11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

15. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Guðmundur Ólafsson):

Við 2. umr. þessa máls var mjer fremur láð það, hvað jeg hefði komið með fáar brtt. við þetta frv., en jeg þóttist hafa reynt að gera grein fyrir því, þar sem hv. meiri hl. lýsti yfir því, að hann ætlaði að greiða atkv. á móti öllum brtt., og svo gerði það líka mikið, að jeg hefi ekki haft góðan tíma til að koma með fleiri brtt. En jeg þykist nú hafa bætt úr því við þessa umr., því að nú hefi jeg komið með nokkrar brtt. í viðbót og fyllilega staðið við orð mín hvað það snertir.

Jeg skildi hæstv. atvrh. svo, að það, sem gerði, að hann setti sig á móti öllum brtt., væri það, að málið hefði ekki tíma til að fara til Nd. aftur. Það sýnist nú, sem breyting hafi orðið á því síðan, því að í gær var málið hjer á dagskrá, en var þá tekið út, svo að ekki lá því mikið á þá, og nú var hæstv. forsrh. (JM) að segja okkur, að þinginu mundi ekki verða slitið fyr en á laugardag, svo að jeg sje ekki annað en að tíminn sje nógur, þó að málið færi til Nd. aftur.

Þá vil jeg segja nokkur orð um brtt. mínar. Hin fyrsta er við 1. gr. Þar legg jeg til, að aftan við 7. málslið („Sveit: Bæði hrepp og kaupstað“) komi: nema annað sje tekið fram. Þetta er reyndar ekki nema skýring, en þó nauðsynleg með tilliti til þeirra breytinga, er á eftir fara. Svo er önnur brtt. mín um það, að reikningsár hreppanna sje fardagaárið, eins og verið hefir. Jeg færði nægileg rök fyrir því í nál. mínu, og af því að engin rök komu í móti því þá, að annað væri heppilegra en að hafa fardagaárið fyrir reikningsár hreppa eins og verið hefir, þarf jeg ekki að fjölyrða frekar um það nú. Svo er 3. brtt. mín, við 6. gr. Hún er við ákvæðið um, að leggja skuli útsvar á alla, sem taldir verða færir að borga útsvar, en þó ekki, ef það þarf að vera minna en 5 krónur. Jeg held, að þetta ákvæði megi gjarnan fara, og að það megi vera á valdi hreppsnefnda og niðurjöfnunarnefnda, hvenær þær telja gjaldanda færan um að greiða útsvar. Jeg veit, að það hefir verið til, að lagt hefir verið á lægra útsvar en 5 kr., og það getur verið það enn, svo að mjer finst þetta takmark alveg óþarft. Þá er næst brtt. mín við fyrri málsgr. 10. gr.: þar er ákveðið, að heimilissveit megi aldrei fá minna en 1/3 af útsvari gjaldþegns, en jeg vil breyta því svo, að í staðinn fyrir þriðjung komi helmingur. Hvað sem þessum skiftum líður að öðru leyti, verður að teljast sanngjarnt, að heimilissveitin fái aldrei minna en helming af útsvari hans, og það, sem fyrir mjer vakir, er það, að jeg vil altaf gera heimilissveit heldur hærra undir höfði en atvinnusveit, þar sem hún verður að greiða ýms gjöld fyrir gjaldþegninn vegna heimilisfangsins, og líka finst mjer, að þessi skifting milli hreppanna sje heldur ekki svo nákvæm, að það hljóti endilega að vera rjett, sem framkvæmt er eftir henni. Þá vil jeg bæta aftan við 22. gr. nýrri málsgrein, þannig, að kærum, sem komi að kærufresti liðnum, skuli ekki sint. Mjer finst, að það sem talað er um kærur í þessari grein, fari vel á, að þessu sje bætt aftan við. En það, sem kom mjer einkum til að koma með þessa breytingu hjer, var, að þetta stendur síðar í frv., í 26. gr., en jeg vil láta hana falla að öllu leyti í burtu. Það var talað allmikið við síðustu umr. um þessa málsgrein, sem jeg vil fella niður, og sem (með leyfi hæstv. forseta) hljóðar þannig:

„Ekki má yfirskattanefnd eða atvinnumálaráðuneytið heldur breyta útsvari, nema svo reynist, að það hafi verið að minsta kosti 10% of hátt eða of lágt.“

Þessi málsgrein þykir mjer heldur óviðfeldin, því að jeg kann hreint ekki við þessa takmörkun fyrir rjettlæti, sem með henni er sett, en auðvitað sagði hæstv. atvrh., að þetta þyrfti til þess að draga ofurlítið úr þrætugirni þeirra manna, sem altaf eru að kæra útsvör sín. Jeg er sjálfur argur út í þessa menn, eins og hæstv. atvrh., en kann þó ekki við að setja þessi ákvæði í lög, enda þykir mjer það athugavert, því að niðurjöfnunarnefnd gæti þá lögum samkvæmt vel verið 10% neðan við rjettlæti og sanngirni með þá menn, sem hún vildi gera vel til, en 10% fyrir ofan það, sem sanngjarnt væri, við þá, sem hún væri óvinveitt, og ef þessi málsgr. er látin standa í lögunum, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að það verði 20% munur milli þeirra, sem vægast er farið í sakirnar við, og hinna, sem harðast verða úti. Í sambandi við þetta legg jeg til, að öll greinin falli niður og að fyrstu málsgrein hennar verði bætt aftan við 22. gr. Svo kem jeg með brtt. um gjalddagana. Í hreppum eru ákveðnir tveir gjalddagar, 15. júlí og 15. október, en það getur ekki staðist, þegar gert er ráð fyrir, að fardagaárið verði reikningsár, og þess vegna hefi jeg bent á, fyrir utan það, sem jeg tók fram áður, að fyrri gjalddaginn væri mánuði seinna en aðallega þarf á tekjunum að halda til greiðslu, og því hefi jeg lagt til, að fyrir 15. júlí komi 15. apríl, og fyrir 15. október komi 15. júní. Það verður sjálfsagt ekki búið að greiða öll útsvörin þá, en það munar svo litlu, að jeg álít, að það geri ekkert til, þó að það verði ekki fyr en fáum dögum eftir að reikningsárið er úti, því að jeg býst við, eftir öðrum ákvæðum í frv., þá reyni menn að vera að mestu eða öllu leyti búnir að greiða útsvarið á síðari gjalddaga, áður en hægt er að fara að taka dráttarvexti af því, sem eftir stendur óborgað. Í sambandi við þessa brtt. um reikningsárið er seinasta brtt., um að 32. gr. frv. falli niður. Þar er nefnilega gert ráð fyrir því, að fyrsta reikningsárið verði, ef þetta frv. nær fram að ganga óbreytt, frá fardögum í vor til ársloka 1927, en sú grein er að sjálfsögðu rjett feld niður, ef hinar brtt., er snerta reikningsárið, verða samþyktar.

Jeg vænti þess nú jafnvel, að hv. deild taki fleiri af þessum brtt. mínum til greina heldur en þær, sem jeg bar fram við 2. umr., sem margar höfðu þó fyllsta rjett á sjer.