27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

1. mál, fjárlög 1927

Klemens Jónsson:

Það var rjett að því komið, að lokið væri umr. um þennan kafla fjárlaganna, og veit jeg ekki nema það hefði kannske mátt vera svo, en úr því það varð ekki, vildi jeg gera nokkrar athugasemdir, sjerstaklega við tekjuhliðina. Jeg skal fyrst taka það fram, að mjer finst nú að ýmsu leyti sem sá sparnaður sje á förum, sem Alþingi varð sammála um1924; þá stóð þingið sem ein heild um þann tilgang að reyna að spara. Á þinginu 1925 var það líka svo í orði kveðnu, og að nokkru leyti í framkvæmdinni, en nú finst mjer, sem horfið sje frá þessu öllu; að minsta kosti finst mjer það, þegar jeg lít á þær mörgu breytingartillögur frá einstökum þm., sem fram eru komnar. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um verk fjvn., þó að breytingar hennar sjeu allverulegar, en þegar litið er á brtt. frá einstökum þm., þá er ekki þess að dyljast, að þeir hugsa sjer talsvert ríflegt framlag úr ríkissjóði, þegar 19 þm. af 28 hafa komið með brtt. við fjárlögin, sem allar ganga í þá átt að hækka útgjöldin stórkostlega, og jafnvel menn úr fjvn. hafa komið með till. til hækkunar. Jeg er að vísu ekki einn í þeirra tölu, því að jeg hefi ekki komið fram með eina brtt., og býst varla við að gera það. En ef svo skyldi fara, að jeg kæmi kannske fram með eina brtt., þá verður hún þess eðlis, að hún fer ekki fram á neina verulega hækkun á útgjöldum. Af þessum ástæðum þykist jeg nú hafa leyfi til að koma fram sem nokkurskonar sparnaðarpostuli.

Það hefir dálítið verið talað um tekjuhliðina, bæði af háttv. frsm. (ÞórJ) og hæstv. fjrh. (JÞ), og verið haldið fram, að það bæri að fara mjög varlega í að hækka tekjuáætlunina. Þegar breytingar voru gerðar á þingsköpunum á þinginu 1915, var svo til ætlast, að fjhn. hefði tekjuhlið fjárlaganna til meðferðar, og svo var það nokkur þing þar á eftir, að þá var fjárlögunum vísað bæði til fjhn. og fjvn. En á þinginu 1921 varð breyting á þessu, því að þá fóru þau til fjvn. einnar, og hefir það haldist síðan. Í sjálfu sjer hefi jeg ekkert við þetta að athuga, því að í rauninni er sjálfsagt, að fylgist að tekju- og gjaldabálkurinn. Nefndin hlýtur þá að verða að gera sjer glögga hugmynd um, hvað óhætt muni að áætla tekjurnar, en á þeirri áætlun verður hún svo að byggja breytingar þær, er hún gerir á gjaldabálkinum.

En þó að fjvn. þurfi að taka tekjuhliðina til sjerstaklegrar athugunar og koma fram með sínar áætlanir um einstaka tekjuliði, þá hlýtur fjárhagsnefnd líka að líta eftir tekjubálki fjárlaganna og reyna að skapa sjer sitt álit um hina ýmsu tekjuliði. Er og full þörf á þessu fyrir fjárhagsnefnd, einkum þó þegar svo stendur á eins og nú, að til hennar er vísað jafnmörgum stórmálum, er óhjákvæmilega hljóta að grípa meira og minna inn í fjárhag landsins, enda hefir nefndin fundið sjerstaka ástæðu til að athuga tekjuliði fjárlaganna að þessu sinni og draga út frá þeim athugunum sínar ályktanir og áætlun um tekjubálkinn.

Það hefir orðið sameiginlegt hjá báðum nefndunum, að óhætt mundi vera að hækka áfengistoll og tekjur af víneinkasölu talsvert mikið frá því, sem þeir liðir eru áætlaðir í frv. stjórnarinnar, og hafa báðar nefndirnar komist þar að líkri niðurstöðu. Sama er að segja um „annað aðflutningsgjald“. Hinsvegar hefir fjhn. ekki álitið, að gerlegt væri að hækka útflutningsgjaldið eða tóbakstollinn, enda lítur hún svo á, að útflutningsgjaldið sje óábyggilegasta tekjugrein ríkisins og því full ástæða til að fara varlega um áætlun þess.

En fjárhagsnefnd hefir ennfremur talið, að hækka mætti talsvert þessa tekjustofna: tekjuskatt, stimpilgjald, póst- og símatekjur, — þó nefndin hafi ekki ennþá komið fram með neina brtt. til hækkunar, og komi ef til vill ekki.

Hinsvegar vil jeg geta þess, að öll nam upphæðin, sem fjárhagsnefnd taldi að óhætt mundi að hækka tekjubálkinn, um 460 þús. krónum. En eins og nál. fjvn. ber með sjer. nemur tekjuhækkun nefndarinnar um 310 þús. krónum.

Þó að allmiklu muni á áætlunum nefndanna, hefir fjárhagsnefnd ekki enn fundið ástæðu til að koma með brtt., enda er líklegt, ef að vanda lætur. að fjvn. komi með einhverjar tekjuhækkanir við 3. umr.

Annars legg jeg ekki svo mikið upp úr þessu mikla samkomnlagi innan fjvn. um að áætla tekjurnar varlega, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) gaf í skyn, að það ætti að verða til þess, að aðrir bæru ekki fram hækkunartill. við tekjubálkinn. En jeg vil þó minna á, að ef fjhn. stæði saman um hækkunartill., sem fjvn. vildi ekki fallast á, þá eru þar aðeins 7:7. Hinir 14 hv. þdm. yrðu þá að segja til, hvorum hlutanum þeim virtist rjettara að fylgja, og sína það með atkv. sínu. En vonandi dregur ekki til slíks kapps milli nefndanna, enda skal jeg játa, að um áætlun tekjubálksins beri að fara mjög varlega og gætilega.

Hæstv. fjrh. sagði, að áætlanir þingsins um tekjuhlið ríkissjóðs væri spádómur. Það má til sanns vegar færa, að það sje spádómur, hvort áætlanir fjvn. sjeu of háar eða of lágar. En sje svo, þá er þó fremur ástæða að tala um spádóma hjá. hæstv. stjórn, sem býr fjárlagafrv. undir í nóvember, á öðru ári áður en fjárlögin koma í gildi, því ólíku er saman að jafna, hvað stjórnin hefir færri gögn í höndum þá til þess að byggja á sínar fjárhagsáætlanir heldur en fjvn., sem altaf fær nýjar og ábyggilegri skýrslur eftir því sem lengra líður á þingtímann. Því verður ekki neitað, að áætlanir stjórnarinnar geta ekki verið annað en spádómar, nema þá að einhverju litlu leyti. En hvað sem öðru líður, verður þingið í fjárhagsáætlunum sínum að byggja á því, sem verið hefir undanfarið, og með tilliti til þess draga ályktanir sínar um ástandið framundan. Lengra verður ekki komist og meira má ekki heimta, hvorki af stjórninni, einstökum nefndum eða þinginu. Og jeg vil bæta því við, að frá mínu sjónarmiði er hækkun fjvn. á tekjubálkinum í alla staði forsvaranleg og varleg, enda greiði jeg henni óhikað atkv. mitt.

En úr því jeg kvaddi mjer hljóðs á annað borð, þá vil jeg minnast lítið eitt á símamálið og þá sjerstaklega í sambandi við það, sem stendur í nál. fjvn. á bls. 6. um að tengja saman Suður- og Austurland með óslitinni símalínu suðaustur um landið, alt til Seyðisfjarðar. Mjer er kunnugt um, að frá fyrstu, eða frá því að sími var lagður til landsins, að það var föst skoðun stjórnarinnar og eitt af áhugamálum hennar, að með tíð og tíma ætti að koma þessu sambandi á. Enda leit stjórnin og fleiri svo á, að símasambandið við útlönd væri þá fyrst trygt, er þessi lína væri lögð. Þessu var líka slegið föstu með símalögunum 1917, þótt ekki hafi enn orðið að framkvæmdum. Vona jeg því, að takast megi svo fljótt sem hægt. er að koma þessari tengilínu á, svo símakerfið nái þeirri fullkomnun, sem ætlast var til í öndverðu.

Áður en jeg sest niður, langar mig að mæla lítilsháttar með einni brtt., og mest vegna þess, að flm. hennar er fjarverandi og á ekki kost á að fylgja henni úr hlaði, þótt jeg hinsvegar geri ráð fyrir því, að hann hafi fengið einhvern til þess að mæla fyrir henni. Á jeg hjer við IX. brtt. á þskj. 230. frá hv. þm. Dal. (BJ), um 15 þús. kr. fjárveitingu til Vesturlandsvegar. Jeg veit, að honum hefir verið það lengi áhugamál að koma þessum vegi á um Bröttubrekku, og vænti jeg, að hv. þdm. vilji styðja hann til þess, og það því fremur, sem hann ber að líkindum ekki fram fleiri brtt. að sinni. Hinsvegar vona jeg, að hann eigi eftir að hressast svo, að honum megi auðnast að taka þátt í þingstörfum meira en verið hefir.

Jeg ætla mjer ekki að telja eftir, þó ríflega sje ætlað til símalagninga á Vestfjörðum. Mjer er kunnugt um, að Barðastrandarsýsla hefir hingað til orðið útundan, og er ekki nema sjálfsagt, að úr því verði nú bætt, strax og fje er fyrir hendi. En þó að þessi fyrirhugaða Vestfjarðalína gleypi allmikið fje, sje jeg ekki betur en að talsverð upphæð sje eftir samt, og henni óráðstafað. eftir því sem mjer skildist á ræðu hv. frsm. (ÞórJ). Nú virðist mjer þessari upphæð, sem óráðstafað er, væri vel varið til áframhalds lagningar símalínunni, sem liggja á af Skeiðum upp að Stóra-Núpi og yfir á Land. Sjerstaklega vil jeg benda á, hver nauðsyn það er, þegar síminn er kominn upp að Stóra-Núpi, að leggja hann austur yfir Þjórsá, enda er það stutt leið og kostnaðurinn smáræði í samanburði við það hagræði, sem Landmenn hefðu af símanum. Eins og kunnugt er, þá á Landsveit mjög langt til vega og síma, enda hefir þaðan þrásinnis verið um hvorttveggja beðið, en enga áheyrn fengið. Vona jeg því, ef einhver verulegur afgangur verður, eftir að lagðar hafa verið þær línur, sem ákveðið er að leggja, að hæstv. stjórn muni þá sjerstaklega eftir þessari línu, sem jeg nefndi.

Eins og vant er í byrjun umræðna um þennan kafla fjárlagafrv., hefir lítið verið minst á samgöngumál. Þau mál eru líka hjá samgöngumálanefnd, og hún ekki vön að koma með álit sitt fyr. En að þessu sinni hefir hún hraðað störfum sínum svo, að lokið er við nál. og það sent í prentun í morgun, svo búast má við, að það liggi fyrir fundinum á mánudag. (JBald : Eru það mörg nál.?). Nei, það er ekki nema eitt, en það er langt mál, glögg greinargerð og ítarlega samin, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) mun sannfærast um, er hann sjer skjalið.