19.02.1926
Efri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1896)

24. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta, sem hjer er til umr., er borið fram vegna ítrekaðra óska, sem komið hafa fram á almennum borgarafundum í Norðfjarðarkauptúni, er samið af hreppsnefnd Neshrepps og flutt hjer fram að beiðni hennar.

Jeg gæti að miklu leyti látið mjer nægja, við þessa fyrstu umræðu um frv., að vísa til greinargerðar frv. sjálfs, um ástæðurnar fyrir því, að það er hjer fram komið. Þó vil jeg samt bæta nokkrum orðum við það, sem þar er sagt, til skýringar.

Því hefir verið haldið fram, og það með rjettu, að kauptúnum hjer á landi væri mjög ábótavant um alt menningarsnið, svo sem skipulag bygginga, vegi, þrifnað og annað því um líkt. Þetta er all-alment álit, sem oft hefir komið fram opinberlega, og svo lítur út, sem hið háa Alþingi hafi fallist á það, að svo mundi vera, — í þá átt bendir til dæmis útnefning skipulagsnefndarinnar og fjárhæðir þær, sem veittar hafa verið á fjárlögum undanfarandi ára og veittar munu verða framvegis, til þess að standast kostnað þann, sem leiðir af störfum nefndarinnar. Þetta sýnir ótvírætt, að þing og stjórn hefir talið sjer skylt að láta slík mál til sín taka og hafa álitið rjettmætt að verja fje úr ríkissjóði, til þess að vinna að því að minsta kosti, að skipulag kauptúnanna batnaði í framtíðinni.

Þessi ráðstöfun hins háa Alþingis er sjálfsagt góðra gjalda verð, þótt seinvirk sje og um hana megi segja eitthvað líkt og stendur í gamla orðtækinu, að seint sje að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í. Því í verður ekki neitað, eins og nú er ástatt um mörg kauptún á landinu, að þau hafa verið látin vaxa upp eins og óhirtir unglingar undir slæmum og óviðeigandi skilyrðum. Hlýtur því að taka mannsaldra að bæta úr þeim ágöllum, sem hirðuleysið hefir valdið í þessum efnum, þó að nú yrði tekið röggsamlega í taumana, sem raunar er þó lítið útlit fyrir, að verði gert. Því þó að skipulagsuppdrættir að öllum kauptúnum á landinu yrðu einhverntíma fullgerðir, — sem ekkert útlit er fyrir nú, að verði fyrst um sinn, — kemur það að litlu haldi, ef afstaða kauptúnanna er ekki bætt, þannig að þeim verði kleift að framfylgja þeim ráðleggingum, sem skipulagsnefndin kann að gefa þeim.

Jeg hefi drepið á þetta hjer, til þess að benda á, að Alþingi hefir fundið, að ýmislegt er öðru vísi en það ætti og þyrfti að vera í kauptúnunum hjer á landi, og að það hefir sjeð, að nauðsyn bar til, að tilraun yrði gerð til að bæta úr því, sem ábótavant var.

Hitt er annað mál, hvort þær ráðstafanir, einar út af fyrir sig, sem gerðar hafa verið, megna að bæta úr ástandinu; en spor í rjetta átt geta þær þó verið.

Mjer vitanlega hefir það lítið verið rannsakað, hverjar orsakir liggja til þess, að íslensk kauptún hafa á sjer að meira eða minna leyti ómenningarbrag; virðist það þó vera nauðsynlegt, ef varanlegar umbætur eiga að fást. Að sjálfsögðu eru orsakirnar margar, en ein aðalorsökin, og að mínum dómi sú áhrifamesta, er sú, að kauptúnin hafa vaxið upp undir ófullkomnu og óviðeigandi sveitarstjórnarfyrirkomulagi. Þau sveitarstjórnarlög, er að öllu leyti hafa átt við og samsvarað kröfum og atvinnuháttum landbúnaðarsveitanna, hafa reynst ónóg og ekki viðeigandi í kauptúnunum, sem hafa miklu fjölbreytilegri atvinnuhætti og betri skilyrði til örari vaxtar og fólksfjölgunar. Þessvegna hefir og reynslan orðið sú, að breytt hefir verið til um fyrirkomulag sveitarmálefna kauptúnanna, þegar þau hafa stækkað, en oftast nær miklu seinna en átt hefði að vera og oft með nokkurri tregðu af hálfu löggjafarvaldsins, má þar til nefna t. d. Siglufjörð. En ætíð hafa þó úrslitin að síðustu orðið þau, að horfið hefir verið að bæjarstjórnarfyrirkomulaginu. Þessi tregða, sem stundum hefir komið fram af hálfu löggjafarvaldsins, um að verða við kröfum kauptúnanna um bætt stjórnarfyrirkomulag, hefir aldrei og getur aldrei leitt af sjer annað en óþægindi fyrir viðkomandi kauptún. Þess eru engin dæmi, að kauptún hjer á landi, sem einu sinni hefir farið fram á, að sjer yrðu veitt bæjarrjettindi, hafi fallið frá þeirri kröfu síðar, og þess þarf eigi heldur að vænta um Norðfjarðarkauptún. Kröfunni verður af þess hálfu haldið áfram, þar til henni verður fullnægt. Að skjóta þessu máli á frest getur ekki haft aðrar afleiðingar en þær, að eyða fje og tíma Alþingis að óþörfu og valda kauptúninu óþæginda á ýmsan hátt.

Í greinargerð fyrir frv. eru allítarlega færð fram rök fyrir frv. og sýnt fram á þörfina fyrir það, að Norðfjörður fái kaupstaðarrjettindi, bæði frá þeirri hlið málsins, er snýr að kauptúninu sjálfu, að því er snertir stjórn málefna þess, og einnig frá þeirri hlið, er segja má, að sjerstaklega varði ríkissjóð og hið opinbera, svo sem tollgæslu, lögreglustjórn og dómsvald, og tel jeg við framsögu þessa máls eigi ástæðu til að bæta þar miklu við. Þó vil jeg til skýringar gefa nokkru nánari upplýsingar.

Á hverju ári, í júlí og í fyrri hluta ágústmánaðar, sigla inn á Norðfjörð um 70–80 færeysk fiskiskip, auk þeirra, er þar koma oft til þess að selja afla sinn. Þessi færeysku fiskiskip umhlaða afla sínum í flutningaskip, sem koma þangað frá Færeyjum, og taka aftur úr þeim salt, kol, matvöru og aðrar nauðsynjar, er fiskiskipin þurfa með. Þessi umhleðsla á vörum á Norðfirði skiftir árlega tugum þúsunda smálesta. Af miklu af þeim vörum, sem þannig er umskipað, ber að greiða inn- og útflutningsgjald, og nemur það alls eigi svo litlum upphæðum. Alla þvílíka innheimtu, verður hreppstjórinn í Neshreppi að annast eins og nú er ástatt, og fylgir henni meiri ábyrgð og fyrirhöfn en telja má sanngjarnt að krefjast af launalitlum hreppstjóra. Enda er nú svo komið, að þeir, sem færir eru um að hafa hreppsstjórnina á hendi, vilja vera lausir við hana. Í þessu sambandi vil jeg taka það fram, að Norðfjörður er eina höfnin á öllu Austurlandi, er Færeyingar umskipa á fiski sínum, á þann hátt, er jeg þegar hefi lýst. Veldur þessu lega fjarðarins og hin stutta og hreina innsigling, sem þar er. Til skýringar því, hversu afar óhagstætt það er fyrir Norðfirðinga, að yfirvald þeirra situr á Eskifirði, vil jeg nefna eitt dæmi.

Fyrir skömmu kom það fyrir, að tveir hásetar af útlendu flutningaskipi, sem lá á Norðfirði, voru kærðir fyrir lagabrot, sem þeir höfðu framið í landi.

Málið þurfti skjótrar rannsóknar við, en sýslumaðurinn gat eigi komist til Norðfjarðar. Varð því að fá vjelbát til þess að flytja hina ákærðu til Eskifjarðar til þess að málið fengist þegar rannsakað. Er það um 5 klukkutíma ferð, ef veður er gott, en úti fyrir landinu er yfir tvær vondar straumrastir að fara. Um landleiðina til Eskifjarðar þarf jeg eigi að vera fjölorður, því að jeg hygg, að sumir háttv. deildarmenn muni vera henni kunnugir, en jeg vil aðeins geta þess, að jeg tel fáar verri. Vegurinn liggur yfir fjallgarð, sem er um 2000 fet yfir sjávarmál og er eigi fær nema fáa mánuði á sumrinu. Í fyrra þurfti jeg að fara þessa leið í byrjun júlí, og varð jeg þá að vaða snjó á um 11 km. löngu svæði. Var þetta þó eftir tiltölulega mildan vetur og gott vor.

Þetta dæmi læt jeg nægja til að sýna, við hverja örðugleika er að etja, er sækja skal til yfirvalda til Eskifjarðar úr jafn-fjölmennu kauptúni og Norðfjörður er, og hinar tíðu siglingar þangað gera það ósjaldan nauðsynlegt.

Þá vil jeg geta þess, að Norðfjörður er yngstur af hinum stærri kauptúnum á Austurlandi. Á síldarárunum þar eystra, 1885–95, fjölgaði íbúum Seyðisfjarðar, Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar töluvert vegna síldveiðanna á þeim stöðvum, en á Norðfirði fjölgaði íbúunum ekki á þeim árum, því að síldarveiðimenn settust þar lítið að eða fluttu sig fljótlega burtu aftur, vegna þess að síldveiðin reyndist þar miklu stopulli en á hinum fjörðunum. Norðfjörður er svo stuttur, að síld staðnæmist þar ekki til langframa.

Árið 1895 var Norðfjörður löggiltur verslunarstaður. Voru íbúarnir þar þá, á því svæði; sem kauptúnið nú stendur á, innan við 100 manns. Það er fyrst eftir aldamótin, um 1904–1905, að kauptúnið fer að vaxa, en þó ekki mjög ört framan af. Árið 1913 var kauptúnið, samkvæmt heimild sveitarstjórnarlaganna, gert að sjerstökum hreppi, sem síðan hefir verið kallaður Neshreppur; var íbúatalan þá orðin 800. Síðan hefir kauptúnið stöðugt farið vaxandi, enda þótt vöxturinn væri nokkru minni á kreppuárunum, en mest hefir það þó vaxið tvö síðustu árin, og alt útlit er fyrir, að það muni halda áfram næstu ár. Til merkis um það, að vöxtur Norðfjarðar sje meira en höfðatalan ein, vil jeg benda á það, að síðastliðið ár var tekju- og eignaskattur til ríkissjóðs úr Neshreppi 42 þús. kr., er það sem næst 2/3 hlutum alls tekju- og eignaskatts úr Suður-Múlasýslu það ár, og er hún þó ein af fjölmennari sýslum landsins. Auðvitað ber þess að gæta, að árið 1924, sem skatturinn er miðaður við og reiknaður af, var með afbrigðum hagstætt og tekjudrjúgt ár fyrir Norðfirðinga eins og flesta aðra hreppa landsins.

Með þessum skýringum og rökstuðningi, sem fram er fluttur í greinargerð frv. og þessari framsögu minni, vænti jeg, að háttv. deild verði ljett að sannfærast um rjettmæti þessa frv., og að málið fái fljóta og góða afgreiðslu deildarinnar. Um einstök atriði frv. ætla jeg ekki að ræða að þessu sinni, tel jeg, að það heyri frekar undir 2. umr. Sjálfsagt er þetta frv., eins og önnur mannanna verk, þannig úr garði gert, að sitthvað megi að því finna og einstökum greinum þess, en alt slíkt ætti að mega lagfæra í nefnd. Vil jeg svo að lokum leyfa mjer að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til hv. allshn.