24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (1987)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. atvrh. leggur aftur mesta áherslu á það, að ekkert hafi verið gert til þess á 10 mánuðum að varðveita rjett Búnaðarfjelagsins til áburðarsölunnar. Þetta lítur náttúrlega vel út fyrir málstað hans, þegar málið er flutt og sótt á þeim grundvelli. En því er bara til að svara, að stjórn Búnaðarfjelagsins hafði enga ástæðu til að ætla, að gera þyrfti neinar breytingar í þessu efni. Jeg spurðist fyrir um, hvort aðstaðan yrði ekki sama og áður, og því var svarað játandi, og jeg talaði við búnaðarmálastjóra um sumarið og gat ekki annað skilist en að alt stæði við það sama eins og verið hafði. Og meira að segja get jeg fullyrt, að engum á búnaðarþinginu flaug í hug, að gera þyrfti neinar nýjar ráðstafanir.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að Mjólkurfjelagið hefði verið óánægt. Jeg skal við 3. umr. láta gerðabók Búnaðarfjelagsins bera vitni um það, að svo sje ekki, en læt mjer nægja að þessu sinni að geta þess, að jeg setti sem skilyrði, að áburðarsölunni yrði ekki komið fyrir öðruvísi en Mjólkurfjelag Reykjavíkur vildi ganga að skilmálunum.

Um það, að jeg hefði ekki farið utan, er það sama að segja og áður, að það var fullgild ástæða, að jeg gat ekki farið, en í þess stað var bæði símað og skrifað, svo það kom ekki að sök.

Hæstv. atvrh. (MG) vill láta líta svo út, að hann sje að gæta hagsmuna þeirra bænda, sem þurfa að kaupa áburð, en jeg gangi erinda fyrir firmað Nathan & Olsen. Hann má leika þann skrípaleik fyrir mjer eins og honum sýnist, það trúir þessu enginn um mig.

Hitt er mjer óhætt að fullyrða, að jeg hefi gert alt, sem jeg gat, og mitt verk er það, að frv. þetta er fram komið. Og það er vegna bændanna, sem áburð þurfa að kaupa, að jeg hefi hleypt þessu máli af stað.