27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1888)

21. mál, lokunartími sölubúða

Jónas Jónsson:

Af því að jeg er ekki viss um, að mál þetta komi nokkurntíma til 2. umr. og háttv. 1. þm. Rang. (EP) fái þá tækifæri til að skýra betur afstöðu sína í þessu máli, vil jeg nú segja aftur fáein orð.

Hann heldur því fram, að þetta frv. sje því til fyrirstöðu, að menn eigi kost á að vinna fyrir sjer á heiðarlegan hátt. En jeg hjelt þó, að háttv. þm., sem er prestur þjóðkirkjunnar og hefir verið vígður til að reka hennar erindi, mundi vita af því, að til er í boðum kirkjunnar setning, sem hljóðar á þessa leið: „Halda skaltu hvíldardaginn heilagan,“ og það samræmist ærið illa við stöðu þessa hv. þm. í þjóðfjelaginu, að hlynna að því, að helgi hvíldardagsins sje brotin og lítilsvirt. (EP: Jeg er alls ekki hingað kominn til að læra guðfræði af þessum hv. þm.). Þessa þyrfti þó þessi hv. þm. mjög við, það er sýnilegt, því að hann er kominn í beina mótsögn við það starf, sem kirkjan hefir falið honum að vinna, og jeg skora á hann að færa fram rök fyrir því, að hann hafi umboð og hvaðan, til .þess að stuðla að því, að Alþingi eigi sök á, að helgi hvíldardagsins sje brotin. Hann verður og að skýra frá því, hvort það sje eigi rjett, að vinna sje bönnuð að kirkjunnar lögum á helgidögum þjóðkirkjunnar. En hitt þykist jeg skilja, að hann vilji sporna við því, að þetta mál fari í nefnd, því að hann mun vilja losna við að þurfa enn á ný að standa hjer frammi fyrir deildinni verjandi rangt mál. En hann sýnir kirkjunni litla ræktarsemi með því að berjast gegn þessu máli; kirkjan er þó atvinnuveitandi hans, og hann fótum treður lög hennar með framkomu sinni í þessu máli.