27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2000)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Hákon Kristófersson:

Mjer datt aldrei í hug, að málið yrði rætt á jafnbreiðum grundvelli og orðið hefir, en sje nokkur í efa um, hver skoðun okkar nefndarmannanna sje í þessu máli, þá vísa jeg til nál. sem formaður nefndarinnar. Þar sjest tvímælalaust, hver meining nefndarinnar er um þetta mál, og getur sjerhver hv. þdm. gert það upp með sjer, því jeg geri ekki ráð fyrir, að nefndarmenn láti uppi aðra skoðun en þá, sem kemur fram í nál., nema þá að þeir hafi snúist í málinu, en um það er mjer ókunnugt enn.

En jeg vil taka það fram út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ), er hann kallaði okkur í skopi einkasala, þar sem við berum nú fram till. um, að þessu máli sje að einhverju leyti skipað með einkasölu, og að við sjeum þá horfnir frá þeirri skoðun, sem við sýndum í fyrra, að við hefðum á frjálsri verslun, þá vil jeg svara því, að hjer sje um neyðarkost að ræða, sem vonandi er, að ekki þurfi að grípa til nema í bili. Fyrir öllu þessu eru færð slík rök í nál. okkar, að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefði getað sparað sjer sína löngu ræðu til áfellingar okkur, sem hann telur nú fjendur frjálsrar verslunar. Jeg skal engu um það spá, hver áhrif ræða hans hefir á þetta mál, en þegar slíkur greindar og vitmaður eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) leggur sig fram um að snúa ranghverfunni út, þá má atlaf gera ráð fyrir, að einhverjir hallist að honum.

Eins og hv. frsm. (JS) hefir marg-tekið fram, þá er það álit okkar, að vegna ræktunar landsins í framtíðinni sje nauðsynlegt, að áburðurinn sje seldur við sem vægustu verði. En við því er tæplega að búast, ef verslunin er í höndum einstakra manna í staðinn fyrir ríkisins. Segi jeg þetta þó ekki til þess að væna firmað Nathan & Olsen um okurverð í þessu efni. Jeg ætla ekki að dæma þá heiðursmenn neitt, en get hinsvegar búist við, að þeir sjeu með sama marki brendir og aðrir menn, að vilja hafa fyrir sitt, og það hefir líka reynslan sýnt, þegar þess er gætt, hve mikið þeir hafa lagt á áburðinn. Annað mál væri það, ef um áhættuverslun (lánsverslun) væri að tala, þá yrði álagningin rjettmætari. En jeg hefi gengið út frá, að þessi vara sje seld gegn borgun út í hönd, og minkar þá áhættan. En að þetta þýði það, að jeg eða aðrir, sem þetta skipulag vilja upp taka, sjeu verri fríverslunarmenn en ýmsir aðrir, þá furðar mig satt að segja, að jafnvitur og góðgjarn maður eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) er skuli taka slíkt í munn sjer.

Jeg hefi áður sagt, að mjer er illa við að leggja þessa verslun í hendur Búnaðarfjelagsins, vegna þess, hve áhættusöm hún mundi reynast í þess höndum, því þá er jeg hræddur um, að menn vildu fá áburðinn lánaðan að meira eða minna leyti, en eins og málið horfir við, sje jeg samt ekki annað fært, því að það leiðir af sjálfu sjer og liggur í augum uppi, að firmað Nathan & Olsen hefir ekki þann áhuga fyrir aukinni grasrækt í landinu, eins og ætla má, að Búnaðarfjelagið hafi. En eins og áður hefir verið tekið fram í sambandi við þetta mál, þá er það aðallega umhyggja fyrir ræktun landsins, sem ráðið hefir tillögum nefndarinnar í þessu máli.

Annars ætla jeg ekki að fara frekar út í umr., og þó að eitthvað hafi dregist inn í þær, sem rekast þarf í utan deildarinnar, þá á jeg enga sök þar á. Hinu ætla jeg að slá föstu, þrátt fyrir það þó hv. 4. þm. Reykv. (MJ) haldi langar ræður gegn því, að í þessu máli hefir ýmislegt það skeð, sem óskandi er, að ekki hefði fyrir komið. Og það er til þess að bæta úr þeim mistökum, að frv. er borið fram í því formi, sem það er nú.