27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (1886)

21. mál, lokunartími sölubúða

Sigurður Eggerz:

það, sem jeg átti við í ræðu minni áðan, var það, að háttv. Nd. hefir fylgt þessu máli með svo miklum áhuga og lagt svo mikla áherslu á það, er það hefir verið samþykt þar þrisvar sinnum í röð, að það er fylsta ástæða fyrir þessa háttv. deild að athuga málið miklu ítarlegar að þessu sinni en áður, að íhuga hvað liggur bak við þetta mál. Því að það er ekki hægt að neita því, að háttv. Nd. hefir mikið að þýða fyrir þingið í heild sinni. Jeg veit heldur ekki, hvort það er hægt að kalla mál eins og þetta þýðingarlítið mál. Mál, sem hefir mikla þýðingu fyrir eina stjett í landinu. Þótt stjettin sje ekki fjölmenn, er hún þó altaf að færast í aukana og verða stærri og öflugri. Það er ekki þýðingarlaust fyrir neina stjett að hafa engan ákveðinn vinnutíma. Það er því stórt „princip“, sem liggur á bak við þetta mál, hjá háttv. Nd., og er því full ástæða til að athuga málið vel. Auk þess höfum við fordæmin fyrir okkur, þar sem búið er að leyfa takmörkun á vinnutíma ýmsra annara stjetta í landinu. Þá hafa og nokkrir nýtir menn tekið sæti í þessari háttv. deild síðan síðasta þingi sleit, og er því rjett, að þeir fái tækifæri til að athuga þetta mál nánar og láta uppi álit sitt um það.

Jeg get ekki ímyndað mjer, að það geti orðið að kappsmáli hjer í deildinni, að sporna á móti því, að þetta mál fái að ganga til nefndar, hvernig sem atkvæði kunna að falla um það að síðustu.

Jeg vænti og stuðnings frá hæstv. stjórn, þar sem er hæstv. forsrh. (JM), til þess að sporna við því, að óþarfa kritur komi upp í þinginu milli deildanna. En jeg verð að líta svo á, ef þessi hv. deild leggur strax á höggstokkinn mál, sem neðri málstofa þingsins hefir samþykt þrisvar sinnum, að það sje óviðeigandi aðferð og ekki löguð til að efla góða samvinnu milli deilda þingsins.