01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1927

Jónas Jónsson:

Jeg á hjer nokkrar brtt., sumpart einn og sumpart ásamt öðrum hv. þm., og vil jeg nú nota tækifærið og minnast lítillega á þær.

Fyrsta till. er sparnaðartill. Jeg var svo óheppinn að heyra ekki ræðu hv. frsm. (EP), og veit því ekki, hvernig hann tók í hana, en jeg vona, að nefndin sje ekki á móti till. minni. Yrði þá skrifstofustjóra Íslandsskrifstofunnar í Kaupmannahöfn falið að vera umboðsmaður vor, eins og að undanförnu. Þetta mál er nokkuð gamalt, og hefir töluvert verið deilt um það, hvort ástæða væri til að halda í hið dýra sendiherraembætti. Endirinn varð sá, að embættið var lagt niður stuttu eftir síðustu kosningar af miklum meiri hluta þm., og ráðstafanir gerðar þess eðlis, að erfiðara er að taka það upp aftur. Viðunanlegur sendiherrabústaður hefir verið seldur og fráfarandi sendiherra bætt upp það tap, sem hann beið af húsakaupunum. Er hann nú líka kominn heim og hefir sest hjer að. En verði embættið tekið aftur upp, þarf líklega að kaupa hús í Höfn. Hið fyrra kostaði 70 þús. kr., og verður það ekki minna nú. Einnig mun sendiherra þurfa að hafa meira risnufje en skrifstofustjórinn. Er því hjer um mikil útgjöld að ræða, sem þingið mun fá að heyra um á næstu árum. nái till. mín ekki fram að ganga.

Við höfum nú svo góðum manni á að skipa í Höfn, að það er í hæsta lagi völ á jafngóðum manni, en alls ekki betri. Jón Krabbe er, enda þótt hann búi í öðru landi og mæli ekki tungu okkar sem innfæddur væri, ágætur Íslendingur. En það er vitanlega alt öðruvísi umhorfs, ef skipað er í trúnaðarstöður hjer heima.

En jeg held, að bak við þessa breytingu felist ekkert annað en yfirlæti. Það er engin skynsamleg ástæða fyrir henni. Er það jafnvel vítaverð ráðstöfun, að sömu menn, sem seldu sendiherrabústaðinn, skuli vera að koma með þetta, hringla fram og til baka. Annaðhvort hefði ekki átt að selja húsið og flytja sendiherrann heim eða þá ekki að vera að stofna þetta embætti aftur.

Í fyrra kom fram krafa frá háttv. þm. Dal. (BJ), sem er hinn ákveðnasti í þessu máli, um að stofna þetta embætti. Hún var drepin með miklum meiri hl. atkv., og fullyrði jeg, að báðir ráðherrarnir, sem sæti áttu í Nd., og stjórnarflokkurinn mestallur greiddu atkv. á móti. En litlu síðar frjettist, að náðst hefði samkomulag milli þm. Dal. og stjórnarinnar, þess efnis, að hún kæmi þessu embætti á aftur, en hann greiddi atkv. móti vantrausti. Meðan ekki kemur önnur betri skýring frá hæstv. stjórn, verð jeg að láta mjer þá skýringu nægja, að stjórnin hafi unnið sjer það til lífs að breyta um skoðun. Hún fjekk nefnilega vantraust rjett á eftir. (Forsrh. JM: Fjekk hún vantraust?). Já, hún fjekk vantraust, og ef hæstv. forsrh. vill ekki sætta sig við þessa skýringu, getur hann komið með aðra betri á snúningi flokksbræðra sinna.

Þá er jeg enn meðflm. ásamt 4. landsk. (IHB) að till. um styrk til Skúla læknis Guðjónssonar. Eins og till. var við 2. umr. var málinu fundið það til foráttu, að verið væri að stofna hjer nýtt og fast embætti, og tók deildin afstöðu gegn því. En til þess að fjarlægja þennan þyrni úr till., breyttum við henni í styrk til fræðirannsókna. Aðalverkefnið á að vera að rannsaka áhrif fæðunnar á menn og dýr og gildi bætiefnanna fyrir líkami manna og dýra. Eftir dómi vel skynbærra manna eru líkur til, að með þessu móti megi takast að finna ráð til að bjarga fjenaði bænda, þar sem mest ber á skjögurveiki. Þetta er búfræðilegs eðlis. En aðalstarf og rannsóknir þessa unga manns hefir gengið í þá átt að vinna á móti þeim mikla faraldri í mannfólkinu, sem að einhverju leyti er í sambandi við breytta lifnaðarhætti, en það er aukning berklaveikinnar. Er nú álitið, að hún stafi ef til vill öllu mest af bætiefnaskorti fæðunnar. Erlendir læknar hafa vakið eftirtekt á þessu, en enginn fengist við eins ítarlegar rannsóknir um þetta efni og Skúli Guðjónsson. Jeg held, að rjett væri að gefa honum kost á að ljúka við þessar rannsóknir.

Jeg var ekki við, þegar hv. frsm. (EP) hjelt ræðu sína og mælti á móti þeirri till. fjvn. að greiða sjera Kjartani Helgasyni í Hruna full prestslaun, þó að hann tæki við skólastjórastarfi við Suðurlandsskólann. Jeg hefi þó haft veður af helstu rökum hv. frsm. Satt að segja finst mjer þessi mótmæli koma úr hörðustu átt; þar sem um er að ræða stjettarbræður þingmannsins, prófastinn í nágrannasýslu hans. Maður þessi hefir nú verið svo lengi í þjónustu landsins, að ekki væri um neina goðgá að ræða, þó að honum væri veitt lausn frá embætti með fullum launum. Nú er það ekki tilætlunin, heldur gengur till. í þá átt, að sjera Kjartan fái að halda fullum launum, þó að hann flytjist að öðru starfi. Máli þessu er þannig varið, að reynt hefir verið undanfarin ár að fá samstarf um skóla í Árnes- og Rangárvallasýslu. Þetta hefir samt ekki tekist, því að hvor sýslan um sig vill hafa skólann hjá sjer. Þegar rætt var um styrk handa þessum skóla á þinginu í fyrra, var nokkurnveginn ljóst, að ekki mundi fást samstarf þessara sýslna um skóla, og hallaðist þingið því rjettilega á þá sveif, að sú sýslan, sem fyrri yrði til þess að koma upp skóla, skyldi fá styrk. Var bent á, að rjett væri að setja engin skilyrði fyrir styrkveitingunni, sem orðið gætu til að tefja skólamálið. Nú hefir það gerst í málinu síðan, að sýslunefnd Árnessýslu hefir samþykt að setja skólann á stofn, og þó að nú sje nokkur sveitardráttur um hvar skólinn skuli standa, er því þegar slegið föstu, að Árnessýsla byggi skóla fyrir sig, sem sennilega verður þá sóttur úr Rangárvallasýslu líka og líklega víðsvegar af landinu, eins og venjulegt er um slíka skóla.

Nú er það vilji skólamannanna á Suðurlandi að fá þennan merka prófast til að taka að sjer forstöðu skólans. Það er líka vilji sjera Kjartans að taka þetta starf að sjer, og það er víst, að hann gerir það. En nú mun fjárhagur skólans ekki verða betri en það, að laun skólastjórans hljóta að verða mun lægri en prestslaun sjera Kjartans. Það mun hinsvegar álit margra, að skemtilegra sje fyrir þá, sem vilja njóta hæfileika sjéra Kjartans til að móta skólann, að hann liði ekki verulegan halla af að skifta um starf. En það væri óhjákvæmilegt, ef hann ætti að sæta venjulegum launakjörum við svona skóla, launakjörum, sem ungir menn geta miklu fremur sætt sig við. Skólastjórinn á Laugum t. d. hefir miklu lægri laun en aldraðir prestar hafa.

Jeg held, að þegar hv. frsm. athugar, að þetta er ekki borið fram eftir ósk sjera Kjartans, að hann veit víst ekki um, að það er borið fram, og að hann er ákveðinri í að taka við forstöðu skólans án þess að spyrja um laun, þá sjer hann, að upp úr því að fella þetta hefst ekki annað en það að gera lakari lífskjör þessa manns síðustu ár æfinnar, þessa merka manns, sem gengur í eldinn til þess að vinna að hugsjónamáli Sunnlendinga. Jeg veit, að hann gerir það glaður, en mjer finst ekki rjett að nota sjer fórnfýsi hans. Það hefir verið minst á, að með þessu væri skapað óheppilegt fördæmi. En svona tilefni eru mjög sjaldgæf. Sjera Kjartan er valinn til þessa starfs með þegjandi samkomulagi, enginn annar er tilnefndur. Hann er búinn að þjóna prestsembætti með sæmd í 30 ár, og þessi laun ber í raun og veru ekki að skoða sem viðbót, heldur samúðarmerki fyrir það, sem hann er búinn að gera, og í trausti þess, sem hann ætlar að gera. En til þess að sýna, að þetta er ekki nýtt fordæmi, skal jeg minna á, að fyrir skömmu hefir ágætum manni, Bjarna Sæmundssyni, verið veitt lausn frá embætti með fullum launum, svo að hann gæti starfað betur að hjartfólgnasta áhugamáli sínu, náttúrufræðinni. Enginn efaðist um, að hann mundi vinna öllum stundum að þessu áhugamáli sínu eins og áður. Líkt er ástatt með sjera Kjartan. Hann hefir verið prestur og kennari í 30 ár og unnið sjer ágætan orðstír. Það er því engin hætta fyrir Alþingi að láta hann halda fullum launum, þar sem hann heldur áfram svipuðu starfi. Fordæmið er komið, þar sem Bjarni Sæmundsson er, og það hlýtur að koma fyrir um ágæta menn við og við, að svona ráðstafanir sjeu gerðar. Því miður eru svona menn svo sjaldgæfir, að það er engin hætta á, að þeir þyngi á fjárlögunum, þó að þeir sjeu metnir að verðleikum þá sjaldan þeir koma fram.

Hæstv. forsrh. (JM) hefir komið með brtt. við till. mína um að gefa Dalasýslu eftir viðlagasjóðslán, 4000 krónur. Ef till. hefir meira fylgi í þeirri mynd, er hún mjer jafngeðfeld, því hún miðar að því að leysa sama vandamálið. Jeg greiði því þessari brtt. atkvæði, þar sem hún er jafngóð minni fyrir hlutaðeigendur, en deildinni ef til vill geðþekkari. Þegar Dalasýsla keypti Hjarðarholt fyrir nokkrum árum, var tilætlunin sú, að styðja efnilegan mann til skólahalds þar. Skólinn gekk vel um stund, en lenti síðan í skuldum, vegna dýrtíðar og annara örðugleika, og lagðist niður, en sýslan sat með jörðina og tapið. Öll sanngirni mælir með því að hlaupa þarna undir bagga. Það var þarft fyrirtæki, sem þarna var ráðist í, þó að fyrir rás viðburðanna gæti það ekki blessast.

Jeg get tekið undir það, sem hæstv. forsrh. sagði um daufdumbraskólann. Jeg hefði að vísu kunnað betur við, að um tiltekna fjárhæð hefði verið að ræða, en jeg geri ráð fyrir, að hjer verði skynsamlega á haldið. Mjer er dálítið kunnugt um þennan skóla og veit, að ástæðurnar þar eru óviðunandi. Þessi ógæfusömu börn verða að sofa, nema og leika sjer í kjallaraplássi. Ætti raunar enginn að bjóða slíkt pláss, þó kjallaraíbúðir tíðkist hjer vegna vandræða. Það er áreiðanlegt, að enginn skóli landsins á við lík kjör að búa og þessi skóli, og því er það frekar of seint en snemma, að þessi till. kemur fram. Jeg kynti mjer skólann dálítið í vetur og hafði hugsað mjer að vekja athygli á honum fyrir næsta þing, en þess gerist ekki þörf, fyrst málið er upptekið nú. Jeg vildi, að stjórnin ljeti haga þessari byggingu þannig, að hægt væri að bæta við síðar plássi fyrir blind börn og máske annmarkabörn af öðru tægi.

Þá kem jeg að nýjum lið, sem er styrkur til Actaprentsmiðju til þess að gefa út Íslendingasögur með myndum og uppdráttum. Þetta mál mun hafa legið fyrir Nd., og var víst af tilviljun, að það var ekki borið fram þar. En þetta er fyrirtæki, sem heyrast mun um síðar, þó að það kunni að falla hjer í dag. Þessi till. gengur út á það að fá vandaða útgáfu af fornsögum okkar, bækur, sem gætu orðið almenningseign. Það er síst ástæða til að vanþakka þá útgáfu, sem við nú eigum.

En hún er miðuð við annan tíma og nú eru gerðar meiri kröfur. Þessari útgáfu, sem hjer er um að ræða, er ætlað að flytja staðamyndir og landakort til skýringar sögunum. Á þennan hátt myndu sögurnar fá nýtt gildi og verða meira virði fyrir almenning en nú er. Jeg held, að því væri engan veginn illa varið, þó veittar væru svo sem 2000 kr. í 10 ár til þess að fá slíka útgáfu inn á hvert heimili. Jeg skal taka það fram, að Sigurður Nordal hefir lofað að hafa aðalumsjón með þessu verki, og er það næg trygging þess, að því verði vel stjórnað. Jeg álít sjálfsagt, ef till. verður samþykt, að stjórnin veiti ekki þennan styrk nema tryggilega sje um alt búið.

Þá á jeg brtt. um styrk handa ungum málara, Finni Jónssyni, til Rómaferðar. Finnur er bróðir Ríkarðs myndskera og hefir farið svipaða leið og hann til að ryðja sjer braut. Ríkarður er trjesmiður og vann fyrir sjer með þeirri iðn meðan hann stundaði nám. Finnur er gullsmiður og hefir notað þá kunnáttu til að fleyta sjer áfram. Hann hefir vakið á sjer mikla eftirtekt í Þýskalandi og víðar. Hann var einn af fáum, sem kom myndum sínum á stóra sýningu í Þýskalandi í haust, og vakti hann þar mikla eftirtekt. Hann er nútímamálari og fylgir þeirri listastefnu, sem sumum hinna eldri þykir ekki eftirsóknarverð. Jeg bjóst við, að mjer mundi finnast hið sama þegar jeg sæi sýningu Finns, en það var öðru nær: Hann málar mjög hugnæmar myndir og fallegar, þó að þær sjeu mótaðar af þessari nýju stefnu. Það hefir verið venja hjer, til þess að láta sem flesta listamenn njóta sín, að gefa þeim tækifæri til að heimsækja Róm. Finnur Jónsson er búinn að ganga í gegnum þann hreinsunareld, sem gerir menn hæfa til slíkrar farar.

Þá er jeg meðflutningsmaður að till. um styrk til Páls Ísólfssonar. Jeg ætlaði ekki að taka efnið frá hv. meðflm. mínum, en jeg vildi aðeins skýra fyrir þeim, sem ekki kynnu að vita, að Reykjavíkurbær og einstakir menn hafa gert miklar framkvæmdir í því skyni, að þessi maður gæti fremur notið sín, og þær framkvæmdir hljóta að hafa mikil áhrif á alt sönglíf í landinu. Páll Ísólfsson er mesti snillingur í sinni ment, sem Ísland hefir átt. Til þess að hann geti notið sín nægja ekki venjuleg orgel. Orgel við hans hæfi kostar 40-50 þús. krónur. Það leit út fyrir í fyrra, að Páll mundi ekki geta þrifist hjer, af því ekki var til orgel, þar sem kraftar hans fengju viðnám. Nú hafa nokkrir menn gengist fyrir því að kaupa orgel við hans hæfi. Það er rjett ókomið og verður sett niður í fríkirkjunni. Þetta er ákaflega merkileg framkvæmd. Frá í haust verður þarna kostur á bestu orgelhljómleikum landsins. Þar situr mesti snillingurinn við besta hljóðfærið. Reykjavíkurbær hefir viðurkent, að Páli starfaði að því að hækka listasmekk bæjarbúa og veitt honum dálítil laun. Þar sem jeg geri ráð fyrir, að Páll verði einskonar æðsti prestur í söngment hjer á landi og að á hálfsmánaðarfresti gefist almenningi kostur á að njóta listar hans, þá hlýtur hann að hafa geysimikil áhrif á alt sönglíf í landinu. Allir, sem til bæjarins koma, munu að sjálfsögðu koma í fríkirkjuna og njóta þar þeirrar tegundar af hljóðfæraslætti, sem ekki er kostur á nema í stórum borgum.

Þá hefi jeg flutt hjer brtt. eftir ósk hv. þm. Dal. (BJ) um styrk til bryggju í Búðardal. Hv. þm. Dal. er veikur og getur ekki fylgt eftir málum þessa kjördæmis, en mjer þykir ólíklegt, að deildin láti kjördæmið gjalda þess. Jeg ætla því að skýra lítið eitt, hvernig þarna stendur á. Nú hefir Geir Zoëga gert áætlun um þessa bryggju og komist að þeirri niðurstöðu, að hana þyrfti 80 m. langa, og myndi hún kosta 20 þús. kr. Hjer er aðeins gert ráð fyrir, að Dalamenn fái þennan litla styrk, 3 þús. kr.

Jeg vil benda á þá miklu sanngirni, sem mælir með því að veita þetta, þegar litið er á, að þessi sýsla hefir verið útundan á margan hátt enn sem komið er með samgöngur á sjó. Nú er það eitt, sem hefir mikla þýðingu í þessu tilliti. Þegar strandferðaskipin koma inn í Búðardal t. d., sem mun vera 6 sinnum á ári, þá tefjast þau oft svo mikið, að það verður að hætta útskipun og uppskipun tímum saman, þegar svo stendur á sjó, beinlínis af því að bryggju vantar. Þeir, sem vita hvað slíkt skip kostar, geta giskað á, að einn eða tveir dagar á ári, sem strandferðaskipið tefst fyrir bryggjuleysi, er meiri eyðsla fyrir ríkissjóðinn en að veita þennan styrk. Það er áreiðanlegt, að ekki verður hjá því komist að styðja Dalamenn til bryggjugerðar eins og aðra landshluta. Þá vinna menn ekki annað við að fella till. en að skjóta þessu á frest. Nú á næsta ári byggja þeir fyrir 20 þús., og þá er ekki nema sanngjörn krafa að veita þeim 3 þús. kr., sem væri í sama hlutfalli við aðra hliðstæða styrki.

Þá er till. nr. 31 frá mjer og hv. þm. Vestm. (JJós), um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni til Ólafs Hvanndals myndamótara. Af því að lagst hefir verið fast á móti þessum eftirgjöfum, bjuggumst við við, að þetta yrði torsótt, þótt málstaðurinn sje góður. Samt höfum við borið fram skriflega brtt., og væri mjer þökk á, ef hæstv. forseti á sínum tíma vildi lesa upp og bera undir atkv., ef deildin leyfir.

Till. gengur út á líkt og það, sem vakti fyrir hæstv. forsrh. viðvíkjandi eftirgjöfinni til Dalasýslu, að verði fallið frá að óska eftir eftirgjöf, en farið fram á að veita 2 þús. kr. styrk í eitt skifti fyrir öll.

Þessi maður er eini Íslendingurinn, sem lært hefir þessa iðn. Hefir rekið verkstæði hjer síðustu árin, þrátt fyrir ákaflega mikla erfiðleika. Hann getur ekki haft svo mikið að gera, að það eitt sje honum nóg til atvinnu. Hinsvegar er nauðsynlegt að hafa mann í landinu, sem kann þessa iðju. En aðstaða hans er svo erfið með rekstur á þessu verkstæði, að það liggur altaf við borð, að hann hætti. Og jeg er mjög hræddur um, að niðurstaðan verði sú, að hann neyðist til að hætta, ef ekki er hægt að sýna honum þá sanngirni, sem við förum fram á.

Jeg vil benda hv. þd. á, að fyrir nokkrum árum byrjaði stærsta blaðið, sem gefið er út hjer í bænum, Morgunblaðið, á myndamótagerð, fjekk útlenda sjerfræðinga og rak hana í nokkrar vikur. Hver varð niðurstaðan? Verkstæðið varð að hætta eftir stutta stund. Það var of dýrt fyrir ekki meira verkefni en hjer er. Mennirnir fóru út og áhöldin liggja enn ónotuð. En verkstæðið, sem Ólafur Hvanndal rekur, er að miklu leyti í samræmi við okkar kjör og búskap, miklu minna og ódýrara. Ólafur hefir sætt sig við alla þá erfiðleika, sem bíða þeirra, sem eru að koma á fót hjer nýjum iðnaði. Hann hefir að vísu fengið lán fyrrum, og er búinn að borga að jeg held meira en helming af því í ríkissjóð. En það líta margir svo á, að það sje fullkomlega sanngirnismál gagnvart þessum vísi til nauðsynlegs iðnaðar að veita honum þennan styrk. Það eru ekki nema einar 2 þús. kr., sem við hv. þm. Vestm. förum fram á að veita, og það í eitt skifti fyrir öll.

Jeg held jeg hafi þá mælt fyrir þeim till. flestum, sem jeg er eitthvað við riðinn, en fæ þá máske tækifæri síðar í dag að skýra eitthvað af því, sem jeg kann að hafa gleymt.

Jeg var nærri búinn að gleyma till. um styrk til Ólafs Marteinssonar til þess að undirbúa vísindalega útgáfu á óprentuðum alþýðuvísum. Vildi jeg gjarnan tala um hana nú, þarf ekki að fara mörgum orðum um hana. Svo stendur á, að Ólafur nemur nú málfræði við háskólann og er langt kominn. Hefir hann ágæt meðmæli frá málfræðikennurum sínum. Á síðasta ári hefir hann kynt sjer í Noregi rannsókn á þessu efni. Hann er töluvert farinn að vinna að því að safna allskonar óprentuðum kveðskap og lausavísum. Í þessu er fólginn mikill og merkilegur menningarfjársjóður. Lausavísurnar eru eitt af því, sem einkennir okkar menningu. Engin þjóð hefir tiltölulega á við okkur jafnmerkilegan kveðskap af því tægi. Þessi kveðskapur hefir lifað á vörum þjóðarinnar í margar aldir, — það besta úr honum. Og það er það, sem þessi ungi maður ætlar að taka að sjer að undirbúa vísindalega útgáfu á.

Þetta verk er sem sagt dálítið hliðstætt við það, sem Jón Árnason tók sjer fyrir hendur með þjóðsagnasöfnuninni. Þeir, sem unna þjóðlegum fræðum og kveðskap, mundu mjög gleðjast, ef þessi litli styrkur yrði samþyktur.