03.03.1926
Neðri deild: 19. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

27. mál, verslunarbækur

Jón Kjartansson:

Eins og drepið er á í nál. hefi jeg ekki getað átt samleið með þeim meðnefndarmönnum mínum, sem leggja til, að frv. fái fram að ganga, og er aðalástæðan sú, að verði frv. þetta að lögum, eykur það mjög störf hjá verslunum út um landið. Lögin um verslunarbækur frá 1911 hafa fengið allmikla reynslu og gefist vel. Þar sem jeg þekki til sveitaverslana, hefir aðferðin verið sú, að öll viðskifti hafa verið skráð í frumbók. Frumbókin er þannig útbúin, að hvert blað er tvöfalt, og þegar skráð er í hana, er settur „kalkerpappír“ á milli, svo nákvæmlega sama kemur út á öðru blaðinu, sem skráð var á hið fyrra. Fær viðskiftamaðurinn svo annað blaðið. Í höfuðbók er fært einungis númer frumbókar og upphæð viðskiftanna.

Nú er gert ráð fyrir því í 10. gr. laga um verslunarbækur, að frumbókin ein hafi sönnunargildi, og skilst mjer því, að með frv., þótt það verði samþ., verði ekki hægt að losna við frumbókina. Hjer er því um mikið aukastarf að ræða, ef innfæra á öll viðskiftin einnig í viðskiftabók.

Hins vegar vil jeg undirstrika það, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði við 1. umr. þessa máls, að alstaðar væri um þá sanngirni að ræða meðal verslunarmanna, að ef einhver viðskiftamanna þeirra óski eftir að fá viðskifti sín færð í „kontrabók“, þá muni engin fyrirstaða á því, enda banna lögin það ekki. En með því að skylda þetta með lögum, getur það valdið ýmiskonar ruglingi og stórum aukið vinnu hjá verslunarmönnum að nauðsynjalausu, en það er fyrir mjer aðalatriðið.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en leyfi mjer að skjóta því til hæstv. atvrh. (MG), hvort hann lítur ekki svo á, að frumbókarinnar sje þörf eftir sem áður, þó að frv. verði að lögum. Mjer skilst, að það sje mótsögn í frv., sem naumast geti staðist, þegar sagt er, að viðskiftabókin eigi að hafa sönnunargildi. Eftir lögunum að dæma er það aðeins frumbókin, sem kemur til greina í því efni.