gr. En svo fór hv. frsm. meiri hl. að tala um, hvernig það mundi fara, ef þetta frv. yrði ekki samþykt á þessu þingi, og næsta þing þyrfti að taka til þess aftur. Sú lýsing var svo, að þá fengist ekkert gott upp úr því og að frumvarpinu myndi þá stórum spilt. Það er nú ekki beinlínis heiður fyrir Alþingi, þetta, að við að sjálfsögðu fengjum ekki frv. bætt og lagað með því að fá tækifæri til þess að athuga það betur, heldur myndi það versna mikið, en það er mín skoðun, og jeg held meira að segja, að hún sje rjett, að hefðum við í allshn. þessarar hv. deildar fengið frv. nógu snemma, svo að við hefðum getað gert nauðsynlegar brtt. við það, þá hefði frumvarpið miklar bætur fengið og nefndin ekki klofnað, en af því að nú er komið svo nærri þingslitum, þá skal drífa það í gegn, hvernig sem það er.