01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, fjárlög 1927

Ágúst Helgason:

Jeg á hjer 2 brtt., aðra á þskj. 457, VII. lið, við 13. gr., um að hækka styrkinn til bifreiðaferða austur yfir fjall um 2 þús. kr., eða úr 5 þús. upp í 7 þús. krónur. Það er ekki af því, að jeg sjái ofsjónum yfir þeim styrk, sem talað er um til Gullbringu- og Kjósarsýslu, heldur af því, að jeg sje, að 5000 kr. eru í raun og veru mjög lítill styrkur til þess að halda uppi svo miklum ferðum, sem hjer er um að ræða. Aðalleiðirnar eru 3 og allar langar, austur um Garðsauka, sem er um 115 km., að Sandlæk um 100 km. og að Torfastöðum yfir 100 km. Eftir þessum leiðum á nú að flytja á næstu árum alla vöru í 26 hreppa í báðum sýslunum, Árnes- og Rangárvallasýslum. Verslun á Eyrarbakka og Stokkseyri er nú að leggjast niður og allir aðflutningar á sjó að hætta, og leiðir af því, að hjer verður um geysimikla flutninga að ræða, þegar alt verður að flytja á bifreiðum hjeðan frá Reykjavík. Af þessum ástæðum hefi jeg ásamt hv. 1. þm. Rang. leyft mjer að fara fram á, að þessi liður verði hækkaður.

Hin brtt. er á þskj. 463, og er brtt. við brtt. á þskj. 457, VIII. lið, við 14. gr., um að greiða Kjartani prófasti Helgasyni í Hruna full laun, ef hann lætur af prestsskap og tekur við skólastjórn á Laugarvatni. Mjer þykir rjettara að orða till. svo, að miðað sje við skólann, hvar sem hann verður, en ekki við vissan stað. Að vísu má ef til vill gera ráð fyrir, að skólinn verði aðeins fyrir aðra sýsluna, en jeg vona þó, að samvinna geti orðið um hann, svo að hann verði fyrir báðar, og er þá óvíst, hver staðurinn verður. Jeg vænti þess svo, að mönnum þyki ekki óaðgengilegra að samþykkja till., þó að hún sje svona orðuð, eins og mjer sýnist rjettara, að miðað sje við hjeraðsskóla Suðurlands, hvar sem hann verður.