27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1995)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Það er búið að tala æði mikið um þetta mál, en jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að blanda mjer inn í þær umræður, fyrir hönd landbn., fyr en nú. Er það aðallega ræða síðasta hv. ræðumanns (MJ), sem gefur mjer tilefni til andsvara. Eiginlega má skifta ræðu hans í tvo kafla.

Fyrri hlutinn var saga málsins, sem hann rakti mjög einhliða. Gekk hún öll út á það að þvo Nathan & Olsen og sanna, að þeir hafi aðeins komið fram svo sem sjálfsagt var og hvert gott verslunarhús hefði gert í þeirra sporum. Það er nú varla hægt að fara að rekja alla söguna aftur, en þó verð jeg að drepa á nokkur atriði.

Hv. ræðumaður sagði, að ekki hefði verið um umboð að ræða hjá Búnaðarfjelaginu. Það skiftir engu, hvað það er kallað, hvort það er nefnt umboð eða einkasala, „eneforhandling“, eins og stendur í skeytunum. Hvað sem Nathan & Olsen segja, er ómögulegt að rengja það, að Norsk hydro hafi vitað, hvað það sagði, þegar það vildi ekki gera fullnaðarsamning, fyr en Búnaðarfjelag Íslands hefði látið uppi sitt álit. Norsk hydro telur sig ekki hafa gert bindandi samning fyr en skeytið berst frá Sigurði Sigurðssyni 7. mars. Það hefir enga þýðingu, hvað þetta heitir. Nú er komið sem komið er. Öll verslun með Noregssaltpjetur er komin á eina hönd, firmans Nathan & Olsen.

Þá ljet ræðumaður það skína gegnum ræðu sína, að Mjólkurfjelag Reykjavíkur hefði reynt að ná umboði, en ekki tekist. Þetta er ekki rjett. Haustið 1924 skrifaði Mjólkurfjelag Reykjavíkur Norsk hydro og spurðist fyrir um verð. Þá var áburðurinn seldur hjer með tvennu verði, Nathan & Olsen seldi hann á 43 kr., en Eyjólfur Kolbeins á 39 kr., og þóttist hann hafa sæmilegan hagnað af sölunni. Mjólkurfjelagið spyrst fyrir um það, hvort það muni geta fengið áburðinn með sama verði og Eyjólfur Kolbeins. Norsk hydro telur ekkert í veginum með það, að það geti orðið gegnum Búnaðarfjelagið, og Mjólkurfjelagið sætti sig við það. Í des. 1924 sendir Búnaðarfjelagið út pöntun og biður um 200 tonn af Noregssaltpjetri. 15. des. kemur svar frá Norsk hydro, og lofar það áburðinum. 27. janúar skrifar Mjólkurfjelagið Búnaðarfjelaginu og býðst til þess að taka að sjer útsölu á áburðinum, ef það kæri sig um, fyrir 2–4%. Þetta brjef kemur ekki fram og er ekki sýnt Búnaðarfjelagsstjórninni fyr en síðast á Búnaðarþinginu.

Tveim dögum síðar, 29. jan., er pöntun Búnaðarfjelagsins á Noregssaltpjetri svo afturkölluð af búnaðarmálastjóra, og því barið við, að Búnaðarfjelagið ætli að bíða, þangað til Búnaðarþingið komi saman; jafnframt boðar hann Norsk hydro komu Carls Olsen. Svo er það 5. febrúar, sem samningar eru gerðir við Norsk hydro af Carli Olsen, þar sem hann fær ádrátt um umboð, með þeim ákveðnum skilyrðum, að Búnaðarfjelag Íslands samþykki samninginn. En í brjefi, sem Norsk hydro skrifar Búnaðarfjelaginu er auk þessa skýrt tekið fram, að Norsk hydro hafi átt tal við Carl Olsen viðvíkjandi sölu á Noregssaltpjetri, en Carl Olsen muni persónulega gefa Búnaðarfjelaginu upplýsingar um, hvað þeim hafi farið á milli. Þetta segir formaður Búnaðarfjelagsstjórnarinnar, að Carl Olsen hafi aldrei gert, og þetta brjef hefir aldrei komið fram, fremur en sum önnur, er þetta mál varða.18. febr. spyr Mjólkurfjelagið um verð á Noregssaltpjetri, og er svarað með skeyti, að snúa sjer til Búnaðarfjelagsins. 24. febrúar símar Magnús á Blikastöðum og spyr, hver hafi umboðið, og er þá sagt, að það sje í höndum Búnaðarfjelasgins. Loks 7. mars fer svo út 200 tonna pöntun frá Nathan & Olsen, árituð af Sigurði búnaðarmálastjóra, svohljóðandi: „Búnaðarfjelag Indeforstaat, Nathan & Olsen“. Sama dag skrifar Norsk hydro og kveðst skoða þessa pöntun sem samþykki Búnaðarfjelagsins á samningunum við Nathan & Olsen 5. febr., og hjer eftir fari því salan eingöngu fram gegnum firmað Nathan & Olsen. Þetta brjef hefir aldrei komið í hendur Búnaðarfjelagsstjórnarinnar. Það er sjerkennilegt í þessu máli, hvernig öll brjef glatast, er skifta mjög miklu um þetta mál.

Þannig er í stuttu máli saga þessa máls. Það er því síður en svo, að Carl Olsen sje sýkn saka í þessu máli, eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vildi vera láta. Það væri nú í raun og veru ekki svo mikið um þetta að segja, ef ekki hefði á sama tíma svo slysalega viljað til, að aðrar áburðartegundir lentu líka í höndum þessa firma. Háttv. þm. sagði, að það eina, sem gæti rjettlætt tillögu nefndarinnar, væri það, ef notendurnir fengju ekki áburðinn með rjettu verði. Þá fyrst væri ástæða til þess að hefjast handa. Hann sagði, að Carl Olsen hafi leitast við að fá álagninguna sem lengst niður. Hann hefði sett 2%, en Mjólkurfjelagið 8%. — Þetta er ekki rjett, og reynslan sýnir hið gagnstæða. Á bryggju var áburðurinn seldur síðastliðið ár á 36 kr., en út úr húsi seldi Nathan & Olsen hann á 38 kr., en Mjólkurfjelagið á 36 kr. þá er einnig önnur áburðartegund, Chilesaltpjetur, sem Nathan & Olsen og Mjólkurfjelagið versla með. Hún þykir óhentugri; en þegar hin tegundin þraut, þá var hún tekin. Um hana var frjáls samkepni. En hjer bar að sama brunni. Mjólkurfjelagið seldi hana á 42,50 kr., og hafði þá lagt á það, sem það taldi sig þurfa. En við það bætir Nathan & Olsen kr. 7,50 og selur á 50 kr. þetta virðist mjer benda ótvírætt á talsverða viðleitni til þess að nota aðstöðu sína, svo að við bændur eigum því síður en svo víst að geta fengið áburðinn með rjettu verði, eins og hv. 4. þm. Reykv. orðaði það. 1924 voru Nathan & Olsen einráðir um álagninguna. Búnaðarfjelagið samdi aldrei við þá. Framkvæmdastjóri Búnaðarfjelagsins átti tal um það við þá, en um það er mjer ókunnugt og stjórn Búnaðarfjelagsins líka. En þá lögðu þeir á frá 15–18%, venjulegast 16%. Jeg rek svo ekki þessa sögu lengur. En mjer virðist fullkomlega ástæða til þess, að við bændur sjeum á verði.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að þetta væri ósköp einfalt mál, það væri skiljanlegt, að Norsk hydro vildi helst versla við „privat firma“. En þetta er einmitt þveröfugt. Norsk hydro mun hafa látið uppi, að það vildi helst versla við fjelag áburðarnotenda. Þá sagði hann, að við ljetum okkur verðið engu skifta, og dró fram því til sönnunar, að við teldum okkur ekki fullnægt, þó að við fengjum loforð um litla álagningu eitt ár. Þó hægt væri að fá slíkt loforð fyrir eitt ár, þá erum við ekki ánægðir með það. Við þurfum að nota áburðinn lengur en eitt ár, mörg ár, tugi ára, og við viljum fá framtíðar skipulag á áburðarsöluna, á þann hátt, að Búnaðarfjelagið eða bændur geti haft hönd í bagga með verðinu. Jeg mótmæli því eindregið, að það sje samkepni frá Mjólkurfjelaginu, sem standi á bak við þetta. Enginn okkar úr landbn. er í Mjólkurfjelaginu eða hefir veruleg viðskifti við fjelagið. En við erum annaðhvort áburðarnotendur eða búumst við að verða það í framtíðinni, og okkur er það hugleikið, að þessi vara sje í höndum Búnaðarfjelagsins. En það er ekki undarlegt, þó að Mjólkurfjelagið reyni að ná sem bestum kjörum á þessari vöru. Væri jeg í fjelaginu, mundi jeg krefjast þess, að það næði sem bestum kjörum fyrir bændur fjelagsins. Þeir nota áburðinn mest allra manna. Hjer er ekki aðeins að ræða um verðlag fyrir stuttan tíma, heldur um öryggi fyrir bændur landsins að fá sæmileg kaup á áburðinum framvegis. En slíkt öryggi fæst ekki meðan aðaláburðartegundin er eingöngu í höndum eins firma, nema firmað vildi skuldbinda sig um óákveðinn tíma með lága álagningu.

Nefndin hefir aðeins tekið fyrir köfnunarefnisáburðartegundir; þess gerðist ekki þörf að taka aðrar, því að þar er um samkepni að ræða. Hv. 4. þm. Reykv. kvað þetta öryggi vera lítilfjörlega ástæðu til þess að brjóta „princip“. það má vel vera, að það sje lítilfjörlegt í hans augum, en þegar hjer er um að ræða vöru, sem á þremur árum gerir meira en tífaldast að innflutningsmagni, þá sjest, hvaða þýðingu þetta getur haft í framtíðinni. Þegar stórfje er lagt úr ríkissjóði til þess að efla ræktun landsins, þá er hart að horfa á, að fæti er brugðið fyrir þá viðleitni, vegna þess að eitt firma hefir náð góðum tökum á vöru, sem nauðsynleg er við ræktunina.

Út af því, sem sami hv. þm. sagði, að talað hefði verið um, að Sigurður búnaðarmálastjóri hafi átt að taka á móti fje fyrir þetta, þá mótmæli jeg því algerlega, að nefndin hafi borið slíkt fram. Jeg hefi ekki heyrt neinn orða það í umræðum hjer. Þetta er aðeins í höfði þessa hv. þm. Þá endaði hann með því að bera fram rökstudda dagskrá. Mjer skildist efni hennar vera á þá leið, að stjórnin ætti að hafa eftirlit með verðinu. Hvernig á stjórnin að fara að því að hafa eftirlit með verðinu? Hún hefir ekkert í höndum til slíkra hluta. Þetta er „privat firma“, sem getur sett verðið eins og því sýnist. Norsk hydro hefir talið æskilegt, að leitað væri umsagnar Búnaðarfjelags Íslands, en það hefir ekki úrslitaatkvæði um það.

Stjórnarráðið hefir því engin tök á því að hafa hönd í bagga með verðinu, svo þessi dagskrá er algerlega út í loftið.

Þótt jeg hafi nú farið fljótt yfir sögu og ef til vill ekki svarað öllu, sem svara þurfti, þá ætla jeg ekki að fara lengra út í þetta að sinni. Mjer gefst væntanlega færi á að taka til máls aftur, og get jeg þá árjettað mál mitt frekar.