01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög 1927

Jóhann Jósefsson:

Jeg ætla að fara nokkrum orðum um þær brtt., sem jeg flyt eða er riðinn við. Það er þá fyrst XVIII. brtt., sem jeg flyt ásamt hv. 1. og 3. landsk. (SE og JJ). Fyrri lið þeirrar till., um styrk til Sigurðar Skagfeldts, flutti jeg við síðustu umr. og sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þann mann en jeg gerði þá. Jeg skal geta þess, að það er mitt álit og margra annara, að sá maður geti fyllilega komið til greina, þegar úthlutað er styrk til söngnáms. Um b-lið till. hefi jeg lítið að segja, enda hefir hv. 1. landsk. talað rækilega fyrir honum. Jeg heyrði til þessa manns fyrir nokkrum árum og virtist hann þá efni- legur söngvari. Síðan hefir hann varið miklum tíma til að fullkomna sig.

Þá hefi jeg tekið upp af nýju styrk til Guðbrands Jónssonar til að semja íslenska miðaldamenningarsögu. Þessi liður var upphaflega í fjárlagafrv. stjórnarinnar, en var feldur í Nd. Jeg held, að þetta hafi ekki verið fyllilega rjettmætt, því eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið um, hvað maður þessi hefir unnið fyrir styrkinn, hygg jeg, að hann hafi fullkomlega átt skilið að fá hann. Verkefni það, sem hann hefir valið sjer, er víst ekki ómerkilegra en mörg menningarsöguatriði, sem menn hafa tekið sjer fyrir hendur að rannsaka. Mjer er kunnugt um, að hann hefir samið 16 prentarkir, sem Bókmentafjelagið hefir tekið til prentunar. Hann hefir rannsakað handrit í Árnasafni og varið miklum tíma til að tína saman handritaslitur á bókaspjöldum. Hefir honum hepnast með þessum rannsóknum að koma saman einu heilsteyptu handriti. Á þessum spjöldum hefir hann fundið 14 miðaldasálmalög, sem hvergi eru til annarsstaðar og eru líklega íslensks. Jeg gæti talið fleira, en ætla þó að nema hjer staðar. Jeg skal aðeins geta þess, að þegar sambandslaganefndin var að rannsaka í Khöfn í sumar, hvaða gripi skyldi heimta úr dönskum söfnum samkvæmt kröfu frá Alþingi, þá naut hún aðstoðar þessa manns. Það sýnir, að hann hefir verið álitinn vel fær til þess að gefa leiðbeiningar um það efni. Jeg treysti því, að þessi styrkur verði tekinn upp aftur.

Hv. 3. landsk. hefir minst á brtt. viðvíkjandi Ólafi Hvanndal og það, að við vegna andúðar þeirrar, sem eftirgjöf á viðlagasjóðslánum hefir mætt, höfum breytt til og farið fram á styrk í eitt skifti fyrir öll, 2000 krónur, til myndamótunarstarfsemi. Hv. 3. landsk. er þessu máli kunnugri en jeg, enda lýsti hann því svo vel, að jeg þarf engu við að bæta.

Aðeins skal jeg geta þess, að mjer er kunnugt um, að viðkomandi maður, Ólafur Hvanndal, á við fjárhagslega örðugleika að búa, því að iðn þessi, þó nauðsynleg sje, mun gefa fremur lítið af sjer.

Eins og hv. 2. þm. S.-M. (IP) drap á, flutti jeg við 2. umr. samskonar till. um rafstöð og feld var fyrir honum við þá umr., nema hvað mín till. fór fram á mun lægri upphæð. Þegar jeg sá, hvaða afdrif hans till. fjekk, þótti mjer tilgangslaust að bera mína upp. Jeg skal ekki víta þá stefnu, sem virðist ríkjandi í þinginu nú eins og í fyrra, að vilja forðast sem mest ábyrgðir fyrir einn eða annan. Það er víst góð stefna, þegar hægt er að koma henni við, og vegna þeirrar stefnu hefir víst till. hv. 2. þm. S.-M. verið feld.

Jeg get ekki sagt það sama um mitt kjördæmi og hann um sitt, að það sje svo vel stætt, að í raun og veru þurfi það ekki á þessu að halda. Vestmannaeyjar eru ekki vel stæðar sem sveitarfjelag nú sem stendur, þó von sje um, að úr því rakni, þegar fyrirtæki þeirra fara að gefa af sjer arð. Það ætti ekki að vera nein áhætta fyrir ríkissjóð að veita þetta lán eins og farið er fram á í brtt. minni. En á hinn bóginn er það svo, eins og jeg tók fram við 2. umr., að bærinn getur ekki hliðrað sjer hjá því að efla rafstöðina. Það hefir verið dregið í lengstu lög, en nú er svo mikill skortur á rafmagni, að stækkun stöðvarinnar er óumflýjanleg, enda er auðsjeð, að stærri stöð ber sig tiltölulega betur, því að þó vjelaafl sje aukið að nokkrum mun, þurfa ekki allir útgjaldaliðir að hækka í jöfnu hlutfalli; mannahald t. d. eykst lítið. Jeg vona, að þessari till. minni verði tekið vel í deildinni, og jeg þakka hv. 2. þm. S.-M. þá yfirlýsingu, að hann mundi fylgja því máli.

Jeg skal geta þess, að till. mín á þskj. 457 er ekki fullkomin. Það vantar aftan við hana um lánskjörin og til hve langs tíma lánið skuli veitt. Jeg hefi því búið til viðaukatill., svo hljóðandi:

„Aftan við tillögugreinina bætist: Lánið veitist til 15 ára með 6% vöxtum og jöfnum afborgunum á hverju ári.“

Jeg afhendi hæstv. forseta þessa viðaukatill. og vona, að deildin leyfi, að hún komi undir atkvæði um leið og hin till. er borin upp.