12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2396 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

15. mál, útsvör

Þorleifur Jónsson:

Þegar þetta mál var til 3. umr., hafði jeg margt við það að athuga, en vildi hinsvegar ekki beita mjer fyrir því að stöðva það, þar eð jeg vildi, að báðar deildir þingsins fengju að fjalla um þetta mál, sem jeg verð að játa, að er talsvert mikilvægt. Nú hefir það verið rætt í báðum deildum, og hefir það sýnt sig að skoðanir þingmanna á því eru ærið sundurleitar. Það sýna m. a. hinar mörgu brtt. í báðum deildum, sem fram hafa komið, og þær sýna, að margir þm. eru óánægðir með ýms ákvæði frv. Þeir hafa haft undurleitar skoðanir um ýms meiri háttar ákvæði frv., svo sem um breytinguna á reikingsárinu, úrskurðarvöldin, álagningaraðferðina o. fl. Og þótt meiri hl. hafi fengist með frv., þá er víst að mjög margir eru óánægðir með ýms ákvæði þess, og það sýna líka þeir, sem nú hafa talað í málinu. Tveir þm. hafa lýst megnri óánægju sinni yfir því ákvæði, sem sett var inn í hv. Ed. síðast. og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) hefir sagt, að það ætti að verða nagli í líkkistu hv. Ed., svo að ánægjan er ekkert almenn.

Það var talið víst í gær, áður en atkvgr. fór fram um frv. í Ed., að það næði ekki að ganga fram, vegna þess að það hefði ekki nægilegt fylgi. En svo var það samþykt með eins atkvæðis mun, (Atvrh. MG: með 8:5 atkv.). en með það fyrir augum, að það færi ekki lengra að þessu sinni en til neðri deildar aftur. Jeg verð að telja það sómasamlega afgreiðslu á frv., þótt það verði ekki að lögum nú, heldur verði borið undir álit allra sveitarstjórna og svo borið fram á næsta þingi, með þeim breytingum, sem kunna að verða gerðar á því. Og í trausti þess, að svo verði gert, vil jeg leyfa mjer að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Með því að í frv. um útsvör eru mörg nýmæli, sem þjóðinni hefir ekki gefist tækifæri til að segja álit sitt um, þá virðist deildinni rjettast, að málið sje borið undir sveitarstjórnir í landinu áður en því er ráðið til fullra lykta — og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.

Fjölyrði jeg svo ekki meira um þetta mál og afhendi hæstv. forseta dagskrána.