12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

15. mál, útsvör

Hákon Kristófersson:

Jeg skal verða við ósk hæstv. atvrh. að vera ekki mjög margorður um þennan gamla kunningja. Eins og hv. þm. er kunnugt, lýsti jeg yfir því með brtt. mínum og allri aðstöðu til frumvarpsins, að jeg var því mjög andvígur að ýmsu leyti. Og það leiðir að líkum að sú aðstaða er óbreytt. Nú hefir frv. farið í gegnum hv. Ed. og er komið hingað óbreytt frá því, sem það fór hjeðan, nema hvað ein lítil brtt. hefir komist inn í það, og gerir hún hvorki til nje frá, er í mínum augum hvorki nein veruleg skemd á frv. nje heldur nein rjettarbót. Því eins og tekið hefir verið fram, hafa konur þennan rjett, en það var talin ruddaleg framkoma við þær að undanþiggja þær að taka við kosningu. En þótt þetta ákvæði verði í þessum lögum, þá býst jeg ekki við, að farið yrði að kjósa konur til opinberra starfa að þeim nauðugum. Og þeir, sem telja þetta rjettarskerðingu fyrir þær, verða að fallast á það, að þetta ákvæði verður aldrei notað á móti vilja þeirra. En jeg læt hinsvegar ekkert uppi um það, að þá væri betur farið með málin, ef konur fjölluðu um þau, en karlar ekki. En jeg vil láta þess getið, að jeg tel verkahring þeirra veglegri á öðrum sviðum en að atast í opinberum málum.

Mig furðar á því, ef fylgismenn þessa máls telja þetta atriði vert þess að fella frv., því að eins og hæstv. atvrh. og hv. þm. Borgf. bentu á, þá er þetta ákvæði komið inn í önnur samskonar lög.

Jeg verð að mótmæla því, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sagði, að gildandi ákvæði væri grímuklætt vantraust á konurnar. Jeg segi að vísu ekki, að minn skilningur á því sje rjettur, en jeg held það þó, að hann sje rjettari en hv. þm. V.-Húnv.

Það er rjettilega fram tekið af hæstv. atvrh., að margar brtt. hafa komið fram við þetta frv. Jeg er nú þess minnugur, að jeg átti margar brtt., sem flestar voru feldar, og gerði hæstv. atvrh. alt, sem hann gat, til að fella þræ. Jeg læt hann um það, hann hefir eflaust talið það sjálfsagt.

Hæstv. ráðh. taldi menn oft verða að ganga inn á frv., þótt mörg atriði væru í þeim, sem þeir væru óánægðir með. Jeg hefi nú ekki langa þingsögu að baki mjer, en jeg veit það, að þótt fyrir komi mál, sem þm. eru óánægðir með, þá fylgja þeir þeim af því þau hafa mikla rjettarbót í för með sjer. Því er það, að þótt mín aðstaða í þessu máli hafi verið sú, að hafa komið fram með margar brtt., sem jeg hefði viljað fá samþyktar, en voru feldar, þá álít jeg rjettarbæturnar, sem í frv. felast, vera svo mikilvægar, að jeg þori ekki að taka þá ábyrgð á mig að fella málið, heldur greiði atkv. með því út úr deildinni. En verði jeg á næsta þingi, mun jeg að sjálfsögðu taka höndum saman við þá menn, sem þá væru fúsir á að gera grundvallarbreytingar á lögunum, því stórlega tel jeg illa hafa tekist til með þessa lagasmíð, þó nokkrar rjettarbætur sjeu í henni.