31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1922)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er ágætt að heyra það af vörum hv. frsm. og hv. flm., að ekki þarf að samþykkja þetta frv. vegna Reykjavíkurhafnar, því að hún hefði annan betri rjett. En nú hafa þeir, sem tala máli mótorbátaeigendanna, verið á móti frv., og þess vegna þarf ekki að samþykkja það þeirra vegna. Hverra vegna á þá eiginlega að samþykkja það? Hv. flm. (JBald) segir, að gjöldin mundu aldrei fara fram úr 25 krónum. Á þá að stofna lögveð fyrir þetta? Þá er orðið lítið verkefni þessa frv. og betra að láta það ekki fara lengra en komið er. Þessi gjöld mótorbátanna eru svo lág, að svo að segja engum er ofvaxið að útvega þá upphæð á svipstundu. Mótorbátaeigendur hafa ekki óskað eftir þessu, enda er frv. ekki eingöngu bundið við mótorbáta. Viðvíkjandi því, hvar í röðinni þetta lögveð ætti að vera, gaf hv. flm. (JBald) ekki neitt ákveðið svar. Lögveðunum er skift í flokka þannig, að ekkert kemur í 2. flokki, ef 1. flokkur er ekki greiddur að fullu, o. s. frv.