07.04.1926
Efri deild: 44. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (1941)

27. mál, verslunarbækur

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Þetta litla frv. er borið fram í hv. Nd. og gekk þar fram breytingalaust. Nefndin hefir nú athugað það, og eftir hennar áliti á frv. að ganga fram óbreytt og verða að lögum. Það er ekki hægt að neita því, að frv. þetta gerir nokkra bót á því ástandi, sem nú er, samkv. lögum frá 1911. Því að það hefir nú reynst svo, að þótt þau ættu að bæta úr því fyrirkomulagi, sem var þar á undan, hefir það verið að ýmissa áliti erfitt fyrir viðskiftamenn síðan að hafa eftirlit með því, hvernig viðskiftin standa í þann og þann tíma, því eftir núgildandi lögum fær viðskiftamaðurinn samrit af frumbókinni á lausum blöðum, einu eða fleirum, eftir því hve mikið er verslað í hvert skifti. Mun reynslan verða sú hjá mjög mörgum, að þeir eru ekki nógu passasamir um að halda þessum blöðum saman. Svo þegar menn fá reikninginn, sem ekki mun vera nema á árs fresti, víða á landinu, þá er meira og minna týnt af þessum samritum. Það er því óhægt að glöggva sig á því, hvort reikningurinn sje rjettur eða ekki.

Verði nú þetta frv. samþ., þá er miklu hægra að sjá viðskiftin á hverjum tíma. Og þess vegna lítur nefndin svo á, að frv. sje til bóta. En fyrirkomulagið verður þó auðvitað mjög líkt og það var áður en lögin frá 1911 voru samþykt.

Jeg hygg jeg þurfi ekki að taka fleira fram, en vísa að öðru leyti til greinargerðar hv. flm. með frv., er háttv. deildarmenn munu hafa kynt sjer.