27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2003)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg skal reyna að takmarka mál mitt eins og hægt er, en af því að hjer hafa ýmsir staðlausir stafir verið bornir fram gegn þessu máli, verð jeg að verja nokkrum orðum til að hrekja þá.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) dró í efa, að Carl Olsen hefði ekki skýrt frá samningaumleitunum þeim, sem áttu sjer stað kringum 5. febr. milli hans og Norsk hydro, um að hann fengi umboðið. Það er hægara að segja þetta en sanna, að sje ósatt. Það mætti þó undarlegt heita, ef þessi maður (C. O.) er svo óskýr, að hann hafi ekki getað gert sig skiljanlegan um þetta fyrir neinum af þeim, sem á fundinum voru 5. mars, að minsta kosti trúi jeg ekki á það.

Háttv. þm. (MJ) talaði eitthvað um 4–8% álagningu, en sagði, að Nathan &. Olsen byðu aðeins 25% álagning. Hjer vill nú svo vel til, að brjef er til fyrir því, að Mjólkurfjelagið býðst til að taka þetta að sjer fyrir 2–4%. Hjer hefir þessi hv. 4. þm. Reykv. bætt gráu ofan á svart, er hann segir það sannað, að Mjólkurfejlagið hafi orðið þess valdandi, að bændur hafi orðið að borga fleiri þúsund kr. í vasa Nathan & Olsen, en á þeim sama tíma og hann ræðir um selur Mjólkurfjelagið 100 kg. á 36 kr., en Nathan & Olsen á 38 kr. Staðhæfing hv. þm. (MJ) fellur því alveg um sjálfa sig.

Háttv. þm. (MJ) talaði eitthvað um Chilesaltpjetur; það er satt, hann má fá hjer, en samböndin, sem völ er á, eru erfiðari, og getur hann alls ekki komið alstaðar í stað Noregssaltpjétursins. Hann sagði einnig, að Mjólkurfjelagið hefði reynt til að fá þetta umboð, en ekki getað það. Þetta er með öllu ósatt. Búnaðarfjelagið hafði heldur aldrei reynt til að fá skriflegt umboð, og þegar Mjólkurfjelagið spurðist fyrir um það, hvort það gæti fengið þessa vöru beint frá verksmiðjunni, svaraði Norsk hydro því, að það skifti helst aðeins við eitt fjelag hjer á landi, Búnaðarfjelag Íslands. En það er rugl hjá hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að Búnaðarfjelag Íslands hafi alls ekkert umboð haft. Norsk hydro vísaði ávalt til þess sem „eneforhandler“ með Noregssaltpjetur, eins og hægt er að sanna og margbúið er að taka fram.

Þá sagði háttv. ræðumaður, að meðhaldsmenn frv. hefðu engin rök fært fyrir nauðsyn þess. Jeg hefi nú og áður leitast við að leggja málið skýrt fram fyrir hv. deild og fært fram þær ástæður, er gerðu það nauðsynlegt. Mjer þykir leitt, að mjer skuli ekki hafa tekist betur að kenna hv. 4. þm. Reykv. (MJ), en mjer er farið að þykja þetta skilningsleysi tortryggilegt, þegar litið er til þess, að hæstv. fjrh. (JÞ), sem alkunnur er að skýrleik, hefir heldur ekki getað leyst þá þraut að koma háttv. þm. í skilning um þetta. Hann (MJ) ber ennþá höfðinu við steininn og þykist ekkert sjá af þeim rökum, sem færð hafa verið fram gegn honum, en það má líklega segja svo um hann, sem mælt er, að einn merkur maður hafi sagt, að hann sje ekki hingað kominn til að láta sannfærast. Hann segir t. d., að Mjólkurfjelagið og firmað Nathan & Olsen sjeu aðeins venjulegir keppinautar, og hafi því hvorttveggja sömu aðstöðu á markaðinum. Þetta er algerlega rangt eins og fleira hjá þessum háttv. þm. (MJ). Annar aðili, Mjólkurfjelagið, er neytendafjelag í þessu tilliti, en hinn aðilinn er aðeins venjulegt firma, sem engan annan tilgang getur haft en að hagnast sem mest á þessum viðskiftum, alt annað er fyrir Nathan & Olsen aukaatriði. Að ekki sje þegar komin á einkasala (eða einokun) á köfnunarefnisáburði hjer á landi, því hefir hæstv. fjrh. (JÞ) svarað full-nægilega, en jeg segi aðeins, að svo mikill munur er á Chile- og kalksaltpjeturs tegundunum, að Chilesaltpjeturinn getur oft orðið næstum því ónothæfur hjer á landi, einkum í þurviðra-sveitum og köldum þurviðra-vorum; um kalksaltpjeturinn er alt öðru máli að gegna, það er margreynt, að hann á miklu betur við hjer.

Að endingu skal það enn einu sinni tekið fram, að þótt ekki hafi verið að ræða um skriflegt umboð frá Norsk hydro til Búnaðarfjelags Íslands, þá er þó hægt að sanna það hvenær sem er, að Norsk hydro skoðaði Búnaðarfjelag Íslands sem einkasala sinn hjer á landi og vildi ekki breyta því sambandi nema að fengnu samþykki Búnaðarfjelagsins. þessari einkasöluaðstöðu hefir búnaðarmálastjóri slept úr höndum fjelagsins. þessu frv. er ætlað að veita Búnaðarfjelaginu aðstoð til að fá aftur þá aðstöðu til þessarar verslunar, sem það hafði áður, með öðrum orðum, það er öryggisráðstöfun til þess að tryggja bændum þessa aðaláburðartegund fyrir sanngjarnt verð.