27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

21. mál, lokunartími sölubúða

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hafði alls ekki ætlað mjer að tala í þessu máli, sem eigi snertir mig sjerstaklega eða mitt embætti. Jeg sje ekki, að það sje rjett hjá hv. 1. landsk. þm. (SE), að rjettur Ed. sje annar eða minni en Nd.

Það vita allir, sjerstaklega við hinir eldri þingmenn, að það hefir oft og þráfaldlega komið fyrir, að deildirnar hafa felt mál hvor fyrir annari og það oftar en einu sinni hvert mál. Jeg veit alls eigi, hversu mörg atkvæði hafa fylgt þessu máli út úr háttv. Nd. að þessu sinni, en jeg hefi heyrt, að þau hafi verið eitthvað um 14 alls. Ef það er rjett, er það ekki nema helmingur deildarinnar, og ber það ekki vott um, að máli þessu hafi þar verið fylgt af miklu kappi. En jeg veit sem sagt ekki, hvort þetta er rjett, það getur verið, að atkv. hafi verið 15 eða 16, en mikið kappsmál sýnist það þó ekki hafa verið þar. Um frv. sjálft ætla jeg lítið að tala. Samkvæmt frv. eru það fleiri en rakararnir, sem hjer koma til greina, og er því naumast rjett að miða þetta mál eingöngu við þá, og um fordæmi er víst heldur ekki að ræða, þar sem jeg veit ekki til, að settar hafi verið slíkar reglur um vinnustofur, heldur aðeins um sölubúðir og þesskonar.