27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1887)

21. mál, lokunartími sölubúða

Guðmundur Ólafsson:

Þar sem svo mikið hefir verið rætt um þetta mál, bæði á þessu þingi og fyrri þingum, og málið er af ýmsum talið vera mjög mikilsvert, verð jeg að leggja það til, að skipuð verði sjerstök nefnd í málið að þessu sinni, ekki síst af því að það hefir tvisvar áður komið fyrir allshn., og þeirri hv. nefnd kynni ef til vill að falla það miður, að verða nú í þetta sinn að komast að annari niðurstöðu um málið en áður.

Jeg sje því ekkert athugavert við, að skipuð sje nefnd í málið, þar sem hv. Nd. leggur svo mikla áherslu á það, og svo af því, að allar þær nefndir aðrar, sem til eru í þinginu, hafa svo rígbundin, starfssvið. (EÁ: Hvað um að vísa því til samgöngumálanefndar?) (hlátur). Jeg sje ekkert hlægilegt við þetta mál og enga ástæðu til að gera gys að því. Jeg tel rjett, að skipuð sje sjerstök nefnd í málið, þar sem allshn. hefir ærið að starfa, og af því að ástæða er til að vantreysta þeirri háttv. nefnd til að athuga þetta mál eins og það er vert.