23.02.1926
Neðri deild: 13. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1873)

21. mál, lokunartími sölubúða

Jakob Möller:

Út af brtt., sem fram hafa komið við frv. þetta, frá háttv. þm. V.-Sk. (JK) og háttv. þm. Ak. (BL), skal jeg fyrst benda á, að jeg er sannfærður um, að það er sama og fella frv. að samþykkja þær. Er það því krókaleið, sem hjer á að fara, í stað þess að fella frv. strax, því að þannig er ástatt, að jeg tel ekki geta komið til mála, að sett verði reglugerð um þetta efni, ef frv. verður breytt þannig.

Háttv. þm. V.-Sk. (JK) er sjálfum kunnugt um, að það var allsherjarnefnd Nd. 1924, sem hann átti sjálfur sæti í, er setti ákvörðun um konfektbúðirnar inn í frumvarpið eftir tilmælum bæjarstjórnarinnar. Og það var sjerstaklega tekið fram, að það atriði væri aðalþungamiðja frv. að skoðun bæjarstjórnar. Annars skal jeg ekki fara mikið út í þá sálma, hver nauðsyn sje að loka þessum konfektbúðum, en það er mjer ekki skiljanlegt, að nein nauðsyn sje að hafa þær opnar til miðnættis, heldur en t. d. matsölubúðir.

Það mun þá best að tala hreinskilnislega um það atriði þessa máls, er snertir rakarana. Það hefir tvisvar orðið málinu að falli í Ed., og verður því ef til vill að falli í þriðja sinn, og það er alkunnugt, að það eru hagsmunir eins manns, sem stundar rakaraiðn í þessum bæ, sem valda því, að svo hefir verið að farið. Því hefir sem sje verið haldið fram, að maður þessi gæti ekki haft ofan af fyrir sjer, ef vinnutíminn væri takmarkaður. En hjer ber þess að gæta, að frv. ákveður ekkert um vinnutímann, heldur er það bæjarstjórnarinnar að setja ákvæði um hann, ef frumvarpið verður samþykt, og ennþá er óvíst, hver ákvæði hún myndi setja. Frv. fer aðeins fram á heimild handa bæjarstjórn til að ákveða vinnutímann eins fyrir alla.

Annars er eitt atriði í þessu máli, sem vert er að athuga, og þá sjerstaklega fyrir þá, sem bera hag þessa eina manns fyrir brjósti, og það er, hvort ekki mundi hollara fyrir mann þennan, að vera knúinn til að rækja starf sitt með meiri ástundun en hann hefir gert hingað til, heldur en láta það ganga á sama hátt og áður, aðeins í skjóli þess, að þurfa ekki að óttast neina samkepni.

Jeg efast ekki um, að það væri honum hollara. Það er því fyllilega misskilin umhyggja, sem hjer kemur fram fyrir hag þessa manns.

Í b-lið brtt. á þskj. 44 er svo fyrir mælt, að ákvæði frv. gildi þó ekki um vinnustofur, þegar eigandi sjálfur eða fjölskylda hans annast alla afgreiðslu. Í þessu sambandi verður að geta þess, að orðið „fjölskylda“ getur verið nokkuð teygjanlegt, og börn eða unglingar áhangandi fjölskyldunni, sem kunna að vinna í þessum vinnustofum, njóta þá engrar varnar gegn of löngum vinnutíma, en oft getur verið brýn nauðsyn á slíkri vernd.

Að endingu vil jeg svo undirstrika það við háttv. deildarmenn, sem jeg tók fram í upphafi ræðu minnar, að það er sama og að fella frv., að samþykkja brtt. þessar, því að verði þær samþyktar, er víst, að engin reglugerð verður sett.