27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1907)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. meiri hl. (Jón Kjartansson):

Eftir frv. þessu, þegar það kom hjer inn á þing á þskj. 88, er gert ráð fyrir því, að hafnarsjóður Reykjavíkur skuli hafa lögveð fyrir öllum gjöldum, sem um ræðir í 10. gr. hafnarlaganna, og sektum samkvæmt 17. gr., og fyrir skaðabótum, sem skipum kann að vera gert að greiða fyrir skemdir á hafnarvirkjunum. Meiri hl. allshn. vildi ekki ganga inn á frv., ekki síst vegna ákvæðisins um skaðabæturnar. Þær geta numið stórfje, og ef svona er ákveðið skilyrðislaust, er að áliti meiri hl. veðunum stofnað í of mikla óvissu. En nú er einmitt svo mikið undir því komið, að veð í skipum sjeu ekki sett í óvissu, því þau eru svo þýðingarmikil fyrir viðskiftin. Meiri hl. allshn. leggur því til, að frv. verði felt.

Jeg vil geta þess, að meðan allshn. var að afgreiða þetta mál, var hafnarstjóri Reykjavíkur ekki í bænum. Nú er hann nýlega kominn heim, og þegar hann sá, hverja afgreiðslu þetta mál hafði fengið, kom hann til viðtals við nefndina, og tjáði hún honum ástæðurnar fyrir því, að svona hefði farið. Þá sagði hann, að fyrir sjer væri það aukaatriði, sem nefndin hefði út á frv. að setja, og hefði hann tekið það inn í frv. eiginlega í gáleysi, og væri sjer ekkert kappsmál að fá þessi gjöld inn í lögin, heldur aðeins hin beinu hafnargjöld. Ef frv. hefði komið svo úr garði gert til allshn., hefði jeg getað verið hlyntur því, og hygg jeg, að það mundu fleiri hafa verið.

Minni hl. allshn. (JBald) hefir fært frv. í það horf, sem hafnarstjóri vill vera láta, og er það á þskj. 195, og get jeg lýst því yfir, að um þá till. eru atkv. meiri hl. óbundin.