24.03.1926
Efri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1898)

24. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Frsm. (Eggert Pálsson):

Þetta frv. er, eins og hv. þm. er kunnugt, flutt af hv. 2. þm. S.-M. (IP), eftir ósk íbúanna í Neskaupstað í Norðfirði, og var því að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og allshn.

Allsherjarnefnd hefir nú athugað frv. þetta eins vel og kostur var á, bæði hvað snertir íbúatölu, staðhætti og kringumstæður á þessum stað og öðrum, sem líkt stendur á fyrir. Og hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að það sje ekki gerlegt að láta frv. þetta ná fram að ganga eins og sakir nú standa.

Eins og kunnugt er, þá er það vanþakklátt verk að mæla á móti málum, sem flutt eru af einstökum þingmönnum, eftir áskorunum frá kjósendum. En hinsvegar hefir nefndin skyldu til þess að athuga slík mál sem þetta frá fleiri en einu sjónarmiði. Nefndin leit á málið frá sjónarmiði Neshrepps, og virtist það óneitanlega mundu vera til allmikilla þæginda fyrir þá sveit, ef málið gengi fram, sem og hagsmuna, ef vel tækist til með skipum þessa bæjarfógeta, sem jafnframt á að vera bæjarstjóri.

En hjer er um fleira að ræða. Hjer ber líka að athuga, hver áhrif þessi breyting hefði á hag allrar Suður-Múlasýslu og ennfremur á landið í heild.

Suður-Múlasýsla mun, eins og gefur að skilja, ekki telja sjer hag í því, að frv. gangi fram. En það var vitanlega ekki það, sem einkum kom til orða í nefndinni, heldur hitt, hver áhrif það mundi hafa á hag landsins í heild sinni.

Nefndin leitaði upplýsinga hjá Hagstofunni um fólksfjölda í þessu umrædda kauptúni og fjekk það svar, að 1924 hefði verið í Neskauptúni 876 íbúar. En af manntali þess árs sjest, að sumstaðar annarsstaðar er mannfjöldi miklu meiri í kauptúnum, t. d. á Akranesi. Þar voru t. d. 1087 íbúar. Og ef ganga skal inn á þá stefnu, sem í frv. felst, þá er vafalaust, að Skipaskagakauptún mundi líka rísa upp og heimta sinn sjerstaka lögreglustjóra. Og svo mundu fleiri á eftir koma. Jeg get t. d. bent á annað kauptún í S.-Múlasýslu, sem ekki hefir lögreglustjóra sjerstakan, sem sje Búðir í Fáskrúðsfirði. Þar voru 578 íbúar 1924, svo ekki þyrfti að koma nema lítill fjörkippur í atvinnurekstur þar, til þess að íbúatalan færi upp í 876, og þá mundi þetta kauptún rísa upp og heimta bæjarfógeta hjá sjer, líkt og Neshreppur nú, því að líklegt má þykja, að erfiðleikarnir á því að ná til sýslumanns á Eskifirði sje líkir á Búðum og í Nesi.

Í frv. er farið mjög vægilega í það að auka ríkissjóði útgjöld, þar sem ráðgert er, að væntanlegur bæjarfógeti í Nesi verði aðeins að hálfu launaður af ríkinu, en að hálfu af kaupstaðnum. En nefndin var hrædd um, að slík ráðstöfun mundi ekki haldast til lengdar. Auk þess getur hjer komið fleira til greina, enda gefið í skyn í frv., að eitthvert fje muni þurfa til skrifstofuhalds, en þess ekki getið, hvaðan það fje eigi að taka. En hætt er við, að það yrði að koma úr ríkissjóði.

Af undanfarinni reynslu eða dæmum má sjá, að það hefir stundum hepnast að koma málum eins og þessu í gegn í þinginu með því að láta í veðri vaka, að kostnaðurinn mundi verða svo lítill. Skal jeg í því sambandi nefna Siglufjörð. Þegar rætt var um það, að gera hann að kaupstað, þá var það notað sem ástæða til að knýja málið gegnum þingið, hvað það væri kostnaðarlítið fyrir landið. Mig minnir, að nefndar væru 2500 kr. En þegar til kom, þá voru þessum lögreglustjóra ætluð sömu laun og hverjum öðrum lögreglustjóra, að vísu í lægsta launaflokki.

Eins og jeg hefi nú tekið fram, þá neitar nefndin því ekki, að Neskauptún eigi við örðugleika að etja um að ná til sýslumanns. En það er heldur enginn efi á, að svo er víðar ástatt. Skal jeg þar nefna t. d. Akranes. Þar munu örðugleikarnir í þessu efni vera engu minni, jafnvel meiri. Og fleiri staði má nefna, svo sem Sand og Ólafsvík, þar sem nú munu vera samtals 1000 íbúar. Ekki eiga þeir hægra með að ná til sýslumanns en Nesmenn. Með því að líta þannig ekki aðeins á þá einu hlið, sem að kauptúninu snýr, heldur líka á hina, sem veit að ríkissjóði og S.-Múlasýslu, komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að þetta frv. ætti ekki fram að ganga, a. m. k. ekki að svo komnu. Seinna kann svo að fara, að Neskauptún vaxi svo mikið, að ekki verði hjá því komist, að þar verði kaupstaður. En eins og nú stendur, þá eru svo líkar ástæður víða annarsstaðar, að ef Nes fengi kaupstaðarrjettindi, þá yrði ekki komist hjá því að veita fleiri kauptúnum sömu rjettindi.