01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1927

Sigurður Eggerz:

Við 2. umr. flutti jeg enga brtt., en nú hefi jeg leyft mjer að bera fram nokkrar till., bæði einn og með öðrum hv. þm.

Fyrsta brtt. mín er á þskj. 457.II, við 11. gr., um að hækka liðinn til skrifstofukostnaðar bæjarfógeta og sýslumanna úr 92 þús. upp í 100 þús. kr. Á undanförnum þingum hefir verið nokkuð deilt um þetta, og jeg held, að það sje nú farið að skýrast, að það sje ekki hægt að ganga á móti þeirri sanngirniskröfu þessara manna, að þeir fái skrifstofukostnað greiddan úr ríkissjóði samkvæmt lögum. Það er ákveðið í launalögunum, að sýslumenn skuli fá skrifstofukostnað og kostnað við þingaferðir greiddan úr ríkissjóði. En þrátt fyrir skýlaus ákvæði laganna um þetta, hefir reynslan orðið sú, að þessir menn hafa orðið að greiða allverulegan hluta af þessum kostnaði úr eigin vasa. Áður voru hjer á landi nokkur embætti, sem voru vel launuð og keppikefli hinna bestu lögfræðinga. Nú er þetta orðið öðruvísi; svo mjög hefir kjörum sýslumanna verið breytt til hins verra, að menn eru hættir að sækjast eftir þeim embættum. Og svo langt er gengið í þessu, að þessir menn eru ekki einusinni látnir njóta lagalegs rjettar, og er það æðihart, vægast sagt, og óvíst, hversu holt það er. Yfirleitt finst mjer kenna kulda til þessara embættismanna á hinu háa Alþingi. T. d. vil jeg leyfa mjer að benda á það, að síðasta þing tók af þeim aukatekjur, sem var alveg víst, að þeir áttu samkvæmt lögum, og þó eru þeir látnir greiða kostnað við embætti sín sjálfir. Þegar á þetta er litið og svo hitt, hve mikilsvert starf það er, sem þeir hafa með höndum, t. d. dómsvaldið, þá virðist það næsta óheppilegt, að þeir menn, sem eiga að gæta laga og rjettar gagnvart almenningi, skuli ekki sjálfir vera látnir njóta lagalegs rjettar af þeim, sem yfir þá eru settir. Jeg verð að vona það, að þessi háttv. deild vilji ekki fara svo illa með þessi embætti, að góðir lögfræðingar hætti að sækja um þau. Jeg er hræddur um, að það mundi hefna sín, ef því yrði haldið áfram að fara svona illa með þessa menn, því að árangurinn yrði sá, að þeir einir, sem ekki ættu annars úrkosti, fengjust til að gegna þessum embættum. Hingað til hafa það verið margir hinir bestu lögfræðingar, sem hafa valist í þau. Jeg ætla svo ekki að rökstyðja þessa till. mína frekar, en jeg verð að gera þá kröfu til greindar hv. þm., að þeir sjái, að hún er í fullu samræmi við þá rjettlætiskröfu, sem þessir embættismenn eiga til þingsins.

Þá hefi jeg tekið upp aftur 900 króna sjúkrastyrk til Haralds Sigurðssonar. Við 2. umr. var þessi upphæð 1000 kr., og jeg held, að það hafi verið fyrir hreinustu mistök, að till. fjell þá, og jeg held, að ekki sje þörf á að rökstyðja þessa till. sjerstaklega nú.

Þá á jeg enn eina litla brtt. á þskj. 457, XII, við 14. gr., nýjan lið, og eru það 800 kr., sem farið er fram á til útgáfu fræðslumálarita. Á síðasta þingi var slík till. sem þessi samþykt hjer í þessari hv. deild með miklum meiri hluta atkvæða, en þegar hún kom til hv. Nd., fjell hún á því, að maður sá, sem átti að standa fyrir útgáfu ritsins, vildi ekki greiða atkvæði. Jeg býst við, að það sje öllum hv. þm. ljóst, að það er ekki hægt að halda úti riti slíku sem þessu án styrks. Kaupendur eru of fáir og gjöld fyrir blöð greiðast yfirleitt illa. Það virðist líka nóg, að útgefendur slíkra rita vinna að jafnaði kauplaust, þó þeir þurfi ekki sjálfir að bíða halla af útgáfunni.

Þá á jeg XVII. brtt. á þskj. 457, ásamt hv. þm. Vestm. (JJós). Þessi brtt. var borin fram við 2. umr. og er um styrk handa 2 efnilegum mönnum til að ljúka söngnámi, og var þá farið fram á 2000 kr. til hvors. Nú hefir upphæðin verið lækkuð niður í 1500 kr. til hvors þeirra. Um báða þessa menn er óhætt að segja, að þeir sjeu hinir efnilegustu menn og vel líklegir til frama. Sá síðarnefndi hefir orðið fyrir óhappi vegna veikinda, og tafði það hann nokkuð frá náminu, en nú er hann orðinn frískur aftur.

Þá er það 3. brtt. mín, nr. XXI á þskj. 457, um 2 þús. kr. til Páls Ísólfssonar í viðurkenningarskyni. Um þennan mann er það að segja, að hann hefir náð, ef jeg mætti svo að orði kveða, upp í hið hærra veldi listarinnar. Slíkir menn eru það, sem endurgreiða þjóðinni með list sinni alt það, sem lagt er fram í styrkjum til listamannanna, því auðvitað er það, að þeir einir listamenn eru mikils virði, sem ná hátt upp. Hina met jeg að engu. En þeir fáu úrvalsmenn borga fyrir þá mörgu, sem ekki ná upp fyrir meðaltalið. Bæði erlendur og innlendur dómur er fyrir því, hvað Páll Ísólfsson hefir komist langt í list sinni.

Jeg vona því, að þessi litla tillaga verði samþykt.

Þá kem jeg að brtt. minni við 16. gr. 34, sem er sú XXVIII. á þskj. 457, um 5 þús. kr. til fjelagsins Landnáms til nýbýlaræktunar. Þetta fjelag var stofnað hjer í bæ 23. mars 1924 og er aðalmark þess að styðja að nýbýlarækt og yfir höfuð að vinna að ræktun landsins. Fjelagið hefir gefið út ávarp til almennings og látið birta í blöðunum, til þess að ýta undir nýbýlamálið. Það yrði alt of langt mál, ef jeg ætti að fara að lesa upp öll nöfn þeirra manna, sem hafa ritað undir þetta ávarp, og jeg læt mjer nægja með að geta þess, að þar á meðal eru ýmsir helstu menn þjóðarinnar; enda er þetta mjög merkilegt mál og er eitt þeirra mála, sem nú á dögum er veitt mikil athygli meðal erlendra þjóða. T. d. eru í Danmörku veittar stórupphæðir til nýbýlaræktunar og í Noregi fær fjelagið „Ny Jord“, sem er landnámsfjelag, um 1 milj. kr. tillag á ári úr ríkissjóði. Það er og allflestum hjer á landi ljóst, að þetta mál er einnig mjög þýðingarmikið fyrir okkar þjóðfjelag, og meðal þeirra, sem hjer hafa ritað nafn sitt undir ávarp fjelagsins Landnáms, er núv. hæstv. atvrh. (MG). Jeg lít svo á, að þessi byrjun, sem hjer er hafin til að koma hreyfingu á þetta mál, verði fyrst um sinn aðallega bundin við Reykjavík og hina aðra stærri kaupstaði á landinu. Hjer í nágrenni bæjarins hafa þegar verið reist 3 nýbýli og tekið þar land til ræktunar, og bráðum verða bygð um 10 nýbýli í viðbót.

Það er mjög vel til fundið að vekja athygli þeirra, sem búa hjer við sjávarsíðuna, og sjerstaklega þeirra, sem stunda sjómensku og þessháttar, að vekja athygli þeirra á því, að þeir geta ekki betur varið frístundum sínum en til þess að rækta landið. Ekki eingöngu til þess að geta lifað betra og þægilegra lífi á eftir, heldur til þess einnig að hafa getað lagt sinn skerf til ræktunar landsins. Þetta mun og verða til þess að vekja smám saman almennan áhuga á ræktunarmálum þessa lands og það verður einnig til þess að færa bæina nær sveitunum, þ. e. það opnar augu kaupstaðabúanna fyrir því, hversu margt gott leiðir af því að rækta landið, og menn fara þá að skilja, hversu mikla þýðingu það hefir fyrir velmegun alls almennings.

Í stjórn fjelagsins Landnáms eru nú ýmsir duglegir og áhugasamir framkvæmdamenn, t. d. Pjetur Halldórsson, Jón Ólafsson framkvæmdarstjóri, Grímúlfur Ólafsson, Jón bóndi á Bessastöðum og formaður Búnaðarfjelags Íslands, sem er mjög mikill framfaramaður og lætur sjer ant um alla nýbreytni, sem mætti verða til eflingar ræktun landsins, og er maður mjög stórhuga. Fjelaginu er, eins og jeg nú hefi sagt, stjórnað af duglegum framkvæmdamönnum og undir ávarp fjelagsins hafa ritað ýmsir okkar mestu áhugamenn, og má því vænta þess, að háttv. þingdeild taki þessa till. til greina og viðurkenni, að þetta er eitt hið mesta stórmál og mjög athyglisvert. Jeg get ekki sjeð, að hjer standi neitt sjerstaklegar á hjá okkur en hjá öðrum þjóðum, nema ef vera kynni, að hjer væri enn meiri þörf þessa máls en t. d. í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð. Hjá öllum stórþjóðunum í nágrenni okkar er þessi hreyfing mjög öflug og alstaðar er krafist meiri ræktunar landsins.

Fjelagið Landnám hafði í fyrstu skrifað umsókn til háttv. Nd. og farið fram á 20 þús. kr. styrk. Nú hefir fjelagið breytt þessu og biður nú aðeins um 5 þús. kr. Þó að þetta sje lítil upphæð, getur hún þó komið að góðu liði. Það er t. d. í sjálfu sjer fjelaginu mikil stoð, að Alþingi yfir höfuð viðurkenni starfsemi þess. Samúð og skilningur löggjafarvaldsins er fjelaginu mikils virði. Hvað ætlar fjelagið að gera við þessar 5 þús. kr.? Auðvitað á að styrkja með fjenu þá, sem eru að byrja á nýbýlum, og auk þess á að verja nokkru af upphæðinni til þess að vekja áhuga á málinu. Jeg býst við, að þó menn gerðu yfirlit yfir ýmsar fjárveitingar í fjárlögunum og gerðu upp á milli þeirra, hver væri rjettmætust, leyfi jeg mjer að halda því fram, að örðugt mundi að finna upphæð, er öllu nauðsynlegri væri en þessi. Jeg er sannfærður um, að enginn verður til að andmæla þessari brtt., og jeg vænti, að háttv. deild lýsi yfir fylgi sínu við þetta framfaramál, þetta nýja mál, sem hjer er að byrja að ryðja sjer til rúms, og samþykki brtt. með öllum atkv.

Þá á jeg ekki fleiri brtt. sjálfur og um brtt. annara þm. hefi jeg ásett mjer að vera ekki margorður; þó er þar á meðal ein brtt., sem jeg verð að gera undantekning um. Það er brtt. hv. 3. landsk. (JJ). sú I. á þskj. 457, um að leggja niður sendiherraembættið í Kaupmannahöfn. Jeg verð að segja, að jeg undraðist mjög, er jeg sá þessa brtt. um að fella niður fjárveitingu til þessa embættishalds. Háttv. Nd. hefir samþykt þetta samkvæmt tillögu hæstv. stjórnar með allmiklum meiri hluta og sýnt með því vaxandi skilning á þessu máli. Annars hefi jeg svo oft talað um þetta sendiherramál, að jeg fer ekki að endurtaka neitt af því nú. En það segi jeg aðeins, að svo þykist jeg þekkja á hljóðið í þinginu núna, að jeg get fullyrt það, að þessi brtt. fær ekki áheyrn. Það er öllum þingheimi fyrir löngu orðið ljóst, að þetta mál má ekki við svo búið standa lengur. Það eru nær allir sammála um það, að embætti þetta verði að endurreisa. Það eru einnig allir sammála um það, að hr. Jón Krabbe hefir gegnt starfi sínu ágætlega, enda hefir hann ætíð notið óskifts trausts þings og þjóðar. En hitt verða menn að játa, að það eru gerðar of miklar kröfur til starfsþreks eins manns, að hann gegni þessu allerfiða embætti í viðbót við það embætti, sem hann hefir í utanríkisráðuneytinu danska. Enda hefir og hr. Jón Krabbe beðist undan því að gegna þessu embætti lengur vegna heilsubilunar.

Háttv. 3. landsk. þm. talaði um, að íslenska ríkið hefði átt sendiherrabústaðinn í Kaupmannahöfn. Þetta var rangt. Sendiherrann keypti húsið fyrir sitt eigið fje og seldi aftur sjer í óhag, enda tapaði hann allmiklu fje við það að gegna þessu embætti, jafnilla launuðu. Auk þess verður að telja miklu heppilegra að ýmsu leyti, að sendiherrann búi í Kaupmannahöfn sjálfri, en ekki utan til við borgina. Nei, hljóðið í mönnum viðvíkjandi þessu máli er áreiðanlega orðið breytt, og hver tilraun til að „agitera“ þetta mál niður mun mishepnast. Jeg hefi verið á mörgum fundum uppi til sveita, þar sem þetta mál hefir borið á góma, og jeg hefi þar sýnt fram á nauðsyn þessa embættis og aldrei sætt neinum mótmælum; enda munu bændur nú farnir að skilja betur en áður nauðsyn og gagnsemi þessa embættis og viðurkenna nú þá þýðing, sem sendiherrann hafði fyrir heppilega úrlausn eins hins mesta vandamáls, sem bændastjettinni hefir ennþá borið að höndum, þ. e. kjöttollssamningarnir.

Jeg vænti, að hv. 3. landsk. þm. hætti nú bráðlega að standa öndverður gegn þessu máli, og jeg er sannfærður um, að ef menn gætu sjeð inn í instu fylgsni hugskots hans, þá mundu menn sjá, að hann álítur sjálfur þetta mál betra en hann vill viðurkenna. Jeg trúi ekki öðru en hv. þm. (JJ) breyti bráðlega um stefnu í þessu máli, enda er það óvænlegt fyrir hans stjórnmálaflokk að ætla að halda því fram, að þjóðin hafi enga eða sem minsta íhlutun um sjálfstæðismálin.