27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (1993)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Halldór Stefánsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls, en hæstv. atvrh. (MG) beindi til nefndarinnar fyrirspurn við 2. umr. um þetta mál, hvort hún ætlaðist til, að tekin væri upp einkasala á tilbúnum áburði, þó að verðið á þessari vöru væri að dómi ríkisstjórnarinnar og Búnaðarfjelags Íslands ekki ósanngjarnt og álagning ekki úr hófi fram? Þetta var framborið undir umræðum, svo að ekki var hægt að svara fyrir nefndina í heild, og nú hafa bæði háttv. frsm. og háttv. form. svarað þessu hvor fyrir sig og á sinn veg hvor. Jeg vil svara þessu fyrir mig og svara játandi. Mjer finst þó fyrirspurnin vera óþörf, vegna þess að í frv. sjálfu eru fram tekin þau skilyrði eða ástæður, sem segja skýrt fyrir um, hvort nota skuli heimildina eða ekki. Þá vil jeg og minnast á einstök ummæli um málið, sem fram komu við 2. umræðu. Ýms ummæli í nál. hafa orðið mönnum til ásteytingar. Það var þá fyrst út af því orðalagi nál., að nefndin væri yfirleitt andvíg einkasölu, og þótti þetta ekki koma vel heim við aðstöðu einstakra nefndarmanna til einkasölu á síðasta þingi. Þetta orðalag kom til umtals í nefndinni, og það varð að samkomulagi, að þetta orðalag þyrfti engan að binda, það mætti skilja það svo, að nefndarmenn væru andvígir einkasölu að ástæðulausu. Enda segir það sig sjálft, að þar sem allir nefndarmenn bera jafnframt fram tillögu um að heimila einkasölu, þá er þar með játað, að þær ástæður geta verið fyrir hendi, sem gera einkasölu sjálfsagða, jafnvel fyrir þá, sem annars eru andvígir þeirri stefnu, og þá er ekki annað eftir en að hver og einn verður að meta þær aðstæður fyrir sjálfan sig. Þá hefir það verið sagt, að í nál. væri misskift sól og vindi, og skildi jeg þetta svo, að átt væri við það, að hlutdrægni kendi í nál. á milli stjórnar Búnaðarfjelags Íslands og búnaðarmálastjóra. Þá var það og sagt, að nefndin hefði borið sakir á tiltekinn mann. Þetta og ýmislegt fleira, sem sagt hefir verið, get jeg ekki látið vera ómótmælt, og enda þótt háttv. frsm. hafi þegar hrakið þetta að nokkru, tel jeg þó ekki nóg að gert enn.

Í nefndarálitinu er aðeins skýrt frá, hvernig á breytingunni um umráð áburðarins standi, eftir því sem stjórn Búnaðarfjelags Íslands skýrir frá. Hins vegar hefir nefndin engan dóm á það lagt, hverjum þetta er að kenna. Það er rjett, sem kom fram við 2. umr., að það er óljóst, hvort um var að ræða einkasölu eða það, að Búnaðarfjelag Íslands hafi verið eini innflytjandinn. Um þetta var ágreiningur á milli búnaðarmálastjóra og Búnaðarfjelagsstjórnarinnar og búnaðarþingsins. En þetta skiftir ekki verulegu máli, því að Búnaðarfjelag Íslands hafði hvort sem var alveg sömu aðstöðu til þess að ráða verðlaginu og því, að notendur þyrftu ekki að kaupa vöruna nema við sanngjörnu verði.

Því skal ekki neitað, að það eru hörð orð, þar sem svo er um mælt í nál., að ef einkasalan kæmist aftur í hendur Búnaðarfjelags Íslands, þá ætlist hún til, að það hafi þeirri búnaðarmálastjórn á að skipa, sem treysta megi. En með þessum ummælum er enginn dómur á það lagður, hverjum mistökin hafi verið að kenna; það er ekki misskift sól og vindi. Orðið búnaðarmálastjórn er af ásettu ráði valið, af því að það á við báða aðiljana, búnaðarfjelagsstjórnina og búnaðarmálastjóra. Hitt getur verið, að fyrir nefndarmönnum hafi að öðru leyti vakað eitthvað misjafnt. Sumir nefndarmenn hafa lýst því yfir, sem sinni persónulegu skoðun, að þeir telji, að ekki gæti komið til mála, að búnaðarmálastjóri hjeldi stöðu sinni, ef það sannaðist, að þetta væri honum að kenna. Þess vegna vil jeg lýsa því yfir, fyrir mína hönd og tveggja nefndarmanna annara, að með þessum ummælum meintum við fyrst og fremst það, að gefa ávítun og áminningu fyrir þau mistök, sem átt hafa sjer stað, og aðvörun um, að slíkt kæmi ekki fyrir aftur. Það liggur í augum uppi að þar sem Búnðarfjelagi Íslands er ekki ætlað, samkvæmt tillögum frv., að hafa önnur framkvæmdaratriði með höndum en að gera samning einu sinni á ári, um sölu og afhendingu áburðarins, þá er það svo lítið framkvæmdaratriði, að fjelagsstjórn og framkvæmdarstjóri gætu í sameiningu átt beinan þátt í því, og þar af leiðandi engin ástæða til tortrygni um, að nokkur mistök þessu lík, gætu átt sjer stað.