25.02.1926
Neðri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1865)

37. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg get verið stuttorður og þarf eigi langrar framsögu við í þessu máli, vegna þess að þær almennu ástæður, sem eru um einkasölu síldar, gilda einnig fyrir þetta mál. En um þetta frv. er það að segja; að það er því mikilsverðara en málið, sem til umr. var næst á undan (um einkasölu á útfluttri síld), sem fiskiveiðarnar og saltfisksverslunin er stærri atvinnuvegur heldur en síldveiðarnar. Það hefir ekki fengist á undanfarandi þingum, að máli þessu væri leyft að fara til nefndar; menn hafa ekki viljað, að mál þetta fengi þá athugun, sem sjálfsögð er um jafn-mikilsvarðandi mál. Jeg geri mjer vonir um, að svo muni þó eigi fara í þetta sinn, þar eð útlitið fyrir þessum atvinnuvegi er, að sögn, eigi eins gott og undanfarið hefir verið, og vona jeg því, að frv. fái að lifa það að koma fyrir nefnd og fá þar þá athugun, sem slíkt mál sem þetta er, á skilið að fá, það er því tillaga mín, að þessu máli verði, að þessari umræðu lokinni, vísað til sjútvn.