27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (1996)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði hugsað mjer að segja nokkur orð við 3. umr. um þetta mál sjálft, og skal jeg strax taka það fram, að þótt hjer hafi hvest dálítið, þá ætla jeg hvorki að leggja þar að eld nje við, heldur segja nokkur orð út af ummælum um málið sjálft, og eru það sjerstaklega nokkur ummæli samþingismanns míns, hv. 4. þm. Reykv. (MJ), sem hafa gefið mjer tilefni til þess. Jeg get vel skilið, að hv. þm. (MJ) finnist, að með þessu frv. sje verið að snúa inn á óeðlilega leið, og jeg viðurkenni það, að jeg álít óheppilegt að þurfa að grípa til þeirra ráða, að lögleiða ríkis-einkasölu á þessari vörutegund, jafnvel þótt einungis sje heimiluð sú einkasala í lögunum sjálfum. Jeg álít það óheppilegt, vegna þess að jeg álít, að hjer á landi eigi að vera algert verslunarfrelsi, en við, sem höldum uppi kröfunni um algert verslunarfrelsi, viðurkennum jafnframt, að á því sviði, eins og hverju öðru, þar sem einstaklingsfrelsi á að vera ríkjandi, þar verði löggjafarvaldið að fyrirbyggja þá misnotkun á einstaklingsfrelsinu, sem fer í bág við hag einstaklingsins. En það er misnotkun á verslunarfrelsinu, ef nokkurt verslunarfirma nær í sínar hendur einveldi yfir verslun með einhverja þá vörutegund, sem atvinnuvegir landsins eða almenningur ekki má án vera. Þetta er misnotkun segi jeg, jafnvel þótt ekkert sje fram komið af hendi hlutaðeigandi verslunarfjelags, sem gefi tilefni til umkvörtunar hvað viðskiftin snertir; það er misnotkun, af því að það er ósamrýmanlegt sjálfu grundvallaratriði verslunarfrelsisins; sem er það, að samkepnin á hverjum tíma tryggi það eðlilega verð. Þessvegna er það jafnvel svo, að þó að eitthvert firma, og það kannske með besta tilgangi, nái einveldi yfir sölu á einhverri vöru, þá getur þjóðin aldrei treyst því, að það verði svo vel með það farið, að það veki að minsta kosti ekki tortrygni eða grun hjá þeim, sem búa við slíkt; slíka misnotkun á verslunarfrelsi verður löggjöfin að minni hyggju að fyrirbyggja: Nú munu ekki vera til nein þau ákvæði í okkar almennu löggjöf, sem komi í veg fyrir þetta, og það er einungis vegna þess, að slík ákvæði vantar, að jeg get greitt atkvæði með því að fara inn á þá leið, sem þetta frv. stingur upp á. Jeg geri það fyrst og fremst í því trausti, að þar af þurfi ekki að leiða það, að einkasala á köfnunarefnisáburði verði upp tekin, eins og jeg mun víkja að síðar, en skyldi ver fara en jeg vonast eftir, þá verður þó altaf að viðurkenna það, að þrátt fyrir ótölulega annmarka á ríkiseinkasölu, þá er þó frekar við hana búandi heldur en einkasölu ábyrgðarlauss einstaklings. En þetta hefir engan veginn verið upplýst af hv. nefnd eða í hv. deild, og það, sem jeg segi, verður því að vera að öllu leyti með fyrirvara. En það lítur svo út, sem eitt verslunarfirma hafi fengið í sínar hendur raunverulega einkaverslun með kalksaltpjetur, og þetta er þýðingarmikil vörutegund fyrir ræktun landsins, svo að ekki er hægt að horfa aðgerðalaust upp á það, ef landbúnaðinum er ekki trygð frjáls samkepnisverslun með þessa vörutegund. Það lítur ennfremur út fyrir, að það firma, sem hefir fengið þessa einkasölu, hafi notið til þess að minsta kosti hlutleysis og jafnvel aðstoðar starfsmanns hjá ríkisstofnun, og starfsmanns, sem þá hefir, að því er þetta atriði snertir, ekki farið eftir vilja og óskum sinna yfirboðara, stjórnar Búnaðarfjelags Íslands og Búnaðarþings Íslands. Jeg verð að álíta, að eftir því sem fram kom, hafi Búnaðarþingið óskað að fyrirbyggja, að einokun gæti komið á þessa vörutegund, og jeg hefi enga ástæðu til að álíta, að stjórn Búnaðarfjelagsins sje ekki sömu skoðunar og Búnaðarþingið um þetta. Jeg vil gera ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að firmanu hafi ekki verið það ljóst, þegar það útvegaði sjer þessa aðstöðu, að það væri að breyta á móti vilja Búnaðarfjelags Íslands með Búnaðarþingið að baki sjer, en á þessu byggi jeg líka það, að þegar málið er fullupplýst, þá tel jeg það jafnsjálfsagt, að þetta firma, sem jeg þykist vita, að vilji koma fram sem heiðarlegt verslunarfirma og lifa lengi í landinu, það geri þá rjetting á þessu, sem það hefir í hendi sjer, sem sje þá, að afsala í hendur Búnaðarfjelagi Íslands því umboði, sem það hefir náð á móti vilja þeirra manna, sem ráðin hafa í Búnaðarfjelaginu. Jeg þykist vita það, að þeir menn muni skilja stöðu sína og skyldu sína svo vel, að þetta muni þeir gera, og þá mun á engan hátt þurfa að koma til framkvæmda ákvæði þessa frv. Jeg þykist vita, að þeir muni gera þetta, hvenær sem Búnaðarfjelag Íslands getur sýnt firmanu fram á það, að það hafi náð samkomulagi við Norsk hydro um það að fela því umboðið, að firmanu frágengnu.

Jeg get greitt atkvæði með frv., í þeirri von, að til framkvæmda þurfi ekki að koma, en líka með fullráðnum huga um það, ef þetta mál ekki getur lagast á þennan hátt, þá vil jeg stuðla að því og beita mjer fyrir því, að löggjöf landsins verði breytt í það horf, að endurtekning á þessu og þvílíku geti ekki átt sjer stað. Þess eru dæmi frá öðrum þjóðum, að það hefir þótt nauðsynlegt að setja slíka löggjöf, og fyrirmyndir eru því auðfundnar. Viðurlög hafa verið þar, sem slík löggjöf hefir verið brotin, þau viðurlög, að það firma, sem átt hefir hlut að máli, hefir orðið að hætta, þegar málið var upplýst orðið. það má náttúrlega hugsa sjer, að svo afleiðingarík skref yrðu ekki stigin þegar í byrjun, það má hugsa sjer minni viðurlög sem fullkomlega eðlileg, og það er, að hlutaðeigandi firma misti rjettinn til að versla með þá vöru, sem fyrir þess aðgerðir hverfur út úr frjálsri samkepni. En jeg vona, að þessi viðburður, sem hjer er um að ræða, þurfi ekki að gefa tilefni til slíkrar lagasetningar.