01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra (JM):

Jeg ætla að bíða með að tala um brtt. einstakra þm., þar til þeir hafa talað fyrir þeim og gefið eitthvert tilefni til andsvara.

Þá skal jeg minnast lítillega á IX. brtt. á þskj. 457, sem er frá hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg er honum samdóma um, að rjett sje að fella niður styrkinn til Ögurþingaprestsins, því að eftir þeirri meðferð, sem málið hefir nú fengið í þinginu, er ekkert athugavert við að greiða þetta fje úr prestlaunasjóði. Má þess vegna taka þennan lið út úr fjárlögunum.

Þá er næsti töluliður á þskj. 457, sem er tvær till. frá fjvn. Er jeg þakklátur nefndinni fyrir brtt. þessar. Það var vel ráðið og skynsamlega að greiða úr Vallanesmálinu. Jeg hefði kannske óskað, að styrkurinn hefði verið ríflegri, en vona samt, að hægt verði að koma málinu í gott horf með því fje, sem fjvn. hefir lagt til, að verði veitt.

Jeg hefi leyft mjer að gera brtt. við nýjan lið í 14. gr. B. XIV. 7., þar sem farið, er fram á 4 þús. kr. til Dalasýslu. Það á að koma fram, hvers vegna þingið veiti þetta. En það er vegna þess, að Dalasýsla reyndi að halda uppi skóla í Hjarðarholti, en beið af því halla. Nú hefir verið hætt við þetta skólahald, og álít jeg það rjett, úr því að það gat ekki hepnast.

Jeg er samdóma hæstv. fjrh. um það, að ekki sje rjett að kippa fótunum undan viðlagasjóði með því að gefa eftir lán úr honum.

Þá er næst till. frá nefndinni um heimild fyrir stjórnina til þess að byggja daufdumbraskóla. Jeg hefi sýnt fjvn. fram á, hvernig þar er umhorfs og að nauðsynlegt sje að gera þar húsabætur. Hygg jeg, að hver nefndarmaður hafi sannfært sig um, að óforsvaranlegt er að láta við svo búið standa. Það má ekki dragast lengur að gera hjer nauðsynlegar ráðstafanir. Ef sýki kemur upp í skólanum, er hætt við, að í óefni komi brátt. Í till. er heimilað að stjórnin geti lagt fram fje, en selt nokkuð af lóð skólans, sem svo gengi upp í kostnaðinn.

Loks er ein brtt. á sama þskj., XVI 2, og er þar stungið upp á að lækka skáldastyrkinn. Jeg verð að segja það, þótt jeg hefði viljað halda í þessa upphæð, að jeg er nefndinni þakklátur fyrir það, hve hóflega hún fer í þetta. En það er ekki nema eðlilegt, að nefndin ljeti sjer koma þetta til hugar. Mjer datt það í hug, sem sagan segir um Alexander mikla, að hann hafi í æsku grátið yfir sigrum Filipps föður síns og landvinningum, vegna þess að sjer væri ekkert eftirskilið að vinna. Ef samþyktir verða í viðbót við það, er áður er komið, þeir listamannastyrkir, sem enn er farið fram á að bæta við, þá veit jeg ekki, hvað skilið verður eftir af listamönnum handa stjórninni.