12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

15. mál, útsvör

Þórarinn Jónsson:

Aðeins örfá orð. Mjer finst hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) vera nokkuð viðkvæmur, að ekki skuli mega tala svo um alment mál, að hann taki það ekki til sín, enda veit jeg ekki betur en að það viðgangist altaf að beina orðum sínum til einstakra þm., þegar talað er um einhver málsatriði, sem hann hefir minst á. En slíkt kemur ekki nærri þeim persónulega, enda viðurkenni jeg ekki að hafa beinst neitt að hv. þm. persónulega. Jeg vil taka þetta fram, ef einhver kynni að hafa litið svo á. Jeg er eins geðríkur og hver annar, en verð þó aldrei reiður, þótt eitthvað sje sagt við mig undir umr. Það, sem hv. þm. var að tala um víðsýni o. þ. h., er ekki svaravert. Jeg hefi ekkert tilefni til að svara neinu; hann hefir ekkert hrakið af því, sem jeg hefi sagt.

Út af því, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, að jeg hefði sagt, að þetta ákvæði væri grímuklætt vantraust á konur, vil jeg segja það, að konur hafa sjálfar álitið, að svo væri.